Málfarslögreglan – 19. þáttur

Heil og sæl ágætu hlustendur. Hlaðvarp Málfarslögreglunnar gengur nú í einhvers konar endurnýjun lífdaga. Ég lýsti því samt aldrei yfir að það væri dautt, eða að ég væri hættur þessu – ég tók mér bara góða pásu. Nú er henni lokið. En hvort þættir verða gefnir út reglulega upp frá þessu verður bara að koma í ljós.

Í nítjánda þætti verður leitast við að svara bréfum og skilaboðum frá hlustendum og lesendum. Við veltum fyrir okkur nöfnum húsa og manna. Og í lok þáttarins fáum við stútfullan pakka af íþróttum.

Efni þáttarins:

Þurfa öll hús að heita eitthvað?

Nú á dögunum var Hús íslenskunnar vígt og við sama tækifæri fékk það nafnið Edda, að undangenginni nafnasamkeppni.

Þegar samkeppnin var auglýst og þegar nýbúið var að opinbera nafnið fóru virkir í athugasemdum á flug, hvort sem það var á Facebook eða Twitter. Mörg veltu því fyrir sér hvort öll hús þyrftu að heita eitthvað. En vissulega var mismikil kaldhæðni á bakvið þessar pælingar. Svo ekki sé nú minnst á öll grínnöfnin sem fólk stakk upp á. Ég ætla ekki að tala um þau öll hér.

Hér má líka minnast á að Edda er ekki eina húsið sem heitir eitthvað. Hús hafa fengið nöfn áður. Eiginlega alveg frá því að mannfólkið byrjaði að byggja sér hús hafa þau fengið nöfn. Og Edda er heldur ekki eina húsið á Háskólasvæðinu sem fær nafn að lokinni nafnasamkeppni. Þannig var það líka með bygginguna Veröld – Hús Vigdísar.

En: Nei. Það þurfa ekki öll hús að heita eitthvað. Það er bara skemmtilegra. Það gerir þau líka að kennileitum. Svo er líka auðveldara að finna þau eða rata eftir þeim ef þau heita eitthvað. Jafnvel þó þau heiti það sama og fyrirtækið eða starfsemin sem er í þeim.

Götunöfn eru ágæt, svo langt sem þau ná. En ég veit ekkert alltaf við hvaða götu ég er staddur, og þaðan af síður við hvaða húsnúmer.

Vitum við til dæmis við hvaða götu Perlan er, án þess að fletta því upp á Google maps eða Já.is?

Hún er við Varmahlíð 1, bara svo því sé haldið til haga. Samkvæmt já.is

Og ef ég segi einhverjum að ég sé staddur við Arngrímsgötu 3, Kauptún 4, Hamraborg 2, Laugaveg 20b, Austurveg 3 eða Álfabakka 8 eru líklega ekki mörg sem mundu vita strax hvar ég væri. Nema þau væru með Google maps eða já.is við hendina. Og ég vissi ekki einu sinni þessi götunöfn og númer fyrr en eftir að ég fletti þeim upp á já.is.

En ég held að fleiri kveiki á perunni ef ég nefni Þjóðarbókhlöðuna, IKEA, Kópavogskirkju, Kalda bar, Krónuna á Selfossi eða bíóið þarna í Breiðholtinu.

Við getum öll haft skoðun á húsanöfnum. Sumum finnst nafn Eddu klisjukennt eða fyrirsjáanlegt. Það verður þá bara að hafa það. En ég held að þetta nafn eigi eftir að venjast vel.

En húsanöfn eru skemmtileg, þau lífga upp á tilveruna og ég vona að við eigum eftir að sjá nóg af þeim í framtíðinni.

Málfarslögreglan – 18. þáttur

Málfarslögreglan – 18. þáttur

Heil og sæl ágætu hlustendur.

Málfarslögreglan heilsar í fyrsta sinn á árinu 2021.

Í upphafi síðasta árs kastaði ég áramótasprengju og stakk upp á því að við breyttum nöfnum eða númerum á áratugum. Nú langar mig til að kasta inn annarri sprengju og ræða aðeins um daganöfn.

Við þekkjum öll nöfn á vikudögunum. Sunnudagur, mánudagur, þriðjudagur, o.s.frv.

Daganöfnin eins og við þekkjum þau hafa verið við lýði á Íslandi frá því á 12. öld.

En áður en þau voru tekin upp hétu dagarnir:

  • Sunnudagur
  • Mánadagur
  • Týsdagur
  • Óðinsdagur
  • Þórsdagur
  • Frjádagur
  • Þvottadagur/laugardagur.

Eftir kristnitökuna tók kirkjan á Íslandi upp á því að breyta þessum nöfnum.

  • Sunnudagur skyldi heita drottinsdagur.
  • Mánadagur yrði annar dagur
  • Týsdagur þriðji dagur
  • Óðinsdagur yrði miðvikudagur
  • Þórsdagur fimmti dagur
  • Frjádagur skyldi heita föstudagur
  • En laugardagur fengi að halda nafninu sínu.

Þetta eru ófrumleg nöfn og leiðinleg. En allt fyrir Guð og kristnina.

Það var fyrst og fremst fyrir tilstilli Jóns Ögmundssonar, biskups á Hólum, sem þessi nafnabreyting gekk í gegn. Hún var þó ekki samþykkt að öllu leyti, því eins og við vitum fengu sunnudagur og mánudagur að halda nöfnum sínum. En það mátti ekkert minna á heiðinn sið á Íslandi. Kirkjan var allsráðandi og menn urðu að hugsa um guð og kirkjuna og ekki neitt annað!

En nú á dögum eru Íslendingar eru ekkert sérstaklega kristin þjóð lengur. Mig langar því að leggja til að við tökum aftur upp gömlu daganöfnin. Tölum um týsdag, óðinsdag, þórsdag og frjádag í staðinn fyrir þriðjudag, miðvikudag, fimmtudag og föstudag.

Þannig eru þessi nöfn ennþá hjá nágrannaþjóðum okkar, til dæmis í norðurlandamálunum og eins í ensku og þýsku. Þar heita dagarnir ennþá eftir fornum guðum.

Og svona til að friða þau sem kynnu að mótmæla þessari tillögu, þá þurfum við ekki að breyta þessu strax í dag eða á morgun, heldur getum við sett okkur einhvern aðlögunartíma. Þess vegna nokkur ár, þannig að kynslóðir sem nú eru að hefja lífið venjist nöfnunum, en leyfum gömlu nöfnunum smám saman að deyja út eftir því sem núlifandi kynslóðir hverfa af sjónarsviðinu.

Hugsum að minnsta kosti um þetta.

Heyrum því næst hvað hlustendur hafa að segja.

Bréf frá hlustendum

Þættinum hafa borist bréf. Það fyrra er svohljóðandi:

Orðtakið „að setja rass á laggir“ í merkingunni að gefast upp, hætta einhverju, þekkið þið það?

Ég hef ekki heyrt þetta orðtak.

En ég kannast aftur á móti vel við að setja eitthvað á laggirnar, sem þýðir að stofna eitthvað eða koma á fót nýrri starfsemi.

Í orðtakinu sem hlustandi spyr um er líklega verið að blanda þessu orðtaki saman við eitthvað annað orðtak; kannski það að renna á rassinn með eitthvað, sem þýðir að mistakast eða guggna á einhverju. Eða jafnvel að „beila“ á einhverju.

Ég fór líka að hugsa um þetta að setja eitthvað á laggirnar. Hverjar eru þessar laggir sem allt er sett á?

Í Íslenskri orðabók þýðir lögg m.a. „gróp í tunnustöfum sem tunnubotninn er felldur í“. Eða „endar tunnustafa sem ganga út fyrir botn og lok“.

Þegar botninn og lokið eru komin í tunnuna er hún tilbúin. Það er búið að setja þau á laggirnar á tunnustöfunum.

Þetta finnst mér a.m.k. líkleg skýring á orðtakinu setja eitthvað á laggirnar.

Seinna bréfið hljóðar svo:

Komið þið sæl…. ég er að leita að heiti yfir annan dag jóla.

Er búin að vera að leita en hef ekki fundið svar við því… Athuga hvort þið hafið svarið.

26. desember. Annar dagur jóla. Annar í jólum. Ég hef ekki heyrt neitt annað heiti á þessum  degi.

Í Hátíðadagatali Íslensku Þjóðkirkjunnar nefnist 26. desember Stefánsdagur til minningar um fyrsta píslarvottinn, Stefán frumvott, en hann var grýttur til bana þennan dag á 1. öld.

Stundum er líka talað um jólarest eða rest frá og með þessum degi. Þ.e.a.s. restina eða afganginn af jólunum. Og menn byrja að óska hver öðrum gleðilegrar restar.

Annar í jólum, Stefánsdagur eða rest (eða jólarest) eru a.m.k. einu heitin sem ég hef heyrt á þessum degi.

Ef einhver veit betur um heiti þessa dags eða kannast við orðtakið setja rass á laggir, má viðkomandi gjarnan hafa samband, til dæmis í gegnum vefinn ordabokin.is eða í gegnum samfélagsmiðla Málfarslögreglunnar á Facebook eða Twitter.

En nú að því sem öll hafa beðið eftir: Úrslit úr kosningunni um orð ársins 2020.

Orð ársins 2020

Í byrjun nóvember síðastliðins tóku 40 orð þátt í fyrri umferð kosninganna um orð ársins 2020. Þau áttu það sameiginlegt að hafa bæst við orðabókina, orðabókin.is undanfarið ár, eða frá 1. nóvember 2019 – 31. október 2020. Af listanum mátti sjá að covid-19 faraldurinn var áberandi í orðanotkun á árinu, en orðin voru þessi, í stafrófsröð:

Mörg ansi skemmtileg og hnyttin orð. Tíu þeirra komust áfram í seinni umferðina. Hér verða þau lesin upp í röð eftir atkvæðafjölda í seinni umferðinni. Byrjum á 10. sæti og færum okkur upp listann.

  • 10. Karen
  • 9. Fjartý
  • 8. Smitskömm
  • 7. Samkomubann
  • 6.Heimkomusmitgát
  • 4-.5.Farsóttarþreyta
  • 4-5.Sófasérfræðingur
  • 3. Sóttkví
  • 2. Kóviti
  • 1. Fordæmalaus

En fordæmalaus merkir einhver eða eitthvað sem á sér ekki hliðstæðu, er áður óþekkt eða hefur aldrei gerst áður.

Orðið er ekki alveg nýtt af nálinni. Á vefnum Tímarit.is finnst dæmi um orðið allt frá árinu 1930. Elsta dæmið þar er frá 8. febrúar sama ár.

En eins og við munum var þetta orð mikið notað og varð að tískuorði vorið 2020 þegar Covid-19-faraldurinn var að hefja innreið sína. Það var mikið talað um að við lifðum á fordæmalausum tímum eða að þetta væru fordæmalausar aðstæður.

