Yfirvofandi afmæli

Yfirvofandi afmæli

Eftirfarandi texti birtist í auglýsingu í Fjarðarpóstinum 21. mars:

Hressing í boði í Garðakirkju og stuttir orgeltónleikar þar sem Guðmundur Sigurðsson, organisti Hafnarfjarðarkirkju, leikur orgelverk úr Hafnarfirði og Garðabæ í tilefni af 10 ára afmæli orgela Hafnarfjarðarkirkju og yfirvofandi 50 ára afmæli orgels Garðakirkju.

Fjarðarpósturinn 21. mars 2019.

Samkvæmt minni tilfinningu er rangt að tala um að afmæli séu yfirvofandi.

Yfirvofandi hlutir eða atburðir eru slæmir eða leiðinlegir. Það má segja að náttúruhamfarir, gjaldþrot, verkföll, uppsagnir eða stríð séu yfirvofandi.

En tilfinning mín býður ekki upp á að atburðir séu yfirvofandi ef það er tilefni til að gleðjast eða fagna þeim.

Sjá einnig: Vísindavefurinn: Felst neikvæð merking í því „að eitthvað sé yfirvofandi“?

Kirkjuorgelganga
Skjáskot af auglýsingu um yfirvofandi afmæli. Fjarðarpósturinn 21. mars 2019.

Málfarslögreglan – 13. þáttur

Málfarslögreglan – 13. þáttur

Málfarslögreglan, 13. þáttur

Heil og sæl ágætu hlustendur og verið velkomin í 13. þátt málfarslögreglunnar.

Í þessum þætti verður fjallað um gáfnafar – eða skort á því. Við kynnumst nýjum greinarmerkjum og jörðum nokkur ofnotuð orð.

En við byrjum á nokkrum ábendingum til fjölmiðlamanna.

Ábendingar til fjölmiðlamanna

Á vef Vísis 26. janúar síðastliðinn mátti lesa í frétt um andlát flugþjóns:

Vél bandaríska flugfélagsins Hawaiian Airlines þurfti að framkvæma neyðarlendingu í San Francisco á leið sinni frá Honolulu, höfuðborgar Hawaii, til New York vegna veikinda flugþjóns um borð á fimmtudaginn.

Að undanskildu því að orðið höfuðborg er þarna í vitlausu falli er sagt frá því að það hafi þurft að framkvæma neyðarlendingu.

Til að gera textann skemmtilegri og meira lifandi (ekki það að þessi frétt hafi verið lífleg eða skemmtileg) hefði mátt segja að flugvélin hefði þurft að nauðlenda. En ekki framkvæma neyðarlendingu.

Vörumst stofnanamálfar og notum sagnorð þegar við getum, í staðinn fyrir óþarfa nafnorðasúpu.

Daginn áður, mátti lesa á sama fréttavef:

Efnistökin í þættinum falla ekki öllum í kram og hafa nokkrar umræður spunnist um þau á samfélagsmiðlum eins og Twitter.

Hér er blandað saman tveimur orðatiltækjum. Annars vegar falla í kramið hjá einhverjum og hins vegar falla einhverjum í geð.

Annað hvort hefði átt að segja: „Efnistökin falla ekki í kramið hjá öllum“, eða „Efnistökin falla ekki öllum í geð“.

Í frétt um áfengisvandamál Harry Potter leikarans Daniel Radcliffe kom fram að hann hafi lagt flöskuna á hilluna, í þeirri merkingu að hann hafi hætt að drekka.

Mér finnst eitthvað rangt við þetta orðalag. Það er vel þekkt að íþróttamenn leggja skóna á hilluna þegar þeir hætta að spila boltaíþróttir. En mér hefði fundist betra að segja að leikarinn hafi sett tappann í flöskuna.

Í frétt um mislingasmit á Íslandi var sagt:

Börn eru ekki bólusett fyrir mislingum fyrir átján mánaða aldur en bæði börnin hafa ekki náð þeim aldri.

Þetta var óheppilega orðað. Hérna hefði verið betra að segja: „hvorugt barnið hefur náð þeim aldri“.

En það verður líka að hrósa fjölmiðlamönnum fyrir það sem vel er gert. Besta fyrirsögn á frétt það sem af er þessu ári hlýtur að teljast, a.m.k. að mínu mati Innkalla hallagallaðar pönnukökupönnur.

Í fréttinni á bak við fyrirsögnina var líka nýyrðið hallagalli, sem er framleiðslugalli sem felst í því að halli á tilteknum hlut er ekki réttur. Í þessu tilviki var það halli á skafti á pönnukökupönnum.

