Málfarslögreglan – 6. þáttur

Heilir og sælir ágætu hlustendur og verið velkomin í sjötta þátt Málfarslögreglunnar.

Þessi þáttur verður á trúarlegum nótum, því að hér koma bæði himnaríki og helvíti við sögu.

Skírn og nafngjafir

Byrjum á stuttri tilvitnun í biblíuna. Ritningarlestur dagsins er úr Matteusarguðspjalli, 28. kafla, versi 18-20.

Jesús sagði:

Allt vald er mér gefið á himni og á jörðu. Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður. Sjá ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.

Þannig hljóðar hið heilaga orð.

Og þarna kemur fyrir sögnin skíra.

Það pirrar mig ekki beinlínis, en ég verð alltaf pínu hugsi þegar fólk segist hafa skírt alla skapaða hluti og fyrirbæri og á þá við að það hafi gefið hinum og þessum hlutum nafn.

Margir hafa líklega heyrt um einhvern sem hefur skírt köttinn sinn eða hundinn sinn einhverju nafni. Og við höfum flest heyrt um Hafnfirðinginn sem skírði sebrahestinn sinn Depil.

Skírn og nafngjöf eru vissulega nátengd fyrirbæri samkvæmt gamalli hefð á Íslandi. Nöfn barna eru yfirleitt opinberuð um leið og þau eru skírð. En þetta er samt ekki það sama. Skírn er ekki það sama og nafngjöf. Og Nafngjöf er ekki það sama og skírn.

Á vef íslensku þjóðkirkjunnar stendur:

Í heilagri skírn er skírnþegi tekinn inn í kirkju Krists. Í hinni evangelisk – lúthersku kirkju, sem Þjóðkirkjan er hluti af, er algengast að barn sé skírt meðan það enn er ómálga. Samkvæmt fyrirmælum Jesú Krists er barn skírt til nafns föður og sonar og heilags anda. Það er helgað Guði með Orði hans og bæn og ausið vatni.

Skírn er með öðrum orðum trúarleg athöfn. Í henni felst ekki að gefa mönnum nafn, heldur eingöngu að taka menn inn í kirkjuna.

En það er ekkert trúarlegt í sjálfu sér við nafnagjafir. Í staðinn fyrir að skíra alla skapaða hluti og fyrirbæri, eins og bíla, hús, flugvélar, skip eða dýr, ættum við frekar að kalla þau eitthvað eða nefna þau. Að minnsta kosti svo lengi sem engin trúarathöfn fer fram með nafnagjöfinni.

Sebrahesturinn var ekki skírður Depill, heldur var hann nefndur Depill. Og verslunarmiðstöðin var ekki skírð Smáralind, heldur var henni gefið nafnið eða nefnd Smáralind.

Við skírnarathafnir hafa prestar tekið upp á því að spyrja „Hvað heitir barnið“ eða „Hvert er nafn barnsins“ í stað þess að spyrja „Hvað á barnið að heita. Þannig er ítrekað að skírnin er ekki nafnagjöf þó að nafnið sé fyrst gert opinbert við skírnarathöfnina.

Það má lesa meira um þessi mál á Vísindavefnum. Það er tengill undir sjötta þætti Málfarslögreglunnar á vefnum orðabókin.is.

Víst eða fyrst?

Þá er komið að ráði til virkra í athugasemdum. Það eru reyndar fleiri sem mega taka þetta til sín núna, því málvillan sem nú verður fjallað um er orðin allt of algeng.

Það er þetta með afleiðingar gjörða okkar:

Ég fór í bæinn að kaupa mat fyrir helgina. Og af því að ég var niðri í bæ, þá kom ég við í ríkinu.

Með öðrum orðum: „Fyrst ég var í bænum kom ég við í ríkinu.“

Það eru allt of margir sem segja víst en ekki fyrst í svona setningum. Setningin hljómar þá svona: „Víst ég var í bænum kom ég við í ríkinu“.

