Orð ársins 2023 – úrslitin

Strandpína. Orð ársins 2023.

Það er kominn tími til að upplýsa um það hvert orð ársins 2023 er hjá Orðabókinni. Og ekki seinna vænna. Því febrúar er runninn upp!

Tuttuguogfjögur orð tóku þátt í valinu í upphafi.

Tíu stigahæstu orðin komust áfram í aðra umferð. Þau eru, í stafrófsröð:

Þið kusuð í seinni umferðinni. Og orðið sem fékk flest atkvæði í henni er strandpína.

Í öðru sæti varð gosglanni og í þriðja sæti varð flokkunarkvíði.

Strandpína er annað orð yfir sólbruna.

Það þekkja öll sem hafa legið of lengi í sólbaði, t.d. á ströndinni á Tene að taka tásumyndir, hvað það getur verið vont að sólbrenna. Sérstaklega fyrstu dagana eftir brunann.

Ef maður liggur of lengi í sólinni án þess að nota sólarvörn fær maður strandpínu.

Þakka ykkur öllum fyrir þátttöku í atkvæðagreiðslunni. Og varið ykkur á strandpínunni næsta sumar!

Fyrirvari:

Til viðkvæmra sálna og virkra í athugasemdum:

Það er allt í lagi að það séu til fleiri en eitt orð sem merkja það sama. Það þarf ekki endilega að vera til bara eitt orð yfir hvern hlut eða fyrirbæri. Ef það eru til einhver orð sem okkur er illa við eða þolum ekki, þá er bara eitt að gera. Og það er að nota þau ekki!

Orð ársins 2023

Atkvæðagreiðslan um orð ársins 2023 er nú hafin.

Tuttugu-og-fjögur orð berjast um titilinn að þessu sinni. Þau hafa ekki öll komið til sögunnar á þessu ári en þau eiga það sameiginlegt að hafa birst í Orðabókinni undanfarið ár.

Eins og venjulega verður kosningunum skipt niður í tvær umferðir. Í fyrri umferðinni má velja fimm orð og gefa þeim stig. Orðinu sem þú vilt setja í fyrsta sæti gefurðu 5 stig, orðinu í öðru sæti gefurðu 4 stig og svo framvegis.

Tíu stigahæstu orðin komast áfram í seinni umferðina, sem hefst í byrjun desember.

Smelltu hér til að taka þátt í valinu eða hér á vef Orðabókarinnar.

Orðin sem berjast um titilinn eru eftirfarandi:

Hleðslukvíði er orð ársins 2022

Kosningu um orð ársins 2022 hjá Orðabókinni er nú lokið. Sigurvegarinn í kosningunni er Hleðslukvíði.

Hleðslukvíði er tilfinning sem eigendur rafmagnsbíla og rafmagnshjóla kannast við þegar þau óttast að komast ekki á leiðarenda með orkunni sem er eftir á batteríinu.

Við könnumst líka við þessa tilfinningu þegar við höfum áhyggjur af því að rafhlaðan í símanum tæmist við óheppilegar aðstæður, t.d. úti á djamminu eða á ferðalögum þar sem engin rafmagnsinnstunga er nærri.

Þakka öllum sem tóku þátt í kosningunni. Verið dugleg að búa til ný orð árið 2023.

Og ég lofa að skrifa um eitthvað annað en orð ársins á þennan vef á þessu ári, og hafa hann virkari en á því síðasta. Það verður ekki erfitt.

Orð ársins 2022 hjá nokkrum öðrum:

Orð ársins hjá orðabókinni frá upphafi:

Til upprifjunar er hér listi yfir orð ársins hjá Orðabókinni frá upphafi:

Orð ársins 2021

Úrslitin eru ljós í kosningunni um Orð ársins 2021.

Og orð ársins 2021 í Orðabókinni er Óróapúls. Eins og hjá RÚV.

Óróapúls er mikill fjöldi lítilla jarðskjálfta sem verða með örstuttu millibili.

Orðið mun fyrst hafa birst á prenti á litlum og óáberandi stað í tímariti Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja í desember 2014, skv. vefnum timarit.is.

Það var svo á allra vörum í tengslum við jarðhræringar og eldgos á Reykjanesi í febrúar og mars 2021.

Úrslit kosninganna

Í seinni umferð kosninganna stóð valið á milli tíu stigahæstu orðanna úr fyrri umferðinni.

194 atkvæði voru greidd í seinni umferðinni. Hér eru úrslitin úr henni. Orðunum er raðað eftir fjölda atkvæða, með atkvæðafjölda innan sviga:

  1. Óróapúls (39)
  2. Mótefnaöfund (31)
  3. Gosórói (26)
  4. Grímuskylda (25)
  5. Eldfjalladólgur (16)
  6. Slaufunarmenning (16)
  7. Trampólínveður (12)
  8. Rafskotta (11)
  9. Liprunarbréf (9)
  10. Fávitavarpið (8)