Af-mæli

Afmæli eru yfirleitt gleðiefni. Afmæli er tiltekinn dagur mánaðar sem maður fæddist á. Það getur líka verið dagur sem einhver viðburður varð eða eitthvað fyrirtæki, stofnun eða félagasamtök tóku til starfa. Afmælisdagurinn er gott tilefni til að gera vel við sig í hópi vina og kunningja.

En orðið afmæli er ekki jafn skemmtilegt. Eftir því sem ég hugsa meira um þetta orð finnst mér það sífellt þunglyndislegra og meira niðurdrepandi.

Í orðinu felst að tiltekinn tími mælist af ævinni. Það minnir okkur á að ævin líður, við verðum ekkert yngri, þetta fer nú bráðum að verða búið hjá okkur.

Eða eins og Halldór Halldórsson orðar það árið 1958:

Ég hygg, að frummerking orðsins afmæli sé „afmældur tími“, en sé síðar haft um daginn þegar afmörkun tímans fer fram. Orðið er myndað af orðasambandinu mæla af eða sögninni afmæla, sem kunn er frá fyrri hluta 18. aldar.

Halldór Halldórsson. Örlög orðanna – Þættir um íslenzk orð og orðtök. 1958.

Orðið fæðingardagur hefur aftur á móti yfir sér léttara yfirbragð, eftir því sem ég hugsa meira um það.

Fæðingardagur er líka mun eldri í málinu en afmæli. Elsta dæmið um fæðingardag í Ritmálssafni orðabókar Háskólans er frá miðri eða seinni hluta 16. aldar. Elsta dæmi um afmæli í sama riti er hins vegar frá 17. – 18. öld.

Ég sé fyrir mér fund hjá siðanefnd kirkjunnar á Íslandi einhverntíma á 17. öld, þar sem ákveðið er að leggja niður orðið fæðingardag en taka upp afmæli í staðinn. Því það má ekki vera gaman á Íslandi. Menn mega ekki skemmta sér á fæðingardögum sínum. Kirkjan er allsráðandi og allir verða að hugsa um hana. Fundurinn hefur e.t.v. hljómað einhvernveginn svona:

Biskup: Velkomnir á þennan fund siðanefndar íslensku þjóðkirkjunnar. Borist hefur tillaga um að leggja niður orðið fæðingardagur en taka upp orðið afmæli í staðinn. Því við viljum ekki að fólk skemmti sér, heldur minnist þess að lífið styttist sífellt. Það verður að hugsa um kirkjuna og pínu frelsara vors. Eru allir samþykkir þessari breytingu?
Fundarmenn: Já.

Afmæli og fæðingardagur merkja ekki alveg það sama. Skoðum aftur hvað Halldór segir:

Ég veit ekki, hvort mönnum er almennt ljóst, að orðin fæðingardagur og afmæli samsvara ekki hvort öðru nákvæmlega að merkingu. Orðið fæðingardagur er bæði haft um „daginn, sem maður fæðist“ og sama dag á ári hverju upp frá því. Orðið afmæli er hins vegar ekki haft um daginn, sem menn fæðast. Orðið afmæli er auk þess notað um minningardaga um atburði, félagastofnanir o.s.frv., t.d. 900 ára afmæli kristnitökunnar, 30 ára afmæli Alþýðusambandsins.

Halldór Halldórsson. Örlög orðanna – Þættir um íslenzk orð og orðtök. 1958.

Í stað þess að óska fólki til hamingju með afmælið legg ég til að við förum að dæmi helstu nágrannaþjóða okkar og óskum því til hamingju með fæðingardaginn. Sbr. Birthday í ensku, Fødselsdag í norðurlandamálum og Geburtstag í þýsku. En tölum áfram um afmæli þegar rætt er um stofndaga fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka eða þegar við minnumst einhvers atburðar.

Ég vil því óska öllum sem ég þekki til hamingju með fæðingardaginn.

Sjá einnig:

Vísindavefurinn: Hver er uppruni orðsins afmæli? Af hverju er ekki notað svipað orð og til dæmis í ensku og dönsku?

Áhrif orða

Það er magnað hvað orð geta haft mikil tilfinningaleg áhrif á fólk. Og þá er ég ekki að tala um orð í samhengi, í ræðu og riti, heldur einstök orð, eins og þau standa í orðabókinni. Orð eins og sími, flugvél, penni, brauðrist, málverk. Ég gæti nefnt hátt í 100.000 orð í viðbót.

Ég er í hóp á Facebook sem heitir Málvöndunarþátturinn. Fyrir skömmu hófst þar umræða um orðið flugviskubit. Flugviskubit er samviskubit sem flugfarþegar fá yfir því að ferðast með flugvél, vegna slæmra umhverfisáhrifa frá flugferðum. Skemmtilegt og hnyttið orð, finnst mér. En það eru ekki allir sammála því.

Því mönnum var heitt í hamsi þarna í Málvöndunarþættinum. Gífurlega heitt. Virkir í athugasemdum eru reiðir. Menn tóku upp heykvíslarnar og vildu hefna sín. Fara niður á Austurvöll og mótmæla. Sumir kalla þetta orðskrípi. Sumum var meira að segja svo heitt í hamsi að þeir settu reiðikall við spurninguna um orðið.

