Orð ársins

Orð ársins

RÚV og Árnastofnun tilkynntu í dag hvaða orð voru valin orð ársins 2018.

Fyrir valinu urðu orðin klausturfokk og kulnun.

Auk þess tilnefndi Árnastofnun sagnorðið plokka, í merkingunni að fara út að skokka og tína upp rusl í sömu ferð.

Fylgist með í næstu viku. Þá kemur út nýr hlaðvarpsþáttur, þar sem sagt verður frá því hvert orð ársins er í Orðabókinni. Kosningunni er formlega lokið og talning atkvæða stendur yfir.

Klausturfokk

Klausturfokk

Þetta Klaustursmál hefur alið af sér ýmis skemmtileg nýyrði.

Orð tengd málinu sem hafa ratað í Orðabókina eru:

Það er verst að atkvæðagreiðslan um orð ársins er of langt á veg komin til að þessi orð geti verið með. Helst langar mig til að hætta við hana og byrja upp á nýtt.

Að vissu leyti skil ég hvernig höfundum áramótaskaupsins líður.

Nú er bara að vona að Íslendingar verði ekki eins fljótir að gleyma þessari umræðu og þeir eru að gleyma öðrum stórum málum. Því eitthvað af þessum orðum á möguleika á að verða kosið orð næsta árs.

Orð ársins 2018 – seinni hluti

Orð ársins 2018 – seinni hluti

Seinni umferð kosninganna um orð ársins 2018 er opinberlega hafin.

Í henni má kjósa eitt af þeim tíu orðum sem fengu flest stig í fyrri umferðinni. Þau hafa ekki öll komið við sögu á þessu ári – sum þeirra hafa verið til talsvert lengi – en þau eiga það sameiginlegt að hafa komist í orðabókina á milli 1. nóvember 2017 og 31. október 2018.

Orðin eru, í stafrófsröð:

Smelltu hér til að kjósa.

Orð ársins – fyrri hluti

Orð ársins – fyrri hluti

Kosningin um orð ársins er nú í fullum gangi – hún stendur yfir þar til í byrjun desember.

Í fyrri umferð kosninganna er kosið milli allra orða sem hafa bæst við Orðabókina frá 1. nóvember 2017 til 1. nóvember 2018. Það er 51 orð.

Orðin hafa samt ekki öll komið til sögunnar á þessu ári. Sum þeirra voru áberandi í þjóðmálaumræðunni á árinu. Önnur fundust bara við vafur á vefnum og mér fannst þau eiga heima í Orðabókinni. Og sum eru komin til vegna ábendinga frá lesendum Orðabókarinnar.

Í fyrri umferðinni má velja allt að fimm orð og gefa þeim stig. Tíu stigahæstu orðin í lok umferðinnar komast áfram í seinni umferð.

Hér má smella til að kjósa.

Minnt er á að á vefnum ordabokin.is má nálgast útskýringar á öllum orðunum.

Orðin sem kosið er um eru eftirfarandi:

Málfarslögreglan – 11. þáttur

Málfarslögreglan – 11. þáttur

Heilir og sælir ágætu hlustendur og verið velkomin í ellefta þátt Málfarslögreglunnar.

Bréf frá hlustendum

Þættinum hefur borist bréf. Það innihélt svohljóðandi fyrirspurn:

Af hverju er forsetinn með litlum staf?

Mér er ljúft og skylt að svara þessari spurningu.

Í Auglýsingu um setningu íslenskra ritreglna, sem dyggir hlustendur ættu að vera farnir að kannast við, segir í grein númer 1.2.2.5:

Nöfn stofnana/embætta sem bera heiti sem jafnframt er starfsheiti æðsta yfirmanns, til dæmis sýslumaðurinn í Reykjavík, umboðsmaður Alþingis, ríkislögreglustjóri, má ætíð rita með litlum upphafsstaf, en einnig er heimilt að rita stóran staf ef augljóslega er vísað til stofnunarinnar en ekki starfsmannsins sem veitir henni forstöðu (sjá um lítinn staf í starfsheitum í 1.3.2 a).

Samkvæmt mínum skilningi á þessari reglu er hann Guðni okkar forseti – með litlu f-i. En hann vinnur hins vegar hjá embætti Forseta Íslands, sem má hvort tveggja skrifa með stóru og litlu f-i. Það mælir því ekkert á móti því að forseti sé skrifað með stóru f-i ef átt er við stofnunina eða embættið Forseta Íslands, en ekki æðsta starfsmann stofnunarinnar.

Ég vona að þetta svari spurningunni. Ég bendi einnig á ágætis svar á Vísindavefnum við spurningunni Eiga starfsheiti sem hljóma eins og heiti stofnunar að vera með litlum eða stórum staf? Tengil í spurninguna má nálgast í gegnum ellefta þátt á vefnum ordabokin.is.

Stafrænn tungumáladauði

Frá því síðasti þáttur fór í loftið hefur verið rætt um stafrænan tungumáladauða. En hver er hann þessi stafræni tungumáladauði?

Stafrænn tungumáladauði er það þegar tungumál láta í minni pokann fyrir stafrænum samskiptum og tækni, þ.e. þegar þeim er lítið sem ekkert sinnt eða komið til móts við þau til að hægt sé að nota þau í hinum stafræna heimi.