Þetta er kolröng notkun og hún fer alveg óstjórnlega í taugarnar á mér. Mig langar til að öskra í hvert sinn sem ég heyri þetta.

Viljiði vinsamlega gera það fyrir mig að nota fyrst en ekki víst í þessu samhengi.

Helvítis fokking fokk!

Fyrst ég er nú búinn að vitna í biblíuna og þjóðkirkjuna og presta á ég það inni að tala um hina hliðina á trúarbrögðunum, s.s. sjálfan djöfulinn.

Íslensk blótsyrði og saga þeirra hafa lítið verið rannsökuð, mér vitanlega. Helsta ástæðan er líklega sú að blótsyrði hafa sjaldan komist á prent og því þyrfti að fara út í rannsóknir á talmáli.

Ég veit þó um eina BA-ritgerð sem var skrifuð um íslensk blótsyrði og aðra sem var skrifuð um orðið Fokk.

Í fræðigreinum sem eru til um íslensk blótsyrði kemur fram að Íslendingar blóti meira en aðrar þjóðir. Þar er líka talað um að blótsyrði séu eitt af því fyrsta sem útlendingar læra í íslensku. Ég veit ekki hvort þetta hefur verið staðfest með rannsóknum eða hvort þetta eru bara tilfinningar þeirra sem skrifuðu greinarnar.

Núna þegar blótsyrðin sjitt og fokk tröllríða orðaforðanum er ekki úr vegi að minnast á öll íslensku blótsyrðin sem við eigum.

Hvers vegna nota menn eiginlega sjitt og fokk? Ég veit ekki almennilega hvernig það er með sjitt, en orðið fokk mun hafa verið komið í íslenskuna sem blótsyrði í upphafi níunda áratugar síðustu aldar. Líklega vegna breyttrar menningar og aukinna áhrifa frá amerísku afþreyingarefni, þar sem þessi orð koma ósjaldan fyrir.

Kannski finnst mönnum gömlu góðu íslensku blótsyrðin vera orðin merkingarlaus. Íslendingar eru ekkert trúaðir, svona upp til hópa, og myrkrahöfðingin hefur ekki lengur sama mátt í huga manna og hann gerði fyrr á öldum. Kannski finnst mönnum sjitt og fokk vera sterkari og fá meiri útrás fyrir reiðina heldur en við að taka sér gömlu góðu íslensku blótsyrðin sér í munn.

Í gömlu áramótaskaupi var til dæmis stungið upp á því að þýða orðið sjitt og nota hægðir í staðinn. Þessi tillaga hefur ekki ennþá náð fótfestu. En þeir sem vilja blóta á íslensku hafa úr mörgu að velja þó að við sleppum því að beinþýða erlend skammaryrði.

Góð og gild íslensk blótsyrði (ef það er þá hægt að tala um góð blótsyrði), sem hafa lifað hvað lengst með þjóðinni eru orðin andskoti, fjandinn, djöfullinn og ýmsar afbakanir og samsuður af þessum orðum. Og svo bústaður þess gamla, þ.e. helvíti.

Andskoti merkir andskjótanda, þ.e. einhvern sem skýtur á móti manni.

Djöfull er komið af gríska orðinu diabolos og merkir rógbera.

Fjandi merkir óvinur. Það er komið úr sögninni fjá, sem þýðir að hata. Merking fjandans er s.s. einhver sem hatar mann.

Helvíti er samsett úr orðunum Hel, sem er dvalarstaður ásatrúarmanna eftir dauðann og víti, sem merkir refsing.

Helstu blótsyrði í íslensku koma sem sagt öll úr kristinni trú og eru meira og minna vísun í biblíuna og djöfulinn sem kemur þar við sögu.

Til að milda þessi aðalblótsyrði hafa menn fundið upp ýmsar afbakanir og samsuður af þessum orðum. Þar eru til dæmis orðin ansvíti, assgoti hevvíti, déskoti, fjárinn, ansans, bévaður, bévítans. Og svo ýmiskonar skrautorð yfir myrkrahöfðingjann, t.d. paurinn, árinn, fjárinn, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Helvíti, dvalarstaður Satans hefur stundum verið kallað Niðurkot og hann kallaður Gamli í Niðurkoti. Stundum hefur það líka verið kallað Hólakot. En hvorugt þessara orða hefur þó verið notað sem blótsyrði.

