Orðin skipta máli

Orðabókin.is verður til.

Forsíða greinargerðar
Greinargerðin brakandi fersk úr prentvélunum.

Greinargerð þessi er fyrri hluti lokaverkefnis í hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands. Seinni hluti verkefnisins er vefurinn ordabokin.is, auk þriggja stuttra hlaðvarpsþátta sem aðgengilegir eru á sama vef.

Hér verður sagt frá tilurð vefsins og fjallað um miðlunarleiðirnar sem notaðar eru, þ.e. vefinn og hlaðvarpið. Gefin verður innsýn í orðabókafræði og viðfangsefni hennar. Leitað verður svara við því hvernig hægt er að miðla orðabókum á vefnum og hvaða miðlunarleiðir henta til að koma efni þeirra á framfæri. Nokkrar íslenskar veforðabækur verða skoðaðar; athugað verður hvað vel er gert í þeim og hvað mætti betur fara. Þá verður sagt frá undirbúningi verkefnisins og framkvæmd þess. Að lokum birtast hugleiðingar um framtíð vefsins.

Markmiðið með vefnum er að gera tungumálið aðgengilegt og sýna fram á að það er lifandi og í stöðugri þróun. Hver sem er getur tekið þátt í að skapa tungumálið; það er ekki bara búið til og skilgreint af sérfræðingum á skrifstofum. Á vefnum verður mest áhersla lögð á slangurorð, nýyrði og gömul orð sem hafa fengið nýja merkingu á undanförnum árum.

Þótt þessu verkefni sé nú formlega lokið verður vefurinn Orðabókin.is áfram virkur og lifandi. Líf hans er bara rétt að byrja og mun hann vaxa og dafna í framtíðinni með aðstoð notenda. Þessi bloggvefur fær einnig að lifa áfram. Hér verða sagðar fréttir af starfsemi og gangi orðabókarinnar.

Halló

og velkomin.

Afmælisdagurinn minn er góður dagur til að skrifa fyrstu færsluna á þennan vef.

Það er kominn tími til að spýta í lófana og keyra þetta verkefni í gang fyrir alvöru ef það á einhverntíma að verða búið.

Þetta verður snilld!

Meira seinna.