Nú á tímum samfélagsmiðla, snjalltækja, sjálfvirkra aðstoðarmanna og efnisveitna á borð við Netflix og Youtube er íslenskan í ákveðinni hættu. Við erum einfaldlega ekki nógu mörg til að tækja- og efnisframleiðendur nenni að púkka upp á þetta tungumál okkar. Það sama á reyndar við um mikinn meirihluti tungumála í Evrópu og jafnvel í heiminum.

Ungverski vísindamaðurinn András Kornai segir að til að tungumál teljist lífvænleg í hinum stafræna heimi þurfi að miða við fjóra þætti.

Í fyrsta lagi stærð samfélagsins sem notar tungumálið í stafrænum samskiptum.

Í öðru lagi virðing fyrir tungumálinu, þ.e. hvort málnotendum, sérstaklega af yngri kynslóðum, finnst viðeigandi að nota það í stafrænum samskiptum sín á milli.

Í þriðja lagi virkni tungumálsins, þ.e. hvar og hvernig það er notað. Er það til dæmis bara notað af fræðimönnum og þeim sem eiga það ekki að móðurmáli? Eða eru fleiri sem nota það, og þá í daglegum samskiptum?

Og í fjórða lagi Wikipedia. Því meira efni sem til er af greinum á tilteknu tungumáli á Wikipediu, því minni líkur eru á stafrænum tungumáladauða.

Við fyrstu sýn getum við kannski verið bjartsýn fyrir hönd íslenskunnar þegar þessir þættir eru skoðaðir, en Kornai segir engu að síður að 95% allra tungumála sem til eru hafi nú þegar orðið undir í baráttunni við stafræna tækni og þeirra bíði stafrænn tungumáladauði.

Önnur rannsókn segir að 21 af 30 evrópskum tungumálum, þar á meðal íslenska, séu í útrýmingarhættu á stafrænni öld.

Þetta þýðir kannski ekki að íslenskan muni hverfa, a.m.k. ekki alveg í fyrirsjáanlegri framtíð. Við munum halda áfram að tala hana og eiga samskipti á íslensku í raunheiminum, en ef ekkert verður að gert mun hún verða undir í stafrænum samskiptum.

Stafræn samskipti eru stór hluti af daglegu lífi okkar flestra, þannig að það er eðlilegt að menn spyrji sig til hvers við séum eiginlega að læra íslensku fyrst við getum svo ekki notað hana í stafræna heiminum.

En hvað er hægt að gera til að koma í veg fyrir stafrænan tungumáladauða íslenskunnar, eða a.m.k. að hægja á honum?

Lykilatriðið er að foreldrar verji meiri tíma með börnum sínum, tali meira við þau og lesi fyrir þau. Því að börn læra ekki tungmál með því einu að horfa á myndbönd eða sjónvarp, jafnvel þó það sé á íslensku.

Og svo þarf að auka fjárstuðning við máltækni til að hægt verði, til dæmis, að búa til tæki sem menn geta raddstýrt á sínu eigin tungumáli, þ.e. ef það er annað en enska. Því að fæst tungumál eru nógu langt á veg komin í þessari tækni til að það sé hægt.

Nokkrum dögum áður en þessi þáttur var tekinn upp heyrði ég á tal nokkurra unglinga sem voru að velta fyrir sér íslensku orði yfir orðið gúgla, þ.e. að leita að einhverju á netinu með google leitarvélinni.

Þetta samtal kveikti í mér smá vonarneista fyrir hönd íslenskunnar í stafrænum heimi. Það er greinilega ekki öllum sama um málið.

Hlustendur sem vilja lesa greinarnar sem ég vitnaði í geta fundið tengla í þær undir ellefta þætti á vefnum ordabokin.is. Þar eru einnig tenglar í annað efni um stafrænan tungumáladauða.

Einkaréttur og einkaleyfi

Eftir að síðasti þáttur fór í loftið var sagt frá því í fréttum að upphrópunin Húh! væri skráð vörumerki og hefði verið það frá sumrinu 2016. Eigandi vörumerkisins hefur einkarétt á því að láta prenta það á föt og drykkjarumbúðir. Það er búið að úthúða honum nógu mikið í athugasemdakerfum fjölmiðla og verður því þess vegna sleppt hér.

En þetta með einkaleyfið fékk mig til að hugsa (eins og sjálfsasgt fleiri Íslendinga) um það hvort það væri hægt að eignast einkarétt eða einkaleyfi á orðum. Og það er hægt, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, sem hlustendur geta kynnt sér á vef Einkaleyfastofu. Það er tengill á vef Einkaleyfastofu undir ellefta þætti á vefnum ordabokin.is.

Vörumerkið má til dæmis ekki vera algengt tákn eða orð sem algengt er í viðskiptum eða notað í daglegu máli. En það væri vel þess virði að láta reyna á þessar reglur. Það er örugglega hægt að túlka þær mjög frjálslega.

Ég sæi til dæmis fyrir mér að sækja um einkarétt á því að prenta orðin og, en, í eða maður, til dæmis á föt eða matarumbúðir.

Svo væri hægt að færa út kvíarnar og fá einkarétt á því að prenta orðin bjór og öl utan á drykkjarumbúðir.

Ég segi nú bara: Hvílík gullnáma ef af þessu yrði!

Ókeypis ráð til virkra í athugasemdum

Þá er komið að föstum liðum eins og venjulega.

Stundum þegar menn vilja vera gáfulegir, málefnalegir eða formlegir bæta menn alls konar óþarfa við orð sín, sem mætti vel sleppa. Líklega er það oftast gert í hugsunarleysi. Hér koma nokkur dæmi um orð sem mætti nota minna í daglegu tali og tillögur að styttri orðum.

