Málfarslögreglan – 19. þáttur

Heil og sæl ágætu hlustendur. Hlaðvarp Málfarslögreglunnar gengur nú í einhvers konar endurnýjun lífdaga. Ég lýsti því samt aldrei yfir að það væri dautt, eða að ég væri hættur þessu – ég tók mér bara góða pásu. Nú er henni lokið. En hvort þættir verða gefnir út reglulega upp frá þessu verður bara að koma í ljós.

Í nítjánda þætti verður leitast við að svara bréfum og skilaboðum frá hlustendum og lesendum. Við veltum fyrir okkur nöfnum húsa og manna. Og í lok þáttarins fáum við stútfullan pakka af íþróttum.

Efni þáttarins:

Skútur og önnur óorð

Þættinum hefur borist bréf. Eða ekki alveg bréf. Raunar er það athugasemd við orðið Rafskúta í Orðabókinni, frá ónefndum lesanda. Það er svohljóðandi:

Rafskúta er ekki hjól heldur bátur með seglum og rafmagnsmótor. Eruð þið algerir aular

Ég svaraði þessari athugasemd:

Takk fyrir ábendinguna.

Það er satt – maður hugsar vissulega líka um bát með segli og mótor þegar maður heyrir minnst á rafskútu.

En þetta hefur líka verið notað um rafmagnshlaupahjól. Það sést t.d. ef leitað er að orðinu „rafskúta“ á Google. Þá koma upp myndir og síður með rafmagnshlaupahjólum.

Það þarf s.s. ekki að vera að fólk sé „algjörir aular“ bara þó að það búi til nýja merkingu fyrir gömul orð. Þó að það sé auðvelt að kalla fólk illum nöfnum á bakvið tölvuskjá og nafnleynd á internetinu.

Þetta orð er s.s. til og fólk er að nota það út um allt, hvort sem okkur líkar það betur eða verr.

En ef okkur er illa við eitthvað orð (mér er sjálfum illa við fullt af orðum), þá er bara eitt að gera, og það er að nota þau ekki.

Og þú ert líka frábær.

Og annað svar barst frá sama lesanda:

Þakka þér fyrir póstinn

Ætlaði ekki að vera dónalegur en það er til íslenskt orð fyrir þetta og þó að illa talandi einstaklingar noti ensku þá er það ekki íslenska. Ennfremur þá er engin skilgreining á orðinu varðandi bát með seglum hjá ykkur þarf ekki að bæta því við skilgreininguna ef þið eruð orðabók. Eða er einungis ein skilgreining til?

Skv ykkar skilgreinig á að þetta sé víða notað vantar þá ekki orðin

Plís
Fokk jú
Póster ofl.

Í orðabókina? Sömu rök hljóta að eiga við þar.

Þessi orð eru mun meira notuð en rafskútuorðið, ásamt mörgum öðrum. Hvernig væri að orðabók sem þykist fjalla um íslensku haldi sig við hana og þori að taka afstöðu. Enska er enska þó hún sé borin fram með íslenskum hljóðtáknum

Svar óskast.

Og ég svaraði

Það er sjálfsagt að bæta skilgreiningu um bátinn við þetta orð í Orðabókinni. Og ég er m.a.s. búinn að því.

Ég skil hugmyndina sem þú hefur. Og ég er sammála þér – ég vil veg íslenskunnar sem mestan! Við megum ekki láta þetta tungumál deyja út. (Vil samt nefna að orð eru ekki borin fram með hljóðtáknum, heldur skrifuð með hljóðtáknum, en ég ætla ekki að hengja mig í smáatriði).

Við höldum tungumálinu meðal annars á lífi með nýsköpun – til dæmis með því að búa til ný orð yfir gamla og nýja hluti og hugtök, sama hver aðferðin við nýyrðasköpunina er. Þess vegna er rafskútan í Orðabókinni. Það þarf ekki endilega að vera bara til eitt orð yfir hvern hlut.