Þá er komið nóg af ábendingum til fjölmiðlamanna. En þá að tvöfaldri merkingu.

Skýrar kýr

Það eru til mörg orð sem hafa fleiri en eina merkingu – og menn eru ekki á eitt sáttir um merkinguna. Eitt af þessum orðum er kýrskýr.

Í mínum huga merkir orðið kýrskýr það sama og heimskur eða einfaldur. Og það er líka eina skýringin sem gefin er upp í íslenskri orðabók.

Ég fæ þess vegna alltaf pínulítinn kjánahroll þegar menn nota þetta orð vitlaust, eða í einhverri annarri merkingu. Sumir nota orðið í merkingunni að eitthvað sé augljóst. Og stundum virðist það jafnvel hafa andstæða merkingu miðað við „réttu“ merkinguna og þýða það sama og vitur eða vel gefinn:

Það er al­gjör­lega kýr­skýrt að Rík­is­út­varpið gaf ekki rétt­ar upp­lýs­ing­ar fyr­ir fjár­laga­nefnd­inni.

sagði Guðlaugur Þór Þórðarson til dæmis 6. nóvember 2015.

Annað og nýrra dæmi er fyrirsögnin Rannsakandi segir mynstrið kýrskýrt dæmi um skipulagða brotastarfsemi. Þarna er átt við að mynstrið sé augljóst dæmi um skipulagða brotastarfsemi.

Við lauslega leit á vefnum tímarit.is virðist algengasta merking orðsins kýrskýr vera eitthvað sem er augljóst. Elsta dæmið sem finnst um orðið er frá árinu 1976.

Sumir hafa velt því fyrir sér hvort gamla merkingin, þ.e. heimskur, sé einhvers kona draugmerking, þ.e.a.s. merking sem finnst hvergi nema í orðabókum. Þessi hugmynd kemur til dæmis fram í grein Jóns G. Friðjónssonar um íslenskt mál í Morgunblaðinu 31. mars 2007.

Sjálfur hef ég aldrei heyrt orðið kýrskýr notað í merkingunni heimskur. Ég er ekki alinn upp í sveit og hef því ekki vit á gáfnafari kúa, eða skorti á því. Ég held að vitneskja mín um þessa merkingu hafi komið úr spurningaspilinu Trivial pursuit einhverntíma á níunda áratug síðustu aldar. Af því að Trivial náði að planta þessu í huga mér þegar ég var átta eða níu ára hefur þetta verið hin eina og rétta merking orðsins í mínum huga.

Misvitrir Moggabloggarar og virkir í athugasemdum, sérstaklega af eldri kynslóðum, virðast vera sammála mér. Það eru þá einkum þeir sem gera athugasemdir við orðanotkun stjórnmálamanna og svokallaðra fréttabarna sem vekja athygli á þessari merkingu orðsins.

Hlustendur sem vilja lesa meira um orðið Kýrskýr geta kynnt sér ágæta grein Margrétar Jónsdóttur í tímaritinu Orð og tunga frá árinu 2018. Tengill í greinina fylgir með 13. þætti á vefnum ordabokin.is.

En snúum okkur næst að nýjustu greinarmerkjunum.

Hrópspurningarmerki

Við könnumst öll við upphrópunarmerki og spurningarmerki. Spurningarmerki skal setja á eftir málsgrein (málsgreinarígildi), sem felur í sér beina spurningu. Upphrópunarmerki skal setja á eftir einstökum orðum eða málsgreinum, sem felst í upphrópun (t.d. fögnuður, skipun, fyrirlitning o.s.frv.)

Nánar má lesa um notkun þessara merkja í auglýsingu um greinarmerkjasetningu. Tengil má nálgast undir síðu 13. þáttar á vefnum ordabokin.is.

Í formlegu ritmáli þykir ekki fara vel á því að nota fleiri en eitt greinarmerki í einu. Þó eru til undantekningar. Þrír punktar í röð geta t.d. táknað úrfellingu eða hik. Og þrjú upphrópunarmerki í röð eru alþjóðlegt tákn um hneykslun. En spurningar verða ekkert meiri spurningar þótt spurningarmerki séu fleiri en eitt.

Þaðan af síður þykir heppilegt að nota mörg mismunandi greinarmerki í röð. Það er hins vegar gert í óformlegra ritmáli á internetinu og á samfélagsmiðlum.

