Skútur og önnur óorð

Þættinum hefur borist bréf. Eða ekki alveg bréf. Raunar er það athugasemd við orðið Rafskúta í Orðabókinni, frá ónefndum lesanda. Það er svohljóðandi:

Rafskúta er ekki hjól heldur bátur með seglum og rafmagnsmótor. Eruð þið algerir aular

Ég svaraði þessari athugasemd:

Takk fyrir ábendinguna.

Það er satt – maður hugsar vissulega líka um bát með segli og mótor þegar maður heyrir minnst á rafskútu.

En þetta hefur líka verið notað um rafmagnshlaupahjól. Það sést t.d. ef leitað er að orðinu „rafskúta“ á Google. Þá koma upp myndir og síður með rafmagnshlaupahjólum.

Það þarf s.s. ekki að vera að fólk sé „algjörir aular“ bara þó að það búi til nýja merkingu fyrir gömul orð. Þó að það sé auðvelt að kalla fólk illum nöfnum á bakvið tölvuskjá og nafnleynd á internetinu.

Þetta orð er s.s. til og fólk er að nota það út um allt, hvort sem okkur líkar það betur eða verr.

En ef okkur er illa við eitthvað orð (mér er sjálfum illa við fullt af orðum), þá er bara eitt að gera, og það er að nota þau ekki.

Og þú ert líka frábær.

Og annað svar barst frá sama lesanda:

Þakka þér fyrir póstinn

Ætlaði ekki að vera dónalegur en það er til íslenskt orð fyrir þetta og þó að illa talandi einstaklingar noti ensku þá er það ekki íslenska. Ennfremur þá er engin skilgreining á orðinu varðandi bát með seglum hjá ykkur þarf ekki að bæta því við skilgreininguna ef þið eruð orðabók. Eða er einungis ein skilgreining til?

Skv ykkar skilgreinig á að þetta sé víða notað vantar þá ekki orðin

Plís
Fokk jú
Póster ofl.

Í orðabókina? Sömu rök hljóta að eiga við þar.

Þessi orð eru mun meira notuð en rafskútuorðið, ásamt mörgum öðrum. Hvernig væri að orðabók sem þykist fjalla um íslensku haldi sig við hana og þori að taka afstöðu. Enska er enska þó hún sé borin fram með íslenskum hljóðtáknum

Svar óskast.

Og ég svaraði

Það er sjálfsagt að bæta skilgreiningu um bátinn við þetta orð í Orðabókinni. Og ég er m.a.s. búinn að því.

Ég skil hugmyndina sem þú hefur. Og ég er sammála þér – ég vil veg íslenskunnar sem mestan! Við megum ekki láta þetta tungumál deyja út. (Vil samt nefna að orð eru ekki borin fram með hljóðtáknum, heldur skrifuð með hljóðtáknum, en ég ætla ekki að hengja mig í smáatriði).

Við höldum tungumálinu meðal annars á lífi með nýsköpun – til dæmis með því að búa til ný orð yfir gamla og nýja hluti og hugtök, sama hver aðferðin við nýyrðasköpunina er. Þess vegna er rafskútan í Orðabókinni. Það þarf ekki endilega að vera bara til eitt orð yfir hvern hlut.

Í tilfelli rafskútunnar er notuð svokölluð aðlögun við nýyrðasmíðina. Hún er fullgild í íslensku og öðrum tungumálum við að búa til orð sem nú eru samþykkt í tungumálinu. Þá er orð af erlendum uppruna tekið inn í málið og lagað að íslensku málkerfi, þó að það beri þess merki að vera erlent. Scooter verður hér að skútu. Dæmi um fleiri orð smíðuð með þessari aðferð eru prestur, biskup, bíll, jeppi, gír, skáti, djass, popp, rokk, pítsa, spagettí og partí. Þessi orð eru öll viðurkennd í íslensku og eru í Íslenskri orðabók. Dæmi um íslensk orð sem hafa verið löguð að öðrum tungumálum eru saga og geysir.

Hér má líka velta fyrir sér mismunandi hlutverkum og tegundum orðabóka. Sumar þeirra leggja mesta áherslu á að segja hvernig við eigum að tala eða skrifa, eða hvernig höfundar þeirra eða ritstjórar vilja að við tjáum okkur, hvaða orð við notum o.s.frv.

Aðrar orðabækur lýsa því hvernig við tölum, skrifum eða tjáum okkur í raun og veru. Þessi orðabók er í síðarnefnda flokknum og leggur mesta áherslu á nýyrði og slangurorð. Ég tel mig því hafa verið ófeiminn við að taka afstöðu á þessum vef.

Það má líka minnast á að orð eins og fokk, fokking og sjitt, eru nú þegar í Íslenskri orðabók, frá 2007. (Svo skal böl bæta að benda á eitthvað annað!) Þau eru að vísu sögð óformleg eða merkt með tveimur spurningamerkjum, sem þýðir að þau eru „framandorð sem vafi leikur á hvort talist getur íslenskt, sletta“. En þau eru samt í Íslenskri orðabók.

Og það getur vel verið að einhverntíma bæti ég við þessum orðum sem þú nefnir. Því eins og ég sagði áður er hér lögð mest áhersla á slangur og nýyrði.