Þessi skrautorð eru komin til vegna gamallar trúar á mátt nafnsins. Menn trúðu því sem sagt að eins og dýr (og reyndar líka menn) koma þegar nafnið þeirra er kallað, þá kæmi djöfullinn ef hans rétta nafn væri nefnt berum orðum.

Meira að segja sögnin að blóta er komin úr trúarbrögðum. Ásatrúarmenn notuðu hana um að tigna goðin sín. En þegar kristnin kom til Íslands urðu heiðnir guðir tákn um hið illa og orðið blóta fékk smám saman á sig verri merkingu, það er að bölva eða formæla einhverjum. Goðin voru líka kölluð rögn og af því er dregin sögnin að ragna. Allt sem var úr öðrum trúarbrögðum en kristni varð sem sagt að samnefnara fyrir djöfulinn.

Þessi hefð mun líka vera til á norðurlöndum og helstu blótsyrðin þar munu líka vera komin úr kristinni trú. En þegar sunnar dregur í Evrópu munu blótsyrði líka vera tengd kynlífi og ýmsum saurlifnaði. Þannig er þetta líka í ensku, sbr. orðin sjitt og fokk.

Við Íslendingar eigum eiginlega engin svoleiðist blótsyrði, þ.e. einhver sem geta staðið ein og sér, sem upphrópanir til að veita útrás fyrir reiði.

En nú eru Íslendingar ekkert trúaðir, svona upp til hópa. Hvaða blótsyrði getum við þá notað ef við viljum sleppa því að vísa í kristnina? Það hefur verið stungið upp á orðinu horngrýtis. Það er vissulega vannýtt auðlind sem mætti nýta betur. Merking þess er dálítið á huldu en ein skýring á því er eggjagrjót. Bölbænin er þá sú að viðkomandi lendi í ófærum eða verði urðaður utangarðs.

Það má líka nota orðið rækallinn. Það er komið af orðinu rægikarl, sem þýðir rógberi.

Svo er það skrambans, sem í norðurlandamálum þýðir magur maður eða hestur.

Og svo orðin óhræsis, ólukkans og ótætis.

Og svo má taka Kolbein kaftein úr Tinnabókunum sér til fyrirmyndar. Frá honum koma fjölmörg skemmtileg blótsyrði. Þau tengjast öll sjómennsku og geta þannig verið vísun í einn helsta atvinnuveg Íslendinga. Nokkur dæmi um blótsyrði frá Kolbeini kafteini eru:

  • Hundrað milljón hreinlífar hámerar frá Hvammstanga
  • Holdvotar hámerar
  • Fimm milljón fúlar flyðrur
  • Tuttugu trilljónir af tútnum túnfiskum
  • Níu milljón nautheimsk náhveli

Í grein frá 1927 stingur Ólafur Lárusson svo upp á því að menn telji upp að tuttugu á meðan þeim rennur reiðin og þörfin til að blóta líður hjá. Hann segir:

Talnaröðin er óendanleg. Hve reiður sem maður er, þá brestur hann aldrei nýtt og nýtt orð, þó að hann héldi áfram að telja meðan hann gæti dregið andann. Þeir, sem helzt svala sér á blótsyrðum, eru oft menn, sem lítið eru upp á bókarament, og þessi andlega áreynsla að telja einn, tveir, þrír, fjórir, fimm . . . . . mundi því brátt dasa þá og þeim renna reiðin. Þá verður ekki heldur sagt, að neitt ljótt sé í tölunum, engin þeirra hefir vonda merkingu, nema þá ef vera skyldi 13, og engin þeirra er lengur svo heilög, að það sé nein goðgá að nefna hana. Eg held því, að þetta ráð væri tilvalið.

