Málfarslögreglan – 13. þáttur

Málfarslögreglan, 13. þáttur

Heil og sæl ágætu hlustendur og verið velkomin í 13. þátt málfarslögreglunnar.

Í þessum þætti verður fjallað um gáfnafar – eða skort á því. Við kynnumst nýjum greinarmerkjum og jörðum nokkur ofnotuð orð.

En við byrjum á nokkrum ábendingum til fjölmiðlamanna.

Ábendingar til fjölmiðlamanna

Á vef Vísis 26. janúar síðastliðinn mátti lesa í frétt um andlát flugþjóns:

Vél bandaríska flugfélagsins Hawaiian Airlines þurfti að framkvæma neyðarlendingu í San Francisco á leið sinni frá Honolulu, höfuðborgar Hawaii, til New York vegna veikinda flugþjóns um borð á fimmtudaginn.

Að undanskildu því að orðið höfuðborg er þarna í vitlausu falli er sagt frá því að það hafi þurft að framkvæma neyðarlendingu.

Til að gera textann skemmtilegri og meira lifandi (ekki það að þessi frétt hafi verið lífleg eða skemmtileg) hefði mátt segja að flugvélin hefði þurft að nauðlenda. En ekki framkvæma neyðarlendingu.

Vörumst stofnanamálfar og notum sagnorð þegar við getum, í staðinn fyrir óþarfa nafnorðasúpu.

Daginn áður, mátti lesa á sama fréttavef:

Efnistökin í þættinum falla ekki öllum í kram og hafa nokkrar umræður spunnist um þau á samfélagsmiðlum eins og Twitter.

Hér er blandað saman tveimur orðatiltækjum. Annars vegar falla í kramið hjá einhverjum og hins vegar falla einhverjum í geð.

Annað hvort hefði átt að segja: „Efnistökin falla ekki í kramið hjá öllum“, eða „Efnistökin falla ekki öllum í geð“.

Í frétt um áfengisvandamál Harry Potter leikarans Daniel Radcliffe kom fram að hann hafi lagt flöskuna á hilluna, í þeirri merkingu að hann hafi hætt að drekka.

Mér finnst eitthvað rangt við þetta orðalag. Það er vel þekkt að íþróttamenn leggja skóna á hilluna þegar þeir hætta að spila boltaíþróttir. En mér hefði fundist betra að segja að leikarinn hafi sett tappann í flöskuna.

Í frétt um mislingasmit á Íslandi var sagt:

Börn eru ekki bólusett fyrir mislingum fyrir átján mánaða aldur en bæði börnin hafa ekki náð þeim aldri.

Þetta var óheppilega orðað. Hérna hefði verið betra að segja: „hvorugt barnið hefur náð þeim aldri“.

En það verður líka að hrósa fjölmiðlamönnum fyrir það sem vel er gert. Besta fyrirsögn á frétt það sem af er þessu ári hlýtur að teljast, a.m.k. að mínu mati Innkalla hallagallaðar pönnukökupönnur.

Í fréttinni á bak við fyrirsögnina var líka nýyrðið hallagalli, sem er framleiðslugalli sem felst í því að halli á tilteknum hlut er ekki réttur. Í þessu tilviki var það halli á skafti á pönnukökupönnum.

Þá er komið nóg af ábendingum til fjölmiðlamanna. En þá að tvöfaldri merkingu.

Skýrar kýr

Það eru til mörg orð sem hafa fleiri en eina merkingu – og menn eru ekki á eitt sáttir um merkinguna. Eitt af þessum orðum er kýrskýr.

Í mínum huga merkir orðið kýrskýr það sama og heimskur eða einfaldur. Og það er líka eina skýringin sem gefin er upp í íslenskri orðabók.

