Hleðslukvíði er orð ársins 2022

Kosningu um orð ársins 2022 hjá Orðabókinni er nú lokið. Sigurvegarinn í kosningunni er Hleðslukvíði.

Hleðslukvíði er tilfinning sem eigendur rafmagnsbíla og rafmagnshjóla kannast við þegar þau óttast að komast ekki á leiðarenda með orkunni sem er eftir á batteríinu.

Við könnumst líka við þessa tilfinningu þegar við höfum áhyggjur af því að rafhlaðan í símanum tæmist við óheppilegar aðstæður, t.d. úti á djamminu eða á ferðalögum þar sem engin rafmagnsinnstunga er nærri.

Þakka öllum sem tóku þátt í kosningunni. Verið dugleg að búa til ný orð árið 2023.

Og ég lofa að skrifa um eitthvað annað en orð ársins á þennan vef á þessu ári, og hafa hann virkari en á því síðasta. Það verður ekki erfitt.

Orð ársins 2022 hjá nokkrum öðrum:

Orð ársins hjá orðabókinni frá upphafi:

Til upprifjunar er hér listi yfir orð ársins hjá Orðabókinni frá upphafi:

Orð ársins 2021

Úrslitin eru ljós í kosningunni um Orð ársins 2021.

Og orð ársins 2021 í Orðabókinni er Óróapúls. Eins og hjá RÚV.

Óróapúls er mikill fjöldi lítilla jarðskjálfta sem verða með örstuttu millibili.

Orðið mun fyrst hafa birst á prenti á litlum og óáberandi stað í tímariti Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja í desember 2014, skv. vefnum timarit.is.

Það var svo á allra vörum í tengslum við jarðhræringar og eldgos á Reykjanesi í febrúar og mars 2021.

Úrslit kosninganna

Í seinni umferð kosninganna stóð valið á milli tíu stigahæstu orðanna úr fyrri umferðinni.

194 atkvæði voru greidd í seinni umferðinni. Hér eru úrslitin úr henni. Orðunum er raðað eftir fjölda atkvæða, með atkvæðafjölda innan sviga:

  1. Óróapúls (39)
  2. Mótefnaöfund (31)
  3. Gosórói (26)
  4. Grímuskylda (25)
  5. Eldfjalladólgur (16)
  6. Slaufunarmenning (16)
  7. Trampólínveður (12)
  8. Rafskotta (11)
  9. Liprunarbréf (9)
  10. Fávitavarpið (8)

Orð ársins 2021 – Seinni umferð

Seinni umferð kosninganna um orð ársins 2021 er opinberlega hafin. Nú á að kjósa eitt af tíu stigahæstu orðunum sem komust áfram úr fyrri umferðinni.

Hér er hægt að taka þátt í kosningunni um orð ársins 2021.

Útskýringarnar á orðunum eru allar á vefnum Orðabókin.is.

Tíu stigahæstu orðin eru, í stafrófsröð:

Úrslit kosninganna verða svo kunngjörð einhverntíma fyrri hluta janúar 2022.

Orð ársins 2021

Fyrri umferð kosningarinnar um orð ársins er nú í fullum gangi. Ef árið 2020 var ár veiru- og faraldsfræðinga (eða faraldursfræðinga?) verður 2021 líklega ár jarðskjálfta- og eldgosasérfræðinga. Það er a.m.k. mikið af skjálfta- og gostengdum orðum á listanum að þessu sinni.

Hér er hægt að taka þátt í valinu á orði ársins 2021.

27 orð berjast um titilinn Orð ársins 2021. Útskýringar á þeim má allar finna á vefnum Orðabókin.is. Þau hafa ekki öll komið til sögunnar á þessu ári, en eiga það sameiginlegt að hafa bæst við safnið undanfarið ár, eða eftir að síðasta kosning hófst, í byrjun nóvember 2020.

Orðin á listanum eru eftirfarandi, í stafrófsröð:

Málfarslögreglan – 15. þáttur

Heil og sæl ágætu hlustendur.