Í tilfelli rafskútunnar er notuð svokölluð aðlögun við nýyrðasmíðina. Hún er fullgild í íslensku og öðrum tungumálum við að búa til orð sem nú eru samþykkt í tungumálinu. Þá er orð af erlendum uppruna tekið inn í málið og lagað að íslensku málkerfi, þó að það beri þess merki að vera erlent. Scooter verður hér að skútu. Dæmi um fleiri orð smíðuð með þessari aðferð eru prestur, biskup, bíll, jeppi, gír, skáti, djass, popp, rokk, pítsa, spagettí og partí. Þessi orð eru öll viðurkennd í íslensku og eru í Íslenskri orðabók. Dæmi um íslensk orð sem hafa verið löguð að öðrum tungumálum eru saga og geysir.

Hér má líka velta fyrir sér mismunandi hlutverkum og tegundum orðabóka. Sumar þeirra leggja mesta áherslu á að segja hvernig við eigum að tala eða skrifa, eða hvernig höfundar þeirra eða ritstjórar vilja að við tjáum okkur, hvaða orð við notum o.s.frv.

Aðrar orðabækur lýsa því hvernig við tölum, skrifum eða tjáum okkur í raun og veru. Þessi orðabók er í síðarnefnda flokknum og leggur mesta áherslu á nýyrði og slangurorð. Ég tel mig því hafa verið ófeiminn við að taka afstöðu á þessum vef.

Það má líka minnast á að orð eins og fokk, fokking og sjitt, eru nú þegar í Íslenskri orðabók, frá 2007. (Svo skal böl bæta að benda á eitthvað annað!) Þau eru að vísu sögð óformleg eða merkt með tveimur spurningamerkjum, sem þýðir að þau eru „framandorð sem vafi leikur á hvort talist getur íslenskt, sletta“. En þau eru samt í Íslenskri orðabók.

Og það getur vel verið að einhverntíma bæti ég við þessum orðum sem þú nefnir. Því eins og ég sagði áður er hér lögð mest áhersla á slangur og nýyrði.

Orð ársins 2021 – Seinni umferð

Seinni umferð kosninganna um orð ársins 2021 er opinberlega hafin. Nú á að kjósa eitt af tíu stigahæstu orðunum sem komust áfram úr fyrri umferðinni.

Hér er hægt að taka þátt í kosningunni um orð ársins 2021.

Útskýringarnar á orðunum eru allar á vefnum Orðabókin.is.

Tíu stigahæstu orðin eru, í stafrófsröð:

Úrslit kosninganna verða svo kunngjörð einhverntíma fyrri hluta janúar 2022.

Orð ársins 2021

Fyrri umferð kosningarinnar um orð ársins er nú í fullum gangi. Ef árið 2020 var ár veiru- og faraldsfræðinga (eða faraldursfræðinga?) verður 2021 líklega ár jarðskjálfta- og eldgosasérfræðinga. Það er a.m.k. mikið af skjálfta- og gostengdum orðum á listanum að þessu sinni.

Hér er hægt að taka þátt í valinu á orði ársins 2021.

27 orð berjast um titilinn Orð ársins 2021. Útskýringar á þeim má allar finna á vefnum Orðabókin.is. Þau hafa ekki öll komið til sögunnar á þessu ári, en eiga það sameiginlegt að hafa bæst við safnið undanfarið ár, eða eftir að síðasta kosning hófst, í byrjun nóvember 2020.

Orðin á listanum eru eftirfarandi, í stafrófsröð:

Málfarslögreglan – 17. þáttur

Heil og sæl ágætu hlustendur.

Málfarslögreglan heilsar úr sóttkví og samkomubanni, að loknu löngu og góðu Covid-fríi. Frá því að síðasti þáttur fór í loftið, einhverntíma í janúar, hefur ýmislegt gert. Það er óþarfi að rifja það allt upp í smáatriðum.

Það verður bara ávísun upp á þunglyndi og leiðindi að rifja upp allt þetta Covid-ástand.

Ný orð

En rifjum samt upp öll þessi orð sem hafa orðið til síðan síðasti þáttur fór í loftið! Við erum dugleg að búa til ný orð þegar á reynir.  Lítum á nokkur orð úr Orðabókinni sem hafa orðið til eða gengið í endurnýjun lífdaga í þessum faraldri:

Faðmflótti: Ástand sem skapast á tímum samkomubanns, þegar viðhalda þarf ákveðinni samskiptafjarlægð. Felst í því að fólk getur ekki faðmast eins og venjulega.