Sumum þykir heldur ekki gott í formlegum, prentuðum texta að nota spurningarmerki og upphrópunarmerki saman.

Árið 1962 var því gerð tilraun til að sameina þessi tvö merki í eitt. Upphafsmaður þess var Bandaríkjamaðurinn Martin K. Speckter, yfirmaður á auglýsingastofu.

Þetta merki ákvað hann að kalla Interrobang. Á íslensku mætti kalla það hrópspurningarmerki.

Hrópspurningarmerki er eins og áður sagði sett saman úr upphrópunarmerki og spurningarmerki. Það lítur út eins og upphrópunarmerki sem búið er að skrifa spurningarmerki yfir – eða öfugt. Eða stafinn Þ eða P með punkti undir. Lesendur sem vilja sjá hvernig merkið lítur út geta farið á síðu þrettánda þáttar á vefnum ordabokin.is til að skoða það.

Tilgangurinn með merkinu er að standa á eftir spurningum sem fela í sér ótta, undrun, spennu eða vantrú, eða á eftir retorískum spurningum, þ.e.a.s. spurningum sem er varpað út í loftið, meira til íhgununar en kalla ekki endilega á svar. Merkið hentar þeim vel sem eru á móti því að nota mörg greinarmerki í röð og vilja halda sig við eitt merki í einu.

Hrópspurningarmerkið náði aldrei almennri hylli og hefur því ekki verið mikið notað. Kannski af því að það er ekki hægt að skrifa það með einföldum hætti á lyklaborð, a.m.k. ekki á íslensk lyklaborð. Það er þó gert ráð fyrir merkinu í hönnun nokkurra leturgerða. En það þarf að fara krókaleiðir til að nálgast það. Eina aðferðin sem ég kann er að gúgla Interrobang og nota svo „copy-paste“-aðferðina.

Ég þekki engin dæmi um hrópspurningarmerki úr íslensku ritmáli. En ég sé fyrir mér að hneykslaðir virkir í athugasemdum gætu tekið það upp. Dæmi um spurningar sem gætu endað á hrópspurningarmerki eru:

  • Hver fjandinn er í gangi hérna‽
  • Kallarðu þetta tónlist‽
  • Er þetta frétt‽
  • Viltu ekki bara fara að grenja‽

Nú er það undir virkum í athugasemdum og notendum samfélagsmiðla komið að vekja hrópspurningamerkið til vegs og virðingar. Þá munu tölvuframleiðendur, forritarar og leturhönnuðir kannski taka við sér og auðvelda aðgengi að því á venjulegum lyklaborðum.

Hlustendur sem vilja kynna sér hrópspurningarmerkið betur geta lesið grein á ensku útgáfu Wikipediu um Interrobang. Tengill fylgir með 13. þætti á vefnum ordabokin.is.

En snúum okkur að lokum að nokkrum ofnotuðum orðum og orðasamböndum sem er hægt að nota minna.

Ofnotuð orð

Tímapunktur er ofnotaður. Það þarf ekki allt að gerast á hinum eða þessum tímapunkti. Orð sem hægt er að nota í staðinn eru til dæmis núna og tími. Annars fer það eftir því í hvaða samhengi orðið stendur hvað hægt er að nota í staðinn fyrir það.

Aðferðafræði er annað ofnotað orð. Undanfarið hafa allir notað hina eða þessa aðferðafræði til að leysa verkefni eða vandamál. Yfirleitt ætti að vera nóg að nota einhverja aðferð til lausnar á verkefnum.

Og ofnotað orðasamband er að vera á pari við eitthvað. Prófum að jafnast á við eitthvað, vera til jafns við eitthvað, eða vera jafn mikið eða lítið og eitthvað. Bara til dæmis.

Reynum að nota minna af þessum orðum og frekar að umorða hlutina.

Hugmyndabrunnurinn er þá tæmdur í bili. Ég minni á Málfarslögregluna á Facebook og Twitter, sem og á vefinn ordabokin.is. Þar geta hlustendur sent skilaboð, hrós, kvartanir, ábendingar og hvað sem þeim liggur á hjarta.

Nýir og eldri hlaðvarpsþættir eru aðgengilegir á vefnum ordabokin.is, í iTunes og á Spotify. Textaútgáfur þáttanna má nálgast á vefnum blogg.ordabokin.is, þ.e. blogg, með tveimur g-um.

En þessum þætti er þá öllum lokið.

Takk fyrir áheyrnina.
Góðar stundir.

