Orð ársins 2024

Eru ekki öll til í kosningar?

Samt ekki alþingiskosningar, heldur kosningu um orð ársins. Atkvæðagreiðslan um það er nú hafin hjá Orðabókinni.

Tuttugu-og-sex orð berjast um titilinn að þessu sinni. Þau hafa ekki öll komið til sögunnar á þessu ári en þau eiga það sameiginlegt að hafa birst í Orðabókinni undanfarið ár.

Eins og venjulega verður kosningunum skipt niður í tvær umferðir. Í fyrri umferðinni má velja fimm orð og gefa þeim stig. Orðinu sem þú vilt setja í fyrsta sæti gefurðu 5 stig, orðinu í öðru sæti gefurðu 4 stig og svo framvegis.

Tíu stigahæstu orðin komast áfram í seinni umferðina, sem hefst í byrjun desember.

Smelltu hér til að taka þátt í valinu eða hér á vef Orðabókarinnar.

Orðin sem berjast um titilinn þetta árið eru eftirfarandi:

Ég vek líka athygli á að nú eru orðin í safninu orðin 318. Ég stend enn við loforðið um að þegar 400 orða múrinn verður rofinn verður farið að huga að prentútgáfu Orðabókarinnar. Þau sem vilja sjá það gerast eru hvött til að senda tillögur að nýjum orðum í safnið.

Og tvennt í viðbót:

Það er ekkert við því að gera að þessi orð séu í Orðabókinni. Þannig er það nú bara. Ef þú ert viðkvæm/-ur fyrir því að einhver orð séu til eða finnst þau óþolandi eða pirrandi er bara eitt að gera; og það er að nota þau ekki.

Það þarf ekki bara að vera til eitt orð yfir hvern hlut eða fyrirbæri. Það er einmitt snilldin við tungumálið að það er hægt að búa til ný orð þó að það séu til önnur sem merkja það sama. Það er líka í lagi að gömul orð fái nýja merkingu. Fyrirfram þakkir fyrir að kvarta ekki yfir því.

Orð ársins 2023 – úrslitin

Strandpína. Orð ársins 2023.

Það er kominn tími til að upplýsa um það hvert orð ársins 2023 er hjá Orðabókinni. Og ekki seinna vænna. Því febrúar er runninn upp!

Tuttuguogfjögur orð tóku þátt í valinu í upphafi.

Tíu stigahæstu orðin komust áfram í aðra umferð. Þau eru, í stafrófsröð:

Þið kusuð í seinni umferðinni. Og orðið sem fékk flest atkvæði í henni er strandpína.

Í öðru sæti varð gosglanni og í þriðja sæti varð flokkunarkvíði.

Strandpína er annað orð yfir sólbruna.

Það þekkja öll sem hafa legið of lengi í sólbaði, t.d. á ströndinni á Tene að taka tásumyndir, hvað það getur verið vont að sólbrenna. Sérstaklega fyrstu dagana eftir brunann.

Ef maður liggur of lengi í sólinni án þess að nota sólarvörn fær maður strandpínu.

Þakka ykkur öllum fyrir þátttöku í atkvæðagreiðslunni. Og varið ykkur á strandpínunni næsta sumar!

Fyrirvari:

Til viðkvæmra sálna og virkra í athugasemdum:

Það er allt í lagi að það séu til fleiri en eitt orð sem merkja það sama. Það þarf ekki endilega að vera til bara eitt orð yfir hvern hlut eða fyrirbæri. Ef það eru til einhver orð sem okkur er illa við eða þolum ekki, þá er bara eitt að gera. Og það er að nota þau ekki!

Orð ársins 2023

Atkvæðagreiðslan um orð ársins 2023 er nú hafin.

Tuttugu-og-fjögur orð berjast um titilinn að þessu sinni. Þau hafa ekki öll komið til sögunnar á þessu ári en þau eiga það sameiginlegt að hafa birst í Orðabókinni undanfarið ár.

Eins og venjulega verður kosningunum skipt niður í tvær umferðir. Í fyrri umferðinni má velja fimm orð og gefa þeim stig. Orðinu sem þú vilt setja í fyrsta sæti gefurðu 5 stig, orðinu í öðru sæti gefurðu 4 stig og svo framvegis.