Þá eru hugmyndirnar ekki fleiri í bili.

Ég minni á vefinn ordabokin.is og samfélagsmiðla Málfarslögreglunnar á Facebook og á Twitter. Allt þetta er hægt að nota til að hafa samband.

Ég hvet ykkur til að fara varlega þarna úti á þessum fordæmalausu tímum.

Þakka áheyrnina.

Veriði sæl.

Málfarslögreglan – 17. þáttur

Heil og sæl ágætu hlustendur.

Málfarslögreglan heilsar úr sóttkví og samkomubanni, að loknu löngu og góðu Covid-fríi. Frá því að síðasti þáttur fór í loftið, einhverntíma í janúar, hefur ýmislegt gert. Það er óþarfi að rifja það allt upp í smáatriðum.

Það verður bara ávísun upp á þunglyndi og leiðindi að rifja upp allt þetta Covid-ástand.

Ný orð

En rifjum samt upp öll þessi orð sem hafa orðið til síðan síðasti þáttur fór í loftið! Við erum dugleg að búa til ný orð þegar á reynir.  Lítum á nokkur orð úr Orðabókinni sem hafa orðið til eða gengið í endurnýjun lífdaga í þessum faraldri:

Faðmflótti: Ástand sem skapast á tímum samkomubanns, þegar viðhalda þarf ákveðinni samskiptafjarlægð. Felst í því að fólk getur ekki faðmast eins og venjulega.

Farsóttarþreyta: Þreyta á langvarandi farsóttum og afleiðingum þeirra. Tilfinning sem fólk þær þegar takmarkanir vegna farsótta, s.s. sóttkví og samkomubönn eru orðin þreytandi og yfirþyrmandi.

Fjartý: Partý eða gleðskapur sem haldinn er með aðstoð fjarfundarbúnaðar. Þátttakendur hittast þá hver fyrir framan sinn tölvuskjá, í stað þess að hittast öll á sama stað.

Fordæmalaus: Einhver (eða eitthvað) sem á sér ekki hliðstæðu, er áður óþekkt eða hefur aldrei gerst áður.

Heimkomusmitgát: Aðgát sem íslenskir ríkisborgarar verða að sýna í fjóra til fimm daga eftir að hafa komið heim frá útlöndum og hafa farið í sýnatöku á landamærum við heimkomu.

Kínakveisa: Íslensk þýðing á sjúkdómi sem veiran Covid-19 veldur. Sjúkdómurinn varð að heimsfaraldri í mars 2020.

Koviðmágur: Einstaklingur sem smitar mann af Covid-19 veirunni, sem smitar svo annan. Sá fyrsti og síðasti í röðinni eru þá orðnir koviðmágar.

Kófhiti: Veikindatilfinning sem fólk fær þegar sjúkdómar eru mikið í daglegri umræðu. Þá telja menn sig finna fyrir sjúkdómseinkennum, þó þeir séu ekki veikir í alvörunni.

Kófið: Tímabilið frá byrjun mars fram í miðjan maí 2020, og tímabilið frá miðjum september 2020, þar til við vitum ekki hveænr, þ.e. tímabilið þar sem Covid-19-faraldurinn (kórónaveirufaraldurinn) stóð sem hæst á Íslandi.

Kórónotatilfinning: Ónotatilfinning vegna Covid-19-veirunnar (kóróna-veirunnar) og ástands sem skapast vegna hennar.

Kóviskubit: Óþarfa samviskubit eða áhyggjur yfir því að lifa ekki nógu samfélagsmiðlavænu lífi á meðan samkomubann stendur yfir.
Til dæmis yfir því að verja ekki nógu miklum tíma með börnum og fjölskyldu, eða yfir því að standa ekki í nógu miklum stórræðum eða framkvæmdum á heimilinu.

Kóviti: 1. Sá eða sú sem hamstrar vörur að nauðsynjalausu, s.s. klósettpappír eða matarbirgðir til lengri tíma en viku.
2. Sá eða sú sem virðir ekki fyrirmæli stjórnvalda til að fyrirbyggja útbreiðslu Covid-19-veirunnar, s.s. um sóttkví eða samkomubann.
3. Sá eða sú sem telur sig vita allt um veiru- og/eða faraldsfræði án þess að vera menntaður/menntuð í faginu. Skrifar á samfélagsmiðla og í athugasemdakerfi fréttavefja og reynir að segja stjórnvöldum og heilbrigðisyfirvöldum hvernig þau eiga að vinna vinnuna sína.

Samgöngubann: Bann við samgöngum á milli staða. Oft beitt til að hefta útbreiðslu á smitsjúkdómum.
Mikið notað í daglegri umræðu um Covid-19-veiruna vorið 2020. Og þá oft í mismælum, þegar átt er við samkomubann.

Samkomubann: Bann við hvers kyns skipulögðum fjöldasamkomum fólks. Oft er settur hámarksfjöldi fyrir fólk sem má hittast. Til dæmis 20-100 manns.

Samskiptafjarlægð: Fjarlægð sem mælst er til þess að sé á milli fólks þegar það talar saman eða hefur samskipti sín á milli meðan reynt er að hefta útbreiðslu covid-19 veirunnar.

Smitskömm: Skömm eða skömmustutilfinning yfir því að vera smitaður/smituð af covid-19-veirunni.

Sófasérfræðingur: Sá eða sú sem telur sig hafa vit á öllum hlutum og málefnum sem eru í þjóðfélagsumræðunni hverju sinni. Telur sig jafnvel vita betur um hlutina en allir aðrir. Segir frá skoðunum sínum og hugmyndum á samfélagsmiðlum og í athugasemdakerfum fréttamiðla á meðan hann/hún situr heima hjá sér uppi í sófa.
Sófasérfræðingum fjölgaði mikið í mars 2020, eftir að Covid-19-faraldurinn braust út.

Sótthvíld: Hvíld frá umræðum um smitsjúkdóma og Covid-19-veiruna og frá ástandi sem skapast vegna þessara hluta.

Sóttkví: Úrræði sem beitt er til að hefta útbreiðslu smitsjúkdóms. Felst í því að menn eða dýr þurfa að vera lokuð af í tiltekinn tíma, þegar hætta er á því að þau hafi smitast af sjúkdómi en hafa ekki einkenni hans.

Sóttkvíði: Ótti eða kvíði yfir því að smitast af sjúkdómi, s.s. Covid-veirunni.
Kvíði yfir ástandi sem skapast vegna Covid-19-veirunnar.

Sviðsmynd: Áætlun eða spá um hluti og atburði sem gætu gerst, miðað við einhver ákveðin skilyrði.

Úrvinnslusóttkví: Sóttkví sem komið er á meðan unnið er að smitrakningu fyrir sjúkdóma. Í úrvinnslusóttkví gildir hálfgert útgöngubann. Aðeins einn íbúi má yfirgefa hvert heimili í einu til að útvega nauðsynjavörur

Viðtalsbil: Bil eða fjarlægð milli fólks meðan það talar saman. Annað orð yfir samskiptafjarlægð

Ég minni á að nánari umfjallanir og útskýringar á þessum orðum má nálgast á vefnum orðabókin.is. Eitt af þessum orðum á möguleika á því að verða valið orð ársins 2020. En nánar um það í næsta þætti.

Ókeypis ráð til virkra í athugasemdum

Misvitrir virkir í athugasemdum hafa farið mikinn í þessum Covid-faraldri. Allt í einu eru allir orðnir sérfræðingar í smitsjúkdómum og sóttvörnum og halda að allir hafi áhuga á að sjá hvaða skoðun þau hafa. Ég ætla ekki að stökkva á vagninn með þeim, enda er ég hvorki menntaður í læknisfræði né veirufræði.

En hér eru nokkrar málfarsábendingar til sófasérfræðinga sem telja sig hafa lausnina við Covid-kreppunni og svör við öllum lífsins gátum:

Sóttkví

Sóttkví er skrifað með K. Sótt-k-v-í. Ekki með H.

Ef hví er skrifað með H er það spurnarfornafnið hví, sem þýðir það sama og hvers vegna eða af hverju.

Kví með K merkir m.a. innilokað svæði, gjá eða þröngur gangur.

Samkomur eða samgöngur?

Það er samkomubann. Ekki samgöngubann. Þessar tvær aðferðir hafa löngum verið notaðar til að hefta útbreiðslu smitsjúkdóma. Ástandið er sem betur fer ekki orðið svo alvarlegt að það hafi þurft að koma á samgöngubanni.

Samgöngubann er það þegar það er bannað að ferðast á milli staða.

Samkomubann er það þegar bannað er að koma saman í fjölmennum hópum.

En það er nú kannski hægt að fyrirgefa það að mennn ruglist á þessum orðum, því þau hljóma næstum því eins.

Faraldur

Og ef við ætlum að fara eftir beygingarreglum í íslensku, þá ættum við strangt til tekið að tala um faraldursfræði. En ekki faraldsfræði.

Faraldsfræði er að vísu til í íðorðabankanum á vefnum málið.is og í íslenskri orðabók. En orðið faraldur beygist þannig:

  • Nf. Faraldur
  • Þf. Faraldur
  • Þgf. Faraldri
  • Ef. Faraldurs

Það beygist ekki eins og mannsnafnið Haraldur. Þannig að réttara væri að tala um faraldursfræði.

En snúum okkur þá að einhverju sem tengist ekki sjúkdómum eða faröldrum.

Bréf frá hlustendum

Þættinum hafa borist bréf. Það fyrra hljóðar svo:

Osló eða Óslóar?

Góðan dag.

Jón Böðvarsson kenndi mér seint á öldinni sem leið að höfuðborg Noregs héti Ósló á íslensku, í ef. Óslóar. Í þáttum á RÚV nefnist borgin Osló, til Osló.

Nú tíðkast ekki lengur að tala um rétt eða vitlaust mál. Eru báðar orðmyndirnar réttar?

Með von um gott svar.

Góð spurning.

Ég er ekki viss um hvort ég mundi nota sjálfur. En líklega mundi ég segjast vera að fara til Osló, eins og ég segist vera að fara til London eða til München. (Og þetta kallar fram minningar um það þegar við gátum ferðast á milli landa. Það voru góðir tímar).

Í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls er eignarfall borgarinnar Óslóar.

Í Málfarsbanka Árnastofnunar segir:

Frekar er mælt með rithættinum Ósló en Osló eða „Oslo“.
Ef. Óslóar.

Þannig að samkvæmt þessu ættum við að nota eignarfallið Óslóar.

Samkvæmt mínu viti og tilfinningu er samt ekki rangt að segjast vera að fara til Osló. Mér fyndist það sjálfum allt í lagi.

Það væri líka áhugavert að skoða hvor beygingin er meira notuð í ritmáli á vefnum; Ósló eða Óslóar.