Í staðinn fyrir óvissustig er oft nóg að tala um óvissu.

Stundum er sagt að eitthvað gerist á ákveðnum tímapunkti. Þessi tímapunktur er ofnotaður og honum má skipta út fyrir ýmislegt annað. Til dæmis má segja að eithvað gerist núna, á þeim tíma eða þessari stundu.

Í staðinn fyrir að hljóta meiðsli má vel tala um að meiðast eða slasast.

Í stað þess að segja að eitthvað hafi gerst fyrir nokkrum árum síðan, nokkrum vikum síðan eða nokkrum dögum síðan er nóg að segja að það hafi gerst fyrir nokkrum árum, fyrir nokkrum vikum eða fyrir nokkrum dögum. Þetta síðan aftan við orðin er óþarfi í þessu samhengi.

Og eitt ofnotað orð er aðferðafræði. Oft er sagt að hin eða þessi aðferðafræði hafi verið notuð til að leysa tiltekið verkefni eða vandamál. Það er nóg að tala einfaldlega um aðferð.

Þetta voru bara örfá dæmi. Verum vakandi og forðumst óþarfa málalengingar. Hlustendur eru hér með hvattir til að senda fleiri dæmi um svona óþarfa og tillögur að því hvernig má stytta málið.

Ábending til fjölmiðlamanna

Að lokum ein vinsamleg ábending til fjölmiðlamanna:

Á dögunum heyrði ég sagt í fréttum stöðvar tvö:

Erlendir ferðamenn sem slasast hafa í umferðinni hér á landi hafa nær þrefaldast frá árinu 2003.

Það eru ekki ferðamennirnir sem hafa þrefaldast, heldur fjöldi þeirra. Réttara hefði því verið að segja:

Fjöldi erlendra ferðamanna sem slasast hafa í umferðinni hér á landi hefur nær þrefaldast frá árinu 2003.

Þá er ekki fleira á dagskrá í þessum þætti.

Sem fyrr eru hlustendur hvattir til að senda athugasemdir, ábendingar, spurningar, hrós eða kvartanir. Það er til dæmis hægt að gera með því að senda skilaboð í gegnum vefinn. Eða með aðstoð Facebook eða Twitter, en tenglar í samfélagsmiðlana eru aðgengilegir frá vefnum ordabokin.is.

Þessum þætti er þá öllum lokið.

Veriði sæl.

Tenglar og ítarefni

Málfarslögreglan – 10. þáttur

Málfarslögreglan – 10. þáttur

Heilir og sælir ágætu hlustendur og verið velkomin í tíunda þátt málfarslögreglunnar.

Með þessum þætti hefst líka önnur þáttaröð, það er að segja ef miðað er við að hver þáttaröð nái yfir eitt ár.

Í þessum þætti verður fjallað um orð ársins. Virkir í athugasemdum fá sína hefðbundnu kennslustund, en við byrjum á nýjum íslenskum orðtökum, eða einu nýju íslensku orðtaki.

Að kasta handklæðinu

Íslensk orðtök eru skemmtileg. Þau auka blæbrigði málsins og gera það litríkara. En til að geta notað þau er gott að vita hvað stendur á bakvið þau.

Mörg vel þekkt íslensk orðtök eru upprunnin í atvinnuháttum sem tíðkuðust á Íslandi allt fram undir þarsíðustu aldamót. Menn láta til dæmis vaða á súðum, sitja við sinn keip, láta reka á reiðanum, fara ekki í grafgötur með eitthvað, fara á fjörurnar við einhvern og hafa bæði tögl og hagldir.

Þessi orðtök sem ég nefndi eru ættuð úr sjósókn og landbúnaði. Eftir því sem færri Íslendingar stunda þessar atvinnugreinar og gamlir atvinnuhættir hverfa missa þessi orðtök smám saman merkingu sína og menn ruglast jafnvel á þeim. Við búum ekki lengur í landbúnaðar- og sjávarútvegssamfélagi og því er eðlilegt að merkingin týnist.

Við megum samt ekki leggja árar í bát, heldur verðum við að róa öllum árum að því að fræða almenning og komandi kynslóðir um merkingu gamalla orðtaka og uppruna þeirra, svo merking þeirra fari ekki forgörðum. Því það er alltaf gott að geta brugðið fyrir sig góðum orðtökum til að krydda málið.

Og svo má líka búa til ný orðtök.

Á dögunum rakst ég til dæmis á orðtakið Kasta, eða henda inn handklæðinu. Það er frekar nýlega tilkomið inn í íslensku. Elsta dæmið sem ég fann var með aðstoð vefsins Tímarit.is. Þar eru elstu dæmin um orðtakið frá því í nóvember 2002.

En notkun þess fór á flug árin 2016 og 2017, eftir því sem Google frændi segir. Einkum hefur það verið notað í íþróttafréttum, en það hefur rutt sér til rúms á öðrum vettvangi, til dæmis í fréttum um stjórnarmyndanir og um breytingar á lífsviðurværi áhrifavalda á samfélagsmiðlum.

En semsagt.

Að kasta inn handklæðinu er bein þýðing úr enska orðtakinu throw in the towel og þýðir að gefast upp þegar maður er kominn í vonlausa stöðu og ekkert bíður manns nema ósigur.

Orðtakið er komið úr hnefaleikaíþróttinni, og hefur verið þekkt í ensku frá upphafi síðustu aldar, eða a.m.k. frá árinu 1913.