Tíu stigahæstu orðin komast áfram í seinni umferðina, sem hefst í byrjun desember.

Smelltu hér til að taka þátt í valinu eða hér á vef Orðabókarinnar.

Orðin sem berjast um titilinn eru eftirfarandi:

Málfarslögreglan – 19. þáttur

Heil og sæl ágætu hlustendur. Hlaðvarp Málfarslögreglunnar gengur nú í einhvers konar endurnýjun lífdaga. Ég lýsti því samt aldrei yfir að það væri dautt, eða að ég væri hættur þessu – ég tók mér bara góða pásu. Nú er henni lokið. En hvort þættir verða gefnir út reglulega upp frá þessu verður bara að koma í ljós.

Í nítjánda þætti verður leitast við að svara bréfum og skilaboðum frá hlustendum og lesendum. Við veltum fyrir okkur nöfnum húsa og manna. Og í lok þáttarins fáum við stútfullan pakka af íþróttum.

Efni þáttarins:

Hreint lak

Mér barst til eyrna hugtakið hreint lak. Ég hef ekki heyrt þetta hugtak áður í yfirfærðu merkingunni sem ég ætla að fjalla um hér. Enda er það notað í íþróttamáli – og ég fylgist ekki mikið með íþróttum.

Það er talað um að markvörður, aðallega í fótbolta, samkvæmt leitarniðurstöðum á Google, sé með hreint lak þegar honum tekst að halda markinu hreinu, þ.e.a.s. að verja öll skot sem koma að markinu.

En hvað er þetta hreina lak?

Þetta er bein þýðing úr ensku, eins og margt annað. Allt í lagi með það. En þetta er bara ekki rétt þýðing. Þetta er einn stór misskilningur.

Enska hugtakið er clean sheet, líka notað í fótboltamáli. (Og hér má minnast á að knattspyrna er óþarfa orð. Tölum heldur um fótbolta. En förum ekki nánar út í það hér).

Clean sheet þýðir vissulega hreint lak.

En sheet getur líka þýtt blað eða pappírsörk, auk nokkurra annarra orða. Og það er rétta þýðingin í þessu tilfelli.

Því enska hugtakið er frá þeim tímum þar sem tölvutæknin var ekki til (eða ekki eins langt komin og í dag) og það þurfti að nota blað og blýant eða penna til að skrifa niður markafjöldann og aðra tölfræði úr leiknum.

Og ef liðin voru búin að verja öll mörk í leiknum voru blöðin með markatölunum alveg hrein, laus við krot og merki.

Og þetta, krakkar mínir, er sagan af hreina lakinu.

Íslensk nafnahefð

Ég þarf oft að fylla út form á netinu. Við þurfum þess öll einhverntíma ef við notum internetið. Við þurfum að gera það þegar við verslum á netinu. Eða þegar við sækjum um styrki eða atvinnu eða þegar við opnum reikninga á vefsíðum sem krefjast innskráningar. Eða bara hvenær sem við þurfum að gefa einhverjar persónuupplýsingar um okkur.

Það fyrsta sem við erum beðin um í svona eyðublöðum er yfirleitt nafnið okkar. Án þess erum við ekkert.

En það er mismunandi hversu vel fram sett og notendavæn þessi form og eyðublöð eru á íslenskum vefsíðum. Verst eru eyðublöðin þar sem beðið er um fornafn og eftirnafn i mismunandi reiti.

Nei… afsakið. Verst eru eyðublöðin þar sem beðið er um fyrra nafn (eða fornafn) í einn reit, seinna nafn (eða millinafn) í annan reit og eftirnafn í þriðja reitinn.

Það er ekkert til í íslenskri mannanafnahefð sem heitir fornafn eða eftirnafn. Komum nánar að því á eftir.

Á íslenskum vefsíðum er of algengt að svona form og eyðublöð séu afrituð beint úr ensku. Við eigum ekki að þurfa fleiri en einn reit til að gefa upp nafnið okkar, ef við erum á íslenskum vefsíðum. Það er bara þannig.