Þar með lýkur þessari stuttu umfjöllun um íslensk blótsyrði. Það væri hægt að fjalla miklu nánar um þau og rannsaka þau miklu betur, jafnvel skrifa doktorsritgerð um þau. Ég vona svo sannarlega að einhver taki sig til og vindi sér í verkið.

Hlustendur sem vilja fræðast meira um blótsyrði geta smellt á tengla sem fylgja sjötta þætti af málfarslögreglunni á vefnum orðabókin.is.

Þar geta hlustendur líka haft samband ef þeir vilja bæta einhverju við um blótsyrði eða trúarathafnir. Og ég minni líka á málfarslögregluna á Facebook og Twitter.

En þættinum er lokið að þessu sinni.

Í guðs friði.

Tenglar og ítarefni

Skírnir og nafngjafir:

Blótsyrði:

Málfarslögreglan – 5. þáttur

Heilir og sælir ágætu hlustendur og verið velkomin í fimmta þátt Málfarslögreglunnar.

Nei. Byrjum aftur.

Hello, ladies and gentlemen and welcome to the fifth episode of the Icelandic grammar police.

Hvað hefur nú gerst síðan síðasti þáttur var tilbúinn?

Nú, til dæmis að íslenskt flugfélag vill ekki heita íslensku nafni af því að það þykir ekki nógu markaðsvænt. Tvöþúsundogsjö-ástandið er víst að byrja aftur.

Nýtt og markaðsvænna nafn

Og nú ætlar Málfarslögreglan að taka þátt í partýinu. Hún ætlar að feta í fótspor fyrirtækisins sem hét einu sinni Flugfélag Íslands en heitir nú Air Iceland connect, og ætlar að breyta nafninu í eitthvað markaðsvænna. Því það vita jú allir að þetta íslenska virkar ekki í alþjóðlegu samhengi.

Opinbert heiti Málfarslögreglunnar héðan í frá verður því The amazing Icelandic grammar police connect. En það er mun markaðsvænna nafn, eins og allir hljóta að sjá.

Það hamlar samt dálítið að þættirnir skuli vera talaðir á íslensku, en fljótlega verður auglýst eftir einhverjum sem getur talsett þá á ensku svo vel sé.

Vissulega gætu einhverjir orðið óánægðir með nafnabreytinguna. Ég skil það mjög vel og þykir að mörgu leyti vænt um slík viðbrögð. Því Málfarslögreglan er miðill sem skiptir máli og fólki finnst skipta máli það sem hún er að gera.

En Málfarslögreglan heldur áfram að halda þjóðerni sínu á lofti og aðsetur hennar verður áfram á Íslandi. Það er svo sem ekkert nýtt að fyrirtæki séu með erlend heiti hér á landi. Málfarslögreglan heldur áfram sínu íslenska heiti í þjóðskrá og í fyrirtækjaskrá. Og þessi nafnabreyting hjálpar til við markaðssetningu, því það er einfaldara að koma fram undir einu nafni.

Annars staðar kom svo fram að íslenskir afgreiðslumenn í íslenskum verslunum vilja ekki tala íslensku við íslenska viðskiptavini, að því er virðist – af því bara.

Eigðu góðan dag

En fyrst ég var nú að minnast á afgreiðslumenn:

Stundum þegar ég er að versla úti í búð og stend við kassann og er að setja dótið mitt í poka segir afgreiðslufólkið við mig „eigðu góðan dag“ „eigðu gott kvöld“ og stundum jafnvel „eigðu gott kvöld og góða helgi“ allt eftir því hvaða dagur og hvaða tími dagsins er hverju sinni.

Ég svara yfirleitt í hugsunarleysi „sömuleiðis“. En það sem mig langar að segja er:

EIGÐU GÓÐAN DAG!

Þessi kveðja sem er svo amerísk eitthvað. Þýdd beint upp úr have a nice day.