Farsóttarþreyta: Þreyta á langvarandi farsóttum og afleiðingum þeirra. Tilfinning sem fólk þær þegar takmarkanir vegna farsótta, s.s. sóttkví og samkomubönn eru orðin þreytandi og yfirþyrmandi.

Fjartý: Partý eða gleðskapur sem haldinn er með aðstoð fjarfundarbúnaðar. Þátttakendur hittast þá hver fyrir framan sinn tölvuskjá, í stað þess að hittast öll á sama stað.

Fordæmalaus: Einhver (eða eitthvað) sem á sér ekki hliðstæðu, er áður óþekkt eða hefur aldrei gerst áður.

Heimkomusmitgát: Aðgát sem íslenskir ríkisborgarar verða að sýna í fjóra til fimm daga eftir að hafa komið heim frá útlöndum og hafa farið í sýnatöku á landamærum við heimkomu.

Kínakveisa: Íslensk þýðing á sjúkdómi sem veiran Covid-19 veldur. Sjúkdómurinn varð að heimsfaraldri í mars 2020.

Koviðmágur: Einstaklingur sem smitar mann af Covid-19 veirunni, sem smitar svo annan. Sá fyrsti og síðasti í röðinni eru þá orðnir koviðmágar.

Kófhiti: Veikindatilfinning sem fólk fær þegar sjúkdómar eru mikið í daglegri umræðu. Þá telja menn sig finna fyrir sjúkdómseinkennum, þó þeir séu ekki veikir í alvörunni.

Kófið: Tímabilið frá byrjun mars fram í miðjan maí 2020, og tímabilið frá miðjum september 2020, þar til við vitum ekki hveænr, þ.e. tímabilið þar sem Covid-19-faraldurinn (kórónaveirufaraldurinn) stóð sem hæst á Íslandi.

Kórónotatilfinning: Ónotatilfinning vegna Covid-19-veirunnar (kóróna-veirunnar) og ástands sem skapast vegna hennar.

Kóviskubit: Óþarfa samviskubit eða áhyggjur yfir því að lifa ekki nógu samfélagsmiðlavænu lífi á meðan samkomubann stendur yfir.
Til dæmis yfir því að verja ekki nógu miklum tíma með börnum og fjölskyldu, eða yfir því að standa ekki í nógu miklum stórræðum eða framkvæmdum á heimilinu.

Kóviti: 1. Sá eða sú sem hamstrar vörur að nauðsynjalausu, s.s. klósettpappír eða matarbirgðir til lengri tíma en viku.
2. Sá eða sú sem virðir ekki fyrirmæli stjórnvalda til að fyrirbyggja útbreiðslu Covid-19-veirunnar, s.s. um sóttkví eða samkomubann.
3. Sá eða sú sem telur sig vita allt um veiru- og/eða faraldsfræði án þess að vera menntaður/menntuð í faginu. Skrifar á samfélagsmiðla og í athugasemdakerfi fréttavefja og reynir að segja stjórnvöldum og heilbrigðisyfirvöldum hvernig þau eiga að vinna vinnuna sína.

Samgöngubann: Bann við samgöngum á milli staða. Oft beitt til að hefta útbreiðslu á smitsjúkdómum.
Mikið notað í daglegri umræðu um Covid-19-veiruna vorið 2020. Og þá oft í mismælum, þegar átt er við samkomubann.

Samkomubann: Bann við hvers kyns skipulögðum fjöldasamkomum fólks. Oft er settur hámarksfjöldi fyrir fólk sem má hittast. Til dæmis 20-100 manns.

Samskiptafjarlægð: Fjarlægð sem mælst er til þess að sé á milli fólks þegar það talar saman eða hefur samskipti sín á milli meðan reynt er að hefta útbreiðslu covid-19 veirunnar.

Smitskömm: Skömm eða skömmustutilfinning yfir því að vera smitaður/smituð af covid-19-veirunni.