Við leit á Google er eignarfallsmyndin Ósló/Osló algengari. Ef leitað er að „Til Ósló“ koma fram rúmlega 15,5 milljón niðurstöður. En þar spila líka inn í niðurstöður á öðrum tungumálum en íslensku

Eignarfallsmyndin Óslóar/Oslóar skilar tæplega 23.000 niðurstöðum, þegar leitað er að „til Óslóar“

Munurinn á timarit.is er ekki jafn mikill. Þar hefur orðasambandið „til Osló/Ósló“ samt vinninginn, kemur fyrir 7528 sinnum. „Til Óslóar/Oslóar“ kemur fyrir 6144 sinnum.

Þetta leiðir líka hugann að því hvort og þá hvernig við beygjum erlend borga- og staðaheiti í íslensku, þ.e.a.s. nöfn sem eru ekki til í íslenskum útgáfum, eins og Kaupmannahöfn, Stokkhólmur, Kænugarður eða Langbarðaland.

Í grunninn má skipta erlendum staðaheitum í fjóra flokka eftir því hvernig beyging þeirra er:

  1. Eins í öllum föllum
  2. -ar í eignarfalli (T.d. Vín, París, Ósló)
  3. -s í eignarfalli (T.d. Istanbúl, Kaíró, Alsír)
  4. -u í aukaföllum (þf., þgf. og ef.) (T.d. Aþena og Moskva)

Þau sem vilja kynna sér þetta mál nánar geta lesið B.A.-ritgerðina Til Kaíró, Kaírós eða Kaíróar eftir Silju Hlín Guðbjörnsdóttur, sem aðgengileg er á Skemmunni. Tengill í ritgerðina er undir 17. þætti á vefnum orðabókin.is.

Látum ekki deigan drúpa?

Seinni fyrirspurn til þáttarins er svohljóðandi:

Að láta ekki deigan drúpa?

Ég viðurkenni að ég hef aldrei heyrt þetta orðtak áður. Það finnast heldur ekki dæmi um það við leit á vefnum, hvorki með Google né á tímarit.is. Að láta ekki deigan síga er aftur á móti vel þekkt og þýðir að gefast ekki upp.

Þar hefur deigur merkinguna ragur, tregur, eða kjarklaus. Á Vísindavefnum er gefin sú skýring á orðtakinu að það vanti eitthvað inn í það, t.d. orðið hugur; það hafi upphaflega verið láta ekki deigan hug á síga. Hugsunin á bak við það sé þá að láta ekki deigan hug, þ.e. hugleysi, ná yfirhöndinni.

Sagnorðin drúpa og síga hafa vissulega svipaða merkingu. Þegar við drúpum höfði látum við það síga niður eins og við getum.

„Að láta ekki deigan drúpa“ hljómar dálítið eins og eitthvað frá stjórnmálamanni sem vill slá um sig með orðtökum en kann ekki að fara rétt með þau. (Hér á ég við Vigdísi Hauksdóttur).

Annar möguleiki er að þetta sé ruglingur með orðasambandið „deigur dropi“. Þegar það er ekki deigur dropi eftir, þá er allt búið.

Þar hefur deigur merkinguna blautur.

„Það var ekki deigur dropi eftir af bjórnum þegar partýið var búið“ þýðir að það hafi ekki verið neitt eftir af bjórnum þegar partýið var búið.

Að lokum

Þá er ekki deigur dropi eftir í hugmyndabrunninum að þessu sinni. Ég minni á vefinn Orðabókin.is. Einnig á samfélagsmiðla Málfarslögreglunnar á Facebook og Twitter.

Látið ekki deigan síga í baráttunni við helvítis veiruna. Látið farsóttarþreytuna ekki buga ykkur. Ekki vera kóvitar.

Veriði sæl.

Málfarslögreglan – 16. þáttur

Málfarslögreglan, 16. þáttur

Heil og sæl, kæru hlustendur.

Í þessum þætti ætla ég að varpa tveimur áramótasprengjum og stinga upp á viðamiklum breytingum á tungumálinu. Virkir í athugasemdum og frétta- og fjölmiðlamenn fá ókeypis íslenskukennslu. Og að lokum verður orð ársins 2019 afhjúpað. En við byrjum á afmæli.

Af-mæli

Afmæli eru yfirleitt gleðiefni. Afmæli er tiltekinn dagur mánaðar sem maður fæddist á. Það getur líka verið dagur sem einhver viðburður varð eða eitthvað fyrirtæki, stofnun eða félagasamtök tóku til starfa. Afmælisdagurinn er gott tilefni til að gera vel við sig í hópi vina og kunningja.

En orðið afmæli er ekki jafn skemmtilegt. Eftir því sem ég hugsa meira um þetta orð finnst mér það sífellt þunglyndislegra og meira niðurdrepandi.

Í orðinu felst að tiltekinn tími mælist af ævinni. Það minnir okkur á að ævin líður, við verðum ekkert yngri, þetta fer nú bráðum að verða búið hjá okkur.

Eða eins og Halldór Halldórsson orðar það árið 1958:

Ég hygg, að frummerking orðsins afmæli sé „afmældur tími“, en sé síðar haft um daginn þegar afmörkun tímans fer fram. Orðið er myndað af orðasambandinu mæla af eða sögninni afmæla, sem kunn er frá fyrri hluta 18. aldar.

Halldór Halldórsson. Örlög orðanna – Þættir um íslenzk orð og orðtök. 1958.

Orðið fæðingardagur hefur aftur á móti yfir sér léttara yfirbragð, eftir því sem ég hugsa meira um það.

Fæðingardagur er líka mun eldri í málinu en afmæli. Elsta dæmið um fæðingardag í Ritmálssafni orðabókar Háskólans er frá miðri eða seinni hluta 16. aldar. Elsta dæmi um afmæli í sama riti er hins vegar frá 17. – 18. öld.

Ég sé fyrir mér fund hjá siðanefnd kirkjunnar á Íslandi einhverntíma á 17. öld, þar sem ákveðið er að leggja niður orðið fæðingardag en taka upp afmæli í staðinn. Því það má ekki vera gaman á Íslandi. Menn mega ekki skemmta sér á fæðingardögum sínum. Kirkjan er allsráðandi og allir verða að hugsa um hana. Fundurinn hefur e.t.v. hljómað einhvernveginn svona:

Biskup:
Sælir kæru fundarmenn. Sem biskup ber mér að stjórna þessum fundi og stýra honum. Velkomnir á þennan fund siðanefndar íslensku þjóðkirkjunnar. Borist hefur tillaga um að leggja niður orðið fæðingardagur en taka upp afmæli í staðinn. Því við viljum ekki að fólk skemmti sér, heldur minnist þess að lífið styttist sífellt. Það verður að hugsa um kirkjuna og pínu frelsara vors. Eru allir samþykkir þessari breytingu?

Fundarmenn:
Já.

Afmæli og fæðingardagur merkja ekki alveg það sama. Skoðum aftur hvað Halldór Halldórsson segir:

Ég veit ekki, hvort mönnum er almennt ljóst, að orðin fæðingardagur og afmæli samsvara ekki hvort öðru nákvæmlega að merkingu. Orðið fæðingardagur er bæði haft um „daginn, sem maður fæðist“ og sama dag á ári hverju upp frá því. Orðið afmæli er hins vegar ekki haft um daginn, sem menn fæðast. Orðið afmæli er auk þess notað um minningardaga um atburði, félagastofnanir o.s.frv., t.d. 900 ára afmæli kristnitökunnar, 30 ára afmæli Alþýðusambandsins.

Halldór Halldórsson. Örlög orðanna – Þættir um íslenzk orð og orðtök. 1958.

Í staðinn fyrir að óska fólki til hamingju með afmælið legg ég til að við förum að dæmi helstu nágrannaþjóða okkar og óskum því til hamingju með fæðingardaginn. Sbr. Birthday í ensku, Fødselsdag í norðurlandamálum og Geburtstag í þýsku. En tölum áfram um afmæli þegar rætt er um stofndaga fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka eða þegar við minnumst einhvers atburðar.

Ég vil því óska öllum sem ég þekki til hamingju með fæðingardaginn.

Nýr áratugur… eða ekki

Í þessum orðum sögðum er árið 2020 rétt nýgengið í garð. Við síðustu áramót breyttust tvær tölur í ártalinu. Tugurinn breyttist sem sagt úr einum í tvo. Sumir halda því fram að þar með sé byrjaður nýr áratugur. Aðrir segja að nýr áratugur byrji ekki fyrr en um næstu áramót.

Þetta virðist ætla að verða eilífðar deilumál meðal Íslendinga á tíu ára fresti. Svona eins og skaupið, að breyta klukkunni, banna flugelda, kirkjuheimsóknir barna og listamannalaun eru árleg umræða og vinsælt deiluefni í svartasta skammdeginu.

Við sem komin erum til vits og ára munum öll eftir umræðum um það hvenær aldamót yrðu, s.s. hvort þau yrðu árið 2000 eða 2001. Það varð tilefni langra deilna, blaðagreina og umræðna í sjónvarpi og útvarpi. Menn skiptust í tvær andstæðar fylkingar. Annað hvort voru menn í 2000 eða 2001 hópnum.

Sem betur fer voru samfélagsmiðlar ekki til þarna.

Eins og með orðið afmæli þarf íslenskt orðfar í kringum áratugi og aldur líka að vera leiðinlegt og minna okkur á að við erum ekki að verða neitt yngri, þetta er nú bráðum að vera búið hjá okkur.

Nú er sem sagt hafinn þriðji áratugur tuttugustuogfyrstu aldar. Í fljótu bragði gæti það virst vera 2030-og eitthvað. En nei, það er bara 2020-og eitthvað.

Orðfar um aldurinn okkar er líka þunglyndislegt og niðurdrepandi. Við erum gerð eldri en við erum. Fólk sem er 30-og eitthvað ára er á fertugsaldri, fólk sem er 40-og eitthvað ára er á fimmtugsaldri og svo framvegis.

Þetta með nýjan áratug eða ekki er ákveðið vandamál í íslensku. Því við eigum engin orð eins og the twenties í ensku, tyverne í dönsku eða die Zwanzigjahre í þýsku. Allt eru þetta orð yfir ártöl sem enda á 20 – 29. Að þessu leyti er íslenskan ekki nógu gagnsæ.

Ég vil því koma með tvær tillögur:

Annað hvort að við notum frekar orð eins og tuttuguárin um ár sem enda á 20-29, þrjátíuárin um ár sem enda á 30-39 og svo framvegis.

Eða að kalla áratugina það sama og spil í spilastokkum. Núllið yrði samt fyrsti áratugur aldarinnar. Svo kæmi ásinn, sem eru ár sem enda á 10-19, tvisturinn yrði þá notaður yfir ár sem enda á 20-29 og svo framvegis.

Ég held að báðar þessar tillögur séu gagnsærri en núverandi fyrirkomulag og augljósar þegar við erum farin að venjast þeim. Maður þarf þá ekki lengur að hugsa sig um og reikna út um hvað er verið að tala ef þetta yrði tekið upp.