Málfarslögreglan – 12. þáttur

Málfarslögreglan – 12. þáttur

Málfarslögreglan – 12. þáttur

Heil og sæl ágætu hlustendur og verið velkomin í tólfta þátt Málfarslögreglunnar.

Loksins, gætu sumir verið að hugsa, því að þættirnir snúa nú aftur að loknu góðu og löngu fríi. Fríið þýðir þó ekki að málfarslögreglan hafi setið auðum höndum. Ó, nei, því er nú öðru nær.

Úr því að það er komið nýtt og sprellfjörugt ár er ekki úr vegi að gefa eitt áramótaheit:

Ég lofa því að hlaðvarpsþættir þessa árs verða fleiri en á síðasta ári.

Það ætti nú ekki að vera erfitt að halda þetta heit, því að þættir síðasta árs voru bara tveir.

Þetta er ekki eina loforð þáttarins. Við komum að hinu rétt bráðum.

Það hefur margt gerst í þessu langa fríi. Orðabókin hefur til dæmis haldið áfram að vaxa síðan síðasti þáttur fór í loftið. Og núna í haust bættist hundraðasta orðið í Orðabókina.

Aldrei má maður gera neitt. Maður má einu sinni ekki hlaupa og leika sér án þess að vera skammaður og lokaður inni.

Emil í Kattholti.

Eins og Emil í Kattholti orðaði það með norðlenska hreimnum, þegar hundraðasti spýtukarlinn bættist í safnið.

Ég hélt nú ekkert sérstaklega upp á þennan áfanga. En af tilefni af hundraðasta orðinu er því hér með lýst yfir að þegar 400 orða múrinn verður rofinn verður farið að huga að prentútgáfu Orðabókarinnar. Hlustendur sem vilja sjá það gerast eru þess vegna hvattir til að vera duglegir að senda inn hugmyndir að nýjum orðum. Það má til dæmis gera á vefnum ordabokin.is eða með skilaboðum á Facebook eða Twitter.

Og svo er það orð ársins. Við komum að því síðar í þessum þætti. En fyrst að tilefni. Eða af tilefni? Hvort er það?

Af eða að?

Hlustandi kom að máli við mig á dögunum og spurði hvort það ætti að segja eða af gefnu tilefni. Þetta var góð spurning. Ég játa að ég er aldrei almennilega klár á þessu sjálfur, þannig að ég lagðist í rannsóknir og rakst á umfjöllun um orðið tilefni í Málfarsbanka Árnastofnunar. Þar segir:

Annaðhvort er sagt í tilefni einhvers eða í tilefni af einhverjuVið komum í tilefni afmælisins. Við komum í tilefni af afmælinu.
Einnig: af einhverju tilefniAf hvaða tilefni eru allir hérna? Efnt var til fagnaðar af alls engu tilefni. Athuga þó að sagt er að gefnu tilefni.

Málfarsbanki Árnastofnunar

Þá vitum við það. Það er sem sagt af tilefni, með F-i. Nema þegar tilefnið er gefið, þá er það , með Ð-i.

Lítum kannski á það þannig að eð sé ókeypis en eff þurfi að borga fullu verði:

F er fullu verði greitt
en ð-ið kostar ekki neitt

Svona til að búa til einhverja þumalputtareglu.

Hlustendur geta kynnt sér málið nánar á vef Árnastofnunar. Tengil má nálgast á síðu tólfta þáttar á vefnum ordabokin.is

Tölum um tölur

Þá að raðtölum.

Raðtölur eru tölustafir sem eru skrifaðir með punkti fyrir aftan. Þeir tákna staðsetningu í runu eða lýsa röð viðburða. 1. 2. 3. er lesið: fyrsti, annar, þriðji.

Iðulegar rekst ég á ranga notkun á raðtölum, sérstaklega í rituðum texta á internetinu. Þessi ranga notkun felst í því að punktur er settur aftan við tölur þegar það á ekki að vera punktur á eftir þeim. Oft má sjá dæmi um þetta hjá foreldrum á samfélagsmiðlum að segja frá afmælum barna sinna.

Til dæmis:

„Þessi dama er þriggja ára í dag.“
er skrifað:
„Þessi dama er 3. ára í dag.“

Þá ætti að lesa þetta:
„Þessi dama er þriðja ára í dag.“

Þessi ranga notkun fer meira en lítið í taugarnar á mér. Punkt á ekki að skrifa á eftir tölum nema þær séu raðtölur, eða þegar þær eru hafðar í lok setninga. (Eða þegar þær eru hluti af vefslóðum eða IP-tölum, en það er nú önnur saga).