Íslensk nafnahefð er þannig að við röðum nöfnum í stafrófsröð eftir fyrsta nafni. Sem heitir reyndar ekki fyrsta nafn, heldur eiginnafn eða fyrra eiginnafn. Og aftur: Við eigum ekki að þurfa að gefa upp fornöfn, millinöfn og eftirnöfn hvert í sinn reitinn þegar við fyllum út þessi form. Það er nóg, eða á að vera nóg fyrir okkur, ef við erum á Íslandi, að nota íslenskar vefsíður, að gefa upp fullt nafn í einum og sama reitnum. En það eru bara ekki allir vefstjórar eða vefeigendur sem gera sér grein fyrir því.

Og það er líka þetta með íslensku nafnahefðina og orðfarið í kringum hana. Ég held að það átti sig ekki öll um hvað er verið að tala þegar það er talað um fyrra nafn, seinna nafn, millinafn og eftirnafn. Það eru ekki margir Íslendingar sem bera millinöfn. (Ég get þó ekki vitnað í neina tölfræði sem bendir á það).

Það eru heldur ekki mörg sem bera ættarnöfn á Íslandi. Þau eru eiginlega bönnuð, nema að uppfylltum mjög ströngum skilyrðum. Íslenskir ríkisborgarar mega ekki taka upp ættarnafn maka síns. Það má hins vegar taka ættarnafnið upp sem millinafn. Komum nánar að því á eftir hvernig millinöfn virka.

Tökum tvo þekkta Íslendinga sem dæmi. Þau heita:

  • Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir. Hún er utanríkisráðherra, þegar þetta er tekið upp.
  • Sigurður Ingi Jóhannesson. Hann er formaður Framsóknarflokksins og innviðaráðherra.

Eginnöfn

Eiginnöfn eru nöfn sem skylt er að gefa börnum fyrir sex mánaða aldur. Þau mega vera í mesta lagi þrjú.

Sigurður Ingi og Þórdís Kolbrún bera t.d. bæði tvö eiginnöfn; fyrra og seinna eiginnafn.

Millinöfn

Almenn millinöfn

Millinafn er næstum því eins og ættarnafn. Það er þó aðeins meira frelsi í þeim. Þau eru þannig að fólk getur borið þau óháð kyni. Og hver sem er má bera millinafn, öfugt við ættarnöfn. Og það er ekki skylda að gefa börnum millinöfn.

Ef fólk ber millinafn mega eiginnöfn þess vera í mesta lagi tvö.

Millinöfn skulu dregin af íslenskum orðstofnum eða hafa unnið sér sess í íslensku, en þó ekki hafa nefnifallsendingu.

Dæmi um millinöfn eru: Austfjörð, Bjarndal, Reykfell (og fleiri nöfn sem enda á -fjörð, -fell og -dal), Seljan og Hlíðkvist. Listi yfir fleiri íslensk millinöfn er á Wikipediu.

Þórdís Kolbrún ber til dæmis millinafnið Reykfjörð. En Sigurður Ingi ber ekkert millinafn.

Sérstök millinöfn

En svo flækist þetta aðeins, því það eru til almenn millinöfn og sérstök millinöfn. Þau sem ég talaði um hér áðan eru almenn millinöfn.

Sérstök millinöfn eru þannig að það má bera þau, þó þau séu ekki íslensk að uppruna, ef nákominn ættingi, t.d. systkini, foreldri, afi eða amma, ber nafnið eða hefur borið það áður.

Þau sem bera ættarnafn mega breyta því í millinafn.

Þau sem bera ekki ættarnafn, en eiga rétt á því mega taka ættarnafnið upp sem millinafn. Líka þau sem eiga nákomna ættingja eða maka með ættarnafnið.

Og eiginnafn foreldris í eignarfalli er líka hægt að nota sem millinafn. Börn Jóns og Guðrúnar gætu til dæmis heitið Sigurður Guðrúnar Jónsson, Sigurður Jóns Guðrúnarson eða Anna Jóns Guðrúnardóttir eða Anna Guðrúnar Jónsdóttir. Í þessum dæmum eru nöfnin Jóns og Guðrúnar millinöfn.

Kenninöfn

Áður en við snúum okkur að kenninöfnum er vert að minnast á það aftur að það er ekkert til í íslenskri mannanafnahefð sem heitir eftirnafn. Þetta heitir kenninafn en ekki eftirnafn.