Orðtakið er vísun í það þegar boxari er að tapa í bardaga og þjálfari hans eða aðstoðarmaður kastar handklæði að andstæðingnum til merkis um að bardaganum sé lokið.

Ég fagna þessu nýja orðtaki, þó að það sé ættað beint úr ensku. Þetta er góð viðbót við orðtakaflóruna sem þegar er til í íslensku. Við megum ekki kasta inn handklæðinu og hætta að nota orðtök þó að menn gleymi ef til vill merkingu þeirra eftir því sem atvinnuhættir breytast. Þetta sýnir að íslenskan er ekki bara búin til og framleidd af sérfræðingum á skrifstofum, heldur tökum við öll þátt í að móta hana og skapa.

Næst á dagskrá er svo að búa til íslensk orðtök frá grunni en ekki bara þýða upp úr ensku. Ég hvet hlustendur hér með til að búa til og taka upp ný orðtök eftir þörfum, til að bragðbæta tungumálið og gera það líflegra.

Ókeypis ráð til virkra í athugasemdum

Áður fyrr í íslensku var gerður greinarmunur á framburði á i og y. Þessi munur er nú meira og minna horfinn úr framburðinum en er ennþá notaður í stafsetningu. Þeir sem vilja tjá sig í ritmáli þurfa að kynna sér vel reglur um notkun i og y. Því þær virðast ekki vera kenndar í þessum Skóla lífsins, sem margir virkir í athugasemdum hafa gengið í.

Hér eru nokkur orð sem eru skrifuð með einföldu i:

 • Beita
 • Leita
 • Fleiri
 • Finnst, t.d. í Mér finnst.

Nokkur orð sem eru skrifuð með y:

 • Áfrýja
 • Fyrir (Fyrra i-hljóðið er y og það seinna er einfalt i)
 • Mynd er alltaf með y. Í orðinu Ímynda er í-hljóðið skrifað með einföldu í en, y-hljóðið er skrifað með y.

Hlustendur geta kynnt sér nánari reglur um notkun i og y í Auglýsingu um íslenskar ritreglur frá árinu 2016.

Tengill í ritreglurnar fylgir með tíunda þætti á vefnum orðabókin.is.

Orð ársins 2017

Kosningin um orð ársins 2017 hófst 6. nóvember síðastliðinn. Í fyrri umferð mátti velja fimm orð af 56 og gefa þeim stig frá einum upp í fimm. 523 atkvæði bárust í fyrri umferðinni.

Tíu stigahæstu orðin komust komust áfram í aðra umferð. Þau eru, í öfugri stigaröð:

 • Kjánaprik
 • Hrútskýring
 • Snappari
 • Lúxusvandamál
 • Veipa
 • Þyrilsnælda
 • Epalhommi
 • Brómantík
 • Djammviskubit
 • Fössari

Í seinni umferðinni máttu þátttakendur kjósa eitt af þessum tíu orðum. Þar bárust 1266 atkvæði.

Og orðið sem fékk flest atkvæði í seinni umferð, eða 224, er djammviskubit. Það skoðast því réttkjörið orð ársins 2017 hjá Málfarslögreglunni.

Samkvæmt útskýringu á vefnum orðabókin.is er Djammviskubit það sama og samviskubit sem margir fá daginn eftir of mikla áfengisneyslu. Orðið er sett saman úr orðunum Djamm og Samviskubit.

Orðið er samt ekki alveg nýtt af nálinni. Elsta dæmi um orðið sem ég hef fundið er úr DV frá 7. júní 2005. Í blaðinu er dálkur sem heitir Heitasta slangrið. Þar er djammviskubit sagt vera samviskubit eftir djammið. Í sama dálki eru til dæmis nefnd orðin eiba, pepsívængir, blekaður og að taka Bó á þetta.

En það er nú önnur saga.

Hlustendur sem vilja kynna sér niðurstöður atkvæðagreiðslunnar nánar geta skoðað töflureiknisskjal sem fylgir með þessum þætti á vefnum orðabókin.is. Af sama vef geta hlustendur sent skilaboð ef þeim liggur eitthvað á hjarta.

Ef einhver þekkir eldri dæmi um orðið djammviskubit má viðkomandi gjarnan láta vita, til dæmis með því að hafa samband með aðstoð Facebook eða Twitter.

Ég þakka öllum fyrir þátttökuna í atkvæðagreiðslunni. Án ykkar hefði þetta aldrei orðið mögulegt.

Og hlustendum þakka ég fyrir áheyrnina, því nú er hugmyndabrunnurinn tæmdur í bili.

Verið sæl.

Málfarslögreglan – 9. þáttur

Málfarslögreglan – 9. þáttur

Heilir og sælir ágætu hlustendur og verið velkomin í níunda þátt Málfarslögreglunnar.

Í þessum þætti verður fjallað um jólatengt málfar og kosningar. En við byrjum á stórum og litlum stöfum.

Hástafir Og Lágstafir

Ég kaupi stundum geisladiska.

Já, þið heyrðuð rétt: Geisladiska á plastformi.

En ég hlusta samt aldrei á þá, því það fyrsta sem ég geri þegar ég tek þá úr plastinu er að stinga þeim í tölvuna og færa þá yfir á mp3-form. Til þess að koma þeim yfir á tölvutækt form nota ég margmiðlunarspilarann iTunes.