Sófasérfræðingur: Sá eða sú sem telur sig hafa vit á öllum hlutum og málefnum sem eru í þjóðfélagsumræðunni hverju sinni. Telur sig jafnvel vita betur um hlutina en allir aðrir. Segir frá skoðunum sínum og hugmyndum á samfélagsmiðlum og í athugasemdakerfum fréttamiðla á meðan hann/hún situr heima hjá sér uppi í sófa.
Sófasérfræðingum fjölgaði mikið í mars 2020, eftir að Covid-19-faraldurinn braust út.

Sótthvíld: Hvíld frá umræðum um smitsjúkdóma og Covid-19-veiruna og frá ástandi sem skapast vegna þessara hluta.

Sóttkví: Úrræði sem beitt er til að hefta útbreiðslu smitsjúkdóms. Felst í því að menn eða dýr þurfa að vera lokuð af í tiltekinn tíma, þegar hætta er á því að þau hafi smitast af sjúkdómi en hafa ekki einkenni hans.

Sóttkvíði: Ótti eða kvíði yfir því að smitast af sjúkdómi, s.s. Covid-veirunni.
Kvíði yfir ástandi sem skapast vegna Covid-19-veirunnar.

Sviðsmynd: Áætlun eða spá um hluti og atburði sem gætu gerst, miðað við einhver ákveðin skilyrði.

Úrvinnslusóttkví: Sóttkví sem komið er á meðan unnið er að smitrakningu fyrir sjúkdóma. Í úrvinnslusóttkví gildir hálfgert útgöngubann. Aðeins einn íbúi má yfirgefa hvert heimili í einu til að útvega nauðsynjavörur

Viðtalsbil: Bil eða fjarlægð milli fólks meðan það talar saman. Annað orð yfir samskiptafjarlægð

Ég minni á að nánari umfjallanir og útskýringar á þessum orðum má nálgast á vefnum orðabókin.is. Eitt af þessum orðum á möguleika á því að verða valið orð ársins 2020. En nánar um það í næsta þætti.

Ókeypis ráð til virkra í athugasemdum

Misvitrir virkir í athugasemdum hafa farið mikinn í þessum Covid-faraldri. Allt í einu eru allir orðnir sérfræðingar í smitsjúkdómum og sóttvörnum og halda að allir hafi áhuga á að sjá hvaða skoðun þau hafa. Ég ætla ekki að stökkva á vagninn með þeim, enda er ég hvorki menntaður í læknisfræði né veirufræði.

En hér eru nokkrar málfarsábendingar til sófasérfræðinga sem telja sig hafa lausnina við Covid-kreppunni og svör við öllum lífsins gátum:

Sóttkví

Sóttkví er skrifað með K. Sótt-k-v-í. Ekki með H.

Ef hví er skrifað með H er það spurnarfornafnið hví, sem þýðir það sama og hvers vegna eða af hverju.

Kví með K merkir m.a. innilokað svæði, gjá eða þröngur gangur.

Samkomur eða samgöngur?

Það er samkomubann. Ekki samgöngubann. Þessar tvær aðferðir hafa löngum verið notaðar til að hefta útbreiðslu smitsjúkdóma. Ástandið er sem betur fer ekki orðið svo alvarlegt að það hafi þurft að koma á samgöngubanni.

Samgöngubann er það þegar það er bannað að ferðast á milli staða.

Samkomubann er það þegar bannað er að koma saman í fjölmennum hópum.

En það er nú kannski hægt að fyrirgefa það að mennn ruglist á þessum orðum, því þau hljóma næstum því eins.

Faraldur

Og ef við ætlum að fara eftir beygingarreglum í íslensku, þá ættum við strangt til tekið að tala um faraldursfræði. En ekki faraldsfræði.

Faraldsfræði er að vísu til í íðorðabankanum á vefnum málið.is og í íslenskri orðabók. En orðið faraldur beygist þannig:

  • Nf. Faraldur
  • Þf. Faraldur
  • Þgf. Faraldri
  • Ef. Faraldurs

Það beygist ekki eins og mannsnafnið Haraldur. Þannig að réttara væri að tala um faraldursfræði.

En snúum okkur þá að einhverju sem tengist ekki sjúkdómum eða faröldrum.

Bréf frá hlustendum

Þættinum hafa borist bréf. Það fyrra hljóðar svo:

Osló eða Óslóar?