Skoðum nokkur ummæli:

„Ömurlegt“

„Fáviskubit er algengt meindýr í áróðursherferðum. Samviska er þýðingarlán úr conscientia. Orðskrípið flugviskubit er myndað með tilliti til hljóms en ekki hugsunar. Þess vegna er það misheppnað.“

„Hverslags vitleysa er þetta eiginlega? Á þetta að vera íslenskt orð og ef svo er hvað þýðir það eiginlega mér er spurn?“

„Mér finnst flugviskubit alveg rosalega vont orð og ekki í neinu samhengi við það að skammast sín fyrir að fljúga oft. Hvað er flugviska?“

„Hvað þýðir þetta orðskrípi eiginlega?!“

„Flugviska er ónothæft orð. Það er villandi, skýrir sig ekki sjálft, á að merkja allt annað en það segir.“

„sammála. Afspyrnu asnalegt orðskrípi sem þýðir ekkert.“

„„Flugviskubit“ er augljóslega mjög villandi hugtak yfir fyrirbæri sem áður hefur verið nefnt „flugskömm“. Sá sem hefur flugvisku hlýtur að vera „flugvitur“, þ.e. hann hlýtur að hafa mikla þekkingu á og reynslu af flugi.“

„Flugviskubit? Eitthvað sem bítur í flugviskuna? Hvað merkir flugviska? Hvor býr yfir flugvisku, flugmaðurinn með sitt vit á eðli flugs og flugvéla eða flugfarþeginn sem veit lítið annað um flug og flugvélar heldur en það hvernig flugvélar líta út og hvar farþegasætin er að finna? Orðskrípið „flugviskubit“ er m.ö.o. byggt á misskilningi. Þegar hafa komið fram nothæf orð um fyrirbærið, s.s. flugskömm, flugskömmusta o.s.frv.“

Þetta er greinilega hitamál. Það tekur tíma að venjast nýyrðum í málinu. Við tökum þau ekki í sátt fyrr en við vitum hvað þau þýða. Og jafnvel ekki þá.

Ég hef til dæmis fengið nokkur skilaboð frá lesendum orðabókarinnar um orðið hrútskýring. Sumir virðast einfaldlega ekki vera sáttir við að það sé til yfir höfuð.

Hvað sjálfan mig snertir, þá var ég aldrei sáttur við orðið þúsöld, sem þýðir þúsund ár. Og mér tókst aldrei almennilega að venjast því að kalla internetið alnetið. Mér finnst orðin brúðkaupsfínn, lasarus og bumbubúi vera skemmtilega óþolandi. Og svona fyrst ég er byrjaður, þá hef ég aldrei kunnað almennilega við orðin duttlungar og duttlungafullur.

En þetta er einmitt fegurðin við íslenskuna: Við getum búið til ný orð og hugtök ef okkur finnst þau vanta í málið. Það hefur lítið upp á sig að kvarta yfir tilvist orða. Einhverjir hafa búið þau til af því að þeim fannst þau vanta. Orðin eru til og einhverjir nota þau. Látum þá svo vera. Slökum á og lifum og njótum.

Við megum vissulega hafa skoðun á því hvort nýyrði séu vel eða illa heppnuð, óþolandi eða ekki. Ef við erum ósátt við tilvist þeirra eða finnst þau misheppnuð, þá bara notum við þau ekki. Við getum þá líka bent á önnur orð sem okkur finnst betur heppnuð og jafnvel hvatt aðra til að nota í staðinn.

Verum bara ánægð með að það séu einhverjir þarna úti sem búa til nýyrði handa okkur sem vantar í tungumálið og aðrir geta notað. Íslenskan þarf á því að halda!

Án sykurs

Menn geta haft ýmsar skoðanir á Kóka kóla. Besta gosdrykk í heimi. Ameríska auðvaldsdrykknum. Táknmynd fyrir allt slæmt sem kemur frá Ameríku og er að eyðileggja íslenska siði og menningu.

Sumir elska þennan drykk. Aðrir elska að hata hann.

En hrós dagsins fær Coca-Cola European Partners Ísland, (hér skulum við ekki ræða um nafnið á fyrirtækinu), fyrir að skipta ensku vöruheiti út fyrir íslenskt. Coca-Cola Zero Sykur verður Coca-Cola án sykurs.

Áfram íslenska!

Tvær Kókdósir.
Kók, næstum því á íslensku. Mynd fengin af ccep.is.

Málfarslögreglan – 14. Þáttur

Málfarslögreglan, 14. þáttur

Heil og sæl ágætu hlustendur.

Við byrjum þennan þátt á lítilli afsökunarbeiðni.

Hlustendur sem hafa hlustað á alla þættina tóku kannski eftir því að í síðasta þætti taldi ég upp nokkur ofnotuð orð. Þessi orð voru næstum því þau sömu og lesin voru í áttunda þætti.

Góð vísa er aldrei of oft kveðin, og allt það, en ég biðst afsökunar á að vera farinn að endurtaka mig. Ég lofa að gera það ekki oftar en þörf er á.

Snúum okkur þá að ábendingum til fjölmiðlamanna.

Yfirvofandi afmæli

Á dögunum rakst ég á litla auglýsingu í Fjarðarpóstinum, bæjarblaði Hafnfirðinga. Í henni stóð meðal annars:

Hressing í boði í Garðakirkju og stuttir orgeltónleikar þar sem Guðmundur Sigurðsson, organisti Hafnarfjarðarkirkju, leikur orgelverk úr Hafnarfirði og Garðabæ í tilefni af 10 ára afmæli orgela Hafnarfjarðarkirkju og yfirvofandi 50 ára afmæli orgels Garðakirkju.

Fjarðarpósturinn 21. mars 2019.

Tókuð þið eftir síðustu orðunum?

„Yfirvofandi afmæli“?

Máltilfinning mín segir að viðburðir sem ber að fagna geti ekki verið yfirvofandi. Það er því ekki hægt að segja að afmæli sé yfirvofandi, né heldur brúðkaup, skírnir eða hátíðahöld. Aftur á móti geta leiðinlegir atburðir, s.s. stríð, náttúruhamfarir, verkföll og uppsagnir verið yfirvofandi.

