Orð ársins 2021

Úrslitin eru ljós í kosningunni um Orð ársins 2021.

Og orð ársins 2021 í Orðabókinni er Óróapúls. Eins og hjá RÚV.

Óróapúls er mikill fjöldi lítilla jarðskjálfta sem verða með örstuttu millibili.

Orðið mun fyrst hafa birst á prenti á litlum og óáberandi stað í tímariti Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja í desember 2014, skv. vefnum timarit.is.

Það var svo á allra vörum í tengslum við jarðhræringar og eldgos á Reykjanesi í febrúar og mars 2021.

Úrslit kosninganna

Í seinni umferð kosninganna stóð valið á milli tíu stigahæstu orðanna úr fyrri umferðinni.

194 atkvæði voru greidd í seinni umferðinni. Hér eru úrslitin úr henni. Orðunum er raðað eftir fjölda atkvæða, með atkvæðafjölda innan sviga:

  1. Óróapúls (39)
  2. Mótefnaöfund (31)
  3. Gosórói (26)
  4. Grímuskylda (25)
  5. Eldfjalladólgur (16)
  6. Slaufunarmenning (16)
  7. Trampólínveður (12)
  8. Rafskotta (11)
  9. Liprunarbréf (9)
  10. Fávitavarpið (8)

Orð ársins – ekki bara á Íslandi

Minnt er á kosninguna um orð ársins 2021.

En það er víðar en á Íslandi sem orð ársins er kosið. Á föstudaginn var orð ársins 2021 opinberað í Færeyjum.

Hlustendur Kringvarpsins í Færeyjum sendu fjölda tillagna af orðum. Dómnefnd valdi svo tíu af þessum orðum til að komast áfram í valinu.

Einróma álit dómnefnar var að sammóðir væri orð ársins 2021 í Færeysku. Orðið var það eina af þessum tíu sem ekki tengist umræðu um Covid-faraldurinn. Það eru sem sagt fleiri en Íslendingar sem nenna þessum faraldri ekki lengur.

Sammóðir er notað um konur í samkynja sambandi eða hjónabandi. Sammóðir er „hin móðirin“, þ.e. konan í sambandinu sem gengur ekki með og elur barnið.

Hér er hægt að hlusta á umræður dómnefndarinnar.

Þetta er í sjötta sinn sem orð ársins er valið í Færeyjum. Hin orðin eru:

  • 2016: Hjúnabandslóg
  • 2017: Fiskvinnunýskipan
  • 2018: Ræstkjøtaburgari
  • 2019: Heimafriður
  • 2020: Sóttarhald

Sjá einnig: Dimmalætting: „Sammóðir“ ársins orð

Orð ársins 2021 – Seinni umferð

Seinni umferð kosninganna um orð ársins 2021 er opinberlega hafin. Nú á að kjósa eitt af tíu stigahæstu orðunum sem komust áfram úr fyrri umferðinni.

Hér er hægt að taka þátt í kosningunni um orð ársins 2021.

Útskýringarnar á orðunum eru allar á vefnum Orðabókin.is.

Tíu stigahæstu orðin eru, í stafrófsröð:

Úrslit kosninganna verða svo kunngjörð einhverntíma fyrri hluta janúar 2022.

Orð ársins 2021

Fyrri umferð kosningarinnar um orð ársins er nú í fullum gangi. Ef árið 2020 var ár veiru- og faraldsfræðinga (eða faraldursfræðinga?) verður 2021 líklega ár jarðskjálfta- og eldgosasérfræðinga. Það er a.m.k. mikið af skjálfta- og gostengdum orðum á listanum að þessu sinni.

Hér er hægt að taka þátt í valinu á orði ársins 2021.

27 orð berjast um titilinn Orð ársins 2021. Útskýringar á þeim má allar finna á vefnum Orðabókin.is. Þau hafa ekki öll komið til sögunnar á þessu ári, en eiga það sameiginlegt að hafa bæst við safnið undanfarið ár, eða eftir að síðasta kosning hófst, í byrjun nóvember 2020.

Orðin á listanum eru eftirfarandi, í stafrófsröð:

Málfarslögreglan – 18. þáttur

Málfarslögreglan – 18. þáttur

Heil og sæl ágætu hlustendur.

Málfarslögreglan heilsar í fyrsta sinn á árinu 2021.

Í upphafi síðasta árs kastaði ég áramótasprengju og stakk upp á því að við breyttum nöfnum eða númerum á áratugum. Nú langar mig til að kasta inn annarri sprengju og ræða aðeins um daganöfn.

Við þekkjum öll nöfn á vikudögunum. Sunnudagur, mánudagur, þriðjudagur, o.s.frv.

Daganöfnin eins og við þekkjum þau hafa verið við lýði á Íslandi frá því á 12. öld.

En áður en þau voru tekin upp hétu dagarnir:

  • Sunnudagur
  • Mánadagur
  • Týsdagur
  • Óðinsdagur
  • Þórsdagur
  • Frjádagur
  • Þvottadagur/laugardagur.

Eftir kristnitökuna tók kirkjan á Íslandi upp á því að breyta þessum nöfnum.

  • Sunnudagur skyldi heita drottinsdagur.
  • Mánadagur yrði annar dagur
  • Týsdagur þriðji dagur
  • Óðinsdagur yrði miðvikudagur
  • Þórsdagur fimmti dagur
  • Frjádagur skyldi heita föstudagur
  • En laugardagur fengi að halda nafninu sínu.

Þetta eru ófrumleg nöfn og leiðinleg. En allt fyrir Guð og kristnina.

Það var fyrst og fremst fyrir tilstilli Jóns Ögmundssonar, biskups á Hólum, sem þessi nafnabreyting gekk í gegn. Hún var þó ekki samþykkt að öllu leyti, því eins og við vitum fengu sunnudagur og mánudagur að halda nöfnum sínum. En það mátti ekkert minna á heiðinn sið á Íslandi. Kirkjan var allsráðandi og menn urðu að hugsa um guð og kirkjuna og ekki neitt annað!

En nú á dögum eru Íslendingar eru ekkert sérstaklega kristin þjóð lengur. Mig langar því að leggja til að við tökum aftur upp gömlu daganöfnin. Tölum um týsdag, óðinsdag, þórsdag og frjádag í staðinn fyrir þriðjudag, miðvikudag, fimmtudag og föstudag.

Þannig eru þessi nöfn ennþá hjá nágrannaþjóðum okkar, til dæmis í norðurlandamálunum og eins í ensku og þýsku. Þar heita dagarnir ennþá eftir fornum guðum.