Málfarslögreglan snýr nú aftur úr nokkuð góðu og löngu sumarfríi. Það hefur ýmislegt gengið á sem hefur orðið til þess að þættirnir lögðust í dvala.

Ég hef til dæmis staðið í flutningum og er nú kominn í nýtt og fullkomið upptökustúdíó þar sem aðstæður til hljóðupptöku eru miklum mun betri en á gamla staðnum. Nú get ég haldið áfram með þessa þætti eins og vindurinn, eða jafnvel eins og enginn sé morgundagurinn. (Sem minnir mig á að fjalla um þessi orðtök einhverntíma. Eins og vindurinn. Eða eins og enginn sé morgundagurinn).

Það verður þó ekki í þessum þætti.

En áfram með smjörið.

Hrós þáttarins

Við byrjum á smá hrósi.

Menn geta haft ýmsar skoðanir á Kóka kóla. Besta gosdrykk í heimi, segja sumir. Ameríska auðvaldsdrykknum, segja aðrir. Táknmynd fyrir allt slæmt sem kemur frá Ameríku og er að eyðileggja íslenska siði og menningu.

Sumir elska þennan drykk. Aðrir elska að hata hann.

En hrós dagsins fær fyrirtækið Coca-Cola European Partners Ísland (hér skulum við ekki ræða um nafnið á fyrirtækinu). Því skömmu eftir að síðasti þáttur fór í loftið bárust þær fréttir að fyrirtækið hefði ákveðið að skipta erlendu heiti á einni af framleiðsluvörum sínum út fyrir íslenskt – eða eins mikið og hægt var að gera. Því Coca-Cola Zero Sykur varð Coca-Cola án sykurs.

Áfram íslenska!

Áhrif orða og málfátækt

Það er magnað hvað orð geta haft mikil tilfinningaleg áhrif á fólk. Og þá er ég ekki að tala um orð í samhengi, í ræðu og riti eins og þessi sem ég er að segja núna, heldur einstök orð, eins og þau standa í orðabókinni. Orð eins og sími, flugvél, penni, brauðrist, málverk. Ég gæti nefnt hátt í 100.000 orð í viðbót.

Ég er í hóp á Facebook sem heitir Málvöndunarþátturinn. Á dögunum var þar umræða um orðið flugviskubit. Flugviskubit er samviskubit sem flugfarþegar fá yfir því að ferðast með flugvél, vegna slæmra umhverfisáhrifa frá flugferðum. Skemmtilegt og hnyttið orð, finnst mér. En það eru ekki allir sammála því.

Því mönnum var heitt í hamsi þarna í Málvöndunarþættinum. Gífurlega heitt. Virkir í athugasemdum eru reiðir. Menn tóku upp heykvíslarnar og vildu hefna sín. Fara niður á Austurvöll og mótmæla. Sumir kalla þetta orðskrípi. Sumum var meira að segja svo heitt í hamsi að þeir settu reiðikall við spurninguna um orðið.

Hlustum á nokkur dæmi:

„Ömurlegt“

„Fáviskubit er algengt meindýr í áróðursherferðum. Samviska er þýðingarlán úr conscientia. Orðskrípið flugviskubit er myndað með tilliti til hljóms en ekki hugsunar. Þess vegna er það misheppnað.“

„Hverslags vitleysa er þetta eiginlega? Á þetta að vera íslenskt orð og ef svo er hvað þýðir það eiginlega mér er spurn?“

„Mér finnst flugviskubit alveg rosalega vont orð og ekki í neinu samhengi við það að skammast sín fyrir að fljúga oft. Hvað er flugviska?“

„Hvað þýðir þetta orðskrípi eiginlega?!“

„Flugviska er ónothæft orð. Það er villandi, skýrir sig ekki sjálft, á að merkja allt annað en það segir.“

„sammála. Afspyrnu asnalegt orðskrípi sem þýðir ekkert.“

„„Flugviskubit“ er augljóslega mjög villandi hugtak yfir fyrirbæri sem áður hefur verið nefnt „flugskömm“. Sá sem hefur flugvisku hlýtur að vera „flugvitur“, þ.e. hann hlýtur að hafa mikla þekkingu á og reynslu af flugi.“