Í íslenskri orðabók er merking orðsins: „sem vofir yfir, búast má við hvenær sem er (einkum um e-ð óþægilegt)“.

Þetta kemur líka heim og saman við svar á Vísindavefnum við spurningunni Felst neikvæð merking í því „að eitthvað sé yfirvofandi?“. Þar stendur meðal annars:

Sagnarsambandið að vofa yfir er notað í merkingunni ‘svífa yfir, vera í vændum, ógna’ og er notað um eitthvað illt. Sama gildir um lýsingarháttinn yfirvofandi. Þess vegna er ekki rétt að nota sagnarsambandið eða lýsingarháttinn um eitthvað sem er jákvætt, eins og fermingu, skírn, fæðingu eða annað hliðstætt.

Vísindavefurinn

Við ættum því að segja að skemmtilegir viðburðir séu komandi, í vændum eða væntanlegir en ekki yfirvofandi. Svo má líka umorða hlutina og segja að eitthvað sé framundan.

Hvað dinglar?

Fyrir nokkrum vikum rakst ég á fyrirsögnina Dinglaði bjöllunni um miðja nótt og sagðist vera sölumaður. Henni var breytt fljótlega eftir að hún fór í loftið.

Að dingla þýðir yfirleitt það sama og að lafa eða hanga og sveiflast. Í Íslenskri orðabók frá 2007 er fjórða merking orðsins reyndar sú að hringja (dyra)bjöllu. Þannig að þetta er ekki alvitlaus notkun. En þess ber að geta að hún er sögð óformleg, einkum notuð í barnamáli.

Þannig að ef við erum að skrifa formlegan texta eða tala opinberlega ættum við að tala um að hringja bjöllunni, frekar en að dingla henni. Nema ef til vill að persónusköpun eða stílbrigði í textanum krefjist þess að bjöllunni sé dinglað.

Eignarrétturinn

Snúum okkur næst að eignarfornöfnum.

Eignarfornöfn í íslensku eru minn, þinn, sinn og vor. Reyndar er ágreiningur um hvort sinn sé alvöru eignarfornafn, þar sem það vísar aftur til þriðju persónu. En það er ekki til umræðu hér. Eins og nafnið gefur til kynna eru eignarfornöfn notuð til að tákna og gefa til kynna eignir á hlutum og fyrirbærum.

En hvenær á að nota eignarfornöfn og hvenær á ekki að nota þau? Og hvar eigum við þá að nota þau?

Dæmi:

Turninn minn stendur uppi í hlíðinni.

Þarna er augljóst að ég á turninn. Turninn minn gefur til kynna að ég eigi hann. En breytum nú setningunni og segjum:

Minn turn stendur uppi í hlíðinni.

Ég mundi setja ákveðið spurningarmerki við þessa setningu. Hún er á mörkum þess að geta staðið ein og sér án samhengis. Því það er ekki eðlilegt í íslensku að eignarfornafnið standi á undan nafnorðinu sem verið er að lýsa yfir eigninni á. Undantekning er þó ef verið er að leggja sérstaka áherslu á eignina. Dæmi:

Turninn hans Tóbíasar er niðri á torgi en minn turn stendur uppi í hlíðinni.

Við könnumst við aðgangsstýrðar vefsíður hjá stofnunum og fyrirtækjum þar sem netnotendur geta sinnt einkamálum sínum, skoðað reikningsyfirlit, viðskiptasögu og fleira. Þessar síður heita yfirleitt Mínar síður. Þetta heiti er undir sterkum áhrifum frá ensku, sbr. My pages. Í ensku (og fleiri tungumálum) er þetta eðlileg orðaröð. En á íslensku væri eðlilegra að kalla þær Síðurnar mínar. Meðal annarra óeðlilegra dæma má nefna:

  • Þinn réttur
  • Þitt form
  • Þín verslun
  • Mín framtíð

Þarna væri eðlilegra að segja rétturinn þinn (eða réttur þinn). Formið þitt. Verslunin þín. Framtíðin þín. Ég held að við getum flest verið sammála um að þetta sé hin „rétta“ staða eignarfornafna í setningum.

Svo eru það eignarfornöfn og líkamshlutar. Það er flókin og ekki alltaf heppileg blanda í daglegu tali í íslensku. Ég get a.m.k. ekki vanist því alveg að heyra eða sjá líkamshluta notaða sem eignir. Dæmi eru setningar á borð við:

  • Mér er kalt á fingrunum mínum.
  • Mér er illt í maganum mínum.
  • Ég rak höfuðið mitt í vegginn.

Í flestum tilfellum er augljóst að það eru okkar eigin líkamshlutar sem við tölum um, en ekki einhverra annarra, þannig að það er óþarfi að bæta eignarfornöfnum við líkamshlutana.

Einhverjir segja að þetta séu erlend áhrif. Og það er rétt. Í ensku er til dæmis eðlilegt að segja my fingers, my hair og svo framvegis. Þetta er líka eðlileg orðaröð í norðurlandamálum og í þýsku. En þetta eru ekki bara erlend áhrif.

Við könnumst við setningar eins og:

  • Ef hjarta mitt er valtast alls hins valta.
  • Taktu hár úr hala mínum.
  • Augun mín og augun þín.

Þetta eru allt saman fullgildar setningar í íslensku. Þær eru allar úr ljóðum eða skálduðum textum. Þannig að kannski eru þetta líka ákveðin stílbrigði. Við megum eigna okkur okkar eigin líkamshluta ef við viljum vera skáldleg. Þá er eðlilegra, en samt ekki algilt, að líkamshlutarnir séu án greinis.