Stundum birtast sjálfkrafa upplýsingar um lög og flytjendur á diskinum sem einhver hefur sent í gagnagrunn sem iTunes tengist. Þá þarf maður ekki að hafa fyrir því sjálfur að slá inn þessar upplýsingar. Samvinna á netinu er góð – svona oftast nær, að minnsta kosti.

En sumir notendur iTunes hafa samt einn leiðindaávana. Hann er sá að skrifa stóran staf í upphafi hvers einasta orðs í heitum diska og laga.

Í ensku er þessi ritháttur af einhverjum ástæðum samþykktur, það „má“ nota stóran staf í upphafi hvers orðs í heitum laga, kvikmynda, bóka, listaverka og svo framvegis. Ég veit samt ekki alveg hverjar þessar reglur eru, en þegar ég byrjaði að læra ensku, einhverntíma á níunda áratug síðustu aldar tíðkaðist þessi ritregla ekki, svo ég muni. Ég lærði að það ætti almennt ekki að nota stóra stafi nema í upphafi setninga og í sérnöfnum, sem sagt um það bil eins og í íslensku.

Ég á aldrei eftir að venjast þessum rithætti fullkomlega. Eins og ég á aldrei eftir að venjast því að horfa á flugfreyjur fara yfir öryggisleiðbeiningar í flugvélum.

Svo hefur verið reynt að heimfæra þennan rithátt upp á íslensku. En ég get ekki samþykkt að lagaheiti, kvikmyndatitlar, bókatitlar eða hvers konar listaverka- eða hugverkanöfn á íslensku séu skrifuð með stórum upphafsstöfum í hverju orði. Nema ef þau innihalda sérnöfn.

Stórir stafir í upphafi hvers orðs slíta heildina einhvernveginn í sundur. Þegar hvert og eitt orð er skrifað með stórum staf finnst mér að það sé áhersla á hverju einasta orði.

Tökum sem dæmi lagið Komdu og skoðaðu í kistuna mína. Ef hvert orð í því væri með stórum upphafsstaf fyndist mér að lagið héti Komdu – Og – Skoðaðu – Í – Kistuna – Mína.

Eða Einu sinni á ágústkvöldi. Með þessum enska rithætti væri það Einu – Sinni – Á – Ágústkvöldi.

Þið skiljið vonandi hvað ég er að meina.

Ég hvet hlustendur til að halda í íslenskar ritreglur en ekki apa allt upp eftir útlenskum ritvenjum. Almenna ritreglan í íslensku er sú að nota ekki stóran upphafsstaf nema í upphafi setningar og í sérnöfnum.

Í Auglýsingu um setningu íslenskra ritreglna er hægt að fræðast nánar um það hvenær skal nota stóra stafi og hvenær skal nota litla stafi.

Í færslu með þessum þætti á ordabokin.is er tengill í þessar reglur og geta áhugasamir hlustendur kynnt sér þær nánar.

Ókeypis ráð til virkra í athugasemdum

En þá að föstum lið eins og venjulega.

Ráðlegging til virkra í athugasemdum beinist einkum til jólatrjáasala að þessu sinni.

Ég trúi því ekki að enn þá séu auglýstar jólatréssölur. Enn verra er samt þegar auglýstar eru jólatrésölur. En þeim fer sem betur fer fækkandi, sýnist mér.

Jólatréssala er samt gott og gilt orð ef það er bara eitt jólatré til sölu. En í flestum af þessum jólatréssölum eru fleiri en eitt jólatré á boðstólum. Réttara væri því að auglýsa jólatrjáasölu.

Hafið þetta í huga fyrir næstu jól, björgunarsveitamenn, skógræktarfólk og aðrir sem verslið með jólatré.

Orð ársins 2017

En þá að kosningum.

Nú er hafin seinni umferðin í kosningunni um orð ársins á ordabokin.is. Í seinni umferðinni er kosið á milli tíu stigahæstu orðanna úr fyrri umferðinni. Þessi orð eru, í stafrófsröð:

 • Brómantík
 • Djammviskubit
 • Epalhommi
 • Fössari
 • Hrútskýring
 • Kjánaprik
 • Lúxusvandamál
 • Snappari
 • Veipa
 • Þyrilsnælda

Orðið sem fær flest atkvæði fær titilinn orð ársins 2017.

Á vefnum ordabokin.is má finna tengil í atkvæðaseðilinn. Þar má einnig finna útskýringar á þessum orðum.

Úrslit kosninganna verða kunngjörð í fyrsta þætti ársins 2018. Hlustendur eru hér með hvattir til að kjósa.

Tungubrjótur

Hér er að lokum einn tungubrjótur sem hlustendur geta japlað á með jólasteikinni, smákökunum og konfektinu:

Frá Nirði niðri í Norðfirði nyrðri.

Ég minni loks á vefinn ordabokin.is, sem og á Facebook– og Twittersíður Málfarslögreglunnar. Þar geta hlustendur sent skilaboð ef þeim liggur eitthvað á hjarta. En þessum þætti er öllum lokið. Ég vil þakka þeim sem hlýddu og vona að þið eigið hugheil og gleðileg jól.

Málfarslögreglan – 8. þáttur

Málfarslögreglan – 8. þáttur

Heilir og sælir ágætu hlustendur og verið velkomin í áttunda þátt málfarslögreglunnar.

Númer í stað nafna

Við byrjum á að líta í dagbók lögreglunnar.