Hér eru tvö dæmi um rétta notkun:

Dæmi 1:
Ragnheiður hafnaði í 2. sæti í 200 metra bringusundi.

Þarna á að vera punktur á eftir 2, í 2. sæti, en ekki á efti 200 í 200 metra bringusundinu.

Dæmi 2:
Í dag, 12. desember, fagnar þessi drengur 10 ára afmæli sínu.

Þarna á að vera punktur á eftir tólf, þ.e. 12. desember en ekki á eftir 10 (í tíu ára.

Höfum það á hreinu.

Annað sem ég hef aldrei þolað við rithátt á tölum er þegar tölustöfum og bókstöfum er blandað saman í staðinn fyrir að skrifa töluorð beint út, með bókstöfum. Það er einhver hefð fyrir því í ensku að nota bæði bókstafi og tölustafi, (sbr. þegar first er skrifað 1st, second er skrifað 2nd, third er skrifað 3rd og svo framvegis. En þessi ritháttur virkar ekki almennilega á íslensku.

Ég venst því til dæmis aldrei að sjá eignarfall töluorðanna eins til fjögurra skrifað með bókstöfum í bland við tölustafi, þ.e. 1ns, 2ja, 3ja og 4ra. Upphaflega hefur þetta verið gert til að spara stafafjölda. En þess ætti ekki að þurfa lengur.

Það eru því vinsamleg tilmæli frá Málfarslögreglunni að menn skrifi þessi orð frekar bara með bókstöfum! Eins, tveggja, þriggja og fjögurra.

Það er ekki svo erfitt.

Þá er þessari tölu um tölur lokið, en snúum okkur næst að kosningum.

Orð ársins 2018

Í byrjun nóvemer síðastliðins fór fyrri umferð kosninganna um orð ársins af stað. Orðin sem kosið var um komu ekki öll fram á sjónarsviðið á árinu 2018 og mörg þeirra höfðu verið til ansi lengi. En þau áttu það öll sameiginlegt að hafa birst í orðabókinni frá 1. nóvember 2017 til 31. október 2018.

Í fyrri umferð mátti velja fimm af fimmtíu og einu orði og gefa þeim stig frá einum upp í fimm. Tíu stigahæstu orðin komust áfram í seinni umferð. Orðin sem komust áfram í seinni umferð voru, í stafrófsröð:

Nú er seinni umferð kosninganna lokið og því er kominn tími til að uppljóstra um það hvert af þessum tíu orðum hlýtur titilinn Orð ársins 2018 á vefnum ordabokin.is.

1160 atkvæði voru greidd í seinni umferðinni. Og orðið sem flestir völdu var áhrifavaldur, með 215 atkvæði. Fast á hæla þess fylgdu Prófljóta, með 191 atkvæði og Sjomli, með 157 atkvæði.

Áhrifavaldur er, samkvæmt skýringu í Orðabókinni notandi samfélagsmiðla (t.d. Snapchat eða Instagram) sem hefur fjölda fylgjenda, oftast nokkur þúsund eða fleiri.

Áhrifavaldar kynna oft vöru og þjónustu á samfélagsmiðlum, yfirleitt gegn greiðslu frá seljendum eða framleiðendum.

Árið 2018 var svo sannarlega ár áhrifavaldanna. Í byrjun október bannaði Neytendastofa til dæmis áhrifavöldum að nota duldar auglýsingar í bloggfærslum. Síðasta sumar voru áhrifavaldar taldir sem sérstakur tekjuhópur í tekjublaði DV og íslenskir áhrifavaldar eru reglulegir gestir á hverjir-voru-hvar- og slúðursíðum dagblaða og fréttavefja.

Nú í upphafi ársins 2019 er það orðin full vinna hjá mörgum að vera áhrifavaldur og ríkisskattstjóri er m.a.s. að kanna starfsvettvang þeirra og kortleggja hvernig greiðslum til þeirra er háttað. Því þetta verður jú allt að vera löglegt.

En sem sagt, til hamingju með orð ársins, áhrifavaldar og aðrir hlustendur.

Þættinum er þá lokið í þetta sinn. Hvers kyns ábendingar, hrós, kvartanir, tillögur og annað sem hlustendum kann að detta í hug má senda í gegnum vefinn ordabokin.is. Einnig má nota samfélagsmiðlana Facebook og Twitter til verksins.

Lifið vel og lengi.
Passið ykkur á duldum auglýsingum áhrifavalda.
Góðar stundir.