Aðrir hafa bent á að þetta er barnamál. Það er líka rétt. Af einhverjum ástæðum er samþykkt að lítil börn noti eignarfornöfn þegar þau tala um líkamshluta. Og það er líka eitthvað pínu krúttlegt að heyra það. Hér má líka minnast á Karíus og Baktus sem hafa til alið kynslóðir Íslendinga upp við setninguna: „Æ, ég finn svo til í tönnunum mínum“.

En ef við erum eldri en – segjum tíu til tólf ára – og erum ekki að semja ljóð eða skáldverk, tala við börn eða reyna að vera krúttleg, ættum við frekar að sleppa eignarfornöfnum þegar við tölum um líkamshluta á okkur, eða öðrum.

Prófa eða prufa?

Snúum okkur að lokum að svörum til hlustenda. Þættinum hefur borist bréf. Það hljóðar svo:

Mér finnst svo margir farnir að tala um að prufa eitthvað, mér finnst það hljóma svo illa. Á ekki alltaf að nota prófa? Er prufa ekki bara þegar maður fer í „audition“?

Góð spurning. Ég tók saman tvö svör við henni. Annað svarið er nei, ekki samkvæmt nútímaskilningi á þessum orðum.

Í Íslenskri orðabók er merking sagnorðsins prufa: „reyna, prófa, gera tilraun með“. Prófa hefur hins vegar þrjár merkingar. Sú fyrsta er: „Kanna, reyna (prófa e-ð)“.

Í íslenskri nútímamálsorðabók, sem aðgengileg er á vefnum malid.is, er sögnin prufa sögð vera óformleg. Það stendur aftur á móti ekki við sögnina prófa.

Mín tilfinning (eða tilfinningin mín) er sú að hvort tveggja sé jafn rétt, þ.e.a.s. ef átt er við það sama og að reyna eitthvað. Ég er samt vanari því að prófa hluti heldur en að prufa þá. Ég hef samt ekkert á móti því að við prufum hlutina líka.

Ég mundi til dæmis segja: „Ég ætla að prófa að hringja í Jens“ en síður: „Ég ætla að prufa að hringja í Jens“.

Hitt svarið við spurningunni er jú, samkvæmt sögunni. Þá ættum við að prófa en ekki prufa.

Ef við lítum yfir söguna mælir allt með því að við prófum frekar en að prufa. Því sagnorðið prófa er eldra í íslensku heldur en sagnorðið prufa. Í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans er elsta dæmið um sögnina prufa frá árinu 1945. Elsta dæmið um sögnina prófa í sama ritmálssafni er hins vegar frá árinu 1540.

Sama niðurstaða fæst á vefnum timarit.is. Þar er elsta dæmið um sögnina prófa frá árinu 1780. Prufa, í merkingunni reyna, er öllu yngri, eða frá árinu 1950.

Menn virðast samt hafa verið byrjaðir að prufa nokkuð fyrr á tuttugustu öldinni, því það er amast við orðinu í lesendabréfum og málfarsráðleggingum dagblaða og tímarita. Til dæmis í tímaritinu Hlín árið 1942. Þar er stungið upp á orðunum sýnishorn, prófa og reyna í stað orðsins prufa.

Ég vona að sendandi, sem og aðrir hlustendur, séu einhvers vísari eftir þetta svar. Endum það á stöku úr Vísi frá 12. júlí 1927:

Um orðin „sýnishorn“ og „prufa“:

Orðið prufa engin er

íslenska, það vitið,

sýnishorn því sífellt þér

segið bæði og ritið.

Orðið „prufa“ er ekki annað en dönskusletta, afbökun úr danska orðinu „Pröve“, og ætti því að hverfa úr málinu sem fyrst, en hið fagra orð sýnishorn ávalt að vera notað í þess stað.

H.B., Vísir, 12. júlí 1927.

Þá hef ég ekki fleiri hugmyndir að sinni.

Ég minni á að hægt er að senda athugasemdir, hrós, kvartanir eða hvað annað sem hlustendum dettur í hug í gegnum samfélagsmiðla Málfarslögreglunnar á Twitter og Facebook. Eða í gegnum vefinn ordabokin.is.

Þar má líka hlusta á eldri hlaðvarpsþætti, auk þess sem tenglar í heimildir og ítarefni fylgja flestum þáttum. En þættirnir eru líka aðgengilegir á iTunes, Spotify, Stitcher, Soundcloud og í öllum betri hlaðvarpsöppum.

Þessum þætti er þá öllum lokið.

Takk fyrir að hlusta.

Lifð heil.

Nýtt útlit

Vefur sem tekur ekki breytingum er dauður. Undanfarnar tvær vikur, eða svo, hef ég verið að prófa mig áfram með nýtt útlit á Orðabókinni. Breytingarnar eru ekki stórvægilegar fyrir hinn almenna notanda en þær auðvelda mér uppfærslu og umsjón með Orðabókinni.

Ég ákvað að fjárfesta í þemanu Avada. Eftir að hafa fiktað í því og sett vefinn upp eins og ég vil hafa hann gat ég losað mig við fullt af WordPress-viðbótum. Þetta þema hefur allt sem hugurinn girnist þegar kemur að uppsetngu vefsins. (Nei, ég fæ ekki borgað fyrir að skrifa þetta).

Uppsetningu á nýja þemanu er að mestu lokið, en ennþá á eftir að breyta einhverjum smáatriðum, þýða nokkur ensk orð og fleira smálegt.

Notendur sem verða varir við eitthvað óeðlilegt á Orðabókinni mega gjarnan hafa samband og láta vita af því.

Nú þarf ég vonandi ekki að eyða eins miklum tíma í uppfærslur á viðbótum og áður í hvert skipti sem ég fer inn á vefinn og get einbeitt mér að efnisvinnslunni. Ég hef líka á tilfinningunni að Orðabókin sé strax orðin sýnilegri í Google og að umferð um hana hafi aukist við þessar breytingar. En það er bara tilfinning og þarf að staðfesta hana með mælingum.