Tökum dæmi um notkun

Ég veit ekki hvað hún er gömul, en ég gæti giskað á að hún sé á miðjum þrjátíuárunum.

Það þýðir að hún er um það bil 35 ára.

Þessi plata kom út einhverntíma í áttunni.

Þýðir að platan hafi komið út einhverntíma á árunum 1980-1989.

Erum við ekki öll sammála um að þetta sé betra fyrirkomulag?

Ég vil a.m.k. hvetja hlustendur til nota tuttuguárin, eða tvistinn, til að dreifa þessu orðalagi og koma því í almenna notkun fyrir þrjátíuárin.

Ókeypis ráð til virkra í athugasemdum

Hér eru tveir hlutir sem fara í taugarnar á mér.

Í fyrsta lagi: Það er ekki skrifað á eftir orðunum þegar, sem og ef.

Það virðist kannski stundum hljóma þannig í daglegu talmáli. En við skrifum það ekki. Til dæmis eru eftirfarandi setningar rangar:

  1. Mér brá þegar að ég mætti þér.
  2. Sá sem að skrifaði þessa færslu ætti að skammast sín.
  3. Nennirðu að kaupa mjólk ef að þú ferð út í búð?

Þið skiljið hvað ég meina.

Í öðru lagi: Ég hef óþægilega oft séð rangan rithátt á landi frænda vorra Svía. Á íslensku heitir landið þeirra Svíþjóð.

Sumir hafa einhverja tilhneigingu til að skjóta auka ð-i í nafnið á landinu og skrifa Svíðþjóð. Það er rangt.

Við leit á vefnum tímarit.is finnast dæmi um þennan rithátt allt frá árinu 1909. Þannig að þetta er ekki alveg nýtt.

Landið heitir Svíþjóð. S-V-Í-Þ-J-Ó-Ð. Ekki með neinu ð-i inni í orðinu.

Orð ársins

Fyrri umferð kosninganna um orð ársins 2019 hófst í byrjun nóvember. Þar fengu þátttakendur að velja fimm orð af sjötíu og gefa þeim stig frá einum upp í fimm.

Tíu stigahæstu orðin úr þessari atkvæðagreiðslu komust áfram í seinni umferðina. Sum þeirra voru áberandi í fréttum og þjóðmálaumræðu á árinu 2019. En önnur hafa verið til lengur.

Og orðin sem komust áfram eru eftirfarandi, lesin í stafrófsröð:

Stigahæsta orðið af þessum tíu verður valið orð ársins 2019. Og orðið sem hlaut flest atkvæði, eða 90 af 406 atkvæðum er Loftslagskvíði.

Skilgreining á orðinu á vefnum ordabokin.is er:

Tilfinning sem felur í sér kvíða, áhyggjur eða óvissu vegna loftslagsbreytinga. T.d. að jörðin og heimurinn séu alveg að líða undir lok vegna mengunar og loftslagsbreytinga.

Orðið er ekki alveg nýtt – ég hef fundið dæmi um það allt frá 2011. En það rímar vel við umræðuna á síðasta ári, þar sem loftslagsmál voru áberandi. Sumir eiga sjálfsagt eftir að finna þessu orði allt til foráttu, svona eins og orðinu hrútskýring, og sætta sig ekki við að orðið sé til yfir höfuð.

En með því að horfast í augu loftslagsvandann og gera eitthvað í málunum má vel vera að orðið verði óþarft eftir nokkur ár. En kannski verður það óþarft hvort sem er, þegar við verðum búin að eyðileggja jörðina. Hvað veit maður?

Ég vil a.m.k. hvetja hlustendur til að leggja sitt af mörkunum við að vernda umhverfið – og þannig losnum við kannski við loftslagskvíðann.

Að lokum

Þá er þessi þáttur senn á enda runninn. Eins og venjulega minni ég á vefinn ordabokin.is. Ég minni líka á samfélagsmiðla málfarslögreglunnar á Facebook og á Twitter. Þar getið þið komið hrósi, kvörtunum eða öðrum ábendingum á framfæri. Nú, eða stungið upp á nýjum orðum til að bæta við í Orðabókina.

Látið loftslagskvíðann ekki ná tökum á ykkur, þó það sé erfitt.

Verið sæl.

Málfarslögreglan – 14. Þáttur

Málfarslögreglan, 14. þáttur

Heil og sæl ágætu hlustendur.

Við byrjum þennan þátt á lítilli afsökunarbeiðni.

Hlustendur sem hafa hlustað á alla þættina tóku kannski eftir því að í síðasta þætti taldi ég upp nokkur ofnotuð orð. Þessi orð voru næstum því þau sömu og lesin voru í áttunda þætti.

Góð vísa er aldrei of oft kveðin, og allt það, en ég biðst afsökunar á að vera farinn að endurtaka mig. Ég lofa að gera það ekki oftar en þörf er á.

Snúum okkur þá að ábendingum til fjölmiðlamanna.

Yfirvofandi afmæli

Á dögunum rakst ég á litla auglýsingu í Fjarðarpóstinum, bæjarblaði Hafnfirðinga. Í henni stóð meðal annars:

Hressing í boði í Garðakirkju og stuttir orgeltónleikar þar sem Guðmundur Sigurðsson, organisti Hafnarfjarðarkirkju, leikur orgelverk úr Hafnarfirði og Garðabæ í tilefni af 10 ára afmæli orgela Hafnarfjarðarkirkju og yfirvofandi 50 ára afmæli orgels Garðakirkju.

Fjarðarpósturinn 21. mars 2019.

Tókuð þið eftir síðustu orðunum?

„Yfirvofandi afmæli“?

Máltilfinning mín segir að viðburðir sem ber að fagna geti ekki verið yfirvofandi. Það er því ekki hægt að segja að afmæli sé yfirvofandi, né heldur brúðkaup, skírnir eða hátíðahöld. Aftur á móti geta leiðinlegir atburðir, s.s. stríð, náttúruhamfarir, verkföll og uppsagnir verið yfirvofandi.

Í íslenskri orðabók er merking orðsins: „sem vofir yfir, búast má við hvenær sem er (einkum um e-ð óþægilegt)“.

Þetta kemur líka heim og saman við svar á Vísindavefnum við spurningunni Felst neikvæð merking í því „að eitthvað sé yfirvofandi?“. Þar stendur meðal annars:

Sagnarsambandið að vofa yfir er notað í merkingunni ‘svífa yfir, vera í vændum, ógna’ og er notað um eitthvað illt. Sama gildir um lýsingarháttinn yfirvofandi. Þess vegna er ekki rétt að nota sagnarsambandið eða lýsingarháttinn um eitthvað sem er jákvætt, eins og fermingu, skírn, fæðingu eða annað hliðstætt.

Vísindavefurinn

Við ættum því að segja að skemmtilegir viðburðir séu komandi, í vændum eða væntanlegir en ekki yfirvofandi. Svo má líka umorða hlutina og segja að eitthvað sé framundan.

Hvað dinglar?

Fyrir nokkrum vikum rakst ég á fyrirsögnina Dinglaði bjöllunni um miðja nótt og sagðist vera sölumaður. Henni var breytt fljótlega eftir að hún fór í loftið.

Að dingla þýðir yfirleitt það sama og að lafa eða hanga og sveiflast. Í Íslenskri orðabók frá 2007 er fjórða merking orðsins reyndar sú að hringja (dyra)bjöllu. Þannig að þetta er ekki alvitlaus notkun. En þess ber að geta að hún er sögð óformleg, einkum notuð í barnamáli.

Þannig að ef við erum að skrifa formlegan texta eða tala opinberlega ættum við að tala um að hringja bjöllunni, frekar en að dingla henni. Nema ef til vill að persónusköpun eða stílbrigði í textanum krefjist þess að bjöllunni sé dinglað.

Eignarrétturinn

Snúum okkur næst að eignarfornöfnum.

Eignarfornöfn í íslensku eru minn, þinn, sinn og vor. Reyndar er ágreiningur um hvort sinn sé alvöru eignarfornafn, þar sem það vísar aftur til þriðju persónu. En það er ekki til umræðu hér. Eins og nafnið gefur til kynna eru eignarfornöfn notuð til að tákna og gefa til kynna eignir á hlutum og fyrirbærum.

En hvenær á að nota eignarfornöfn og hvenær á ekki að nota þau? Og hvar eigum við þá að nota þau?

Dæmi:

Turninn minn stendur uppi í hlíðinni.

Þarna er augljóst að ég á turninn. Turninn minn gefur til kynna að ég eigi hann. En breytum nú setningunni og segjum:

Minn turn stendur uppi í hlíðinni.

Ég mundi setja ákveðið spurningarmerki við þessa setningu. Hún er á mörkum þess að geta staðið ein og sér án samhengis. Því það er ekki eðlilegt í íslensku að eignarfornafnið standi á undan nafnorðinu sem verið er að lýsa yfir eigninni á. Undantekning er þó ef verið er að leggja sérstaka áherslu á eignina. Dæmi:

Turninn hans Tóbíasar er niðri á torgi en minn turn stendur uppi í hlíðinni.

Við könnumst við aðgangsstýrðar vefsíður hjá stofnunum og fyrirtækjum þar sem netnotendur geta sinnt einkamálum sínum, skoðað reikningsyfirlit, viðskiptasögu og fleira. Þessar síður heita yfirleitt Mínar síður. Þetta heiti er undir sterkum áhrifum frá ensku, sbr. My pages. Í ensku (og fleiri tungumálum) er þetta eðlileg orðaröð. En á íslensku væri eðlilegra að kalla þær Síðurnar mínar. Meðal annarra óeðlilegra dæma má nefna:

  • Þinn réttur
  • Þitt form
  • Þín verslun
  • Mín framtíð

Þarna væri eðlilegra að segja rétturinn þinn (eða réttur þinn). Formið þitt. Verslunin þín. Framtíðin þín. Ég held að við getum flest verið sammála um að þetta sé hin „rétta“ staða eignarfornafna í setningum.

Svo eru það eignarfornöfn og líkamshlutar. Það er flókin og ekki alltaf heppileg blanda í daglegu tali í íslensku. Ég get a.m.k. ekki vanist því alveg að heyra eða sjá líkamshluta notaða sem eignir. Dæmi eru setningar á borð við:

  • Mér er kalt á fingrunum mínum.
  • Mér er illt í maganum mínum.
  • Ég rak höfuðið mitt í vegginn.

Í flestum tilfellum er augljóst að það eru okkar eigin líkamshlutar sem við tölum um, en ekki einhverra annarra, þannig að það er óþarfi að bæta eignarfornöfnum við líkamshlutana.