Og svona til að friða þau sem kynnu að mótmæla þessari tillögu, þá þurfum við ekki að breyta þessu strax í dag eða á morgun, heldur getum við sett okkur einhvern aðlögunartíma. Þess vegna nokkur ár, þannig að kynslóðir sem nú eru að hefja lífið venjist nöfnunum, en leyfum gömlu nöfnunum smám saman að deyja út eftir því sem núlifandi kynslóðir hverfa af sjónarsviðinu.

Hugsum að minnsta kosti um þetta.

Heyrum því næst hvað hlustendur hafa að segja.

Bréf frá hlustendum

Þættinum hafa borist bréf. Það fyrra er svohljóðandi:

Orðtakið „að setja rass á laggir“ í merkingunni að gefast upp, hætta einhverju, þekkið þið það?

Ég hef ekki heyrt þetta orðtak.

En ég kannast aftur á móti vel við að setja eitthvað á laggirnar, sem þýðir að stofna eitthvað eða koma á fót nýrri starfsemi.

Í orðtakinu sem hlustandi spyr um er líklega verið að blanda þessu orðtaki saman við eitthvað annað orðtak; kannski það að renna á rassinn með eitthvað, sem þýðir að mistakast eða guggna á einhverju. Eða jafnvel að „beila“ á einhverju.

Ég fór líka að hugsa um þetta að setja eitthvað á laggirnar. Hverjar eru þessar laggir sem allt er sett á?

Í Íslenskri orðabók þýðir lögg m.a. „gróp í tunnustöfum sem tunnubotninn er felldur í“. Eða „endar tunnustafa sem ganga út fyrir botn og lok“.

Þegar botninn og lokið eru komin í tunnuna er hún tilbúin. Það er búið að setja þau á laggirnar á tunnustöfunum.

Þetta finnst mér a.m.k. líkleg skýring á orðtakinu setja eitthvað á laggirnar.

Seinna bréfið hljóðar svo:

Komið þið sæl…. ég er að leita að heiti yfir annan dag jóla.

Er búin að vera að leita en hef ekki fundið svar við því… Athuga hvort þið hafið svarið.

26. desember. Annar dagur jóla. Annar í jólum. Ég hef ekki heyrt neitt annað heiti á þessum  degi.

Í Hátíðadagatali Íslensku Þjóðkirkjunnar nefnist 26. desember Stefánsdagur til minningar um fyrsta píslarvottinn, Stefán frumvott, en hann var grýttur til bana þennan dag á 1. öld.

Stundum er líka talað um jólarest eða rest frá og með þessum degi. Þ.e.a.s. restina eða afganginn af jólunum. Og menn byrja að óska hver öðrum gleðilegrar restar.

Annar í jólum, Stefánsdagur eða rest (eða jólarest) eru a.m.k. einu heitin sem ég hef heyrt á þessum degi.

Ef einhver veit betur um heiti þessa dags eða kannast við orðtakið setja rass á laggir, má viðkomandi gjarnan hafa samband, til dæmis í gegnum vefinn ordabokin.is eða í gegnum samfélagsmiðla Málfarslögreglunnar á Facebook eða Twitter.

En nú að því sem öll hafa beðið eftir: Úrslit úr kosningunni um orð ársins 2020.

Orð ársins 2020

Í byrjun nóvember síðastliðins tóku 40 orð þátt í fyrri umferð kosninganna um orð ársins 2020. Þau áttu það sameiginlegt að hafa bæst við orðabókina, orðabókin.is undanfarið ár, eða frá 1. nóvember 2019 – 31. október 2020. Af listanum mátti sjá að covid-19 faraldurinn var áberandi í orðanotkun á árinu, en orðin voru þessi, í stafrófsröð:

Mörg ansi skemmtileg og hnyttin orð. Tíu þeirra komust áfram í seinni umferðina. Hér verða þau lesin upp í röð eftir atkvæðafjölda í seinni umferðinni. Byrjum á 10. sæti og færum okkur upp listann.

  • 10. Karen
  • 9. Fjartý
  • 8. Smitskömm
  • 7. Samkomubann
  • 6.Heimkomusmitgát
  • 4-.5.Farsóttarþreyta
  • 4-5.Sófasérfræðingur
  • 3. Sóttkví
  • 2. Kóviti
  • 1. Fordæmalaus

En fordæmalaus merkir einhver eða eitthvað sem á sér ekki hliðstæðu, er áður óþekkt eða hefur aldrei gerst áður.

Orðið er ekki alveg nýtt af nálinni. Á vefnum Tímarit.is finnst dæmi um orðið allt frá árinu 1930. Elsta dæmið þar er frá 8. febrúar sama ár.

En eins og við munum var þetta orð mikið notað og varð að tískuorði vorið 2020 þegar Covid-19-faraldurinn var að hefja innreið sína. Það var mikið talað um að við lifðum á fordæmalausum tímum eða að þetta væru fordæmalausar aðstæður.

Þá eru hugmyndirnar ekki fleiri í bili.

Ég minni á vefinn ordabokin.is og samfélagsmiðla Málfarslögreglunnar á Facebook og á Twitter. Allt þetta er hægt að nota til að hafa samband.

Ég hvet ykkur til að fara varlega þarna úti á þessum fordæmalausu tímum.

Þakka áheyrnina.

Veriði sæl.

Málfarslögreglan – 17. þáttur

Heil og sæl ágætu hlustendur.

Málfarslögreglan heilsar úr sóttkví og samkomubanni, að loknu löngu og góðu Covid-fríi. Frá því að síðasti þáttur fór í loftið, einhverntíma í janúar, hefur ýmislegt gert. Það er óþarfi að rifja það allt upp í smáatriðum.

Það verður bara ávísun upp á þunglyndi og leiðindi að rifja upp allt þetta Covid-ástand.

Ný orð

En rifjum samt upp öll þessi orð sem hafa orðið til síðan síðasti þáttur fór í loftið! Við erum dugleg að búa til ný orð þegar á reynir.  Lítum á nokkur orð úr Orðabókinni sem hafa orðið til eða gengið í endurnýjun lífdaga í þessum faraldri:

Faðmflótti: Ástand sem skapast á tímum samkomubanns, þegar viðhalda þarf ákveðinni samskiptafjarlægð. Felst í því að fólk getur ekki faðmast eins og venjulega.

Farsóttarþreyta: Þreyta á langvarandi farsóttum og afleiðingum þeirra. Tilfinning sem fólk þær þegar takmarkanir vegna farsótta, s.s. sóttkví og samkomubönn eru orðin þreytandi og yfirþyrmandi.

Fjartý: Partý eða gleðskapur sem haldinn er með aðstoð fjarfundarbúnaðar. Þátttakendur hittast þá hver fyrir framan sinn tölvuskjá, í stað þess að hittast öll á sama stað.