Góðan dag.

Jón Böðvarsson kenndi mér seint á öldinni sem leið að höfuðborg Noregs héti Ósló á íslensku, í ef. Óslóar. Í þáttum á RÚV nefnist borgin Osló, til Osló.

Nú tíðkast ekki lengur að tala um rétt eða vitlaust mál. Eru báðar orðmyndirnar réttar?

Með von um gott svar.

Góð spurning.

Ég er ekki viss um hvort ég mundi nota sjálfur. En líklega mundi ég segjast vera að fara til Osló, eins og ég segist vera að fara til London eða til München. (Og þetta kallar fram minningar um það þegar við gátum ferðast á milli landa. Það voru góðir tímar).

Í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls er eignarfall borgarinnar Óslóar.

Í Málfarsbanka Árnastofnunar segir:

Frekar er mælt með rithættinum Ósló en Osló eða „Oslo“.
Ef. Óslóar.

Þannig að samkvæmt þessu ættum við að nota eignarfallið Óslóar.

Samkvæmt mínu viti og tilfinningu er samt ekki rangt að segjast vera að fara til Osló. Mér fyndist það sjálfum allt í lagi.

Það væri líka áhugavert að skoða hvor beygingin er meira notuð í ritmáli á vefnum; Ósló eða Óslóar.

Við leit á Google er eignarfallsmyndin Ósló/Osló algengari. Ef leitað er að „Til Ósló“ koma fram rúmlega 15,5 milljón niðurstöður. En þar spila líka inn í niðurstöður á öðrum tungumálum en íslensku

Eignarfallsmyndin Óslóar/Oslóar skilar tæplega 23.000 niðurstöðum, þegar leitað er að „til Óslóar“

Munurinn á timarit.is er ekki jafn mikill. Þar hefur orðasambandið „til Osló/Ósló“ samt vinninginn, kemur fyrir 7528 sinnum. „Til Óslóar/Oslóar“ kemur fyrir 6144 sinnum.

Þetta leiðir líka hugann að því hvort og þá hvernig við beygjum erlend borga- og staðaheiti í íslensku, þ.e.a.s. nöfn sem eru ekki til í íslenskum útgáfum, eins og Kaupmannahöfn, Stokkhólmur, Kænugarður eða Langbarðaland.

Í grunninn má skipta erlendum staðaheitum í fjóra flokka eftir því hvernig beyging þeirra er:

  1. Eins í öllum föllum
  2. -ar í eignarfalli (T.d. Vín, París, Ósló)
  3. -s í eignarfalli (T.d. Istanbúl, Kaíró, Alsír)
  4. -u í aukaföllum (þf., þgf. og ef.) (T.d. Aþena og Moskva)

Þau sem vilja kynna sér þetta mál nánar geta lesið B.A.-ritgerðina Til Kaíró, Kaírós eða Kaíróar eftir Silju Hlín Guðbjörnsdóttur, sem aðgengileg er á Skemmunni. Tengill í ritgerðina er undir 17. þætti á vefnum orðabókin.is.

Látum ekki deigan drúpa?

Seinni fyrirspurn til þáttarins er svohljóðandi:

Að láta ekki deigan drúpa?

Ég viðurkenni að ég hef aldrei heyrt þetta orðtak áður. Það finnast heldur ekki dæmi um það við leit á vefnum, hvorki með Google né á tímarit.is. Að láta ekki deigan síga er aftur á móti vel þekkt og þýðir að gefast ekki upp.

Þar hefur deigur merkinguna ragur, tregur, eða kjarklaus. Á Vísindavefnum er gefin sú skýring á orðtakinu að það vanti eitthvað inn í það, t.d. orðið hugur; það hafi upphaflega verið láta ekki deigan hug á síga. Hugsunin á bak við það sé þá að láta ekki deigan hug, þ.e. hugleysi, ná yfirhöndinni.

Sagnorðin drúpa og síga hafa vissulega svipaða merkingu. Þegar við drúpum höfði látum við það síga niður eins og við getum.

„Að láta ekki deigan drúpa“ hljómar dálítið eins og eitthvað frá stjórnmálamanni sem vill slá um sig með orðtökum en kann ekki að fara rétt með þau. (Hér á ég við Vigdísi Hauksdóttur).