Einhverjir segja að þetta séu erlend áhrif. Og það er rétt. Í ensku er til dæmis eðlilegt að segja my fingers, my hair og svo framvegis. Þetta er líka eðlileg orðaröð í norðurlandamálum og í þýsku. En þetta eru ekki bara erlend áhrif.

Við könnumst við setningar eins og:

  • Ef hjarta mitt er valtast alls hins valta.
  • Taktu hár úr hala mínum.
  • Augun mín og augun þín.

Þetta eru allt saman fullgildar setningar í íslensku. Þær eru allar úr ljóðum eða skálduðum textum. Þannig að kannski eru þetta líka ákveðin stílbrigði. Við megum eigna okkur okkar eigin líkamshluta ef við viljum vera skáldleg. Þá er eðlilegra, en samt ekki algilt, að líkamshlutarnir séu án greinis.

Aðrir hafa bent á að þetta er barnamál. Það er líka rétt. Af einhverjum ástæðum er samþykkt að lítil börn noti eignarfornöfn þegar þau tala um líkamshluta. Og það er líka eitthvað pínu krúttlegt að heyra það. Hér má líka minnast á Karíus og Baktus sem hafa til alið kynslóðir Íslendinga upp við setninguna: „Æ, ég finn svo til í tönnunum mínum“.

En ef við erum eldri en – segjum tíu til tólf ára – og erum ekki að semja ljóð eða skáldverk, tala við börn eða reyna að vera krúttleg, ættum við frekar að sleppa eignarfornöfnum þegar við tölum um líkamshluta á okkur, eða öðrum.

Prófa eða prufa?

Snúum okkur að lokum að svörum til hlustenda. Þættinum hefur borist bréf. Það hljóðar svo:

Mér finnst svo margir farnir að tala um að prufa eitthvað, mér finnst það hljóma svo illa. Á ekki alltaf að nota prófa? Er prufa ekki bara þegar maður fer í „audition“?

Góð spurning. Ég tók saman tvö svör við henni. Annað svarið er nei, ekki samkvæmt nútímaskilningi á þessum orðum.

Í Íslenskri orðabók er merking sagnorðsins prufa: „reyna, prófa, gera tilraun með“. Prófa hefur hins vegar þrjár merkingar. Sú fyrsta er: „Kanna, reyna (prófa e-ð)“.

Í íslenskri nútímamálsorðabók, sem aðgengileg er á vefnum malid.is, er sögnin prufa sögð vera óformleg. Það stendur aftur á móti ekki við sögnina prófa.

Mín tilfinning (eða tilfinningin mín) er sú að hvort tveggja sé jafn rétt, þ.e.a.s. ef átt er við það sama og að reyna eitthvað. Ég er samt vanari því að prófa hluti heldur en að prufa þá. Ég hef samt ekkert á móti því að við prufum hlutina líka.

Ég mundi til dæmis segja: „Ég ætla að prófa að hringja í Jens“ en síður: „Ég ætla að prufa að hringja í Jens“.

Hitt svarið við spurningunni er jú, samkvæmt sögunni. Þá ættum við að prófa en ekki prufa.

Ef við lítum yfir söguna mælir allt með því að við prófum frekar en að prufa. Því sagnorðið prófa er eldra í íslensku heldur en sagnorðið prufa. Í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans er elsta dæmið um sögnina prufa frá árinu 1945. Elsta dæmið um sögnina prófa í sama ritmálssafni er hins vegar frá árinu 1540.

Sama niðurstaða fæst á vefnum timarit.is. Þar er elsta dæmið um sögnina prófa frá árinu 1780. Prufa, í merkingunni reyna, er öllu yngri, eða frá árinu 1950.

Menn virðast samt hafa verið byrjaðir að prufa nokkuð fyrr á tuttugustu öldinni, því það er amast við orðinu í lesendabréfum og málfarsráðleggingum dagblaða og tímarita. Til dæmis í tímaritinu Hlín árið 1942. Þar er stungið upp á orðunum sýnishorn, prófa og reyna í stað orðsins prufa.

Ég vona að sendandi, sem og aðrir hlustendur, séu einhvers vísari eftir þetta svar. Endum það á stöku úr Vísi frá 12. júlí 1927:

Um orðin „sýnishorn“ og „prufa“:

Orðið prufa engin er

íslenska, það vitið,

sýnishorn því sífellt þér

segið bæði og ritið.

Orðið „prufa“ er ekki annað en dönskusletta, afbökun úr danska orðinu „Pröve“, og ætti því að hverfa úr málinu sem fyrst, en hið fagra orð sýnishorn ávalt að vera notað í þess stað.

H.B., Vísir, 12. júlí 1927.

Þá hef ég ekki fleiri hugmyndir að sinni.

Ég minni á að hægt er að senda athugasemdir, hrós, kvartanir eða hvað annað sem hlustendum dettur í hug í gegnum samfélagsmiðla Málfarslögreglunnar á Twitter og Facebook. Eða í gegnum vefinn ordabokin.is.

Þar má líka hlusta á eldri hlaðvarpsþætti, auk þess sem tenglar í heimildir og ítarefni fylgja flestum þáttum. En þættirnir eru líka aðgengilegir á iTunes, Spotify, Stitcher, Soundcloud og í öllum betri hlaðvarpsöppum.

Þessum þætti er þá öllum lokið.

Takk fyrir að hlusta.

Lifð heil.

Málfarslögreglan – 13. þáttur

Málfarslögreglan, 13. þáttur

Heil og sæl ágætu hlustendur og verið velkomin í 13. þátt málfarslögreglunnar.

Í þessum þætti verður fjallað um gáfnafar – eða skort á því. Við kynnumst nýjum greinarmerkjum og jörðum nokkur ofnotuð orð.

En við byrjum á nokkrum ábendingum til fjölmiðlamanna.

Ábendingar til fjölmiðlamanna

Á vef Vísis 26. janúar síðastliðinn mátti lesa í frétt um andlát flugþjóns:

Vél bandaríska flugfélagsins Hawaiian Airlines þurfti að framkvæma neyðarlendingu í San Francisco á leið sinni frá Honolulu, höfuðborgar Hawaii, til New York vegna veikinda flugþjóns um borð á fimmtudaginn.

Að undanskildu því að orðið höfuðborg er þarna í vitlausu falli er sagt frá því að það hafi þurft að framkvæma neyðarlendingu.

Til að gera textann skemmtilegri og meira lifandi (ekki það að þessi frétt hafi verið lífleg eða skemmtileg) hefði mátt segja að flugvélin hefði þurft að nauðlenda. En ekki framkvæma neyðarlendingu.

Vörumst stofnanamálfar og notum sagnorð þegar við getum, í staðinn fyrir óþarfa nafnorðasúpu.

Daginn áður, mátti lesa á sama fréttavef:

Efnistökin í þættinum falla ekki öllum í kram og hafa nokkrar umræður spunnist um þau á samfélagsmiðlum eins og Twitter.

Hér er blandað saman tveimur orðatiltækjum. Annars vegar falla í kramið hjá einhverjum og hins vegar falla einhverjum í geð.

Annað hvort hefði átt að segja: „Efnistökin falla ekki í kramið hjá öllum“, eða „Efnistökin falla ekki öllum í geð“.

Í frétt um áfengisvandamál Harry Potter leikarans Daniel Radcliffe kom fram að hann hafi lagt flöskuna á hilluna, í þeirri merkingu að hann hafi hætt að drekka.

Mér finnst eitthvað rangt við þetta orðalag. Það er vel þekkt að íþróttamenn leggja skóna á hilluna þegar þeir hætta að spila boltaíþróttir. En mér hefði fundist betra að segja að leikarinn hafi sett tappann í flöskuna.

Í frétt um mislingasmit á Íslandi var sagt:

Börn eru ekki bólusett fyrir mislingum fyrir átján mánaða aldur en bæði börnin hafa ekki náð þeim aldri.

Þetta var óheppilega orðað. Hérna hefði verið betra að segja: „hvorugt barnið hefur náð þeim aldri“.

En það verður líka að hrósa fjölmiðlamönnum fyrir það sem vel er gert. Besta fyrirsögn á frétt það sem af er þessu ári hlýtur að teljast, a.m.k. að mínu mati Innkalla hallagallaðar pönnukökupönnur.

Í fréttinni á bak við fyrirsögnina var líka nýyrðið hallagalli, sem er framleiðslugalli sem felst í því að halli á tilteknum hlut er ekki réttur. Í þessu tilviki var það halli á skafti á pönnukökupönnum.

Þá er komið nóg af ábendingum til fjölmiðlamanna. En þá að tvöfaldri merkingu.

Skýrar kýr

Það eru til mörg orð sem hafa fleiri en eina merkingu – og menn eru ekki á eitt sáttir um merkinguna. Eitt af þessum orðum er kýrskýr.

Í mínum huga merkir orðið kýrskýr það sama og heimskur eða einfaldur. Og það er líka eina skýringin sem gefin er upp í íslenskri orðabók.

Ég fæ þess vegna alltaf pínulítinn kjánahroll þegar menn nota þetta orð vitlaust, eða í einhverri annarri merkingu. Sumir nota orðið í merkingunni að eitthvað sé augljóst. Og stundum virðist það jafnvel hafa andstæða merkingu miðað við „réttu“ merkinguna og þýða það sama og vitur eða vel gefinn:

Það er al­gjör­lega kýr­skýrt að Rík­is­út­varpið gaf ekki rétt­ar upp­lýs­ing­ar fyr­ir fjár­laga­nefnd­inni.

sagði Guðlaugur Þór Þórðarson til dæmis 6. nóvember 2015.

Annað og nýrra dæmi er fyrirsögnin Rannsakandi segir mynstrið kýrskýrt dæmi um skipulagða brotastarfsemi. Þarna er átt við að mynstrið sé augljóst dæmi um skipulagða brotastarfsemi.

Við lauslega leit á vefnum tímarit.is virðist algengasta merking orðsins kýrskýr vera eitthvað sem er augljóst. Elsta dæmið sem finnst um orðið er frá árinu 1976.

Sumir hafa velt því fyrir sér hvort gamla merkingin, þ.e. heimskur, sé einhvers kona draugmerking, þ.e.a.s. merking sem finnst hvergi nema í orðabókum. Þessi hugmynd kemur til dæmis fram í grein Jóns G. Friðjónssonar um íslenskt mál í Morgunblaðinu 31. mars 2007.

Sjálfur hef ég aldrei heyrt orðið kýrskýr notað í merkingunni heimskur. Ég er ekki alinn upp í sveit og hef því ekki vit á gáfnafari kúa, eða skorti á því. Ég held að vitneskja mín um þessa merkingu hafi komið úr spurningaspilinu Trivial pursuit einhverntíma á níunda áratug síðustu aldar. Af því að Trivial náði að planta þessu í huga mér þegar ég var átta eða níu ára hefur þetta verið hin eina og rétta merking orðsins í mínum huga.