Ég fæ þess vegna alltaf pínulítinn kjánahroll þegar menn nota þetta orð vitlaust, eða í einhverri annarri merkingu. Sumir nota orðið í merkingunni að eitthvað sé augljóst. Og stundum virðist það jafnvel hafa andstæða merkingu miðað við „réttu“ merkinguna og þýða það sama og vitur eða vel gefinn:

Það er al­gjör­lega kýr­skýrt að Rík­is­út­varpið gaf ekki rétt­ar upp­lýs­ing­ar fyr­ir fjár­laga­nefnd­inni.

sagði Guðlaugur Þór Þórðarson til dæmis 6. nóvember 2015.

Annað og nýrra dæmi er fyrirsögnin Rannsakandi segir mynstrið kýrskýrt dæmi um skipulagða brotastarfsemi. Þarna er átt við að mynstrið sé augljóst dæmi um skipulagða brotastarfsemi.

Við lauslega leit á vefnum tímarit.is virðist algengasta merking orðsins kýrskýr vera eitthvað sem er augljóst. Elsta dæmið sem finnst um orðið er frá árinu 1976.

Sumir hafa velt því fyrir sér hvort gamla merkingin, þ.e. heimskur, sé einhvers kona draugmerking, þ.e.a.s. merking sem finnst hvergi nema í orðabókum. Þessi hugmynd kemur til dæmis fram í grein Jóns G. Friðjónssonar um íslenskt mál í Morgunblaðinu 31. mars 2007.

Sjálfur hef ég aldrei heyrt orðið kýrskýr notað í merkingunni heimskur. Ég er ekki alinn upp í sveit og hef því ekki vit á gáfnafari kúa, eða skorti á því. Ég held að vitneskja mín um þessa merkingu hafi komið úr spurningaspilinu Trivial pursuit einhverntíma á níunda áratug síðustu aldar. Af því að Trivial náði að planta þessu í huga mér þegar ég var átta eða níu ára hefur þetta verið hin eina og rétta merking orðsins í mínum huga.

Misvitrir Moggabloggarar og virkir í athugasemdum, sérstaklega af eldri kynslóðum, virðast vera sammála mér. Það eru þá einkum þeir sem gera athugasemdir við orðanotkun stjórnmálamanna og svokallaðra fréttabarna sem vekja athygli á þessari merkingu orðsins.

Hlustendur sem vilja lesa meira um orðið Kýrskýr geta kynnt sér ágæta grein Margrétar Jónsdóttur í tímaritinu Orð og tunga frá árinu 2018. Tengill í greinina fylgir með 13. þætti á vefnum ordabokin.is.

En snúum okkur næst að nýjustu greinarmerkjunum.

Hrópspurningarmerki

Við könnumst öll við upphrópunarmerki og spurningarmerki. Spurningarmerki skal setja á eftir málsgrein (málsgreinarígildi), sem felur í sér beina spurningu. Upphrópunarmerki skal setja á eftir einstökum orðum eða málsgreinum, sem felst í upphrópun (t.d. fögnuður, skipun, fyrirlitning o.s.frv.)

Nánar má lesa um notkun þessara merkja í auglýsingu um greinarmerkjasetningu. Tengil má nálgast undir síðu 13. þáttar á vefnum ordabokin.is.

Í formlegu ritmáli þykir ekki fara vel á því að nota fleiri en eitt greinarmerki í einu. Þó eru til undantekningar. Þrír punktar í röð geta t.d. táknað úrfellingu eða hik. Og þrjú upphrópunarmerki í röð eru alþjóðlegt tákn um hneykslun. En spurningar verða ekkert meiri spurningar þótt spurningarmerki séu fleiri en eitt.

Þaðan af síður þykir heppilegt að nota mörg mismunandi greinarmerki í röð. Það er hins vegar gert í óformlegra ritmáli á internetinu og á samfélagsmiðlum.

Sumum þykir heldur ekki gott í formlegum, prentuðum texta að nota spurningarmerki og upphrópunarmerki saman.

Árið 1962 var því gerð tilraun til að sameina þessi tvö merki í eitt. Upphafsmaður þess var Bandaríkjamaðurinn Martin K. Speckter, yfirmaður á auglýsingastofu.

Þetta merki ákvað hann að kalla Interrobang. Á íslensku mætti kalla það hrópspurningarmerki.