Annar möguleiki er að þetta sé ruglingur með orðasambandið „deigur dropi“. Þegar það er ekki deigur dropi eftir, þá er allt búið.

Þar hefur deigur merkinguna blautur.

„Það var ekki deigur dropi eftir af bjórnum þegar partýið var búið“ þýðir að það hafi ekki verið neitt eftir af bjórnum þegar partýið var búið.

Að lokum

Þá er ekki deigur dropi eftir í hugmyndabrunninum að þessu sinni. Ég minni á vefinn Orðabókin.is. Einnig á samfélagsmiðla Málfarslögreglunnar á Facebook og Twitter.

Látið ekki deigan síga í baráttunni við helvítis veiruna. Látið farsóttarþreytuna ekki buga ykkur. Ekki vera kóvitar.

Veriði sæl.

Málfátækt „blaðamanna“

Á Vísi í dag er lítil frétt um streymisveituna Disney+.

Í fréttinni koma meðal annars við sögu orðin Hámhorf og Höskuldarviðvörun.

Virkir fóru á flug í athugasemdakerfinu. Einn bendir á þessi skemmtilegu nýyrði. Og annar svarar:

Kalla það nú frekar málfátækt „blaðamanns“ „Hámhorf“ = ? „Ágætishliðarverkun“ = ? eða „höskuldarviðvaranir“ = ?

Maraþonáhorf, Aukavirkni, og Upplýsingaleki… allt fyrir hendi án þess að blaðaður viti af því, eða þekkir íslensku ekki betur kannski hvað veit maður….

Viðbót:

Í Málvöndunarþættinum á Facebook hneykslast svo annar á þessum sömu orðum. Viðrar jafnvel þá hugmynd að þessi orðanotkun sé til komin vegna þess að viðkomandi blaðamaður hafi „flosnað upp úr barnaskóla 10 eða 11 ára vegna tregðu í höfði“.

Æi… virk í athugasemdum! Þið eruð stundum svo fyndin!

Það er einmitt snilldin við íslensku (og raunar flest tungumál) að það er hægt að nota fleiri en eitt orð yfir sama hlut eða hugtak. Þetta ber ekki endilega vott um „málfátækt „blaðamanns““. Kannski fremur hið gagnstæða. Nýyrðin í fréttinni eru skemmtileg viðbót við íslensku. Og orðin sem viðkomandi bendir á í þessari athugasemd eru líka prýðisgóð.

Hættum að fjargviðrast yfir orðanotkun. Það þarf ekki að vera bara eitt orð til yfir hvern hlut eða hugtak. Verum frekar ánægð með að einhver skuli búa til nýyrði og að aðrir noti þau. Þannig lifir og dafnar tungumálið. Íslenskan þarf á því að halda.

Áhrif orða

Það er magnað hvað orð geta haft mikil tilfinningaleg áhrif á fólk. Og þá er ég ekki að tala um orð í samhengi, í ræðu og riti, heldur einstök orð, eins og þau standa í orðabókinni. Orð eins og sími, flugvél, penni, brauðrist, málverk. Ég gæti nefnt hátt í 100.000 orð í viðbót.

Ég er í hóp á Facebook sem heitir Málvöndunarþátturinn. Fyrir skömmu hófst þar umræða um orðið flugviskubit. Flugviskubit er samviskubit sem flugfarþegar fá yfir því að ferðast með flugvél, vegna slæmra umhverfisáhrifa frá flugferðum. Skemmtilegt og hnyttið orð, finnst mér. En það eru ekki allir sammála því.

Því mönnum var heitt í hamsi þarna í Málvöndunarþættinum. Gífurlega heitt. Virkir í athugasemdum eru reiðir. Menn tóku upp heykvíslarnar og vildu hefna sín. Fara niður á Austurvöll og mótmæla. Sumir kalla þetta orðskrípi. Sumum var meira að segja svo heitt í hamsi að þeir settu reiðikall við spurninguna um orðið.