„Flugviskubit? Eitthvað sem bítur í flugviskuna? Hvað merkir flugviska? Hvor býr yfir flugvisku, flugmaðurinn með sitt vit á eðli flugs og flugvéla eða flugfarþeginn sem veit lítið annað um flug og flugvélar heldur en það hvernig flugvélar líta út og hvar farþegasætin er að finna? Orðskrípið „flugviskubit“ er m.ö.o. byggt á misskilningi. Þegar hafa komið fram nothæf orð um fyrirbærið, s.s. flugskömm, flugskömmusta o.s.frv.“

Þið verðið að afsaka, en ég kemst ekki hjá því að lesa þessar athugasemdir virkra öðruvísi en með gömlukallaröddum.

En þetta er greinilega hitamál. Það tekur tíma að venjast nýyrðum í málinu. Við tökum þau ekki í sátt fyrr en við vitum hvað þau þýða. Og jafnvel ekki þá.

Ég hef til dæmis fengið nokkur skilaboð frá lesendum orðabókarinnar um orðið hrútskýring. Sumir virðast einfaldlega ekki vera sáttir við að það sé til yfir höfuð.

Annað dæmi er úr lítilli frétt um streymisveituna Disney+, sem birtist á Vísi fyrir nokkrum vikum.

Í fréttinni komu meðal annars við sögu orðin Hámhorf og Höskuldarviðvörun. Og Virkir fóru á flug í athugasemdakerfinu. Einn bendir á þessi skemmtilegu nýyrði. Og annar svarar:

Kalla það nú frekar málfátækt „blaðamanns“ „Hámhorf“ = ? „Ágætishliðarverkun“ = ? eða „höskuldarviðvaranir“ = ?
Maraþonáhorf, Aukavirkni, og Upplýsingaleki… allt fyrir hendi án þess að blaðaður [svo] viti af því, eða þekkir íslensku ekki betur kannski hvað veit maður….

Í áðurnefndum Málvöndunarþætti á Facebook hneykslast svo annar á þessum sömu orðum. Viðrar jafnvel þá hugmynd að þessi orðanotkun sé til komin vegna þess að viðkomandi blaðamaður hafi „flosnað upp úr barnaskóla 10 eða 11 ára vegna tregðu í höfði“.

Æi… virk í athugasemdum! Þið eruð stundum svo fyndin!

Hvað sjálfan mig snertir, þá var ég aldrei sáttur við orðið þúsöld, sem þýðir þúsund ár. Og mér tókst aldrei almennilega að venjast því að kalla internetið alnetið. Mér finnst orðin brúðkaupsfínn, lasarus og bumbubúi vera skemmtilega óþolandi. Og svona fyrst ég er byrjaður, þá hef ég aldrei kunnað almennilega við orðin duttlungar og duttlungafullur.

Það er einmitt snilldin við íslensku (og raunar flest tungumál) að það er hægt að nota fleiri en eitt orð yfir sama hlut eða hugtak. Það ber ekki endilega vott um „málfátækt „blaðamanns““ að nota orðin hámhorf og höskuldarviðvörun, heldur fremur hið gagnstæða. Nýyrðin í fréttinni um streymisveitu Disney eru skemmtileg viðbót við íslensku. Og orðin sem viðkomandi virkur í athugasemdum benti á eru líka prýðisgóð.

Við megum vissulega hafa skoðun á því hvort nýyrði séu vel eða illa heppnuð, óþolandi eða ekki. Ef við erum ósátt við tilvist þeirra eða finnst þau misheppnuð, þá bara notum við þau ekki. Við getum þá líka bent á önnur orð sem okkur finnst betur heppnuð og jafnvel hvatt aðra til að nota í staðinn.