Misvitrir Moggabloggarar og virkir í athugasemdum, sérstaklega af eldri kynslóðum, virðast vera sammála mér. Það eru þá einkum þeir sem gera athugasemdir við orðanotkun stjórnmálamanna og svokallaðra fréttabarna sem vekja athygli á þessari merkingu orðsins.

Hlustendur sem vilja lesa meira um orðið Kýrskýr geta kynnt sér ágæta grein Margrétar Jónsdóttur í tímaritinu Orð og tunga frá árinu 2018. Tengill í greinina fylgir með 13. þætti á vefnum ordabokin.is.

En snúum okkur næst að nýjustu greinarmerkjunum.

Hrópspurningarmerki

Við könnumst öll við upphrópunarmerki og spurningarmerki. Spurningarmerki skal setja á eftir málsgrein (málsgreinarígildi), sem felur í sér beina spurningu. Upphrópunarmerki skal setja á eftir einstökum orðum eða málsgreinum, sem felst í upphrópun (t.d. fögnuður, skipun, fyrirlitning o.s.frv.)

Nánar má lesa um notkun þessara merkja í auglýsingu um greinarmerkjasetningu. Tengil má nálgast undir síðu 13. þáttar á vefnum ordabokin.is.

Í formlegu ritmáli þykir ekki fara vel á því að nota fleiri en eitt greinarmerki í einu. Þó eru til undantekningar. Þrír punktar í röð geta t.d. táknað úrfellingu eða hik. Og þrjú upphrópunarmerki í röð eru alþjóðlegt tákn um hneykslun. En spurningar verða ekkert meiri spurningar þótt spurningarmerki séu fleiri en eitt.

Þaðan af síður þykir heppilegt að nota mörg mismunandi greinarmerki í röð. Það er hins vegar gert í óformlegra ritmáli á internetinu og á samfélagsmiðlum.

Sumum þykir heldur ekki gott í formlegum, prentuðum texta að nota spurningarmerki og upphrópunarmerki saman.

Árið 1962 var því gerð tilraun til að sameina þessi tvö merki í eitt. Upphafsmaður þess var Bandaríkjamaðurinn Martin K. Speckter, yfirmaður á auglýsingastofu.

Þetta merki ákvað hann að kalla Interrobang. Á íslensku mætti kalla það hrópspurningarmerki.

Hrópspurningarmerki er eins og áður sagði sett saman úr upphrópunarmerki og spurningarmerki. Það lítur út eins og upphrópunarmerki sem búið er að skrifa spurningarmerki yfir – eða öfugt. Eða stafinn Þ eða P með punkti undir. Lesendur sem vilja sjá hvernig merkið lítur út geta farið á síðu þrettánda þáttar á vefnum ordabokin.is til að skoða það.

Tilgangurinn með merkinu er að standa á eftir spurningum sem fela í sér ótta, undrun, spennu eða vantrú, eða á eftir retorískum spurningum, þ.e.a.s. spurningum sem er varpað út í loftið, meira til íhgununar en kalla ekki endilega á svar. Merkið hentar þeim vel sem eru á móti því að nota mörg greinarmerki í röð og vilja halda sig við eitt merki í einu.

Hrópspurningarmerkið náði aldrei almennri hylli og hefur því ekki verið mikið notað. Kannski af því að það er ekki hægt að skrifa það með einföldum hætti á lyklaborð, a.m.k. ekki á íslensk lyklaborð. Það er þó gert ráð fyrir merkinu í hönnun nokkurra leturgerða. En það þarf að fara krókaleiðir til að nálgast það. Eina aðferðin sem ég kann er að gúgla Interrobang og nota svo „copy-paste“-aðferðina.

Ég þekki engin dæmi um hrópspurningarmerki úr íslensku ritmáli. En ég sé fyrir mér að hneykslaðir virkir í athugasemdum gætu tekið það upp. Dæmi um spurningar sem gætu endað á hrópspurningarmerki eru:

  • Hver fjandinn er í gangi hérna‽
  • Kallarðu þetta tónlist‽
  • Er þetta frétt‽
  • Viltu ekki bara fara að grenja‽

Nú er það undir virkum í athugasemdum og notendum samfélagsmiðla komið að vekja hrópspurningamerkið til vegs og virðingar. Þá munu tölvuframleiðendur, forritarar og leturhönnuðir kannski taka við sér og auðvelda aðgengi að því á venjulegum lyklaborðum.

Hlustendur sem vilja kynna sér hrópspurningarmerkið betur geta lesið grein á ensku útgáfu Wikipediu um Interrobang. Tengill fylgir með 13. þætti á vefnum ordabokin.is.

En snúum okkur að lokum að nokkrum ofnotuðum orðum og orðasamböndum sem er hægt að nota minna.

Ofnotuð orð

Tímapunktur er ofnotaður. Það þarf ekki allt að gerast á hinum eða þessum tímapunkti. Orð sem hægt er að nota í staðinn eru til dæmis núna og tími. Annars fer það eftir því í hvaða samhengi orðið stendur hvað hægt er að nota í staðinn fyrir það.

Aðferðafræði er annað ofnotað orð. Undanfarið hafa allir notað hina eða þessa aðferðafræði til að leysa verkefni eða vandamál. Yfirleitt ætti að vera nóg að nota einhverja aðferð til lausnar á verkefnum.

Og ofnotað orðasamband er að vera á pari við eitthvað. Prófum að jafnast á við eitthvað, vera til jafns við eitthvað, eða vera jafn mikið eða lítið og eitthvað. Bara til dæmis.

Reynum að nota minna af þessum orðum og frekar að umorða hlutina.

Hugmyndabrunnurinn er þá tæmdur í bili. Ég minni á Málfarslögregluna á Facebook og Twitter, sem og á vefinn ordabokin.is. Þar geta hlustendur sent skilaboð, hrós, kvartanir, ábendingar og hvað sem þeim liggur á hjarta.

Nýir og eldri hlaðvarpsþættir eru aðgengilegir á vefnum ordabokin.is, í iTunes og á Spotify. Textaútgáfur þáttanna má nálgast á vefnum blogg.ordabokin.is, þ.e. blogg, með tveimur g-um.

En þessum þætti er þá öllum lokið.

Takk fyrir áheyrnina.
Góðar stundir.

Málfarslögreglan – 12. þáttur

Málfarslögreglan – 12. þáttur

Heil og sæl ágætu hlustendur og verið velkomin í tólfta þátt Málfarslögreglunnar.

Loksins, gætu sumir verið að hugsa, því að þættirnir snúa nú aftur að loknu góðu og löngu fríi. Fríið þýðir þó ekki að málfarslögreglan hafi setið auðum höndum. Ó, nei, því er nú öðru nær.

Úr því að það er komið nýtt og sprellfjörugt ár er ekki úr vegi að gefa eitt áramótaheit:

Ég lofa því að hlaðvarpsþættir þessa árs verða fleiri en á síðasta ári.

Það ætti nú ekki að vera erfitt að halda þetta heit, því að þættir síðasta árs voru bara tveir.

Þetta er ekki eina loforð þáttarins. Við komum að hinu rétt bráðum.

Það hefur margt gerst í þessu langa fríi. Orðabókin hefur til dæmis haldið áfram að vaxa síðan síðasti þáttur fór í loftið. Og núna í haust bættist hundraðasta orðið í Orðabókina.

Aldrei má maður gera neitt. Maður má einu sinni ekki hlaupa og leika sér án þess að vera skammaður og lokaður inni.

Emil í Kattholti.

Eins og Emil í Kattholti orðaði það með norðlenska hreimnum, þegar hundraðasti spýtukarlinn bættist í safnið.

Ég hélt nú ekkert sérstaklega upp á þennan áfanga. En af tilefni af hundraðasta orðinu er því hér með lýst yfir að þegar 400 orða múrinn verður rofinn verður farið að huga að prentútgáfu Orðabókarinnar. Hlustendur sem vilja sjá það gerast eru þess vegna hvattir til að vera duglegir að senda inn hugmyndir að nýjum orðum. Það má til dæmis gera á vefnum ordabokin.is eða með skilaboðum á Facebook eða Twitter.

Og svo er það orð ársins. Við komum að því síðar í þessum þætti. En fyrst að tilefni. Eða af tilefni? Hvort er það?

Af eða að?

Hlustandi kom að máli við mig á dögunum og spurði hvort það ætti að segja eða af gefnu tilefni. Þetta var góð spurning. Ég játa að ég er aldrei almennilega klár á þessu sjálfur, þannig að ég lagðist í rannsóknir og rakst á umfjöllun um orðið tilefni í Málfarsbanka Árnastofnunar. Þar segir:

Annaðhvort er sagt í tilefni einhvers eða í tilefni af einhverjuVið komum í tilefni afmælisins. Við komum í tilefni af afmælinu.
Einnig: af einhverju tilefniAf hvaða tilefni eru allir hérna? Efnt var til fagnaðar af alls engu tilefni. Athuga þó að sagt er að gefnu tilefni.

Málfarsbanki Árnastofnunar

Þá vitum við það. Það er sem sagt af tilefni, með F-i. Nema þegar tilefnið er gefið, þá er það , með Ð-i.

Lítum kannski á það þannig að eð sé ókeypis en eff þurfi að borga fullu verði:

F er fullu verði greitt
en ð-ið kostar ekki neitt

Svona til að búa til einhverja þumalputtareglu.

Hlustendur geta kynnt sér málið nánar á vef Árnastofnunar. Tengil má nálgast á síðu tólfta þáttar á vefnum ordabokin.is

Tölum um tölur

Þá að raðtölum.

Raðtölur eru tölustafir sem eru skrifaðir með punkti fyrir aftan. Þeir tákna staðsetningu í runu eða lýsa röð viðburða. 1. 2. 3. er lesið: fyrsti, annar, þriðji.

Iðulegar rekst ég á ranga notkun á raðtölum, sérstaklega í rituðum texta á internetinu. Þessi ranga notkun felst í því að punktur er settur aftan við tölur þegar það á ekki að vera punktur á eftir þeim. Oft má sjá dæmi um þetta hjá foreldrum á samfélagsmiðlum að segja frá afmælum barna sinna.

Til dæmis:

„Þessi dama er þriggja ára í dag.“
er skrifað:
„Þessi dama er 3. ára í dag.“

Þá ætti að lesa þetta:
„Þessi dama er þriðja ára í dag.“

Þessi ranga notkun fer meira en lítið í taugarnar á mér. Punkt á ekki að skrifa á eftir tölum nema þær séu raðtölur, eða þegar þær eru hafðar í lok setninga. (Eða þegar þær eru hluti af vefslóðum eða IP-tölum, en það er nú önnur saga).

Hér eru tvö dæmi um rétta notkun:

Dæmi 1:
Ragnheiður hafnaði í 2. sæti í 200 metra bringusundi.

Þarna á að vera punktur á eftir 2, í 2. sæti, en ekki á efti 200 í 200 metra bringusundinu.