Skoðum nokkur ummæli:

„Ömurlegt“

„Fáviskubit er algengt meindýr í áróðursherferðum. Samviska er þýðingarlán úr conscientia. Orðskrípið flugviskubit er myndað með tilliti til hljóms en ekki hugsunar. Þess vegna er það misheppnað.“

„Hverslags vitleysa er þetta eiginlega? Á þetta að vera íslenskt orð og ef svo er hvað þýðir það eiginlega mér er spurn?“

„Mér finnst flugviskubit alveg rosalega vont orð og ekki í neinu samhengi við það að skammast sín fyrir að fljúga oft. Hvað er flugviska?“

„Hvað þýðir þetta orðskrípi eiginlega?!“

„Flugviska er ónothæft orð. Það er villandi, skýrir sig ekki sjálft, á að merkja allt annað en það segir.“

„sammála. Afspyrnu asnalegt orðskrípi sem þýðir ekkert.“

„„Flugviskubit“ er augljóslega mjög villandi hugtak yfir fyrirbæri sem áður hefur verið nefnt „flugskömm“. Sá sem hefur flugvisku hlýtur að vera „flugvitur“, þ.e. hann hlýtur að hafa mikla þekkingu á og reynslu af flugi.“

„Flugviskubit? Eitthvað sem bítur í flugviskuna? Hvað merkir flugviska? Hvor býr yfir flugvisku, flugmaðurinn með sitt vit á eðli flugs og flugvéla eða flugfarþeginn sem veit lítið annað um flug og flugvélar heldur en það hvernig flugvélar líta út og hvar farþegasætin er að finna? Orðskrípið „flugviskubit“ er m.ö.o. byggt á misskilningi. Þegar hafa komið fram nothæf orð um fyrirbærið, s.s. flugskömm, flugskömmusta o.s.frv.“

Þetta er greinilega hitamál. Það tekur tíma að venjast nýyrðum í málinu. Við tökum þau ekki í sátt fyrr en við vitum hvað þau þýða. Og jafnvel ekki þá.

Ég hef til dæmis fengið nokkur skilaboð frá lesendum orðabókarinnar um orðið hrútskýring. Sumir virðast einfaldlega ekki vera sáttir við að það sé til yfir höfuð.

Hvað sjálfan mig snertir, þá var ég aldrei sáttur við orðið þúsöld, sem þýðir þúsund ár. Og mér tókst aldrei almennilega að venjast því að kalla internetið alnetið. Mér finnst orðin brúðkaupsfínn, lasarus og bumbubúi vera skemmtilega óþolandi. Og svona fyrst ég er byrjaður, þá hef ég aldrei kunnað almennilega við orðin duttlungar og duttlungafullur.

En þetta er einmitt fegurðin við íslenskuna: Við getum búið til ný orð og hugtök ef okkur finnst þau vanta í málið. Það hefur lítið upp á sig að kvarta yfir tilvist orða. Einhverjir hafa búið þau til af því að þeim fannst þau vanta. Orðin eru til og einhverjir nota þau. Látum þá svo vera. Slökum á og lifum og njótum.

Við megum vissulega hafa skoðun á því hvort nýyrði séu vel eða illa heppnuð, óþolandi eða ekki. Ef við erum ósátt við tilvist þeirra eða finnst þau misheppnuð, þá bara notum við þau ekki. Við getum þá líka bent á önnur orð sem okkur finnst betur heppnuð og jafnvel hvatt aðra til að nota í staðinn.

Verum bara ánægð með að það séu einhverjir þarna úti sem búa til nýyrði handa okkur sem vantar í tungumálið og aðrir geta notað. Íslenskan þarf á því að halda!

Klausturfokk

Þetta Klaustursmál hefur alið af sér ýmis skemmtileg nýyrði.

Orð tengd málinu sem hafa ratað í Orðabókina eru:

Það er verst að atkvæðagreiðslan um orð ársins er of langt á veg komin til að þessi orð geti verið með. Helst langar mig til að hætta við hana og byrja upp á nýtt.

Að vissu leyti skil ég hvernig höfundum áramótaskaupsins líður.

Nú er bara að vona að Íslendingar verði ekki eins fljótir að gleyma þessari umræðu og þeir eru að gleyma öðrum stórum málum. Því eitthvað af þessum orðum á möguleika á að verða kosið orð næsta árs.