Fulla ferð áfram!

Yfirvofandi afmæli

Eftirfarandi texti birtist í auglýsingu í Fjarðarpóstinum 21. mars:

Hressing í boði í Garðakirkju og stuttir orgeltónleikar þar sem Guðmundur Sigurðsson, organisti Hafnarfjarðarkirkju, leikur orgelverk úr Hafnarfirði og Garðabæ í tilefni af 10 ára afmæli orgela Hafnarfjarðarkirkju og yfirvofandi 50 ára afmæli orgels Garðakirkju.

Fjarðarpósturinn 21. mars 2019.

Samkvæmt minni tilfinningu er rangt að tala um að afmæli séu yfirvofandi.

Yfirvofandi hlutir eða atburðir eru slæmir eða leiðinlegir. Það má segja að náttúruhamfarir, gjaldþrot, verkföll, uppsagnir eða stríð séu yfirvofandi.

En tilfinning mín býður ekki upp á að atburðir séu yfirvofandi ef það er tilefni til að gleðjast eða fagna þeim.

Sjá einnig: Vísindavefurinn: Felst neikvæð merking í því „að eitthvað sé yfirvofandi“?

Kirkjuorgelganga
Skjáskot af auglýsingu um yfirvofandi afmæli. Fjarðarpósturinn 21. mars 2019.

Málfarslögreglan – 13. þáttur

Málfarslögreglan, 13. þáttur

Heil og sæl ágætu hlustendur og verið velkomin í 13. þátt málfarslögreglunnar.

Í þessum þætti verður fjallað um gáfnafar – eða skort á því. Við kynnumst nýjum greinarmerkjum og jörðum nokkur ofnotuð orð.

En við byrjum á nokkrum ábendingum til fjölmiðlamanna.

Ábendingar til fjölmiðlamanna

Á vef Vísis 26. janúar síðastliðinn mátti lesa í frétt um andlát flugþjóns:

Vél bandaríska flugfélagsins Hawaiian Airlines þurfti að framkvæma neyðarlendingu í San Francisco á leið sinni frá Honolulu, höfuðborgar Hawaii, til New York vegna veikinda flugþjóns um borð á fimmtudaginn.

Að undanskildu því að orðið höfuðborg er þarna í vitlausu falli er sagt frá því að það hafi þurft að framkvæma neyðarlendingu.

Til að gera textann skemmtilegri og meira lifandi (ekki það að þessi frétt hafi verið lífleg eða skemmtileg) hefði mátt segja að flugvélin hefði þurft að nauðlenda. En ekki framkvæma neyðarlendingu.

Vörumst stofnanamálfar og notum sagnorð þegar við getum, í staðinn fyrir óþarfa nafnorðasúpu.

Daginn áður, mátti lesa á sama fréttavef:

Efnistökin í þættinum falla ekki öllum í kram og hafa nokkrar umræður spunnist um þau á samfélagsmiðlum eins og Twitter.

Hér er blandað saman tveimur orðatiltækjum. Annars vegar falla í kramið hjá einhverjum og hins vegar falla einhverjum í geð.

Annað hvort hefði átt að segja: „Efnistökin falla ekki í kramið hjá öllum“, eða „Efnistökin falla ekki öllum í geð“.

Í frétt um áfengisvandamál Harry Potter leikarans Daniel Radcliffe kom fram að hann hafi lagt flöskuna á hilluna, í þeirri merkingu að hann hafi hætt að drekka.

Mér finnst eitthvað rangt við þetta orðalag. Það er vel þekkt að íþróttamenn leggja skóna á hilluna þegar þeir hætta að spila boltaíþróttir. En mér hefði fundist betra að segja að leikarinn hafi sett tappann í flöskuna.

Í frétt um mislingasmit á Íslandi var sagt:

Börn eru ekki bólusett fyrir mislingum fyrir átján mánaða aldur en bæði börnin hafa ekki náð þeim aldri.

Þetta var óheppilega orðað. Hérna hefði verið betra að segja: „hvorugt barnið hefur náð þeim aldri“.

En það verður líka að hrósa fjölmiðlamönnum fyrir það sem vel er gert. Besta fyrirsögn á frétt það sem af er þessu ári hlýtur að teljast, a.m.k. að mínu mati Innkalla hallagallaðar pönnukökupönnur.

Í fréttinni á bak við fyrirsögnina var líka nýyrðið hallagalli, sem er framleiðslugalli sem felst í því að halli á tilteknum hlut er ekki réttur. Í þessu tilviki var það halli á skafti á pönnukökupönnum.

Þá er komið nóg af ábendingum til fjölmiðlamanna. En þá að tvöfaldri merkingu.

Skýrar kýr

Það eru til mörg orð sem hafa fleiri en eina merkingu – og menn eru ekki á eitt sáttir um merkinguna. Eitt af þessum orðum er kýrskýr.

Í mínum huga merkir orðið kýrskýr það sama og heimskur eða einfaldur. Og það er líka eina skýringin sem gefin er upp í íslenskri orðabók.

Ég fæ þess vegna alltaf pínulítinn kjánahroll þegar menn nota þetta orð vitlaust, eða í einhverri annarri merkingu. Sumir nota orðið í merkingunni að eitthvað sé augljóst. Og stundum virðist það jafnvel hafa andstæða merkingu miðað við „réttu“ merkinguna og þýða það sama og vitur eða vel gefinn:

Það er al­gjör­lega kýr­skýrt að Rík­is­út­varpið gaf ekki rétt­ar upp­lýs­ing­ar fyr­ir fjár­laga­nefnd­inni.

sagði Guðlaugur Þór Þórðarson til dæmis 6. nóvember 2015.