Dæmi 2:
Í dag, 12. desember, fagnar þessi drengur 10 ára afmæli sínu.

Þarna á að vera punktur á eftir tólf, þ.e. 12. desember en ekki á eftir 10 (í tíu ára.

Höfum það á hreinu.

Annað sem ég hef aldrei þolað við rithátt á tölum er þegar tölustöfum og bókstöfum er blandað saman í staðinn fyrir að skrifa töluorð beint út, með bókstöfum. Það er einhver hefð fyrir því í ensku að nota bæði bókstafi og tölustafi, (sbr. þegar first er skrifað 1st, second er skrifað 2nd, third er skrifað 3rd og svo framvegis. En þessi ritháttur virkar ekki almennilega á íslensku.

Ég venst því til dæmis aldrei að sjá eignarfall töluorðanna eins til fjögurra skrifað með bókstöfum í bland við tölustafi, þ.e. 1ns, 2ja, 3ja og 4ra. Upphaflega hefur þetta verið gert til að spara stafafjölda. En þess ætti ekki að þurfa lengur.

Það eru því vinsamleg tilmæli frá Málfarslögreglunni að menn skrifi þessi orð frekar bara með bókstöfum! Eins, tveggja, þriggja og fjögurra.

Það er ekki svo erfitt.

Þá er þessari tölu um tölur lokið, en snúum okkur næst að kosningum.

Orð ársins 2018

Í byrjun nóvemer síðastliðins fór fyrri umferð kosninganna um orð ársins af stað. Orðin sem kosið var um komu ekki öll fram á sjónarsviðið á árinu 2018 og mörg þeirra höfðu verið til ansi lengi. En þau áttu það öll sameiginlegt að hafa birst í orðabókinni frá 1. nóvember 2017 til 31. október 2018.

Í fyrri umferð mátti velja fimm af fimmtíu og einu orði og gefa þeim stig frá einum upp í fimm. Tíu stigahæstu orðin komust áfram í seinni umferð. Orðin sem komust áfram í seinni umferð voru, í stafrófsröð:

Nú er seinni umferð kosninganna lokið og því er kominn tími til að uppljóstra um það hvert af þessum tíu orðum hlýtur titilinn Orð ársins 2018 á vefnum ordabokin.is.

1160 atkvæði voru greidd í seinni umferðinni. Og orðið sem flestir völdu var áhrifavaldur, með 215 atkvæði. Fast á hæla þess fylgdu Prófljóta, með 191 atkvæði og Sjomli, með 157 atkvæði.

Áhrifavaldur er, samkvæmt skýringu í Orðabókinni notandi samfélagsmiðla (t.d. Snapchat eða Instagram) sem hefur fjölda fylgjenda, oftast nokkur þúsund eða fleiri.

Áhrifavaldar kynna oft vöru og þjónustu á samfélagsmiðlum, yfirleitt gegn greiðslu frá seljendum eða framleiðendum.

Árið 2018 var svo sannarlega ár áhrifavaldanna. Í byrjun október bannaði Neytendastofa til dæmis áhrifavöldum að nota duldar auglýsingar í bloggfærslum. Síðasta sumar voru áhrifavaldar taldir sem sérstakur tekjuhópur í tekjublaði DV og íslenskir áhrifavaldar eru reglulegir gestir á hverjir-voru-hvar- og slúðursíðum dagblaða og fréttavefja.

Nú í upphafi ársins 2019 er það orðin full vinna hjá mörgum að vera áhrifavaldur og ríkisskattstjóri er m.a.s. að kanna starfsvettvang þeirra og kortleggja hvernig greiðslum til þeirra er háttað. Því þetta verður jú allt að vera löglegt.

En sem sagt, til hamingju með orð ársins, áhrifavaldar og aðrir hlustendur.

Þættinum er þá lokið í þetta sinn. Hvers kyns ábendingar, hrós, kvartanir, tillögur og annað sem hlustendum kann að detta í hug má senda í gegnum vefinn ordabokin.is. Einnig má nota samfélagsmiðlana Facebook og Twitter til verksins.

Lifið vel og lengi.
Passið ykkur á duldum auglýsingum áhrifavalda.
Góðar stundir.

Málfarslögreglan – 11. þáttur

Heilir og sælir ágætu hlustendur og verið velkomin í ellefta þátt Málfarslögreglunnar.

Bréf frá hlustendum

Þættinum hefur borist bréf. Það innihélt svohljóðandi fyrirspurn:

Af hverju er forsetinn með litlum staf?

Mér er ljúft og skylt að svara þessari spurningu.

Í Auglýsingu um setningu íslenskra ritreglna, sem dyggir hlustendur ættu að vera farnir að kannast við, segir í grein númer 1.2.2.5:

Nöfn stofnana/embætta sem bera heiti sem jafnframt er starfsheiti æðsta yfirmanns, til dæmis sýslumaðurinn í Reykjavík, umboðsmaður Alþingis, ríkislögreglustjóri, má ætíð rita með litlum upphafsstaf, en einnig er heimilt að rita stóran staf ef augljóslega er vísað til stofnunarinnar en ekki starfsmannsins sem veitir henni forstöðu (sjá um lítinn staf í starfsheitum í 1.3.2 a).

Samkvæmt mínum skilningi á þessari reglu er hann Guðni okkar forseti – með litlu f-i. En hann vinnur hins vegar hjá embætti Forseta Íslands, sem má hvort tveggja skrifa með stóru og litlu f-i. Það mælir því ekkert á móti því að forseti sé skrifað með stóru f-i ef átt er við stofnunina eða embættið Forseta Íslands, en ekki æðsta starfsmann stofnunarinnar.

Ég vona að þetta svari spurningunni. Ég bendi einnig á ágætis svar á Vísindavefnum við spurningunni Eiga starfsheiti sem hljóma eins og heiti stofnunar að vera með litlum eða stórum staf? Tengil í spurninguna má nálgast í gegnum ellefta þátt á vefnum ordabokin.is.

Stafrænn tungumáladauði

Frá því síðasti þáttur fór í loftið hefur verið rætt um stafrænan tungumáladauða. En hver er hann þessi stafræni tungumáladauði?

Stafrænn tungumáladauði er það þegar tungumál láta í minni pokann fyrir stafrænum samskiptum og tækni, þ.e. þegar þeim er lítið sem ekkert sinnt eða komið til móts við þau til að hægt sé að nota þau í hinum stafræna heimi.

Nú á tímum samfélagsmiðla, snjalltækja, sjálfvirkra aðstoðarmanna og efnisveitna á borð við Netflix og Youtube er íslenskan í ákveðinni hættu. Við erum einfaldlega ekki nógu mörg til að tækja- og efnisframleiðendur nenni að púkka upp á þetta tungumál okkar. Það sama á reyndar við um mikinn meirihluti tungumála í Evrópu og jafnvel í heiminum.

Ungverski vísindamaðurinn András Kornai segir að til að tungumál teljist lífvænleg í hinum stafræna heimi þurfi að miða við fjóra þætti.

Í fyrsta lagi stærð samfélagsins sem notar tungumálið í stafrænum samskiptum.

Í öðru lagi virðing fyrir tungumálinu, þ.e. hvort málnotendum, sérstaklega af yngri kynslóðum, finnst viðeigandi að nota það í stafrænum samskiptum sín á milli.

Í þriðja lagi virkni tungumálsins, þ.e. hvar og hvernig það er notað. Er það til dæmis bara notað af fræðimönnum og þeim sem eiga það ekki að móðurmáli? Eða eru fleiri sem nota það, og þá í daglegum samskiptum?

Og í fjórða lagi Wikipedia. Því meira efni sem til er af greinum á tilteknu tungumáli á Wikipediu, því minni líkur eru á stafrænum tungumáladauða.

Við fyrstu sýn getum við kannski verið bjartsýn fyrir hönd íslenskunnar þegar þessir þættir eru skoðaðir, en Kornai segir engu að síður að 95% allra tungumála sem til eru hafi nú þegar orðið undir í baráttunni við stafræna tækni og þeirra bíði stafrænn tungumáladauði.

Önnur rannsókn segir að 21 af 30 evrópskum tungumálum, þar á meðal íslenska, séu í útrýmingarhættu á stafrænni öld.

Þetta þýðir kannski ekki að íslenskan muni hverfa, a.m.k. ekki alveg í fyrirsjáanlegri framtíð. Við munum halda áfram að tala hana og eiga samskipti á íslensku í raunheiminum, en ef ekkert verður að gert mun hún verða undir í stafrænum samskiptum.

Stafræn samskipti eru stór hluti af daglegu lífi okkar flestra, þannig að það er eðlilegt að menn spyrji sig til hvers við séum eiginlega að læra íslensku fyrst við getum svo ekki notað hana í stafræna heiminum.

En hvað er hægt að gera til að koma í veg fyrir stafrænan tungumáladauða íslenskunnar, eða a.m.k. að hægja á honum?

Lykilatriðið er að foreldrar verji meiri tíma með börnum sínum, tali meira við þau og lesi fyrir þau. Því að börn læra ekki tungmál með því einu að horfa á myndbönd eða sjónvarp, jafnvel þó það sé á íslensku.

Og svo þarf að auka fjárstuðning við máltækni til að hægt verði, til dæmis, að búa til tæki sem menn geta raddstýrt á sínu eigin tungumáli, þ.e. ef það er annað en enska. Því að fæst tungumál eru nógu langt á veg komin í þessari tækni til að það sé hægt.

Nokkrum dögum áður en þessi þáttur var tekinn upp heyrði ég á tal nokkurra unglinga sem voru að velta fyrir sér íslensku orði yfir orðið gúgla, þ.e. að leita að einhverju á netinu með google leitarvélinni.

Þetta samtal kveikti í mér smá vonarneista fyrir hönd íslenskunnar í stafrænum heimi. Það er greinilega ekki öllum sama um málið.

Hlustendur sem vilja lesa greinarnar sem ég vitnaði í geta fundið tengla í þær undir ellefta þætti á vefnum ordabokin.is. Þar eru einnig tenglar í annað efni um stafrænan tungumáladauða.

Einkaréttur og einkaleyfi

Eftir að síðasti þáttur fór í loftið var sagt frá því í fréttum að upphrópunin Húh! væri skráð vörumerki og hefði verið það frá sumrinu 2016. Eigandi vörumerkisins hefur einkarétt á því að láta prenta það á föt og drykkjarumbúðir. Það er búið að úthúða honum nógu mikið í athugasemdakerfum fjölmiðla og verður því þess vegna sleppt hér.

En þetta með einkaleyfið fékk mig til að hugsa (eins og sjálfsasgt fleiri Íslendinga) um það hvort það væri hægt að eignast einkarétt eða einkaleyfi á orðum. Og það er hægt, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, sem hlustendur geta kynnt sér á vef Einkaleyfastofu. Það er tengill á vef Einkaleyfastofu undir ellefta þætti á vefnum ordabokin.is.