Það þarf ekki að vera bara eitt orð til yfir hvern hlut eða hugtak. Verum frekar ánægð með að einhver skuli búa til nýyrði og að aðrir noti þau. Þannig lifir og dafnar tungumálið. Íslenskan þarf á því að halda.

Orð ársins

Nú er farið að síga á seinni hluta ársins 2019. Það þýðir bara eitt: Það er kominn tími til að velja orð ársins.

Sjötíu orð keppast um titilinn orð ársins 2019 á vefnum orðabókin.is. Í fyrri umferð kosninganna, sem nú stendur yfir, má velja fimm orð og gefa þeim stig frá einum upp í fimm. Tíu stigahæstu orðin komast áfram í seinni umferð kosninganna, sem hefst í byrjun desember.

Á vefnum ordabokin.is má nálgast tengil í atkvæðagreiðsluseðilinn – og eru hlustendur hvattir til að nýta atkvæðisrétt sinn og hafa þannig áhrif á framtíð íslenskunnar.

Þessi þáttur er þá senn á enda runninn.

Ég vil hvetja hlustendur til að gefa raddsýni á vefnum samromur.is og auka þannig möguleika íslenskunnar til að lifa af í stafrænum heimi.

Ég minni að lokum á samfélagsmiðla Málfarslögreglunnar á Facebook og Twitter. Tengla í þá ásamt fleira skemmtilegu og spennandi efni eru aðgengilegir á vefnum ordabokin.is.

Veriði sæl.

Orð ársins 2018 – seinni hluti

Seinni umferð kosninganna um orð ársins 2018 er opinberlega hafin.

Í henni má kjósa eitt af þeim tíu orðum sem fengu flest stig í fyrri umferðinni. Þau hafa ekki öll komið við sögu á þessu ári – sum þeirra hafa verið til talsvert lengi – en þau eiga það sameiginlegt að hafa komist í orðabókina á milli 1. nóvember 2017 og 31. október 2018.

Orðin eru, í stafrófsröð:

Smelltu hér til að kjósa.

Málfarslögreglan – 8. þáttur

Heilir og sælir ágætu hlustendur og verið velkomin í áttunda þátt málfarslögreglunnar.

Númer í stað nafna

Við byrjum á að líta í dagbók lögreglunnar.

Á vef Vísis mátti lesa eftirfarandi texta laugardagskvöldið 16. september síðastliðinn:

Kona var handtekin vegna gruns um fjársvik í verslunarmiðstöð í hverfi 103 rétt fyrir 17 í dag, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Síðar í sömu frétt mátti lesa:

Þá var töluverður erill hjá lögreglu fram eftir degi í dag en klukkan 11:30 var tilkynnt um nytjastuld á bifreið í hverfi 108 í Reykjavík og um klukkan 13 var tilkynnt um þjófnað úr verslun í sama hverfi.

Tókuð þið eftir þessu:

„Hverfi 103 og hverfi 108.“

Ég veit ekki hvort þetta kemur svona frá lögreglunni sjálfri eða frá fréttamanni Vísis.

Kannski hef ég misst af einhverju, en hvenær hættum við að kalla hverfin sínum réttu nöfnum og fórum að nefna þau eftir póstnúmerum?

Ég er reyndar orðinn vanur því að miðbær Reykjavíkur og nágrenni hans skuli vera nefnd 101. Þar á skáldsaga Hallgríms Helgasonar, 101 Reykjavík, sjálfsagt einhvern hlut að máli. En hvenær var byrjað að kalla Háaleitis- og Bústaðahverfið hverfi 103 og 108?

Verður kannski ekki langt að bíða þess að við munum búa í bæjum 220, 210 og 200 en ekki í Hafnarfirði, Garðabæ og Kópavogi?

Eða förum við kannski einhverntíma til landa 45, 49 eða 34 í staðinn fyrir að fara til Danmerkur, Þýskalands eða Spánar?

Ég veit ekki með ykkur, en mér finnst eitthvað ópersónulegt og stofnanalegt við það að nota þessi númer, sérstaklega þegar hægt er að nota gamalgróin nöfn í staðinn fyrir númerin.