Hrópspurningarmerki er eins og áður sagði sett saman úr upphrópunarmerki og spurningarmerki. Það lítur út eins og upphrópunarmerki sem búið er að skrifa spurningarmerki yfir – eða öfugt. Eða stafinn Þ eða P með punkti undir. Lesendur sem vilja sjá hvernig merkið lítur út geta farið á síðu þrettánda þáttar á vefnum ordabokin.is til að skoða það.

Tilgangurinn með merkinu er að standa á eftir spurningum sem fela í sér ótta, undrun, spennu eða vantrú, eða á eftir retorískum spurningum, þ.e.a.s. spurningum sem er varpað út í loftið, meira til íhgununar en kalla ekki endilega á svar. Merkið hentar þeim vel sem eru á móti því að nota mörg greinarmerki í röð og vilja halda sig við eitt merki í einu.

Hrópspurningarmerkið náði aldrei almennri hylli og hefur því ekki verið mikið notað. Kannski af því að það er ekki hægt að skrifa það með einföldum hætti á lyklaborð, a.m.k. ekki á íslensk lyklaborð. Það er þó gert ráð fyrir merkinu í hönnun nokkurra leturgerða. En það þarf að fara krókaleiðir til að nálgast það. Eina aðferðin sem ég kann er að gúgla Interrobang og nota svo „copy-paste“-aðferðina.

Ég þekki engin dæmi um hrópspurningarmerki úr íslensku ritmáli. En ég sé fyrir mér að hneykslaðir virkir í athugasemdum gætu tekið það upp. Dæmi um spurningar sem gætu endað á hrópspurningarmerki eru:

  • Hver fjandinn er í gangi hérna‽
  • Kallarðu þetta tónlist‽
  • Er þetta frétt‽
  • Viltu ekki bara fara að grenja‽

Nú er það undir virkum í athugasemdum og notendum samfélagsmiðla komið að vekja hrópspurningamerkið til vegs og virðingar. Þá munu tölvuframleiðendur, forritarar og leturhönnuðir kannski taka við sér og auðvelda aðgengi að því á venjulegum lyklaborðum.

Hlustendur sem vilja kynna sér hrópspurningarmerkið betur geta lesið grein á ensku útgáfu Wikipediu um Interrobang. Tengill fylgir með 13. þætti á vefnum ordabokin.is.

En snúum okkur að lokum að nokkrum ofnotuðum orðum og orðasamböndum sem er hægt að nota minna.

Ofnotuð orð

Tímapunktur er ofnotaður. Það þarf ekki allt að gerast á hinum eða þessum tímapunkti. Orð sem hægt er að nota í staðinn eru til dæmis núna og tími. Annars fer það eftir því í hvaða samhengi orðið stendur hvað hægt er að nota í staðinn fyrir það.

Aðferðafræði er annað ofnotað orð. Undanfarið hafa allir notað hina eða þessa aðferðafræði til að leysa verkefni eða vandamál. Yfirleitt ætti að vera nóg að nota einhverja aðferð til lausnar á verkefnum.

Og ofnotað orðasamband er að vera á pari við eitthvað. Prófum að jafnast á við eitthvað, vera til jafns við eitthvað, eða vera jafn mikið eða lítið og eitthvað. Bara til dæmis.

Reynum að nota minna af þessum orðum og frekar að umorða hlutina.

Hugmyndabrunnurinn er þá tæmdur í bili. Ég minni á Málfarslögregluna á Facebook og Twitter, sem og á vefinn ordabokin.is. Þar geta hlustendur sent skilaboð, hrós, kvartanir, ábendingar og hvað sem þeim liggur á hjarta.

Nýir og eldri hlaðvarpsþættir eru aðgengilegir á vefnum ordabokin.is, í iTunes og á Spotify. Textaútgáfur þáttanna má nálgast á vefnum blogg.ordabokin.is, þ.e. blogg, með tveimur g-um.

En þessum þætti er þá öllum lokið.

Takk fyrir áheyrnina.
Góðar stundir.