Á vef Vísis mátti lesa eftirfarandi texta laugardagskvöldið 16. september síðastliðinn:

Kona var handtekin vegna gruns um fjársvik í verslunarmiðstöð í hverfi 103 rétt fyrir 17 í dag, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Síðar í sömu frétt mátti lesa:

Þá var töluverður erill hjá lögreglu fram eftir degi í dag en klukkan 11:30 var tilkynnt um nytjastuld á bifreið í hverfi 108 í Reykjavík og um klukkan 13 var tilkynnt um þjófnað úr verslun í sama hverfi.

Tókuð þið eftir þessu:

„Hverfi 103 og hverfi 108.“

Ég veit ekki hvort þetta kemur svona frá lögreglunni sjálfri eða frá fréttamanni Vísis.

Kannski hef ég misst af einhverju, en hvenær hættum við að kalla hverfin sínum réttu nöfnum og fórum að nefna þau eftir póstnúmerum?

Ég er reyndar orðinn vanur því að miðbær Reykjavíkur og nágrenni hans skuli vera nefnd 101. Þar á skáldsaga Hallgríms Helgasonar, 101 Reykjavík, sjálfsagt einhvern hlut að máli. En hvenær var byrjað að kalla Háaleitis- og Bústaðahverfið hverfi 103 og 108?

Verður kannski ekki langt að bíða þess að við munum búa í bæjum 220, 210 og 200 en ekki í Hafnarfirði, Garðabæ og Kópavogi?

Eða förum við kannski einhverntíma til landa 45, 49 eða 34 í staðinn fyrir að fara til Danmerkur, Þýskalands eða Spánar?

Ég veit ekki með ykkur, en mér finnst eitthvað ópersónulegt og stofnanalegt við það að nota þessi númer, sérstaklega þegar hægt er að nota gamalgróin nöfn í staðinn fyrir númerin.

Ég vil helst ekki vera í 101, heldur niðri í miðbæ Reykjavíkur. Ég vil ekki vera í 220, heldur í Hafnarfirði. Og ég vil ekki fara til 310, 800 eða 600, heldur upp í Borgarnes, austur á Selfoss eða til Akureyrar.

Það er nóg að þurfa að búa við kennitölublæti íslenskra stofnana og þjónustufyrirtækja. Við þurfum ekki að láta póstnúmerakerfið yfirtaka nafnahefðina hjá okkur líka. Ég vona að minnsta kosti að við getum áfram notað hefðbundin nöfn á sveitarfélögum, bæjum, bæjarhlutum og öðrum stöðum á landinu í staðinn fyrir þessi númer.

Og þá að föstum liðum eins og venjulega:

Ókeypis ráð til virkra í athugasemdum

Stundum þegar ég slysast til að lesa umræður virkra í athugasemdum rekst ég á að einhver er kallaður forheimskur.

Nokkur dæmi um þetta orð má líka finna á vefnum tímarit.is, það elsta frá 1970, og það má meira að segja finna dæmi um þetta orð í Orðabók háskólans. Dæmið sem notað er þar er úr bókinni Slitur eftir Brodda Jóhannesson, frá árinu 1978.

Leyfið mér hér með að leiðrétta þennan misskilning: Lýsingarorðið forheimskur er ekki til, eða ætti a.m.k. ekki að vera til.

Við könnumst við orðið forljótur. Samkvæmt mínu viti er for- í forljótur það sama og skítur eða drulla og þegar menn eru sagðir forljótir er þeim sem sagt líkt við skít, eða drullu.

En menn geta ekki verið forheimskir.

Aftur á móti er til sagnorðið forheimska, sem þýðir að gera einhvern heimskan og nafnorðið forheimskun er svo athöfnin, þ.e. að gera einhvern heimskan.

Þessi tvö orð eru líklega komin úr dönsku. Þar er forskeytið for- það sama og í dönsku orðunum fordumme, sem hefur sömu merkingu og forheimska, forbedre sem þýðir að bæta eitthvað, eða gera eitthvað betra og fordanske þýðir að snara eitthvað eða þýða eitthvað yfir á dönsku.

En menn geta ekki verið forheimskir

Ég vona að þessi misskilningur sé hér með leiðréttur og látum kommentakerfið og virka í athugasemdum ekki forheimska okkur.

Orð ársins 2017

Þá að kosningum.

Nú er farið að síga á seinni hluta ársins 2017. Og þegar áramót nálgast fara í gang kosningar um hitt og þetta ársins. Við kjósum mann ársins, lag ársins, plötu ársins, kvikmynd ársins, bók ársins og ýmislegt fleira ársins.

Málfarslögreglan ætlar ekki að láta sitt eftir liggja og stendur því fyrir vali á orði ársins. Kosningunni um orð ársins verður skipt í tvær umferðir. Í fyrri umferð má velja úr lista af 56 orðum. Orðin á listanum hafa að vísu ekki öll komið til sögunnar á þessu ári, en þau eiga það sameiginlegt að hafa komist í orðabókina á vefnum ordabokin.is undanfarið ár.

Úr þessum lista má velja fimm orð og gefa þeim stig frá einu og upp í fimm. Tíu stigahæstu orðin komast svo áfram í seinni umferð. Kosningin fer fram á vefnum og má nálgast tengilinn á hana á vefnum ordabokin.is. Hlustendur eru hér með hvattir til að taka þátt í kosningunni og hafa áhrif á framtíð íslenskunnar.

Þá er hugmyndabrunnurinn tæmdur að þessu sinni. Ég minni að lokum á síður Málfarslögreglunnar á Facebook og Twitter og á vefinn ordabokin.is. Þar geta hlustendur skoðað orðskýringar og sent skilaboð ef þeim liggur eitthvað á hjarta.

