Málfátækt „blaðamanna“

Á Vísi í dag er lítil frétt um streymisveituna Disney+.

Í fréttinni koma meðal annars við sögu orðin Hámhorf og Höskuldarviðvörun.

Virkir fóru á flug í athugasemdakerfinu. Einn bendir á þessi skemmtilegu nýyrði. Og annar svarar:

Kalla það nú frekar málfátækt „blaðamanns“ „Hámhorf“ = ? „Ágætishliðarverkun“ = ? eða „höskuldarviðvaranir“ = ?

Maraþonáhorf, Aukavirkni, og Upplýsingaleki… allt fyrir hendi án þess að blaðaður viti af því, eða þekkir íslensku ekki betur kannski hvað veit maður….

Viðbót:

Í Málvöndunarþættinum á Facebook hneykslast svo annar á þessum sömu orðum. Viðrar jafnvel þá hugmynd að þessi orðanotkun sé til komin vegna þess að viðkomandi blaðamaður hafi „flosnað upp úr barnaskóla 10 eða 11 ára vegna tregðu í höfði“.

Æi… virk í athugasemdum! Þið eruð stundum svo fyndin!

Það er einmitt snilldin við íslensku (og raunar flest tungumál) að það er hægt að nota fleiri en eitt orð yfir sama hlut eða hugtak. Þetta ber ekki endilega vott um „málfátækt „blaðamanns““. Kannski fremur hið gagnstæða. Nýyrðin í fréttinni eru skemmtileg viðbót við íslensku. Og orðin sem viðkomandi bendir á í þessari athugasemd eru líka prýðisgóð.

Hættum að fjargviðrast yfir orðanotkun. Það þarf ekki að vera bara eitt orð til yfir hvern hlut eða hugtak. Verum frekar ánægð með að einhver skuli búa til nýyrði og að aðrir noti þau. Þannig lifir og dafnar tungumálið. Íslenskan þarf á því að halda.