Ég vil helst ekki vera í 101, heldur niðri í miðbæ Reykjavíkur. Ég vil ekki vera í 220, heldur í Hafnarfirði. Og ég vil ekki fara til 310, 800 eða 600, heldur upp í Borgarnes, austur á Selfoss eða til Akureyrar.

Það er nóg að þurfa að búa við kennitölublæti íslenskra stofnana og þjónustufyrirtækja. Við þurfum ekki að láta póstnúmerakerfið yfirtaka nafnahefðina hjá okkur líka. Ég vona að minnsta kosti að við getum áfram notað hefðbundin nöfn á sveitarfélögum, bæjum, bæjarhlutum og öðrum stöðum á landinu í staðinn fyrir þessi númer.

Og þá að föstum liðum eins og venjulega:

Ókeypis ráð til virkra í athugasemdum

Stundum þegar ég slysast til að lesa umræður virkra í athugasemdum rekst ég á að einhver er kallaður forheimskur.

Nokkur dæmi um þetta orð má líka finna á vefnum tímarit.is, það elsta frá 1970, og það má meira að segja finna dæmi um þetta orð í Orðabók háskólans. Dæmið sem notað er þar er úr bókinni Slitur eftir Brodda Jóhannesson, frá árinu 1978.

Leyfið mér hér með að leiðrétta þennan misskilning: Lýsingarorðið forheimskur er ekki til, eða ætti a.m.k. ekki að vera til.

Við könnumst við orðið forljótur. Samkvæmt mínu viti er for- í forljótur það sama og skítur eða drulla og þegar menn eru sagðir forljótir er þeim sem sagt líkt við skít, eða drullu.

En menn geta ekki verið forheimskir.

Aftur á móti er til sagnorðið forheimska, sem þýðir að gera einhvern heimskan og nafnorðið forheimskun er svo athöfnin, þ.e. að gera einhvern heimskan.

Þessi tvö orð eru líklega komin úr dönsku. Þar er forskeytið for- það sama og í dönsku orðunum fordumme, sem hefur sömu merkingu og forheimska, forbedre sem þýðir að bæta eitthvað, eða gera eitthvað betra og fordanske þýðir að snara eitthvað eða þýða eitthvað yfir á dönsku.

En menn geta ekki verið forheimskir

Ég vona að þessi misskilningur sé hér með leiðréttur og látum kommentakerfið og virka í athugasemdum ekki forheimska okkur.

Orð ársins 2017

Þá að kosningum.

Nú er farið að síga á seinni hluta ársins 2017. Og þegar áramót nálgast fara í gang kosningar um hitt og þetta ársins. Við kjósum mann ársins, lag ársins, plötu ársins, kvikmynd ársins, bók ársins og ýmislegt fleira ársins.

Málfarslögreglan ætlar ekki að láta sitt eftir liggja og stendur því fyrir vali á orði ársins. Kosningunni um orð ársins verður skipt í tvær umferðir. Í fyrri umferð má velja úr lista af 56 orðum. Orðin á listanum hafa að vísu ekki öll komið til sögunnar á þessu ári, en þau eiga það sameiginlegt að hafa komist í orðabókina á vefnum ordabokin.is undanfarið ár.

Úr þessum lista má velja fimm orð og gefa þeim stig frá einu og upp í fimm. Tíu stigahæstu orðin komast svo áfram í seinni umferð. Kosningin fer fram á vefnum og má nálgast tengilinn á hana á vefnum ordabokin.is. Hlustendur eru hér með hvattir til að taka þátt í kosningunni og hafa áhrif á framtíð íslenskunnar.

Þá er hugmyndabrunnurinn tæmdur að þessu sinni. Ég minni að lokum á síður Málfarslögreglunnar á Facebook og Twitter og á vefinn ordabokin.is. Þar geta hlustendur skoðað orðskýringar og sent skilaboð ef þeim liggur eitthvað á hjarta.

En þættinum er þá lokið að þessu sinni.

Lifið vel og lengi en ekki í fatahengi.