En þættinum er þá lokið að þessu sinni.

Lifið vel og lengi en ekki í fatahengi.

Málfarslögreglan – 7. þáttur

Málfarslögreglan – 7. þáttur

Heilir og sælir ágætu hlustendur og verið velkomin í sjöunda þátt málfarslögreglunnar.

Hér er fyrst leiðrétting:

Í síðasta þætti var lesið úr fræðigrein um blótsyrði sem birtist í Skírni árið 1927. Höfundur hennar var sagður Ólafur Lárusson. En hið rétta er að höfundur hennar er Guðmundur Finnbogason – og leiðréttist það hér með.

Er málið dautt?

Þá að dauða íslenskunnar og minnkandi lestri.

Undanfarið er búið að vera mikil umræða um hvort íslenskan sé að deyja.

Fatarisinn H&M auglýsti til dæmis Grand openig, see you at smáralind, með flennistóru og ljótu auglýsingaskilti á Lækjartorgi.

Svo hafa birst fréttir af því – og birtast reyndar öðru hvoru – að svo og svo stórt hlutfall íslenskra barna og unglinga geti ekki lesið sér til gagns.

En hvað þýðir það eiginlega að lesa sér til gagns?

Þýðir það bara að geta stautað sig fram úr misáhugaverðum kennslubókum og náð svo einhverskonar prófi úr þeim að lestri loknum? Eða er einhver önnur skilgreining á því?

Ég held einmitt að börn og unglingar geti vel lesið sér til gagns. Þau gera það bara ekki á sama hátt og eldri kynslóðir.

Það er eflaust til einhver fræðileg útskýring á því hvað það þýðir að lesa sér til gagns. En að lesa sér til gagns þarf ekki endilega bara að þýða það að geta lesið þurrar og leiðinlegar kennslubækur og skilið textann sem verið er að lesa.

Að lesa sér til gagns getur vel þýtt að geta lesið leiðbeiningar með rafmagnstækjum. Eða mataruppskriftir eða raflagnateikningar. Það getur allt eins þýtt að geta klórað sig fram úr því hvernig á að nota afþreyingarmiðla á borð við Youtube, Netflix og Spotify. Og er það ekki einmitt að lesa sér til gagns að geta ráðið fram úr skilaboðum á samfélagsmiðlum og í snjallsímum sem eru sett saman úr ólíkum sviptáknum, tilfinningatáknum og skammstöfunum?

Ég held að til þess að til að börn og unglingar geti lesið sér til gagns verði þau líka að geta lesið sér til gamans. Ef hefðbundnar bækur eiga að vera samkeppnishæfar við annað afþreyingarefni þurfa börn og unglingar bækur sem þeim sjálfum finnst áhugaverðar og skemmtilegar.

Það eru kennslubækur yfirleitt ekki.

Harry Potter glæddi til dæmis lestraráhuga einnar kynslóðar. Það vantar eitthvað svipað æði til að komandi kynslóðir fái áhuga á því að lesa lengri texta en bara smáskilaboð eða stöðuuppfærslur á samfélagsmiðlum.

Kannski er einhver með allt aðra skoðun á þessum málum. En þetta segi ég bara sem leikmaður en ekki sérfræðingur í menntamálum.

Áhyggjusemi

En þá að sjaldgæfum orðum – eða öllu heldur, einu sjaldgæfu orði.

Mörgum brá í brún, ráku upp stór augu og stóðu jafnel á öndinni þriðjudaginn 8. ágúst síðastliðinn þegar RÚV birti frétt á vef sínum undir fyrirsögninni Vísindamenn áhyggjusamir í Bandaríkjunum.

Ef það væri athugasemdakerfi á vef RÚV hefði það farið á hliðina. Virkir í athugasemdum hefðu hreinlega sturlast og á endanum farið að vera með skítkast og leiðindi – eins og venjulega.

En sem betur fer er ekki athugasemdakerfi á vef RÚV. En þá beita menn öðrum brögðum, hringja í fréttastofuna og kvarta og tjá sig á öðrum vígstöðvum á Facebook.

Ég játa að ég hnaut um þetta orð um leið og ég sá það. Ég var að því kominn að skrifa upphrópanir á Facebook og hneykslast á þessum svokölluðu „fréttabörnum“ hjá fjölmiðlum sem eru ekki starfi sínu vaxin og kunna ekki að skrifa almennilega íslensku.

En ég sleppti því og ákvað að kynna mér málið nánar, a.m.k. að gúggla orðið áður en ég slóst í för með virkum í athugasemdum.

Og viti menn: Orðið áhyggjusamur er þekkt í íslensku allt frá árinu 1635 og jafnvel fyrr. Það er ekki mjög algengt, en þó þekkist það.

Elsta dæmið um orðið í ritmálsskrá Orðabókar háskólans er í handritinu AM 247 4to, sem inniheldur Bréfabók Gísla biskups Oddssonar. Þar stendur:

so sem þeir ed ecke hallda sig so kostgiæfelega og ähyggiusama i þeirra embætte.

Í blöðum og tímaritum hefur orðið öðru hvoru skotið upp kollinum, en þó aldrei oftar en einu sinni til tvisvar sinnum á áratug samkvæmt vefnum tímarit.is. Undantekning er reyndar sjöundi áratugur síðustu aldar, þar sem orðið birtist fjórum sinnum. En frá og með áttunda áratugnum er eins og menn hafi hætt að vera áhyggjusamir. Yngsta dæmið á tímarit.is er frá 21. nóvember 1975. Upp frá því virðist orðið hafa lagst í dvala – og legið þar í næstum því 42 ár.