Á Íslandi er algengast að kennnöfn séu nöfn foreldra okkar í eignarfalli, ásamt endingunni -son eða -dóttir. Oftast eru það nöfn feðra okkar en það geta líka verið nöfn mæðra okkar. Og það er líka leyfilegt að nota bæði nöfn föður og móður.

Börn Jóns og Guðrúnar sem ég minntist á áðan gætu til dæmis heitið Anna Jónsdóttir Guðrúnardóttir, Anna Guðrúnardóttir Jónsdóttir, Sigurður Guðrúnarson Jónsson eða Sigurður Jónsson Guðrúnarson.

Þau sem bera ættarnöfn geta borið þau í stað kenninafns, sem og afkomendur þeirra. En það má ekki taka upp ný ættarnöfn á Íslandi. Ættarnafnberar mega líka kenna sig við föður og/eða móður ásamt því að nota ættarnafnið.

Hvað með útlendingana?

Útlendingar sem fá íslenskt ríkisfang mega halda nafni sínu óbreyttu. Þau mega líka taka upp eiginnöfn, millinafn eða kenninafn sem samræmist íslenskum reglum. Þau sem hafa fengið íslenskan ríkisborgararétt gegn því að breyta nafni sínu og taka upp íslenskt nafn geta sótt um að fá nafni sínu breytt til baka, að hluta eða öllu leyti.

Ef annað foreldri barns er eða hefur verið erlendur ríkisborgari má gefa barninu eiginnafn og/eða millinafn sem er gjaldgengt í heimalandi foreldrisins, þó að það sé ekki í samræmi við íslenskar nafnareglur. Barnið verður þó að fá a.m.k. eitt íslenskt nafn.

Erlendur ríkisborgari sem giftist Íslendingi má halda kenninafni eða ættarnafni sínu eða taka upp kenninafn maka síns.

Nánari upplýsingar:

Vonandi eru hlustendur einhverju nær um íslenska nafnahefð og orðfar í kringum hana. Þau sem vilja kynna sér hana betur geta nálgast tengla á síðu nítjánda þáttar Málfarslögreglunnar á vefnum Orðabókin.is.

Þurfa öll hús að heita eitthvað?

Nú á dögunum var Hús íslenskunnar vígt og við sama tækifæri fékk það nafnið Edda, að undangenginni nafnasamkeppni.

Þegar samkeppnin var auglýst og þegar nýbúið var að opinbera nafnið fóru virkir í athugasemdum á flug, hvort sem það var á Facebook eða Twitter. Mörg veltu því fyrir sér hvort öll hús þyrftu að heita eitthvað. En vissulega var mismikil kaldhæðni á bakvið þessar pælingar. Svo ekki sé nú minnst á öll grínnöfnin sem fólk stakk upp á. Ég ætla ekki að tala um þau öll hér.

Hér má líka minnast á að Edda er ekki eina húsið sem heitir eitthvað. Hús hafa fengið nöfn áður. Eiginlega alveg frá því að mannfólkið byrjaði að byggja sér hús hafa þau fengið nöfn. Og Edda er heldur ekki eina húsið á Háskólasvæðinu sem fær nafn að lokinni nafnasamkeppni. Þannig var það líka með bygginguna Veröld – Hús Vigdísar.

En: Nei. Það þurfa ekki öll hús að heita eitthvað. Það er bara skemmtilegra. Það gerir þau líka að kennileitum. Svo er líka auðveldara að finna þau eða rata eftir þeim ef þau heita eitthvað. Jafnvel þó þau heiti það sama og fyrirtækið eða starfsemin sem er í þeim.

Götunöfn eru ágæt, svo langt sem þau ná. En ég veit ekkert alltaf við hvaða götu ég er staddur, og þaðan af síður við hvaða húsnúmer.

Vitum við til dæmis við hvaða götu Perlan er, án þess að fletta því upp á Google maps eða Já.is?

Hún er við Varmahlíð 1, bara svo því sé haldið til haga. Samkvæmt já.is

Og ef ég segi einhverjum að ég sé staddur við Arngrímsgötu 3, Kauptún 4, Hamraborg 2, Laugaveg 20b, Austurveg 3 eða Álfabakka 8 eru líklega ekki mörg sem mundu vita strax hvar ég væri. Nema þau væru með Google maps eða já.is við hendina. Og ég vissi ekki einu sinni þessi götunöfn og númer fyrr en eftir að ég fletti þeim upp á já.is.