Fordæmalaus: Einhver (eða eitthvað) sem á sér ekki hliðstæðu, er áður óþekkt eða hefur aldrei gerst áður.

Heimkomusmitgát: Aðgát sem íslenskir ríkisborgarar verða að sýna í fjóra til fimm daga eftir að hafa komið heim frá útlöndum og hafa farið í sýnatöku á landamærum við heimkomu.

Kínakveisa: Íslensk þýðing á sjúkdómi sem veiran Covid-19 veldur. Sjúkdómurinn varð að heimsfaraldri í mars 2020.

Koviðmágur: Einstaklingur sem smitar mann af Covid-19 veirunni, sem smitar svo annan. Sá fyrsti og síðasti í röðinni eru þá orðnir koviðmágar.

Kófhiti: Veikindatilfinning sem fólk fær þegar sjúkdómar eru mikið í daglegri umræðu. Þá telja menn sig finna fyrir sjúkdómseinkennum, þó þeir séu ekki veikir í alvörunni.

Kófið: Tímabilið frá byrjun mars fram í miðjan maí 2020, og tímabilið frá miðjum september 2020, þar til við vitum ekki hveænr, þ.e. tímabilið þar sem Covid-19-faraldurinn (kórónaveirufaraldurinn) stóð sem hæst á Íslandi.

Kórónotatilfinning: Ónotatilfinning vegna Covid-19-veirunnar (kóróna-veirunnar) og ástands sem skapast vegna hennar.

Kóviskubit: Óþarfa samviskubit eða áhyggjur yfir því að lifa ekki nógu samfélagsmiðlavænu lífi á meðan samkomubann stendur yfir.
Til dæmis yfir því að verja ekki nógu miklum tíma með börnum og fjölskyldu, eða yfir því að standa ekki í nógu miklum stórræðum eða framkvæmdum á heimilinu.

Kóviti: 1. Sá eða sú sem hamstrar vörur að nauðsynjalausu, s.s. klósettpappír eða matarbirgðir til lengri tíma en viku.
2. Sá eða sú sem virðir ekki fyrirmæli stjórnvalda til að fyrirbyggja útbreiðslu Covid-19-veirunnar, s.s. um sóttkví eða samkomubann.
3. Sá eða sú sem telur sig vita allt um veiru- og/eða faraldsfræði án þess að vera menntaður/menntuð í faginu. Skrifar á samfélagsmiðla og í athugasemdakerfi fréttavefja og reynir að segja stjórnvöldum og heilbrigðisyfirvöldum hvernig þau eiga að vinna vinnuna sína.

Samgöngubann: Bann við samgöngum á milli staða. Oft beitt til að hefta útbreiðslu á smitsjúkdómum.
Mikið notað í daglegri umræðu um Covid-19-veiruna vorið 2020. Og þá oft í mismælum, þegar átt er við samkomubann.

Samkomubann: Bann við hvers kyns skipulögðum fjöldasamkomum fólks. Oft er settur hámarksfjöldi fyrir fólk sem má hittast. Til dæmis 20-100 manns.

Samskiptafjarlægð: Fjarlægð sem mælst er til þess að sé á milli fólks þegar það talar saman eða hefur samskipti sín á milli meðan reynt er að hefta útbreiðslu covid-19 veirunnar.

Smitskömm: Skömm eða skömmustutilfinning yfir því að vera smitaður/smituð af covid-19-veirunni.

Sófasérfræðingur: Sá eða sú sem telur sig hafa vit á öllum hlutum og málefnum sem eru í þjóðfélagsumræðunni hverju sinni. Telur sig jafnvel vita betur um hlutina en allir aðrir. Segir frá skoðunum sínum og hugmyndum á samfélagsmiðlum og í athugasemdakerfum fréttamiðla á meðan hann/hún situr heima hjá sér uppi í sófa.
Sófasérfræðingum fjölgaði mikið í mars 2020, eftir að Covid-19-faraldurinn braust út.

Sótthvíld: Hvíld frá umræðum um smitsjúkdóma og Covid-19-veiruna og frá ástandi sem skapast vegna þessara hluta.

Sóttkví: Úrræði sem beitt er til að hefta útbreiðslu smitsjúkdóms. Felst í því að menn eða dýr þurfa að vera lokuð af í tiltekinn tíma, þegar hætta er á því að þau hafi smitast af sjúkdómi en hafa ekki einkenni hans.

Sóttkvíði: Ótti eða kvíði yfir því að smitast af sjúkdómi, s.s. Covid-veirunni.
Kvíði yfir ástandi sem skapast vegna Covid-19-veirunnar.

Sviðsmynd: Áætlun eða spá um hluti og atburði sem gætu gerst, miðað við einhver ákveðin skilyrði.

Úrvinnslusóttkví: Sóttkví sem komið er á meðan unnið er að smitrakningu fyrir sjúkdóma. Í úrvinnslusóttkví gildir hálfgert útgöngubann. Aðeins einn íbúi má yfirgefa hvert heimili í einu til að útvega nauðsynjavörur

Viðtalsbil: Bil eða fjarlægð milli fólks meðan það talar saman. Annað orð yfir samskiptafjarlægð

Ég minni á að nánari umfjallanir og útskýringar á þessum orðum má nálgast á vefnum orðabókin.is. Eitt af þessum orðum á möguleika á því að verða valið orð ársins 2020. En nánar um það í næsta þætti.

Ókeypis ráð til virkra í athugasemdum

Misvitrir virkir í athugasemdum hafa farið mikinn í þessum Covid-faraldri. Allt í einu eru allir orðnir sérfræðingar í smitsjúkdómum og sóttvörnum og halda að allir hafi áhuga á að sjá hvaða skoðun þau hafa. Ég ætla ekki að stökkva á vagninn með þeim, enda er ég hvorki menntaður í læknisfræði né veirufræði.

En hér eru nokkrar málfarsábendingar til sófasérfræðinga sem telja sig hafa lausnina við Covid-kreppunni og svör við öllum lífsins gátum:

Sóttkví

Sóttkví er skrifað með K. Sótt-k-v-í. Ekki með H.

Ef hví er skrifað með H er það spurnarfornafnið hví, sem þýðir það sama og hvers vegna eða af hverju.

Kví með K merkir m.a. innilokað svæði, gjá eða þröngur gangur.

Samkomur eða samgöngur?

Það er samkomubann. Ekki samgöngubann. Þessar tvær aðferðir hafa löngum verið notaðar til að hefta útbreiðslu smitsjúkdóma. Ástandið er sem betur fer ekki orðið svo alvarlegt að það hafi þurft að koma á samgöngubanni.

Samgöngubann er það þegar það er bannað að ferðast á milli staða.

Samkomubann er það þegar bannað er að koma saman í fjölmennum hópum.

En það er nú kannski hægt að fyrirgefa það að mennn ruglist á þessum orðum, því þau hljóma næstum því eins.

Faraldur

Og ef við ætlum að fara eftir beygingarreglum í íslensku, þá ættum við strangt til tekið að tala um faraldursfræði. En ekki faraldsfræði.

Faraldsfræði er að vísu til í íðorðabankanum á vefnum málið.is og í íslenskri orðabók. En orðið faraldur beygist þannig:

  • Nf. Faraldur
  • Þf. Faraldur
  • Þgf. Faraldri
  • Ef. Faraldurs

Það beygist ekki eins og mannsnafnið Haraldur. Þannig að réttara væri að tala um faraldursfræði.

En snúum okkur þá að einhverju sem tengist ekki sjúkdómum eða faröldrum.

Bréf frá hlustendum

Þættinum hafa borist bréf. Það fyrra hljóðar svo:

Osló eða Óslóar?

Góðan dag.

Jón Böðvarsson kenndi mér seint á öldinni sem leið að höfuðborg Noregs héti Ósló á íslensku, í ef. Óslóar. Í þáttum á RÚV nefnist borgin Osló, til Osló.

Nú tíðkast ekki lengur að tala um rétt eða vitlaust mál. Eru báðar orðmyndirnar réttar?

Með von um gott svar.

Góð spurning.

Ég er ekki viss um hvort ég mundi nota sjálfur. En líklega mundi ég segjast vera að fara til Osló, eins og ég segist vera að fara til London eða til München. (Og þetta kallar fram minningar um það þegar við gátum ferðast á milli landa. Það voru góðir tímar).

Í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls er eignarfall borgarinnar Óslóar.

Í Málfarsbanka Árnastofnunar segir:

Frekar er mælt með rithættinum Ósló en Osló eða „Oslo“.
Ef. Óslóar.

Þannig að samkvæmt þessu ættum við að nota eignarfallið Óslóar.

Samkvæmt mínu viti og tilfinningu er samt ekki rangt að segjast vera að fara til Osló. Mér fyndist það sjálfum allt í lagi.

Það væri líka áhugavert að skoða hvor beygingin er meira notuð í ritmáli á vefnum; Ósló eða Óslóar.

Við leit á Google er eignarfallsmyndin Ósló/Osló algengari. Ef leitað er að „Til Ósló“ koma fram rúmlega 15,5 milljón niðurstöður. En þar spila líka inn í niðurstöður á öðrum tungumálum en íslensku

Eignarfallsmyndin Óslóar/Oslóar skilar tæplega 23.000 niðurstöðum, þegar leitað er að „til Óslóar“

Munurinn á timarit.is er ekki jafn mikill. Þar hefur orðasambandið „til Osló/Ósló“ samt vinninginn, kemur fyrir 7528 sinnum. „Til Óslóar/Oslóar“ kemur fyrir 6144 sinnum.

Þetta leiðir líka hugann að því hvort og þá hvernig við beygjum erlend borga- og staðaheiti í íslensku, þ.e.a.s. nöfn sem eru ekki til í íslenskum útgáfum, eins og Kaupmannahöfn, Stokkhólmur, Kænugarður eða Langbarðaland.

Í grunninn má skipta erlendum staðaheitum í fjóra flokka eftir því hvernig beyging þeirra er:

  1. Eins í öllum föllum
  2. -ar í eignarfalli (T.d. Vín, París, Ósló)
  3. -s í eignarfalli (T.d. Istanbúl, Kaíró, Alsír)
  4. -u í aukaföllum (þf., þgf. og ef.) (T.d. Aþena og Moskva)

Þau sem vilja kynna sér þetta mál nánar geta lesið B.A.-ritgerðina Til Kaíró, Kaírós eða Kaíróar eftir Silju Hlín Guðbjörnsdóttur, sem aðgengileg er á Skemmunni. Tengill í ritgerðina er undir 17. þætti á vefnum orðabókin.is.

Látum ekki deigan drúpa?

Seinni fyrirspurn til þáttarins er svohljóðandi:

Að láta ekki deigan drúpa?

Ég viðurkenni að ég hef aldrei heyrt þetta orðtak áður. Það finnast heldur ekki dæmi um það við leit á vefnum, hvorki með Google né á tímarit.is. Að láta ekki deigan síga er aftur á móti vel þekkt og þýðir að gefast ekki upp.

Þar hefur deigur merkinguna ragur, tregur, eða kjarklaus. Á Vísindavefnum er gefin sú skýring á orðtakinu að það vanti eitthvað inn í það, t.d. orðið hugur; það hafi upphaflega verið láta ekki deigan hug á síga. Hugsunin á bak við það sé þá að láta ekki deigan hug, þ.e. hugleysi, ná yfirhöndinni.

Sagnorðin drúpa og síga hafa vissulega svipaða merkingu. Þegar við drúpum höfði látum við það síga niður eins og við getum.

„Að láta ekki deigan drúpa“ hljómar dálítið eins og eitthvað frá stjórnmálamanni sem vill slá um sig með orðtökum en kann ekki að fara rétt með þau. (Hér á ég við Vigdísi Hauksdóttur).

Annar möguleiki er að þetta sé ruglingur með orðasambandið „deigur dropi“. Þegar það er ekki deigur dropi eftir, þá er allt búið.

Þar hefur deigur merkinguna blautur.

„Það var ekki deigur dropi eftir af bjórnum þegar partýið var búið“ þýðir að það hafi ekki verið neitt eftir af bjórnum þegar partýið var búið.

Að lokum

Þá er ekki deigur dropi eftir í hugmyndabrunninum að þessu sinni. Ég minni á vefinn Orðabókin.is. Einnig á samfélagsmiðla Málfarslögreglunnar á Facebook og Twitter.

Látið ekki deigan síga í baráttunni við helvítis veiruna. Látið farsóttarþreytuna ekki buga ykkur. Ekki vera kóvitar.

Veriði sæl.

Málfarslögreglan – 16. þáttur

Málfarslögreglan, 16. þáttur

Heil og sæl, kæru hlustendur.

Í þessum þætti ætla ég að varpa tveimur áramótasprengjum og stinga upp á viðamiklum breytingum á tungumálinu. Virkir í athugasemdum og frétta- og fjölmiðlamenn fá ókeypis íslenskukennslu. Og að lokum verður orð ársins 2019 afhjúpað. En við byrjum á afmæli.