Ég játa að mér finnst þetta vinaleg kveðja og allt svoleiðis. Og ég efast ekki um að tilgangurinn með henni sé góður. En það er líklega ekki við starfsfólkið að sakast þó hún sé notuð. Hún er hluti af fyrirfram skrifuðu handriti eða starfsreglum.

Þessi kveðja, Eigðu góðan dag, er svo mikið búin til af þjónustustjórum, eða einhverjum sem vinna við að bæta upplifun viðskiptavinarins.

(Og upplifun er eitt orð sem ég verð að taka fyrir seinna).

Þessi kveðja er búin til af stjórnendum fyrirtækja sem hafa verið að lesa fræðirit á ensku um verslun, verslunarupplifun, þjónustu og viðskipti. Ég sé þessa stjórnendur svo mikið fyrir mér halda fyrirlestur með glærusýningu fyrir framan starfsfólkið sitt á starfsmannafundi.

Og í glærusýningunni kemur fram að:

  • Við kveðjum viðskiptavininn með orðunum eigðu góðan dag.
  • Það bætir upplifun viðskiptavinarins.
  • Hann gengur út glaður í bragði.

Og svo er jafnvel vísað í útlenskar þjónustukannanir þar sem kemur fram að ákveðið hlutfall viðskiptavina kemur aftur, gefur búðinni hærri einkunn í þjónustukönnunum og svo framvegis, þegar þeir heyra þessa kveðju.

Þó að mér finnist þessi kveðja vinaleg og falleg, þá þoli ég hana samt ekki. Ég dey alltaf pínulítið innra með mér þegar ég heyri hana. Mér líður alltaf jafn illa þegar ég er búinn að segja „sömuleiðiðis“ við starfsfólkið eftir að það hefur sagt mér að eiga góðan dag.

Af hverju ekki frekar að segja bara: „Njóttu dagsins“, „Njóttu kvöldsins“ eða bara „takk fyrir viðskiptin og velkominn aftur“?

Við verslunarstjórnendur vil ég segja: Þið getið tekið þennan góða dag ykkar, átt hann sjálf og troðið honum í…

Eitthvað og einhver

Þá er komið að nýjum dagskrárlið hér í Málfarslögreglunni, sem ég kýs að kalla Ókeypis ráðlegging til virkra í athugasemdum.

Ég ætla ekki einu sinni að byrja að tala um vitleysuna og þvæluna og sorann sem vellur upp úr virkum í athugasemdum. En stafsetningar- og málfarskunnátta þjóðfélagshópsins er annað.

Ég hef til dæmis tekið eftir því að margir af virkum í athugasemdum segjast hafa gengið í skóla lífsins. En í honum virðist ekki hafa verið lögð mikil áhersla á íslensku- eða stafsetningarkennslu. Þessum nýja dagskrárlið er meðal annars ætlað að bæta úr því.

Að þessu sinni verður fjallað um orðin einhver og eitthvað.

Í fyrsta lagi er ekkert til sem heitir einhvað eða eitthver. Rétt er að skrifa eitthvað og einhver.

Svo er það skammstöfunin á þessum orðum. Það á ekki að skrifa eh. og þaðan af síður e-h.

Rétt skammstöfun er e – (bandstrik) og stafurinn sem orðið endar á:

  • e-ð = eitthvað
  • e-r = einhver
  • e-i = einhverri
  • e-m = einhverjum

Og svo framvegis

Háfrónskt orðaval

Í síðasta þætti voru lesin upp nokkur orð úr háfrónsku og fengu hlustendur tækifæri til að giska á merkingu þeirra.

Hér koma lausnirnar í þessari litlu getraun.

  • Framhaldsraun = stúdentspróf
  • Heggfræ = mandla
  • Hleifrann = bakarí
  • Verblaka = Leðurblökumaðurinn (Batman)
  • Mógæti = Súkkulaði (Hér er komið tækifæri fyrir sælgætisframleiðendur til að markaðssetja súkkulaði undir nafninu Mógæti. Ég mundi a.m.k. kaupa það).
  • Gjaldspjald = Greiðslukort
  • Brímavaki = Estrógen
  • Fjaðarglöp = Ritvilla
  • Ritljörvi = Leiserprentari
  • Sætræti = Lakkrís (Hér er komið annað tækifæri fyrir sælgætisframleiðendur)
  • Tröllepli = Melóna
  • Glymspónn = Gítar
  • Randagandur = Tígrisdýr
  • Stundsjá = Úr/klukka
  • Hálúður = Trompet
  • Dreyradraugur = Vampíra
  • Brönugæti = Vanilla (Hér er komið enn eitt tækifærir fyrir sælgætisframleiðendur).
  • Frónnámshöll = Háskóli Íslands
  • Eistabrók = Karlmannsnærbuxur
  • Nautanýár = 1. apríl

Hlustendur sem vilja kynna sér háfrónskan orðaforða nánar geta smellt á tengil undir ítarefni 5. þáttar á vefnum orðabókin.is. Þar geta hlustendur líka sent skilaboð ef þeim liggur eitthvað á hjarta.

Ég minni líka á Fésbókar– og Twitter-síður málfarslögreglunnar, en tenglar á þær eru neðst á síðum orðabókarinnar, ordabokin.is.

Ég minni að lokum á að það er hægt að gerast áskrifandi að hlaðvarpsþáttunum í gegnum iTunes.

Þættinum er þá lokið að þessu sinni. Ég þakka þeim sem hlýddu. Góðar stundir.

Málfarslögreglan – 4. þáttur

Í þetta sinn ætla ég að fjalla aðeins um málsótthreinsun.

Hvað er nú það?

Eins og við vitum öll er málhreinsun það þegar erlendum orðum og tökuorðum er skipt út fyrir íslensk orð. Vel heppnuð orð eru t.d. tölva í staðinn fyrir computer og þyrla í staðinn fyrir helicopter.

Svo eru til misheppnuð orð eins og alnetið, sem var reynt að nota í staðinn fyrir internetið og þúsöld sem þýðir þúsund ár.

En málsótthreinsun gengur lengra. Þeir sem eru fylgjandi henni vilja útrýma öllum erlendum áhrifum úr tilteknu tungumáli, meira að segja orðum af erlendum uppruna sem hafa unnið sér þegnrétt í viðkomandi tungumáli.

Eitt af afsprengjum málsótthreinsunar er tilbúna tungumálið háfrónska. Það er í grunninn íslenska, eða hrein norræn tunga, sem er laus við öll erlend áhrif.

Þetta minnir mig dálítið á öfgakennda þjóðernisstefnu eða nasisma. En höfundar háfrónskunnar sverja samt af sér öll tengsl við tilteknar stjórnmálastefnur, hvað sem þær heita.

Einu sinni var til vefur sem hét háfrónska.org. Hann er því miður ekki til lengur en það er hægt að endurvekja hann með hjálp nútímatækni.

Á forsíðu vefsins birtist stefnuskrá háfrónskunnar og þegar ég les þennan texta núna kemst ég ekki hjá því að lesa hann með áróðursrödd frá fyrri hluta 20. aldar hljómandi í hausnum á mér. Hann mundi þá hljóma einhvern veginn svona:

Þegar fram í sækir getur vel farið svo að fleiri en Íslendingar tali ofuríslensku. Allir geta lært háfrónsku, hvort sem þeir kunna norræn tungumál fyrir eða hafa áhuga á fornri menningu Norðurlanda. Vegna útbreiðslu fjölmiðla nú á tímum eru hindranir vegna fjarlægðar úr sögunni. Tungumálið mun vekja athygli þótt óvíst sé að það nái sömu útbreiðslu og nýnorska.

Ýmsir íslenskir fræðimenn hafa dregið í efa að háfrónska muni ná fótfestu, en óhætt er að fullyrða að lítill hópur manna muni hafa lært tungumálið áður en þessi áratugur rennur sitt skeið. Kunnur forritari hefur sagt að 99 af hundraði allra Íslendinga séu áhugalaus um þetta efni. Þetta er uppörvandi tilhugsun ef orðin eru tekin bókstaflega, því að þá munu um 3.000 Íslendingar vilja leggja það á sig að læra ofuríslensku.