En ég held að fleiri kveiki á perunni ef ég nefni Þjóðarbókhlöðuna, IKEA, Kópavogskirkju, Kalda bar, Krónuna á Selfossi eða bíóið þarna í Breiðholtinu.

Við getum öll haft skoðun á húsanöfnum. Sumum finnst nafn Eddu klisjukennt eða fyrirsjáanlegt. Það verður þá bara að hafa það. En ég held að þetta nafn eigi eftir að venjast vel.

En húsanöfn eru skemmtileg, þau lífga upp á tilveruna og ég vona að við eigum eftir að sjá nóg af þeim í framtíðinni.

Svaðalegur eða svakalegur?

Þættinum hefur borist bréf. Það hljóðar svo:

Af hverju segja sum svaðalega í stað svakalega?

Stutta svarið er: Ég veit það ekki. En ég held að þetta séu bara mismunandi afbrigði af sama orðinu. Fyrir mér þýða þessi orð um það bil það sama. Eina leiðin til að komast að því hvort svo er er að fletta því upp í nokkrum orðabókum.

Íslensk orðabók

Byrjum á Íslenskri orðabók á vefnum snara.is. Þar merkir svakalegur:

  1. svakafenginn, ruddalegur
  2. skelfilegur, sem vekur ótta, hroðalegur
  3. klunnalegur, kauðalegur útlits
    þrútinn og rauður í andliti

Svaðalegur hefur merkinguna:

  1. ruddalegur, hroðalegur.

Sem sagt nokkurn veginn það sama og svakalegur.

Samheitaorðabókin

Lítum þá í Íslenska samheitaorðabók, líka á Snöru.

Samheiti við svakalegur eru:

  • svakafenginn
  • herfilegur
  • hroðalegur
  • ógnvekjandi
  • rosalegur
  • skelfilegur
  • svaðalegur
  • grófur

Samheiti við svaðalegur eru:

  • grófur
  • ruddalegur
  • svakalegur

Hérna þýða orðin líka það sama. Eins og við vissum svo sem.

Íslensk nútímamálsorðabók

Skoðum að lokum Íslenska nútímamálsorðabók á vef Árnastofnunar, bara til að taka af allan vafa.

Þar hefur svakalegur tvær merkingar:

  1. Til áherslu: mjög mikill
    DÆMI: hún hefur alltaf verið svakalegur glanni
  2. Skelfilegur
    DÆMI: ég heyrði svakaleg læti úti á götu í nótt
    DÆMI: þessi fjallvegur var svakalegur áður fyrr

Svaðalegur hefur sömu, eða svipaða merkingu:

  1. Til áherslu: slæmur, hrikalegur
    DÆMI: svaðalegt óveður

Sagan

En hvort er eldra, svakalegur eða svaðalegur? Ég hef alltaf haft á tilfinningunni að svaðalegur sé yngra, og þá ekki komið inn í málið fyrr en einhverntíma á síðustu 20-30 árum. En skoðum ritmálsheimildir. Byrjum á Ritmálssafni Orðabókar Háskólans.

Ritmálssafnið

Þar er elsta dæmi um svaðalegt frá 1777, úr Rímum af Ingvari víðförla og Sveini syni hans, kveðnum af sáluga Árna Böðvarssyni og útgefnar eftir hans eigin handar riti.

Svakalegur kemur fyrst fyrir í Íslenskum þjóðsögum og æfintýrum Jóns Árnasonar, sem komu fyrst út árið 1862. Samkvæmt þessu er svakalegt því 85 árum yngra en svaðalegt. Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar stendru í sögunni um Guðbrand og Mókoll:

Varð Guðbrandur þess var og barði á honum; var hann og maður svakalegur og lítt gætinn þegar hann reiddist, en Kristján kærði það fyrir föður sínum.

Íslenskar þjóðsögur og æfintýri: Guðbrandur og Mókollur.

Tímarit.is

Á Tímaritavefnum er elsta dæmið um svaðalegt í Tímanum 6. mars 1872:

Hann reiddi um öxl járnkarl, og var hinn svaðalegasti; enda varð hann og kattarkóngur.