En hvað þýðir að vera áhyggjusamur?

Út frá umræðum á Facebook og því sem stendur í gömlum dagblöðum og tímaritum getur orðið haft að minnsta kosti þrenns konar merkingu eftir því hvernig það er notað.

Í fyrsta lagi getur það merkt það sama og áhyggjufullur.

Svo getur það verið lýsing á einhverjum sem er með stöðugar áhyggjur. Það er hægt að vera áhyggjufullur öðru hvoru. En sá sem er stöðugt áhyggjufullur er svo áhyggjufullur að hann er – áhyggjusamur.

Og svo getur áhyggjusamur verið notað um fleira en fólk, þegar áhyggjufullur á ekki alveg við. Menn geta til dæmis verið í áhyggjusömum störfum, þ.e. í störfum sem gera menn áhyggjufulla. Menn geta líka átt áhyggjusama daga.

Í tveimur samhljóða stjörnuspám í Tímanum árið 1974, annarri fyrir ljónið 14. júní og hinni fyrir jómfrúna 3. nóvember stendur:

Þetta er áhyggjusamur dagur hjá þér, því að þú hefur áhyggjur af einhverjum, sem er þér nákominn, að líkindum vegna heilsufars viðkomandi. Þú gerir bezt í því að heimsækja viðkomandi, ef þú getur komið því við.

Við getum því hætt að hafa áhyggjur af áhyggjusemi. Ef til vill er kominn tími til að endurlífga þetta orð.

Og svona í framhjáhlaupi vona ég að einhver taki að sér að rannsaka stjörnuspár í dagblöðum í gegnum árin og athugi hversu mikið stjörnuspár eru endurnýttar eins og þessi sem var lesin hér áðan.

Ókeypis ráð til virkra í athugasemdum

Þá er komið að ókeypis ráðleggingu til virkra í athugasemdum. Í þetta sinn er það munurinn á ekki ennþá og ekki lengur.

Við notum ekki ennþá þegar við vísum í framtíðina og nútíðina. Það merkir að eitthvað hefur ekki enn gerst en á eftir að gerast (eða á hugsanlega, líklega eða kannski eftir að gerast). Dæmi:

Ég hef ekki ennþá komið til Kína.

Það merkir að ég hef aldrei komið til Kína en fer kannski þangað einhverntíma seinna.

Hann reykir ekki ennþá.

Það merkir að hann hafi aldrei reykt en eigi hugsanlega eftir að byrja á því.

Hún er ekki ennþá lögð af stað.

Hún er sem sagt ekki lögð af stað en er alveg að fara að koma sér.

En ef eitthvað er ekki lengur merkir það að eitthvað hafi einu sinni verið veruleiki en sé núna liðið. Það vísar í fortíðina. Dæmi:

Ég bý ekki lengur fyrir norðan.

Það merkir að ég hafi einhverntíma búið þar en sé nú fluttur þaðan.

Hann reykir ekki lengur.

Það merkir að hann hafi reykt en sé nú hættur því.

Hún vinnur ekki lengur hjá Skýrslumálastofnun.

Þýðir að hún hafi unnið þar einhverntíma en sé nú hætt störfum.

Höfum þetta á hreinu, kæru hlustendur. Vonandi ruglist þið ekki lengur á þessum orðasamböndum.

Blikur á lofti

Hugum að lokum að veðrinu.

Hlustandi kom að máli við þáttastjórnanda á dögunum og minntist á orðasambandið blikur á lofti. Eins og við vitum öll, eða ættum að minnsta kosti að vita, er sagt að það séu blikur á lofti þegar það er fyrirsjáanlegt að ástandið muni versna.

Umræddur hlustandi hefur kunnáttu í veður- og haffræði og segir að samkvæmt veðurfræðilegri skilgreiningu sé rangt að segja að það séu blikur á lofti.

Á vef Veðurstofunnar er að finna eftirfarandi fróðleik um bliku:

Blika er hvít, þunn og oftast samfelld háskýjabreiða sem oft dregur upp á himininn þar til hún þekur allt loftið. Boðar hún oft komu regnsvæðis og kemur þá gráblika og regnþykkni með úrkomu í kjölfar hennar. Sól sést gegnum blikuslæðuna. Rosabaugur myndast stundum kringum sól er geislar hennar brotna í ískristöllunum.

Samkvæmt þessari útskýringu geta ekki verið margar blikur á lofti, heldur bara ein. Við ættum því miklu frekar að segja að það sé blika á lofti þegar talað er um að verra ástand sé framundan. Hér má líka minnast á orðtakið að lítast ekki á blikuna.

Með þessu veðurtali er hugmyndabrunnurinn tæmdur að sinni.

Hlustendur eru hvattir til að senda skilaboð ef þeir vilja láta í sér heyra – hvort sem það er hrós, gagnrýni eða ósk um að eitthvað verði tekið til umfjöllunar í þættinum.

Eins og venjulega má senda skilaboð til Málfarslögreglunnar með Facebook og Twitter eða í gegnum vefinn ordabokin.is. Þar má finna tengingu á samfélagsmiðlana.

Þá er ekki fleira í þessum þætti.

Lifið í lukku en ekki í krukku.