Af-mæli

Afmæli eru yfirleitt gleðiefni. Afmæli er tiltekinn dagur mánaðar sem maður fæddist á. Það getur líka verið dagur sem einhver viðburður varð eða eitthvað fyrirtæki, stofnun eða félagasamtök tóku til starfa. Afmælisdagurinn er gott tilefni til að gera vel við sig í hópi vina og kunningja.

En orðið afmæli er ekki jafn skemmtilegt. Eftir því sem ég hugsa meira um þetta orð finnst mér það sífellt þunglyndislegra og meira niðurdrepandi.

Í orðinu felst að tiltekinn tími mælist af ævinni. Það minnir okkur á að ævin líður, við verðum ekkert yngri, þetta fer nú bráðum að verða búið hjá okkur.

Eða eins og Halldór Halldórsson orðar það árið 1958:

Ég hygg, að frummerking orðsins afmæli sé „afmældur tími“, en sé síðar haft um daginn þegar afmörkun tímans fer fram. Orðið er myndað af orðasambandinu mæla af eða sögninni afmæla, sem kunn er frá fyrri hluta 18. aldar.

Halldór Halldórsson. Örlög orðanna – Þættir um íslenzk orð og orðtök. 1958.

Orðið fæðingardagur hefur aftur á móti yfir sér léttara yfirbragð, eftir því sem ég hugsa meira um það.

Fæðingardagur er líka mun eldri í málinu en afmæli. Elsta dæmið um fæðingardag í Ritmálssafni orðabókar Háskólans er frá miðri eða seinni hluta 16. aldar. Elsta dæmi um afmæli í sama riti er hins vegar frá 17. – 18. öld.

Ég sé fyrir mér fund hjá siðanefnd kirkjunnar á Íslandi einhverntíma á 17. öld, þar sem ákveðið er að leggja niður orðið fæðingardag en taka upp afmæli í staðinn. Því það má ekki vera gaman á Íslandi. Menn mega ekki skemmta sér á fæðingardögum sínum. Kirkjan er allsráðandi og allir verða að hugsa um hana. Fundurinn hefur e.t.v. hljómað einhvernveginn svona:

Biskup:
Sælir kæru fundarmenn. Sem biskup ber mér að stjórna þessum fundi og stýra honum. Velkomnir á þennan fund siðanefndar íslensku þjóðkirkjunnar. Borist hefur tillaga um að leggja niður orðið fæðingardagur en taka upp afmæli í staðinn. Því við viljum ekki að fólk skemmti sér, heldur minnist þess að lífið styttist sífellt. Það verður að hugsa um kirkjuna og pínu frelsara vors. Eru allir samþykkir þessari breytingu?

Fundarmenn:
Já.

Afmæli og fæðingardagur merkja ekki alveg það sama. Skoðum aftur hvað Halldór Halldórsson segir:

Ég veit ekki, hvort mönnum er almennt ljóst, að orðin fæðingardagur og afmæli samsvara ekki hvort öðru nákvæmlega að merkingu. Orðið fæðingardagur er bæði haft um „daginn, sem maður fæðist“ og sama dag á ári hverju upp frá því. Orðið afmæli er hins vegar ekki haft um daginn, sem menn fæðast. Orðið afmæli er auk þess notað um minningardaga um atburði, félagastofnanir o.s.frv., t.d. 900 ára afmæli kristnitökunnar, 30 ára afmæli Alþýðusambandsins.

Halldór Halldórsson. Örlög orðanna – Þættir um íslenzk orð og orðtök. 1958.

Í staðinn fyrir að óska fólki til hamingju með afmælið legg ég til að við förum að dæmi helstu nágrannaþjóða okkar og óskum því til hamingju með fæðingardaginn. Sbr. Birthday í ensku, Fødselsdag í norðurlandamálum og Geburtstag í þýsku. En tölum áfram um afmæli þegar rætt er um stofndaga fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka eða þegar við minnumst einhvers atburðar.

Ég vil því óska öllum sem ég þekki til hamingju með fæðingardaginn.

Nýr áratugur… eða ekki

Í þessum orðum sögðum er árið 2020 rétt nýgengið í garð. Við síðustu áramót breyttust tvær tölur í ártalinu. Tugurinn breyttist sem sagt úr einum í tvo. Sumir halda því fram að þar með sé byrjaður nýr áratugur. Aðrir segja að nýr áratugur byrji ekki fyrr en um næstu áramót.

Þetta virðist ætla að verða eilífðar deilumál meðal Íslendinga á tíu ára fresti. Svona eins og skaupið, að breyta klukkunni, banna flugelda, kirkjuheimsóknir barna og listamannalaun eru árleg umræða og vinsælt deiluefni í svartasta skammdeginu.

Við sem komin erum til vits og ára munum öll eftir umræðum um það hvenær aldamót yrðu, s.s. hvort þau yrðu árið 2000 eða 2001. Það varð tilefni langra deilna, blaðagreina og umræðna í sjónvarpi og útvarpi. Menn skiptust í tvær andstæðar fylkingar. Annað hvort voru menn í 2000 eða 2001 hópnum.

Sem betur fer voru samfélagsmiðlar ekki til þarna.

Eins og með orðið afmæli þarf íslenskt orðfar í kringum áratugi og aldur líka að vera leiðinlegt og minna okkur á að við erum ekki að verða neitt yngri, þetta er nú bráðum að vera búið hjá okkur.

Nú er sem sagt hafinn þriðji áratugur tuttugustuogfyrstu aldar. Í fljótu bragði gæti það virst vera 2030-og eitthvað. En nei, það er bara 2020-og eitthvað.

Orðfar um aldurinn okkar er líka þunglyndislegt og niðurdrepandi. Við erum gerð eldri en við erum. Fólk sem er 30-og eitthvað ára er á fertugsaldri, fólk sem er 40-og eitthvað ára er á fimmtugsaldri og svo framvegis.

Þetta með nýjan áratug eða ekki er ákveðið vandamál í íslensku. Því við eigum engin orð eins og the twenties í ensku, tyverne í dönsku eða die Zwanzigjahre í þýsku. Allt eru þetta orð yfir ártöl sem enda á 20 – 29. Að þessu leyti er íslenskan ekki nógu gagnsæ.

Ég vil því koma með tvær tillögur:

Annað hvort að við notum frekar orð eins og tuttuguárin um ár sem enda á 20-29, þrjátíuárin um ár sem enda á 30-39 og svo framvegis.

Eða að kalla áratugina það sama og spil í spilastokkum. Núllið yrði samt fyrsti áratugur aldarinnar. Svo kæmi ásinn, sem eru ár sem enda á 10-19, tvisturinn yrði þá notaður yfir ár sem enda á 20-29 og svo framvegis.