Svakalegt er litlu yngra; fyrsta dæmið er í Skírni árið 1885:

Þá drekkur hann að jafnaði eina sjerríflösku, en þegar á hann svífur, gerist hann svakalegur og mundi mart hroðalegt vinna, ef eigi yrði við sjeð.

Á Tímaritavefnum sést líka tölfræði um notkun orðanna. Frá 1870 til u.þ.b. 1950-1960 er ekki mikill munur á tíðni þeirra. En eftir 1950 fer svakalegur að taka stórt stökk fram úr svaðalegum og verður meira notað upp frá því. Þannig að það er kannski ekki furða að ég hafi haft á tilfinningunni að svaðalegt væri yngra.

Sama niðurstaða fæst þegar orðin eru gúgluð. Þar skilar leitarorðið svakalegur um 711.000 niðurstöðum. En svaðalegur skilar bara 26.800 niðurstöðum.

En af hverju þá?

En það á eftir að svara spurningunni:

Af hverju segja sum svaðalega í stað svakalega?

Við vitum núna að svaðalegt er litlu eldra heldur en svakalegt.

Við vitum líka að svakalegt er meira notað en svaðalegt.

Og við vitum að þessi orð merkja u.þ.b. það sama.

En við vitum ekki (eða ég veit ekki) ennþá af hverju sumir segja svaðalegt en aðrir svakalegt. Og ég held að við eigum aldrei eftir að fá skýrt svar við því.

Ég hugsa að fólk noti bara þessi orð til að auka á litbrigðin, blæbrigðin eða stílinn í málinu, meðvitað eða ómeðvitað. Eins og við eigum hundruð orða yfir snjó, sjó og ýmiss konar veður, sem við notum til mismunandi stílbrigða, til að lita tungumálið. Því það er allt í lagi að það séu til fleiri en eitt orð yfir sama hlutinn eða fyrirbærið.

Eða eins og að stundum viljum við vera í bláum fötum en stundum viljum við vera í rauðum fötum eða svörtum, brúnum eða fjólubláum, allt eftir skapi, smekk eða tækifærum hverju sinni.

Ég held a.m.k. að þetta sé svakalega gott svar.

Skútur og önnur óorð

Þættinum hefur borist bréf. Eða ekki alveg bréf. Raunar er það athugasemd við orðið Rafskúta í Orðabókinni, frá ónefndum lesanda. Það er svohljóðandi:

Rafskúta er ekki hjól heldur bátur með seglum og rafmagnsmótor. Eruð þið algerir aular

Ég svaraði þessari athugasemd:

Takk fyrir ábendinguna.

Það er satt – maður hugsar vissulega líka um bát með segli og mótor þegar maður heyrir minnst á rafskútu.

En þetta hefur líka verið notað um rafmagnshlaupahjól. Það sést t.d. ef leitað er að orðinu „rafskúta“ á Google. Þá koma upp myndir og síður með rafmagnshlaupahjólum.

Það þarf s.s. ekki að vera að fólk sé „algjörir aular“ bara þó að það búi til nýja merkingu fyrir gömul orð. Þó að það sé auðvelt að kalla fólk illum nöfnum á bakvið tölvuskjá og nafnleynd á internetinu.

Þetta orð er s.s. til og fólk er að nota það út um allt, hvort sem okkur líkar það betur eða verr.

En ef okkur er illa við eitthvað orð (mér er sjálfum illa við fullt af orðum), þá er bara eitt að gera, og það er að nota þau ekki.

Og þú ert líka frábær.

Og annað svar barst frá sama lesanda:

Þakka þér fyrir póstinn

Ætlaði ekki að vera dónalegur en það er til íslenskt orð fyrir þetta og þó að illa talandi einstaklingar noti ensku þá er það ekki íslenska. Ennfremur þá er engin skilgreining á orðinu varðandi bát með seglum hjá ykkur þarf ekki að bæta því við skilgreininguna ef þið eruð orðabók. Eða er einungis ein skilgreining til?

Skv ykkar skilgreinig á að þetta sé víða notað vantar þá ekki orðin

Plís
Fokk jú
Póster ofl.

Í orðabókina? Sömu rök hljóta að eiga við þar.