Annað og nýrra dæmi er fyrirsögnin Rannsakandi segir mynstrið kýrskýrt dæmi um skipulagða brotastarfsemi. Þarna er átt við að mynstrið sé augljóst dæmi um skipulagða brotastarfsemi.

Við lauslega leit á vefnum tímarit.is virðist algengasta merking orðsins kýrskýr vera eitthvað sem er augljóst. Elsta dæmið sem finnst um orðið er frá árinu 1976.

Sumir hafa velt því fyrir sér hvort gamla merkingin, þ.e. heimskur, sé einhvers kona draugmerking, þ.e.a.s. merking sem finnst hvergi nema í orðabókum. Þessi hugmynd kemur til dæmis fram í grein Jóns G. Friðjónssonar um íslenskt mál í Morgunblaðinu 31. mars 2007.

Sjálfur hef ég aldrei heyrt orðið kýrskýr notað í merkingunni heimskur. Ég er ekki alinn upp í sveit og hef því ekki vit á gáfnafari kúa, eða skorti á því. Ég held að vitneskja mín um þessa merkingu hafi komið úr spurningaspilinu Trivial pursuit einhverntíma á níunda áratug síðustu aldar. Af því að Trivial náði að planta þessu í huga mér þegar ég var átta eða níu ára hefur þetta verið hin eina og rétta merking orðsins í mínum huga.

Misvitrir Moggabloggarar og virkir í athugasemdum, sérstaklega af eldri kynslóðum, virðast vera sammála mér. Það eru þá einkum þeir sem gera athugasemdir við orðanotkun stjórnmálamanna og svokallaðra fréttabarna sem vekja athygli á þessari merkingu orðsins.

Hlustendur sem vilja lesa meira um orðið Kýrskýr geta kynnt sér ágæta grein Margrétar Jónsdóttur í tímaritinu Orð og tunga frá árinu 2018. Tengill í greinina fylgir með 13. þætti á vefnum ordabokin.is.

En snúum okkur næst að nýjustu greinarmerkjunum.

Hrópspurningarmerki

Við könnumst öll við upphrópunarmerki og spurningarmerki. Spurningarmerki skal setja á eftir málsgrein (málsgreinarígildi), sem felur í sér beina spurningu. Upphrópunarmerki skal setja á eftir einstökum orðum eða málsgreinum, sem felst í upphrópun (t.d. fögnuður, skipun, fyrirlitning o.s.frv.)

Nánar má lesa um notkun þessara merkja í auglýsingu um greinarmerkjasetningu. Tengil má nálgast undir síðu 13. þáttar á vefnum ordabokin.is.

Í formlegu ritmáli þykir ekki fara vel á því að nota fleiri en eitt greinarmerki í einu. Þó eru til undantekningar. Þrír punktar í röð geta t.d. táknað úrfellingu eða hik. Og þrjú upphrópunarmerki í röð eru alþjóðlegt tákn um hneykslun. En spurningar verða ekkert meiri spurningar þótt spurningarmerki séu fleiri en eitt.

Þaðan af síður þykir heppilegt að nota mörg mismunandi greinarmerki í röð. Það er hins vegar gert í óformlegra ritmáli á internetinu og á samfélagsmiðlum.

Sumum þykir heldur ekki gott í formlegum, prentuðum texta að nota spurningarmerki og upphrópunarmerki saman.

Árið 1962 var því gerð tilraun til að sameina þessi tvö merki í eitt. Upphafsmaður þess var Bandaríkjamaðurinn Martin K. Speckter, yfirmaður á auglýsingastofu.

Þetta merki ákvað hann að kalla Interrobang. Á íslensku mætti kalla það hrópspurningarmerki.

Hrópspurningarmerki er eins og áður sagði sett saman úr upphrópunarmerki og spurningarmerki. Það lítur út eins og upphrópunarmerki sem búið er að skrifa spurningarmerki yfir – eða öfugt. Eða stafinn Þ eða P með punkti undir. Lesendur sem vilja sjá hvernig merkið lítur út geta farið á síðu þrettánda þáttar á vefnum ordabokin.is til að skoða það.

Tilgangurinn með merkinu er að standa á eftir spurningum sem fela í sér ótta, undrun, spennu eða vantrú, eða á eftir retorískum spurningum, þ.e.a.s. spurningum sem er varpað út í loftið, meira til íhgununar en kalla ekki endilega á svar. Merkið hentar þeim vel sem eru á móti því að nota mörg greinarmerki í röð og vilja halda sig við eitt merki í einu.

Hrópspurningarmerkið náði aldrei almennri hylli og hefur því ekki verið mikið notað. Kannski af því að það er ekki hægt að skrifa það með einföldum hætti á lyklaborð, a.m.k. ekki á íslensk lyklaborð. Það er þó gert ráð fyrir merkinu í hönnun nokkurra leturgerða. En það þarf að fara krókaleiðir til að nálgast það. Eina aðferðin sem ég kann er að gúgla Interrobang og nota svo „copy-paste“-aðferðina.

Ég þekki engin dæmi um hrópspurningarmerki úr íslensku ritmáli. En ég sé fyrir mér að hneykslaðir virkir í athugasemdum gætu tekið það upp. Dæmi um spurningar sem gætu endað á hrópspurningarmerki eru:

  • Hver fjandinn er í gangi hérna‽
  • Kallarðu þetta tónlist‽
  • Er þetta frétt‽
  • Viltu ekki bara fara að grenja‽

Nú er það undir virkum í athugasemdum og notendum samfélagsmiðla komið að vekja hrópspurningamerkið til vegs og virðingar. Þá munu tölvuframleiðendur, forritarar og leturhönnuðir kannski taka við sér og auðvelda aðgengi að því á venjulegum lyklaborðum.

Hlustendur sem vilja kynna sér hrópspurningarmerkið betur geta lesið grein á ensku útgáfu Wikipediu um Interrobang. Tengill fylgir með 13. þætti á vefnum ordabokin.is.

En snúum okkur að lokum að nokkrum ofnotuðum orðum og orðasamböndum sem er hægt að nota minna.

Ofnotuð orð

Tímapunktur er ofnotaður. Það þarf ekki allt að gerast á hinum eða þessum tímapunkti. Orð sem hægt er að nota í staðinn eru til dæmis núna og tími. Annars fer það eftir því í hvaða samhengi orðið stendur hvað hægt er að nota í staðinn fyrir það.

Aðferðafræði er annað ofnotað orð. Undanfarið hafa allir notað hina eða þessa aðferðafræði til að leysa verkefni eða vandamál. Yfirleitt ætti að vera nóg að nota einhverja aðferð til lausnar á verkefnum.

Og ofnotað orðasamband er að vera á pari við eitthvað. Prófum að jafnast á við eitthvað, vera til jafns við eitthvað, eða vera jafn mikið eða lítið og eitthvað. Bara til dæmis.

Reynum að nota minna af þessum orðum og frekar að umorða hlutina.

Hugmyndabrunnurinn er þá tæmdur í bili. Ég minni á Málfarslögregluna á Facebook og Twitter, sem og á vefinn ordabokin.is. Þar geta hlustendur sent skilaboð, hrós, kvartanir, ábendingar og hvað sem þeim liggur á hjarta.

Nýir og eldri hlaðvarpsþættir eru aðgengilegir á vefnum ordabokin.is, í iTunes og á Spotify. Textaútgáfur þáttanna má nálgast á vefnum blogg.ordabokin.is, þ.e. blogg, með tveimur g-um.

En þessum þætti er þá öllum lokið.

Takk fyrir áheyrnina.
Góðar stundir.

Málfarslögreglan – 12. þáttur

Málfarslögreglan – 12. þáttur

Heil og sæl ágætu hlustendur og verið velkomin í tólfta þátt Málfarslögreglunnar.

Loksins, gætu sumir verið að hugsa, því að þættirnir snúa nú aftur að loknu góðu og löngu fríi. Fríið þýðir þó ekki að málfarslögreglan hafi setið auðum höndum. Ó, nei, því er nú öðru nær.

Úr því að það er komið nýtt og sprellfjörugt ár er ekki úr vegi að gefa eitt áramótaheit:

Ég lofa því að hlaðvarpsþættir þessa árs verða fleiri en á síðasta ári.

Það ætti nú ekki að vera erfitt að halda þetta heit, því að þættir síðasta árs voru bara tveir.

Þetta er ekki eina loforð þáttarins. Við komum að hinu rétt bráðum.

Það hefur margt gerst í þessu langa fríi. Orðabókin hefur til dæmis haldið áfram að vaxa síðan síðasti þáttur fór í loftið. Og núna í haust bættist hundraðasta orðið í Orðabókina.

Aldrei má maður gera neitt. Maður má einu sinni ekki hlaupa og leika sér án þess að vera skammaður og lokaður inni.

Emil í Kattholti.

Eins og Emil í Kattholti orðaði það með norðlenska hreimnum, þegar hundraðasti spýtukarlinn bættist í safnið.

Ég hélt nú ekkert sérstaklega upp á þennan áfanga. En af tilefni af hundraðasta orðinu er því hér með lýst yfir að þegar 400 orða múrinn verður rofinn verður farið að huga að prentútgáfu Orðabókarinnar. Hlustendur sem vilja sjá það gerast eru þess vegna hvattir til að vera duglegir að senda inn hugmyndir að nýjum orðum. Það má til dæmis gera á vefnum ordabokin.is eða með skilaboðum á Facebook eða Twitter.

Og svo er það orð ársins. Við komum að því síðar í þessum þætti. En fyrst að tilefni. Eða af tilefni? Hvort er það?

Af eða að?

Hlustandi kom að máli við mig á dögunum og spurði hvort það ætti að segja eða af gefnu tilefni. Þetta var góð spurning. Ég játa að ég er aldrei almennilega klár á þessu sjálfur, þannig að ég lagðist í rannsóknir og rakst á umfjöllun um orðið tilefni í Málfarsbanka Árnastofnunar. Þar segir:

Annaðhvort er sagt í tilefni einhvers eða í tilefni af einhverjuVið komum í tilefni afmælisins. Við komum í tilefni af afmælinu.
Einnig: af einhverju tilefniAf hvaða tilefni eru allir hérna? Efnt var til fagnaðar af alls engu tilefni. Athuga þó að sagt er að gefnu tilefni.

Málfarsbanki Árnastofnunar

Þá vitum við það. Það er sem sagt af tilefni, með F-i. Nema þegar tilefnið er gefið, þá er það , með Ð-i.

Lítum kannski á það þannig að eð sé ókeypis en eff þurfi að borga fullu verði:

F er fullu verði greitt
en ð-ið kostar ekki neitt

Svona til að búa til einhverja þumalputtareglu.

Hlustendur geta kynnt sér málið nánar á vef Árnastofnunar. Tengil má nálgast á síðu tólfta þáttar á vefnum ordabokin.is

Tölum um tölur

Þá að raðtölum.

Raðtölur eru tölustafir sem eru skrifaðir með punkti fyrir aftan. Þeir tákna staðsetningu í runu eða lýsa röð viðburða. 1. 2. 3. er lesið: fyrsti, annar, þriðji.

Iðulegar rekst ég á ranga notkun á raðtölum, sérstaklega í rituðum texta á internetinu. Þessi ranga notkun felst í því að punktur er settur aftan við tölur þegar það á ekki að vera punktur á eftir þeim. Oft má sjá dæmi um þetta hjá foreldrum á samfélagsmiðlum að segja frá afmælum barna sinna.

Til dæmis:

„Þessi dama er þriggja ára í dag.“
er skrifað:
„Þessi dama er 3. ára í dag.“

Þá ætti að lesa þetta:
„Þessi dama er þriðja ára í dag.“

Þessi ranga notkun fer meira en lítið í taugarnar á mér. Punkt á ekki að skrifa á eftir tölum nema þær séu raðtölur, eða þegar þær eru hafðar í lok setninga. (Eða þegar þær eru hluti af vefslóðum eða IP-tölum, en það er nú önnur saga).

Hér eru tvö dæmi um rétta notkun:

Dæmi 1:
Ragnheiður hafnaði í 2. sæti í 200 metra bringusundi.

Þarna á að vera punktur á eftir 2, í 2. sæti, en ekki á efti 200 í 200 metra bringusundinu.

Dæmi 2:
Í dag, 12. desember, fagnar þessi drengur 10 ára afmæli sínu.

Þarna á að vera punktur á eftir tólf, þ.e. 12. desember en ekki á eftir 10 (í tíu ára.

Höfum það á hreinu.

Annað sem ég hef aldrei þolað við rithátt á tölum er þegar tölustöfum og bókstöfum er blandað saman í staðinn fyrir að skrifa töluorð beint út, með bókstöfum. Það er einhver hefð fyrir því í ensku að nota bæði bókstafi og tölustafi, (sbr. þegar first er skrifað 1st, second er skrifað 2nd, third er skrifað 3rd og svo framvegis. En þessi ritháttur virkar ekki almennilega á íslensku.

Ég venst því til dæmis aldrei að sjá eignarfall töluorðanna eins til fjögurra skrifað með bókstöfum í bland við tölustafi, þ.e. 1ns, 2ja, 3ja og 4ra. Upphaflega hefur þetta verið gert til að spara stafafjölda. En þess ætti ekki að þurfa lengur.

Það eru því vinsamleg tilmæli frá Málfarslögreglunni að menn skrifi þessi orð frekar bara með bókstöfum! Eins, tveggja, þriggja og fjögurra.

Það er ekki svo erfitt.

Þá er þessari tölu um tölur lokið, en snúum okkur næst að kosningum.

Orð ársins 2018

Í byrjun nóvemer síðastliðins fór fyrri umferð kosninganna um orð ársins af stað. Orðin sem kosið var um komu ekki öll fram á sjónarsviðið á árinu 2018 og mörg þeirra höfðu verið til ansi lengi. En þau áttu það öll sameiginlegt að hafa birst í orðabókinni frá 1. nóvember 2017 til 31. október 2018.

Í fyrri umferð mátti velja fimm af fimmtíu og einu orði og gefa þeim stig frá einum upp í fimm. Tíu stigahæstu orðin komust áfram í seinni umferð. Orðin sem komust áfram í seinni umferð voru, í stafrófsröð:

Nú er seinni umferð kosninganna lokið og því er kominn tími til að uppljóstra um það hvert af þessum tíu orðum hlýtur titilinn Orð ársins 2018 á vefnum ordabokin.is.

1160 atkvæði voru greidd í seinni umferðinni. Og orðið sem flestir völdu var áhrifavaldur, með 215 atkvæði. Fast á hæla þess fylgdu Prófljóta, með 191 atkvæði og Sjomli, með 157 atkvæði.

Áhrifavaldur er, samkvæmt skýringu í Orðabókinni notandi samfélagsmiðla (t.d. Snapchat eða Instagram) sem hefur fjölda fylgjenda, oftast nokkur þúsund eða fleiri.

Áhrifavaldar kynna oft vöru og þjónustu á samfélagsmiðlum, yfirleitt gegn greiðslu frá seljendum eða framleiðendum.

Árið 2018 var svo sannarlega ár áhrifavaldanna. Í byrjun október bannaði Neytendastofa til dæmis áhrifavöldum að nota duldar auglýsingar í bloggfærslum. Síðasta sumar voru áhrifavaldar taldir sem sérstakur tekjuhópur í tekjublaði DV og íslenskir áhrifavaldar eru reglulegir gestir á hverjir-voru-hvar- og slúðursíðum dagblaða og fréttavefja.

Nú í upphafi ársins 2019 er það orðin full vinna hjá mörgum að vera áhrifavaldur og ríkisskattstjóri er m.a.s. að kanna starfsvettvang þeirra og kortleggja hvernig greiðslum til þeirra er háttað. Því þetta verður jú allt að vera löglegt.

En sem sagt, til hamingju með orð ársins, áhrifavaldar og aðrir hlustendur.

Þættinum er þá lokið í þetta sinn. Hvers kyns ábendingar, hrós, kvartanir, tillögur og annað sem hlustendum kann að detta í hug má senda í gegnum vefinn ordabokin.is. Einnig má nota samfélagsmiðlana Facebook og Twitter til verksins.

Lifið vel og lengi.
Passið ykkur á duldum auglýsingum áhrifavalda.
Góðar stundir.

Orð ársins

RÚV og Árnastofnun tilkynntu í dag hvaða orð voru valin orð ársins 2018.

Fyrir valinu urðu orðin klausturfokk og kulnun.

Auk þess tilnefndi Árnastofnun sagnorðið plokka, í merkingunni að fara út að skokka og tína upp rusl í sömu ferð.

Fylgist með í næstu viku. Þá kemur út nýr hlaðvarpsþáttur, þar sem sagt verður frá því hvert orð ársins er í Orðabókinni. Kosningunni er formlega lokið og talning atkvæða stendur yfir.