Vörumerkið má til dæmis ekki vera algengt tákn eða orð sem algengt er í viðskiptum eða notað í daglegu máli. En það væri vel þess virði að láta reyna á þessar reglur. Það er örugglega hægt að túlka þær mjög frjálslega.

Ég sæi til dæmis fyrir mér að sækja um einkarétt á því að prenta orðin og, en, í eða maður, til dæmis á föt eða matarumbúðir.

Svo væri hægt að færa út kvíarnar og fá einkarétt á því að prenta orðin bjór og öl utan á drykkjarumbúðir.

Ég segi nú bara: Hvílík gullnáma ef af þessu yrði!

Ókeypis ráð til virkra í athugasemdum

Þá er komið að föstum liðum eins og venjulega.

Stundum þegar menn vilja vera gáfulegir, málefnalegir eða formlegir bæta menn alls konar óþarfa við orð sín, sem mætti vel sleppa. Líklega er það oftast gert í hugsunarleysi. Hér koma nokkur dæmi um orð sem mætti nota minna í daglegu tali og tillögur að styttri orðum.

Í staðinn fyrir óvissustig er oft nóg að tala um óvissu.

Stundum er sagt að eitthvað gerist á ákveðnum tímapunkti. Þessi tímapunktur er ofnotaður og honum má skipta út fyrir ýmislegt annað. Til dæmis má segja að eithvað gerist núna, á þeim tíma eða þessari stundu.

Í staðinn fyrir að hljóta meiðsli má vel tala um að meiðast eða slasast.

Í stað þess að segja að eitthvað hafi gerst fyrir nokkrum árum síðan, nokkrum vikum síðan eða nokkrum dögum síðan er nóg að segja að það hafi gerst fyrir nokkrum árum, fyrir nokkrum vikum eða fyrir nokkrum dögum. Þetta síðan aftan við orðin er óþarfi í þessu samhengi.

Og eitt ofnotað orð er aðferðafræði. Oft er sagt að hin eða þessi aðferðafræði hafi verið notuð til að leysa tiltekið verkefni eða vandamál. Það er nóg að tala einfaldlega um aðferð.

Þetta voru bara örfá dæmi. Verum vakandi og forðumst óþarfa málalengingar. Hlustendur eru hér með hvattir til að senda fleiri dæmi um svona óþarfa og tillögur að því hvernig má stytta málið.

Ábending til fjölmiðlamanna

Að lokum ein vinsamleg ábending til fjölmiðlamanna:

Á dögunum heyrði ég sagt í fréttum stöðvar tvö:

Erlendir ferðamenn sem slasast hafa í umferðinni hér á landi hafa nær þrefaldast frá árinu 2003.

Það eru ekki ferðamennirnir sem hafa þrefaldast, heldur fjöldi þeirra. Réttara hefði því verið að segja:

Fjöldi erlendra ferðamanna sem slasast hafa í umferðinni hér á landi hefur nær þrefaldast frá árinu 2003.

Þá er ekki fleira á dagskrá í þessum þætti.

Sem fyrr eru hlustendur hvattir til að senda athugasemdir, ábendingar, spurningar, hrós eða kvartanir. Það er til dæmis hægt að gera með því að senda skilaboð í gegnum vefinn. Eða með aðstoð Facebook eða Twitter, en tenglar í samfélagsmiðlana eru aðgengilegir frá vefnum ordabokin.is.

Þessum þætti er þá öllum lokið.

Veriði sæl.

Tenglar og ítarefni

Málfarslögreglan – 10. þáttur

Heilir og sælir ágætu hlustendur og verið velkomin í tíunda þátt málfarslögreglunnar.

Með þessum þætti hefst líka önnur þáttaröð, það er að segja ef miðað er við að hver þáttaröð nái yfir eitt ár.

Í þessum þætti verður fjallað um orð ársins. Virkir í athugasemdum fá sína hefðbundnu kennslustund, en við byrjum á nýjum íslenskum orðtökum, eða einu nýju íslensku orðtaki.

Að kasta handklæðinu

Íslensk orðtök eru skemmtileg. Þau auka blæbrigði málsins og gera það litríkara. En til að geta notað þau er gott að vita hvað stendur á bakvið þau.

Mörg vel þekkt íslensk orðtök eru upprunnin í atvinnuháttum sem tíðkuðust á Íslandi allt fram undir þarsíðustu aldamót. Menn láta til dæmis vaða á súðum, sitja við sinn keip, láta reka á reiðanum, fara ekki í grafgötur með eitthvað, fara á fjörurnar við einhvern og hafa bæði tögl og hagldir.

Þessi orðtök sem ég nefndi eru ættuð úr sjósókn og landbúnaði. Eftir því sem færri Íslendingar stunda þessar atvinnugreinar og gamlir atvinnuhættir hverfa missa þessi orðtök smám saman merkingu sína og menn ruglast jafnvel á þeim. Við búum ekki lengur í landbúnaðar- og sjávarútvegssamfélagi og því er eðlilegt að merkingin týnist.

Við megum samt ekki leggja árar í bát, heldur verðum við að róa öllum árum að því að fræða almenning og komandi kynslóðir um merkingu gamalla orðtaka og uppruna þeirra, svo merking þeirra fari ekki forgörðum. Því það er alltaf gott að geta brugðið fyrir sig góðum orðtökum til að krydda málið.

Og svo má líka búa til ný orðtök.

Á dögunum rakst ég til dæmis á orðtakið Kasta, eða henda inn handklæðinu. Það er frekar nýlega tilkomið inn í íslensku. Elsta dæmið sem ég fann var með aðstoð vefsins Tímarit.is. Þar eru elstu dæmin um orðtakið frá því í nóvember 2002.

En notkun þess fór á flug árin 2016 og 2017, eftir því sem Google frændi segir. Einkum hefur það verið notað í íþróttafréttum, en það hefur rutt sér til rúms á öðrum vettvangi, til dæmis í fréttum um stjórnarmyndanir og um breytingar á lífsviðurværi áhrifavalda á samfélagsmiðlum.

En semsagt.

Að kasta inn handklæðinu er bein þýðing úr enska orðtakinu throw in the towel og þýðir að gefast upp þegar maður er kominn í vonlausa stöðu og ekkert bíður manns nema ósigur.

Orðtakið er komið úr hnefaleikaíþróttinni, og hefur verið þekkt í ensku frá upphafi síðustu aldar, eða a.m.k. frá árinu 1913.

Orðtakið er vísun í það þegar boxari er að tapa í bardaga og þjálfari hans eða aðstoðarmaður kastar handklæði að andstæðingnum til merkis um að bardaganum sé lokið.

Ég fagna þessu nýja orðtaki, þó að það sé ættað beint úr ensku. Þetta er góð viðbót við orðtakaflóruna sem þegar er til í íslensku. Við megum ekki kasta inn handklæðinu og hætta að nota orðtök þó að menn gleymi ef til vill merkingu þeirra eftir því sem atvinnuhættir breytast. Þetta sýnir að íslenskan er ekki bara búin til og framleidd af sérfræðingum á skrifstofum, heldur tökum við öll þátt í að móta hana og skapa.

Næst á dagskrá er svo að búa til íslensk orðtök frá grunni en ekki bara þýða upp úr ensku. Ég hvet hlustendur hér með til að búa til og taka upp ný orðtök eftir þörfum, til að bragðbæta tungumálið og gera það líflegra.

Ókeypis ráð til virkra í athugasemdum

Áður fyrr í íslensku var gerður greinarmunur á framburði á i og y. Þessi munur er nú meira og minna horfinn úr framburðinum en er ennþá notaður í stafsetningu. Þeir sem vilja tjá sig í ritmáli þurfa að kynna sér vel reglur um notkun i og y. Því þær virðast ekki vera kenndar í þessum Skóla lífsins, sem margir virkir í athugasemdum hafa gengið í.

Hér eru nokkur orð sem eru skrifuð með einföldu i:

  • Beita
  • Leita
  • Fleiri
  • Finnst, t.d. í Mér finnst.

Nokkur orð sem eru skrifuð með y:

  • Áfrýja
  • Fyrir (Fyrra i-hljóðið er y og það seinna er einfalt i)
  • Mynd er alltaf með y. Í orðinu Ímynda er í-hljóðið skrifað með einföldu í en, y-hljóðið er skrifað með y.

Hlustendur geta kynnt sér nánari reglur um notkun i og y í Auglýsingu um íslenskar ritreglur frá árinu 2016.

Tengill í ritreglurnar fylgir með tíunda þætti á vefnum orðabókin.is.

Orð ársins 2017

Kosningin um orð ársins 2017 hófst 6. nóvember síðastliðinn. Í fyrri umferð mátti velja fimm orð af 56 og gefa þeim stig frá einum upp í fimm. 523 atkvæði bárust í fyrri umferðinni.

Tíu stigahæstu orðin komust komust áfram í aðra umferð. Þau eru, í öfugri stigaröð:

  • Kjánaprik
  • Hrútskýring
  • Snappari
  • Lúxusvandamál
  • Veipa
  • Þyrilsnælda
  • Epalhommi
  • Brómantík
  • Djammviskubit
  • Fössari

Í seinni umferðinni máttu þátttakendur kjósa eitt af þessum tíu orðum. Þar bárust 1266 atkvæði.

Og orðið sem fékk flest atkvæði í seinni umferð, eða 224, er djammviskubit. Það skoðast því réttkjörið orð ársins 2017 hjá Málfarslögreglunni.

Samkvæmt útskýringu á vefnum orðabókin.is er Djammviskubit það sama og samviskubit sem margir fá daginn eftir of mikla áfengisneyslu. Orðið er sett saman úr orðunum Djamm og Samviskubit.

Orðið er samt ekki alveg nýtt af nálinni. Elsta dæmi um orðið sem ég hef fundið er úr DV frá 7. júní 2005. Í blaðinu er dálkur sem heitir Heitasta slangrið. Þar er djammviskubit sagt vera samviskubit eftir djammið. Í sama dálki eru til dæmis nefnd orðin eiba, pepsívængir, blekaður og að taka Bó á þetta.

En það er nú önnur saga.

Hlustendur sem vilja kynna sér niðurstöður atkvæðagreiðslunnar nánar geta skoðað töflureiknisskjal sem fylgir með þessum þætti á vefnum orðabókin.is. Af sama vef geta hlustendur sent skilaboð ef þeim liggur eitthvað á hjarta.

Ef einhver þekkir eldri dæmi um orðið djammviskubit má viðkomandi gjarnan láta vita, til dæmis með því að hafa samband með aðstoð Facebook eða Twitter.

Ég þakka öllum fyrir þátttökuna í atkvæðagreiðslunni. Án ykkar hefði þetta aldrei orðið mögulegt.

Og hlustendum þakka ég fyrir áheyrnina, því nú er hugmyndabrunnurinn tæmdur í bili.

Verið sæl.