Þessi orð eru mun meira notuð en rafskútuorðið, ásamt mörgum öðrum. Hvernig væri að orðabók sem þykist fjalla um íslensku haldi sig við hana og þori að taka afstöðu. Enska er enska þó hún sé borin fram með íslenskum hljóðtáknum

Svar óskast.

Og ég svaraði

Það er sjálfsagt að bæta skilgreiningu um bátinn við þetta orð í Orðabókinni. Og ég er m.a.s. búinn að því.

Ég skil hugmyndina sem þú hefur. Og ég er sammála þér – ég vil veg íslenskunnar sem mestan! Við megum ekki láta þetta tungumál deyja út. (Vil samt nefna að orð eru ekki borin fram með hljóðtáknum, heldur skrifuð með hljóðtáknum, en ég ætla ekki að hengja mig í smáatriði).

Við höldum tungumálinu meðal annars á lífi með nýsköpun – til dæmis með því að búa til ný orð yfir gamla og nýja hluti og hugtök, sama hver aðferðin við nýyrðasköpunina er. Þess vegna er rafskútan í Orðabókinni. Það þarf ekki endilega að vera bara til eitt orð yfir hvern hlut.

Í tilfelli rafskútunnar er notuð svokölluð aðlögun við nýyrðasmíðina. Hún er fullgild í íslensku og öðrum tungumálum við að búa til orð sem nú eru samþykkt í tungumálinu. Þá er orð af erlendum uppruna tekið inn í málið og lagað að íslensku málkerfi, þó að það beri þess merki að vera erlent. Scooter verður hér að skútu. Dæmi um fleiri orð smíðuð með þessari aðferð eru prestur, biskup, bíll, jeppi, gír, skáti, djass, popp, rokk, pítsa, spagettí og partí. Þessi orð eru öll viðurkennd í íslensku og eru í Íslenskri orðabók. Dæmi um íslensk orð sem hafa verið löguð að öðrum tungumálum eru saga og geysir.

Hér má líka velta fyrir sér mismunandi hlutverkum og tegundum orðabóka. Sumar þeirra leggja mesta áherslu á að segja hvernig við eigum að tala eða skrifa, eða hvernig höfundar þeirra eða ritstjórar vilja að við tjáum okkur, hvaða orð við notum o.s.frv.

Aðrar orðabækur lýsa því hvernig við tölum, skrifum eða tjáum okkur í raun og veru. Þessi orðabók er í síðarnefnda flokknum og leggur mesta áherslu á nýyrði og slangurorð. Ég tel mig því hafa verið ófeiminn við að taka afstöðu á þessum vef.

Það má líka minnast á að orð eins og fokk, fokking og sjitt, eru nú þegar í Íslenskri orðabók, frá 2007. (Svo skal böl bæta að benda á eitthvað annað!) Þau eru að vísu sögð óformleg eða merkt með tveimur spurningamerkjum, sem þýðir að þau eru „framandorð sem vafi leikur á hvort talist getur íslenskt, sletta“. En þau eru samt í Íslenskri orðabók.

Og það getur vel verið að einhverntíma bæti ég við þessum orðum sem þú nefnir. Því eins og ég sagði áður er hér lögð mest áhersla á slangur og nýyrði.

Hleðslukvíði er orð ársins 2022

Kosningu um orð ársins 2022 hjá Orðabókinni er nú lokið. Sigurvegarinn í kosningunni er Hleðslukvíði.

Hleðslukvíði er tilfinning sem eigendur rafmagnsbíla og rafmagnshjóla kannast við þegar þau óttast að komast ekki á leiðarenda með orkunni sem er eftir á batteríinu.

Við könnumst líka við þessa tilfinningu þegar við höfum áhyggjur af því að rafhlaðan í símanum tæmist við óheppilegar aðstæður, t.d. úti á djamminu eða á ferðalögum þar sem engin rafmagnsinnstunga er nærri.

Þakka öllum sem tóku þátt í kosningunni. Verið dugleg að búa til ný orð árið 2023.

Og ég lofa að skrifa um eitthvað annað en orð ársins á þennan vef á þessu ári, og hafa hann virkari en á því síðasta. Það verður ekki erfitt.

Orð ársins 2022 hjá nokkrum öðrum:

Orð ársins hjá orðabókinni frá upphafi:

Til upprifjunar er hér listi yfir orð ársins hjá Orðabókinni frá upphafi: