Svaðalegur eða svakalegur?

Þættinum hefur borist bréf. Það hljóðar svo:

Af hverju segja sum svaðalega í stað svakalega?

Stutta svarið er: Ég veit það ekki. En ég held að þetta séu bara mismunandi afbrigði af sama orðinu. Fyrir mér þýða þessi orð um það bil það sama. Eina leiðin til að komast að því hvort svo er er að fletta því upp í nokkrum orðabókum.

Íslensk orðabók

Byrjum á Íslenskri orðabók á vefnum snara.is. Þar merkir svakalegur:

  1. svakafenginn, ruddalegur
  2. skelfilegur, sem vekur ótta, hroðalegur
  3. klunnalegur, kauðalegur útlits
    þrútinn og rauður í andliti

Svaðalegur hefur merkinguna:

  1. ruddalegur, hroðalegur.

Sem sagt nokkurn veginn það sama og svakalegur.

Samheitaorðabókin

Lítum þá í Íslenska samheitaorðabók, líka á Snöru.

Samheiti við svakalegur eru:

  • svakafenginn
  • herfilegur
  • hroðalegur
  • ógnvekjandi
  • rosalegur
  • skelfilegur
  • svaðalegur
  • grófur

Samheiti við svaðalegur eru:

  • grófur
  • ruddalegur
  • svakalegur

Hérna þýða orðin líka það sama. Eins og við vissum svo sem.

Íslensk nútímamálsorðabók

Skoðum að lokum Íslenska nútímamálsorðabók á vef Árnastofnunar, bara til að taka af allan vafa.

Þar hefur svakalegur tvær merkingar:

  1. Til áherslu: mjög mikill
    DÆMI: hún hefur alltaf verið svakalegur glanni
  2. Skelfilegur
    DÆMI: ég heyrði svakaleg læti úti á götu í nótt
    DÆMI: þessi fjallvegur var svakalegur áður fyrr

Svaðalegur hefur sömu, eða svipaða merkingu:

  1. Til áherslu: slæmur, hrikalegur
    DÆMI: svaðalegt óveður

Sagan

En hvort er eldra, svakalegur eða svaðalegur? Ég hef alltaf haft á tilfinningunni að svaðalegur sé yngra, og þá ekki komið inn í málið fyrr en einhverntíma á síðustu 20-30 árum. En skoðum ritmálsheimildir. Byrjum á Ritmálssafni Orðabókar Háskólans.

Ritmálssafnið

Þar er elsta dæmi um svaðalegt frá 1777, úr Rímum af Ingvari víðförla og Sveini syni hans, kveðnum af sáluga Árna Böðvarssyni og útgefnar eftir hans eigin handar riti.

Svakalegur kemur fyrst fyrir í Íslenskum þjóðsögum og æfintýrum Jóns Árnasonar, sem komu fyrst út árið 1862. Samkvæmt þessu er svakalegt því 85 árum yngra en svaðalegt. Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar stendru í sögunni um Guðbrand og Mókoll:

Varð Guðbrandur þess var og barði á honum; var hann og maður svakalegur og lítt gætinn þegar hann reiddist, en Kristján kærði það fyrir föður sínum.

Íslenskar þjóðsögur og æfintýri: Guðbrandur og Mókollur.

Tímarit.is

Á Tímaritavefnum er elsta dæmið um svaðalegt í Tímanum 6. mars 1872:

Hann reiddi um öxl járnkarl, og var hinn svaðalegasti; enda varð hann og kattarkóngur.

Svakalegt er litlu yngra; fyrsta dæmið er í Skírni árið 1885:

Þá drekkur hann að jafnaði eina sjerríflösku, en þegar á hann svífur, gerist hann svakalegur og mundi mart hroðalegt vinna, ef eigi yrði við sjeð.

Á Tímaritavefnum sést líka tölfræði um notkun orðanna. Frá 1870 til u.þ.b. 1950-1960 er ekki mikill munur á tíðni þeirra. En eftir 1950 fer svakalegur að taka stórt stökk fram úr svaðalegum og verður meira notað upp frá því. Þannig að það er kannski ekki furða að ég hafi haft á tilfinningunni að svaðalegt væri yngra.

Sama niðurstaða fæst þegar orðin eru gúgluð. Þar skilar leitarorðið svakalegur um 711.000 niðurstöðum. En svaðalegur skilar bara 26.800 niðurstöðum.

En af hverju þá?

En það á eftir að svara spurningunni:

Af hverju segja sum svaðalega í stað svakalega?

Við vitum núna að svaðalegt er litlu eldra heldur en svakalegt.

Við vitum líka að svakalegt er meira notað en svaðalegt.

Og við vitum að þessi orð merkja u.þ.b. það sama.

En við vitum ekki (eða ég veit ekki) ennþá af hverju sumir segja svaðalegt en aðrir svakalegt. Og ég held að við eigum aldrei eftir að fá skýrt svar við því.

Ég hugsa að fólk noti bara þessi orð til að auka á litbrigðin, blæbrigðin eða stílinn í málinu, meðvitað eða ómeðvitað. Eins og við eigum hundruð orða yfir snjó, sjó og ýmiss konar veður, sem við notum til mismunandi stílbrigða, til að lita tungumálið. Því það er allt í lagi að það séu til fleiri en eitt orð yfir sama hlutinn eða fyrirbærið.

Eða eins og að stundum viljum við vera í bláum fötum en stundum viljum við vera í rauðum fötum eða svörtum, brúnum eða fjólubláum, allt eftir skapi, smekk eða tækifærum hverju sinni.

Ég held a.m.k. að þetta sé svakalega gott svar.