Orð ársins

Orð ársins

RÚV og Árnastofnun tilkynntu í dag hvaða orð voru valin orð ársins 2018.

Fyrir valinu urðu orðin klausturfokk og kulnun.

Auk þess tilnefndi Árnastofnun sagnorðið plokka, í merkingunni að fara út að skokka og tína upp rusl í sömu ferð.

Fylgist með í næstu viku. Þá kemur út nýr hlaðvarpsþáttur, þar sem sagt verður frá því hvert orð ársins er í Orðabókinni. Kosningunni er formlega lokið og talning atkvæða stendur yfir.

Klausturfokk

Klausturfokk

Þetta Klaustursmál hefur alið af sér ýmis skemmtileg nýyrði.

Orð tengd málinu sem hafa ratað í Orðabókina eru:

Það er verst að atkvæðagreiðslan um orð ársins er of langt á veg komin til að þessi orð geti verið með. Helst langar mig til að hætta við hana og byrja upp á nýtt.

Að vissu leyti skil ég hvernig höfundum áramótaskaupsins líður.

Nú er bara að vona að Íslendingar verði ekki eins fljótir að gleyma þessari umræðu og þeir eru að gleyma öðrum stórum málum. Því eitthvað af þessum orðum á möguleika á að verða kosið orð næsta árs.

Orð ársins 2018 – seinni hluti

Orð ársins 2018 – seinni hluti

Seinni umferð kosninganna um orð ársins 2018 er opinberlega hafin.

Í henni má kjósa eitt af þeim tíu orðum sem fengu flest stig í fyrri umferðinni. Þau hafa ekki öll komið við sögu á þessu ári – sum þeirra hafa verið til talsvert lengi – en þau eiga það sameiginlegt að hafa komist í orðabókina á milli 1. nóvember 2017 og 31. október 2018.

Orðin eru, í stafrófsröð:

Smelltu hér til að kjósa.

Orð ársins – fyrri hluti

Orð ársins – fyrri hluti

Kosningin um orð ársins er nú í fullum gangi – hún stendur yfir þar til í byrjun desember.

Í fyrri umferð kosninganna er kosið milli allra orða sem hafa bæst við Orðabókina frá 1. nóvember 2017 til 1. nóvember 2018. Það er 51 orð.

Orðin hafa samt ekki öll komið til sögunnar á þessu ári. Sum þeirra voru áberandi í þjóðmálaumræðunni á árinu. Önnur fundust bara við vafur á vefnum og mér fannst þau eiga heima í Orðabókinni. Og sum eru komin til vegna ábendinga frá lesendum Orðabókarinnar.

Í fyrri umferðinni má velja allt að fimm orð og gefa þeim stig. Tíu stigahæstu orðin í lok umferðinnar komast áfram í seinni umferð.

Hér má smella til að kjósa.

Minnt er á að á vefnum ordabokin.is má nálgast útskýringar á öllum orðunum.

Orðin sem kosið er um eru eftirfarandi:

Málfarslögreglan – 11. þáttur

Málfarslögreglan – 11. þáttur

Heilir og sælir ágætu hlustendur og verið velkomin í ellefta þátt Málfarslögreglunnar.

Bréf frá hlustendum

Þættinum hefur borist bréf. Það innihélt svohljóðandi fyrirspurn:

Af hverju er forsetinn með litlum staf?

Mér er ljúft og skylt að svara þessari spurningu.

Í Auglýsingu um setningu íslenskra ritreglna, sem dyggir hlustendur ættu að vera farnir að kannast við, segir í grein númer 1.2.2.5:

Nöfn stofnana/embætta sem bera heiti sem jafnframt er starfsheiti æðsta yfirmanns, til dæmis sýslumaðurinn í Reykjavík, umboðsmaður Alþingis, ríkislögreglustjóri, má ætíð rita með litlum upphafsstaf, en einnig er heimilt að rita stóran staf ef augljóslega er vísað til stofnunarinnar en ekki starfsmannsins sem veitir henni forstöðu (sjá um lítinn staf í starfsheitum í 1.3.2 a).

Samkvæmt mínum skilningi á þessari reglu er hann Guðni okkar forseti – með litlu f-i. En hann vinnur hins vegar hjá embætti Forseta Íslands, sem má hvort tveggja skrifa með stóru og litlu f-i. Það mælir því ekkert á móti því að forseti sé skrifað með stóru f-i ef átt er við stofnunina eða embættið Forseta Íslands, en ekki æðsta starfsmann stofnunarinnar.