Ég held að báðar þessar tillögur séu gagnsærri en núverandi fyrirkomulag og augljósar þegar við erum farin að venjast þeim. Maður þarf þá ekki lengur að hugsa sig um og reikna út um hvað er verið að tala ef þetta yrði tekið upp.

Tökum dæmi um notkun

Ég veit ekki hvað hún er gömul, en ég gæti giskað á að hún sé á miðjum þrjátíuárunum.

Það þýðir að hún er um það bil 35 ára.

Þessi plata kom út einhverntíma í áttunni.

Þýðir að platan hafi komið út einhverntíma á árunum 1980-1989.

Erum við ekki öll sammála um að þetta sé betra fyrirkomulag?

Ég vil a.m.k. hvetja hlustendur til nota tuttuguárin, eða tvistinn, til að dreifa þessu orðalagi og koma því í almenna notkun fyrir þrjátíuárin.

Ókeypis ráð til virkra í athugasemdum

Hér eru tveir hlutir sem fara í taugarnar á mér.

Í fyrsta lagi: Það er ekki skrifað á eftir orðunum þegar, sem og ef.

Það virðist kannski stundum hljóma þannig í daglegu talmáli. En við skrifum það ekki. Til dæmis eru eftirfarandi setningar rangar:

  1. Mér brá þegar að ég mætti þér.
  2. Sá sem að skrifaði þessa færslu ætti að skammast sín.
  3. Nennirðu að kaupa mjólk ef að þú ferð út í búð?

Þið skiljið hvað ég meina.

Í öðru lagi: Ég hef óþægilega oft séð rangan rithátt á landi frænda vorra Svía. Á íslensku heitir landið þeirra Svíþjóð.

Sumir hafa einhverja tilhneigingu til að skjóta auka ð-i í nafnið á landinu og skrifa Svíðþjóð. Það er rangt.

Við leit á vefnum tímarit.is finnast dæmi um þennan rithátt allt frá árinu 1909. Þannig að þetta er ekki alveg nýtt.

Landið heitir Svíþjóð. S-V-Í-Þ-J-Ó-Ð. Ekki með neinu ð-i inni í orðinu.

Orð ársins

Fyrri umferð kosninganna um orð ársins 2019 hófst í byrjun nóvember. Þar fengu þátttakendur að velja fimm orð af sjötíu og gefa þeim stig frá einum upp í fimm.

Tíu stigahæstu orðin úr þessari atkvæðagreiðslu komust áfram í seinni umferðina. Sum þeirra voru áberandi í fréttum og þjóðmálaumræðu á árinu 2019. En önnur hafa verið til lengur.

Og orðin sem komust áfram eru eftirfarandi, lesin í stafrófsröð:

Stigahæsta orðið af þessum tíu verður valið orð ársins 2019. Og orðið sem hlaut flest atkvæði, eða 90 af 406 atkvæðum er Loftslagskvíði.

Skilgreining á orðinu á vefnum ordabokin.is er:

Tilfinning sem felur í sér kvíða, áhyggjur eða óvissu vegna loftslagsbreytinga. T.d. að jörðin og heimurinn séu alveg að líða undir lok vegna mengunar og loftslagsbreytinga.

Orðið er ekki alveg nýtt – ég hef fundið dæmi um það allt frá 2011. En það rímar vel við umræðuna á síðasta ári, þar sem loftslagsmál voru áberandi. Sumir eiga sjálfsagt eftir að finna þessu orði allt til foráttu, svona eins og orðinu hrútskýring, og sætta sig ekki við að orðið sé til yfir höfuð.

En með því að horfast í augu loftslagsvandann og gera eitthvað í málunum má vel vera að orðið verði óþarft eftir nokkur ár. En kannski verður það óþarft hvort sem er, þegar við verðum búin að eyðileggja jörðina. Hvað veit maður?

Ég vil a.m.k. hvetja hlustendur til að leggja sitt af mörkunum við að vernda umhverfið – og þannig losnum við kannski við loftslagskvíðann.

Að lokum

Þá er þessi þáttur senn á enda runninn. Eins og venjulega minni ég á vefinn ordabokin.is. Ég minni líka á samfélagsmiðla málfarslögreglunnar á Facebook og á Twitter. Þar getið þið komið hrósi, kvörtunum eða öðrum ábendingum á framfæri. Nú, eða stungið upp á nýjum orðum til að bæta við í Orðabókina.

Látið loftslagskvíðann ekki ná tökum á ykkur, þó það sé erfitt.

Verið sæl.

Málfarslögreglan – 15. þáttur

Heil og sæl ágætu hlustendur.

Málfarslögreglan snýr nú aftur úr nokkuð góðu og löngu sumarfríi. Það hefur ýmislegt gengið á sem hefur orðið til þess að þættirnir lögðust í dvala.

Ég hef til dæmis staðið í flutningum og er nú kominn í nýtt og fullkomið upptökustúdíó þar sem aðstæður til hljóðupptöku eru miklum mun betri en á gamla staðnum. Nú get ég haldið áfram með þessa þætti eins og vindurinn, eða jafnvel eins og enginn sé morgundagurinn. (Sem minnir mig á að fjalla um þessi orðtök einhverntíma. Eins og vindurinn. Eða eins og enginn sé morgundagurinn).

Það verður þó ekki í þessum þætti.

En áfram með smjörið.

Hrós þáttarins

Við byrjum á smá hrósi.

Menn geta haft ýmsar skoðanir á Kóka kóla. Besta gosdrykk í heimi, segja sumir. Ameríska auðvaldsdrykknum, segja aðrir. Táknmynd fyrir allt slæmt sem kemur frá Ameríku og er að eyðileggja íslenska siði og menningu.

Sumir elska þennan drykk. Aðrir elska að hata hann.

En hrós dagsins fær fyrirtækið Coca-Cola European Partners Ísland (hér skulum við ekki ræða um nafnið á fyrirtækinu). Því skömmu eftir að síðasti þáttur fór í loftið bárust þær fréttir að fyrirtækið hefði ákveðið að skipta erlendu heiti á einni af framleiðsluvörum sínum út fyrir íslenskt – eða eins mikið og hægt var að gera. Því Coca-Cola Zero Sykur varð Coca-Cola án sykurs.

Áfram íslenska!

Áhrif orða og málfátækt

Það er magnað hvað orð geta haft mikil tilfinningaleg áhrif á fólk. Og þá er ég ekki að tala um orð í samhengi, í ræðu og riti eins og þessi sem ég er að segja núna, heldur einstök orð, eins og þau standa í orðabókinni. Orð eins og sími, flugvél, penni, brauðrist, málverk. Ég gæti nefnt hátt í 100.000 orð í viðbót.

Ég er í hóp á Facebook sem heitir Málvöndunarþátturinn. Á dögunum var þar umræða um orðið flugviskubit. Flugviskubit er samviskubit sem flugfarþegar fá yfir því að ferðast með flugvél, vegna slæmra umhverfisáhrifa frá flugferðum. Skemmtilegt og hnyttið orð, finnst mér. En það eru ekki allir sammála því.

Því mönnum var heitt í hamsi þarna í Málvöndunarþættinum. Gífurlega heitt. Virkir í athugasemdum eru reiðir. Menn tóku upp heykvíslarnar og vildu hefna sín. Fara niður á Austurvöll og mótmæla. Sumir kalla þetta orðskrípi. Sumum var meira að segja svo heitt í hamsi að þeir settu reiðikall við spurninguna um orðið.

Hlustum á nokkur dæmi:

„Ömurlegt“

„Fáviskubit er algengt meindýr í áróðursherferðum. Samviska er þýðingarlán úr conscientia. Orðskrípið flugviskubit er myndað með tilliti til hljóms en ekki hugsunar. Þess vegna er það misheppnað.“

„Hverslags vitleysa er þetta eiginlega? Á þetta að vera íslenskt orð og ef svo er hvað þýðir það eiginlega mér er spurn?“

„Mér finnst flugviskubit alveg rosalega vont orð og ekki í neinu samhengi við það að skammast sín fyrir að fljúga oft. Hvað er flugviska?“

„Hvað þýðir þetta orðskrípi eiginlega?!“

„Flugviska er ónothæft orð. Það er villandi, skýrir sig ekki sjálft, á að merkja allt annað en það segir.“

„sammála. Afspyrnu asnalegt orðskrípi sem þýðir ekkert.“

„„Flugviskubit“ er augljóslega mjög villandi hugtak yfir fyrirbæri sem áður hefur verið nefnt „flugskömm“. Sá sem hefur flugvisku hlýtur að vera „flugvitur“, þ.e. hann hlýtur að hafa mikla þekkingu á og reynslu af flugi.“

„Flugviskubit? Eitthvað sem bítur í flugviskuna? Hvað merkir flugviska? Hvor býr yfir flugvisku, flugmaðurinn með sitt vit á eðli flugs og flugvéla eða flugfarþeginn sem veit lítið annað um flug og flugvélar heldur en það hvernig flugvélar líta út og hvar farþegasætin er að finna? Orðskrípið „flugviskubit“ er m.ö.o. byggt á misskilningi. Þegar hafa komið fram nothæf orð um fyrirbærið, s.s. flugskömm, flugskömmusta o.s.frv.“

Þið verðið að afsaka, en ég kemst ekki hjá því að lesa þessar athugasemdir virkra öðruvísi en með gömlukallaröddum.

En þetta er greinilega hitamál. Það tekur tíma að venjast nýyrðum í málinu. Við tökum þau ekki í sátt fyrr en við vitum hvað þau þýða. Og jafnvel ekki þá.

Ég hef til dæmis fengið nokkur skilaboð frá lesendum orðabókarinnar um orðið hrútskýring. Sumir virðast einfaldlega ekki vera sáttir við að það sé til yfir höfuð.

Annað dæmi er úr lítilli frétt um streymisveituna Disney+, sem birtist á Vísi fyrir nokkrum vikum.

Í fréttinni komu meðal annars við sögu orðin Hámhorf og Höskuldarviðvörun. Og Virkir fóru á flug í athugasemdakerfinu. Einn bendir á þessi skemmtilegu nýyrði. Og annar svarar:

Kalla það nú frekar málfátækt „blaðamanns“ „Hámhorf“ = ? „Ágætishliðarverkun“ = ? eða „höskuldarviðvaranir“ = ?
Maraþonáhorf, Aukavirkni, og Upplýsingaleki… allt fyrir hendi án þess að blaðaður [svo] viti af því, eða þekkir íslensku ekki betur kannski hvað veit maður….

Í áðurnefndum Málvöndunarþætti á Facebook hneykslast svo annar á þessum sömu orðum. Viðrar jafnvel þá hugmynd að þessi orðanotkun sé til komin vegna þess að viðkomandi blaðamaður hafi „flosnað upp úr barnaskóla 10 eða 11 ára vegna tregðu í höfði“.

Æi… virk í athugasemdum! Þið eruð stundum svo fyndin!

Hvað sjálfan mig snertir, þá var ég aldrei sáttur við orðið þúsöld, sem þýðir þúsund ár. Og mér tókst aldrei almennilega að venjast því að kalla internetið alnetið. Mér finnst orðin brúðkaupsfínn, lasarus og bumbubúi vera skemmtilega óþolandi. Og svona fyrst ég er byrjaður, þá hef ég aldrei kunnað almennilega við orðin duttlungar og duttlungafullur.

Það er einmitt snilldin við íslensku (og raunar flest tungumál) að það er hægt að nota fleiri en eitt orð yfir sama hlut eða hugtak. Það ber ekki endilega vott um „málfátækt „blaðamanns““ að nota orðin hámhorf og höskuldarviðvörun, heldur fremur hið gagnstæða. Nýyrðin í fréttinni um streymisveitu Disney eru skemmtileg viðbót við íslensku. Og orðin sem viðkomandi virkur í athugasemdum benti á eru líka prýðisgóð.

Við megum vissulega hafa skoðun á því hvort nýyrði séu vel eða illa heppnuð, óþolandi eða ekki. Ef við erum ósátt við tilvist þeirra eða finnst þau misheppnuð, þá bara notum við þau ekki. Við getum þá líka bent á önnur orð sem okkur finnst betur heppnuð og jafnvel hvatt aðra til að nota í staðinn.

Það þarf ekki að vera bara eitt orð til yfir hvern hlut eða hugtak. Verum frekar ánægð með að einhver skuli búa til nýyrði og að aðrir noti þau. Þannig lifir og dafnar tungumálið. Íslenskan þarf á því að halda.

Orð ársins

Nú er farið að síga á seinni hluta ársins 2019. Það þýðir bara eitt: Það er kominn tími til að velja orð ársins.

Sjötíu orð keppast um titilinn orð ársins 2019 á vefnum orðabókin.is. Í fyrri umferð kosninganna, sem nú stendur yfir, má velja fimm orð og gefa þeim stig frá einum upp í fimm. Tíu stigahæstu orðin komast áfram í seinni umferð kosninganna, sem hefst í byrjun desember.

Á vefnum ordabokin.is má nálgast tengil í atkvæðagreiðsluseðilinn – og eru hlustendur hvattir til að nýta atkvæðisrétt sinn og hafa þannig áhrif á framtíð íslenskunnar.

Þessi þáttur er þá senn á enda runninn.

Ég vil hvetja hlustendur til að gefa raddsýni á vefnum samromur.is og auka þannig möguleika íslenskunnar til að lifa af í stafrænum heimi.

Ég minni að lokum á samfélagsmiðla Málfarslögreglunnar á Facebook og Twitter. Tengla í þá ásamt fleira skemmtilegu og spennandi efni eru aðgengilegir á vefnum ordabokin.is.

Veriði sæl.

Málfátækt „blaðamanna“

Á Vísi í dag er lítil frétt um streymisveituna Disney+.

Í fréttinni koma meðal annars við sögu orðin Hámhorf og Höskuldarviðvörun.

Virkir fóru á flug í athugasemdakerfinu. Einn bendir á þessi skemmtilegu nýyrði. Og annar svarar:

Kalla það nú frekar málfátækt „blaðamanns“ „Hámhorf“ = ? „Ágætishliðarverkun“ = ? eða „höskuldarviðvaranir“ = ?

Maraþonáhorf, Aukavirkni, og Upplýsingaleki… allt fyrir hendi án þess að blaðaður viti af því, eða þekkir íslensku ekki betur kannski hvað veit maður….

Viðbót:

Í Málvöndunarþættinum á Facebook hneykslast svo annar á þessum sömu orðum. Viðrar jafnvel þá hugmynd að þessi orðanotkun sé til komin vegna þess að viðkomandi blaðamaður hafi „flosnað upp úr barnaskóla 10 eða 11 ára vegna tregðu í höfði“.

Æi… virk í athugasemdum! Þið eruð stundum svo fyndin!

Það er einmitt snilldin við íslensku (og raunar flest tungumál) að það er hægt að nota fleiri en eitt orð yfir sama hlut eða hugtak. Þetta ber ekki endilega vott um „málfátækt „blaðamanns““. Kannski fremur hið gagnstæða. Nýyrðin í fréttinni eru skemmtileg viðbót við íslensku. Og orðin sem viðkomandi bendir á í þessari athugasemd eru líka prýðisgóð.

Hættum að fjargviðrast yfir orðanotkun. Það þarf ekki að vera bara eitt orð til yfir hvern hlut eða hugtak. Verum frekar ánægð með að einhver skuli búa til nýyrði og að aðrir noti þau. Þannig lifir og dafnar tungumálið. Íslenskan þarf á því að halda.

Af-mæli

Afmæli eru yfirleitt gleðiefni. Afmæli er tiltekinn dagur mánaðar sem maður fæddist á. Það getur líka verið dagur sem einhver viðburður varð eða eitthvað fyrirtæki, stofnun eða félagasamtök tóku til starfa. Afmælisdagurinn er gott tilefni til að gera vel við sig í hópi vina og kunningja.

En orðið afmæli er ekki jafn skemmtilegt. Eftir því sem ég hugsa meira um þetta orð finnst mér það sífellt þunglyndislegra og meira niðurdrepandi.

Í orðinu felst að tiltekinn tími mælist af ævinni. Það minnir okkur á að ævin líður, við verðum ekkert yngri, þetta fer nú bráðum að verða búið hjá okkur.

Eða eins og Halldór Halldórsson orðar það árið 1958:

Ég hygg, að frummerking orðsins afmæli sé „afmældur tími“, en sé síðar haft um daginn þegar afmörkun tímans fer fram. Orðið er myndað af orðasambandinu mæla af eða sögninni afmæla, sem kunn er frá fyrri hluta 18. aldar.

Halldór Halldórsson. Örlög orðanna – Þættir um íslenzk orð og orðtök. 1958.

Orðið fæðingardagur hefur aftur á móti yfir sér léttara yfirbragð, eftir því sem ég hugsa meira um það.

Fæðingardagur er líka mun eldri í málinu en afmæli. Elsta dæmið um fæðingardag í Ritmálssafni orðabókar Háskólans er frá miðri eða seinni hluta 16. aldar. Elsta dæmi um afmæli í sama riti er hins vegar frá 17. – 18. öld.

Ég sé fyrir mér fund hjá siðanefnd kirkjunnar á Íslandi einhverntíma á 17. öld, þar sem ákveðið er að leggja niður orðið fæðingardag en taka upp afmæli í staðinn. Því það má ekki vera gaman á Íslandi. Menn mega ekki skemmta sér á fæðingardögum sínum. Kirkjan er allsráðandi og allir verða að hugsa um hana. Fundurinn hefur e.t.v. hljómað einhvernveginn svona:

Biskup: Velkomnir á þennan fund siðanefndar íslensku þjóðkirkjunnar. Borist hefur tillaga um að leggja niður orðið fæðingardagur en taka upp orðið afmæli í staðinn. Því við viljum ekki að fólk skemmti sér, heldur minnist þess að lífið styttist sífellt. Það verður að hugsa um kirkjuna og pínu frelsara vors. Eru allir samþykkir þessari breytingu?
Fundarmenn: Já.

Afmæli og fæðingardagur merkja ekki alveg það sama. Skoðum aftur hvað Halldór segir:

Ég veit ekki, hvort mönnum er almennt ljóst, að orðin fæðingardagur og afmæli samsvara ekki hvort öðru nákvæmlega að merkingu. Orðið fæðingardagur er bæði haft um „daginn, sem maður fæðist“ og sama dag á ári hverju upp frá því. Orðið afmæli er hins vegar ekki haft um daginn, sem menn fæðast. Orðið afmæli er auk þess notað um minningardaga um atburði, félagastofnanir o.s.frv., t.d. 900 ára afmæli kristnitökunnar, 30 ára afmæli Alþýðusambandsins.

Halldór Halldórsson. Örlög orðanna – Þættir um íslenzk orð og orðtök. 1958.

Í stað þess að óska fólki til hamingju með afmælið legg ég til að við förum að dæmi helstu nágrannaþjóða okkar og óskum því til hamingju með fæðingardaginn. Sbr. Birthday í ensku, Fødselsdag í norðurlandamálum og Geburtstag í þýsku. En tölum áfram um afmæli þegar rætt er um stofndaga fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka eða þegar við minnumst einhvers atburðar.

Ég vil því óska öllum sem ég þekki til hamingju með fæðingardaginn.

Sjá einnig:

Vísindavefurinn: Hver er uppruni orðsins afmæli? Af hverju er ekki notað svipað orð og til dæmis í ensku og dönsku?