Ég vona að þetta svari spurningunni. Ég bendi einnig á ágætis svar á Vísindavefnum við spurningunni Eiga starfsheiti sem hljóma eins og heiti stofnunar að vera með litlum eða stórum staf? Tengil í spurninguna má nálgast í gegnum ellefta þátt á vefnum ordabokin.is.

Stafrænn tungumáladauði

Frá því síðasti þáttur fór í loftið hefur verið rætt um stafrænan tungumáladauða. En hver er hann þessi stafræni tungumáladauði?

Stafrænn tungumáladauði er það þegar tungumál láta í minni pokann fyrir stafrænum samskiptum og tækni, þ.e. þegar þeim er lítið sem ekkert sinnt eða komið til móts við þau til að hægt sé að nota þau í hinum stafræna heimi.

Nú á tímum samfélagsmiðla, snjalltækja, sjálfvirkra aðstoðarmanna og efnisveitna á borð við Netflix og Youtube er íslenskan í ákveðinni hættu. Við erum einfaldlega ekki nógu mörg til að tækja- og efnisframleiðendur nenni að púkka upp á þetta tungumál okkar. Það sama á reyndar við um mikinn meirihluti tungumála í Evrópu og jafnvel í heiminum.

Ungverski vísindamaðurinn András Kornai segir að til að tungumál teljist lífvænleg í hinum stafræna heimi þurfi að miða við fjóra þætti.

Í fyrsta lagi stærð samfélagsins sem notar tungumálið í stafrænum samskiptum.

Í öðru lagi virðing fyrir tungumálinu, þ.e. hvort málnotendum, sérstaklega af yngri kynslóðum, finnst viðeigandi að nota það í stafrænum samskiptum sín á milli.

Í þriðja lagi virkni tungumálsins, þ.e. hvar og hvernig það er notað. Er það til dæmis bara notað af fræðimönnum og þeim sem eiga það ekki að móðurmáli? Eða eru fleiri sem nota það, og þá í daglegum samskiptum?

Og í fjórða lagi Wikipedia. Því meira efni sem til er af greinum á tilteknu tungumáli á Wikipediu, því minni líkur eru á stafrænum tungumáladauða.

Við fyrstu sýn getum við kannski verið bjartsýn fyrir hönd íslenskunnar þegar þessir þættir eru skoðaðir, en Kornai segir engu að síður að 95% allra tungumála sem til eru hafi nú þegar orðið undir í baráttunni við stafræna tækni og þeirra bíði stafrænn tungumáladauði.

Önnur rannsókn segir að 21 af 30 evrópskum tungumálum, þar á meðal íslenska, séu í útrýmingarhættu á stafrænni öld.

Þetta þýðir kannski ekki að íslenskan muni hverfa, a.m.k. ekki alveg í fyrirsjáanlegri framtíð. Við munum halda áfram að tala hana og eiga samskipti á íslensku í raunheiminum, en ef ekkert verður að gert mun hún verða undir í stafrænum samskiptum.

Stafræn samskipti eru stór hluti af daglegu lífi okkar flestra, þannig að það er eðlilegt að menn spyrji sig til hvers við séum eiginlega að læra íslensku fyrst við getum svo ekki notað hana í stafræna heiminum.

En hvað er hægt að gera til að koma í veg fyrir stafrænan tungumáladauða íslenskunnar, eða a.m.k. að hægja á honum?

Lykilatriðið er að foreldrar verji meiri tíma með börnum sínum, tali meira við þau og lesi fyrir þau. Því að börn læra ekki tungmál með því einu að horfa á myndbönd eða sjónvarp, jafnvel þó það sé á íslensku.

Og svo þarf að auka fjárstuðning við máltækni til að hægt verði, til dæmis, að búa til tæki sem menn geta raddstýrt á sínu eigin tungumáli, þ.e. ef það er annað en enska. Því að fæst tungumál eru nógu langt á veg komin í þessari tækni til að það sé hægt.

Nokkrum dögum áður en þessi þáttur var tekinn upp heyrði ég á tal nokkurra unglinga sem voru að velta fyrir sér íslensku orði yfir orðið gúgla, þ.e. að leita að einhverju á netinu með google leitarvélinni.

Þetta samtal kveikti í mér smá vonarneista fyrir hönd íslenskunnar í stafrænum heimi. Það er greinilega ekki öllum sama um málið.

Hlustendur sem vilja lesa greinarnar sem ég vitnaði í geta fundið tengla í þær undir ellefta þætti á vefnum ordabokin.is. Þar eru einnig tenglar í annað efni um stafrænan tungumáladauða.

Einkaréttur og einkaleyfi

Eftir að síðasti þáttur fór í loftið var sagt frá því í fréttum að upphrópunin Húh! væri skráð vörumerki og hefði verið það frá sumrinu 2016. Eigandi vörumerkisins hefur einkarétt á því að láta prenta það á föt og drykkjarumbúðir. Það er búið að úthúða honum nógu mikið í athugasemdakerfum fjölmiðla og verður því þess vegna sleppt hér.

En þetta með einkaleyfið fékk mig til að hugsa (eins og sjálfsasgt fleiri Íslendinga) um það hvort það væri hægt að eignast einkarétt eða einkaleyfi á orðum. Og það er hægt, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, sem hlustendur geta kynnt sér á vef Einkaleyfastofu. Það er tengill á vef Einkaleyfastofu undir ellefta þætti á vefnum ordabokin.is.

Vörumerkið má til dæmis ekki vera algengt tákn eða orð sem algengt er í viðskiptum eða notað í daglegu máli. En það væri vel þess virði að láta reyna á þessar reglur. Það er örugglega hægt að túlka þær mjög frjálslega.

Ég sæi til dæmis fyrir mér að sækja um einkarétt á því að prenta orðin og, en, í eða maður, til dæmis á föt eða matarumbúðir.

Svo væri hægt að færa út kvíarnar og fá einkarétt á því að prenta orðin bjór og öl utan á drykkjarumbúðir.

Ég segi nú bara: Hvílík gullnáma ef af þessu yrði!

Ókeypis ráð til virkra í athugasemdum

Þá er komið að föstum liðum eins og venjulega.

Stundum þegar menn vilja vera gáfulegir, málefnalegir eða formlegir bæta menn alls konar óþarfa við orð sín, sem mætti vel sleppa. Líklega er það oftast gert í hugsunarleysi. Hér koma nokkur dæmi um orð sem mætti nota minna í daglegu tali og tillögur að styttri orðum.

Í staðinn fyrir óvissustig er oft nóg að tala um óvissu.

Stundum er sagt að eitthvað gerist á ákveðnum tímapunkti. Þessi tímapunktur er ofnotaður og honum má skipta út fyrir ýmislegt annað. Til dæmis má segja að eithvað gerist núna, á þeim tíma eða þessari stundu.

Í staðinn fyrir að hljóta meiðsli má vel tala um að meiðast eða slasast.

Í stað þess að segja að eitthvað hafi gerst fyrir nokkrum árum síðan, nokkrum vikum síðan eða nokkrum dögum síðan er nóg að segja að það hafi gerst fyrir nokkrum árum, fyrir nokkrum vikum eða fyrir nokkrum dögum. Þetta síðan aftan við orðin er óþarfi í þessu samhengi.

Og eitt ofnotað orð er aðferðafræði. Oft er sagt að hin eða þessi aðferðafræði hafi verið notuð til að leysa tiltekið verkefni eða vandamál. Það er nóg að tala einfaldlega um aðferð.

Þetta voru bara örfá dæmi. Verum vakandi og forðumst óþarfa málalengingar. Hlustendur eru hér með hvattir til að senda fleiri dæmi um svona óþarfa og tillögur að því hvernig má stytta málið.

Ábending til fjölmiðlamanna

Að lokum ein vinsamleg ábending til fjölmiðlamanna:

Á dögunum heyrði ég sagt í fréttum stöðvar tvö:

Erlendir ferðamenn sem slasast hafa í umferðinni hér á landi hafa nær þrefaldast frá árinu 2003.

Það eru ekki ferðamennirnir sem hafa þrefaldast, heldur fjöldi þeirra. Réttara hefði því verið að segja:

Fjöldi erlendra ferðamanna sem slasast hafa í umferðinni hér á landi hefur nær þrefaldast frá árinu 2003.

Þá er ekki fleira á dagskrá í þessum þætti.

Sem fyrr eru hlustendur hvattir til að senda athugasemdir, ábendingar, spurningar, hrós eða kvartanir. Það er til dæmis hægt að gera með því að senda skilaboð í gegnum vefinn. Eða með aðstoð Facebook eða Twitter, en tenglar í samfélagsmiðlana eru aðgengilegir frá vefnum ordabokin.is.

Þessum þætti er þá öllum lokið.

Veriði sæl.

Tenglar og ítarefni