Enn sem komið höfum við aðeins á að skipa nokkrum áhugasömum Íslendingum sem vinna hörðum höndum að smíði þessa nýja tungumáls. Við beinum því til allra sem unna landinu og hafa áhuga að veita okkur lið. Flettið orðabókum og beinið spjótunum að hverju því óíslensku orði sem á vegi ykkar verður. Vonbrigðin geta orðið mikil þegar gott innlent orð finnst ekki. Látið það samt ekki draga úr ykkur kjarkinn. Notið veraldarvefinn til að fræðast um hugtakið sem þarf að þýða. Hér á vefsetrinu er að finna margar áhugaverðar stiklur sem áhugasamir geta notað til að flýta fyrir sér. Hikið ekki við að leita til okkar með nýjar hugmyndir og áhugaverðan fróðleik. Öll nýyrði verða skráð hér ásamt nafni höfundar, ef þess er óskað. Að lokum viljum við þakka öllum þeim sem hafa létt undir með okkur.

Nýyrðaskáldin

Og svo framvegis.

En sagan af því hvernig ég kynntist málsótthreinsun og háfrónsku er skemmtileg – og hér kemur hún.

Ég sá einu sinni um vef Mímis, sem er nemendafélag íslenskunema í Háskóla Íslands. Einu sinni fengu íslenskunemar póst frá belgískum – ég vil segja furðufugli – sem heitir Josef Braekman en kallaði sig Timbur-Helga Hermannsson.

Hann var einn af fylgismönnum málsótthreinsunarstefnu og líka einn af höfundum háfrónskunnar. Hann vildi losa íslensku við öll erlend áhrif en hann skrifaði samt á ensku.

Og ég tók mig til og þýddi þessi skilaboð frá honum lauslega og birti þau á vef Mímis. Svo setti ég líka tengil á síðuna hans, háfrónska.org. En þegar hann sá tengilinn og pistilinn hélt hann að ég væri að gera grín að sér. Hann sendi mér póst oftar en einu sinni og oftar en tvisvar sinnum þar sem hann reifst og skammaðist í mér og skipaði mér að taka tengilinn út.

Meðal þess sem hann skrifaði var: „This is all meant bloody seriously“. En ég man ekki hvernig skilaboðin hljómuðu nákvæmlega, en ef ég mundi lesa þau orðrétt upp væru þau líklega bönnuð innan 18 ára.

Og ég þorði ekki annað en að gera eins og hann sagði mér. En þegar hann sá að ég hafði tekið tengilinn og pistilinn út af vefnum sendi hann mér aftur póst þar sem hann reifst og skammaðist í mér fyrir að hafa tekið tengilinn í burtu.

Hann endaði þessi skilaboð á því að segja að það væru til tvær tegundir af Íslendingum. Annars vegar góðir Íslendingar, sem tala hreina íslensku með engum slettum. Hins vegar vondir Íslendingar, sem nota slettur, fara á rúntinn og drekka landa.

Það þarf varla að taka það fram að hann stimplaði mig sem vondan Íslending.

Þannig voru nú mín fyrstu kynni af málsótthreinsun og háfrónsku. Ég held, svona í sannleika sagt, að ég hafi aldrei áunnið mér jafnmikinn óvin í netheiminum og þennan Timbur-Helga.

Svo nokkrum árum síðar fór hann aftur að herja á íslenska netnotendur. Það var árið 2005, þegar bloggið var vinsælasti tjáningarmátinn, s.s. fyrir daga Facebook og samfélagsmiðla. Þá skrifaði hann óumbeðnar athugasemdir á nokkrar íslenskar bloggsíður. Þær voru í svipuðum dúr og pósturinn sem ég fékk frá honum nokkrum árum fyrr.

Svo birtist stutt umfjöllun um háfrónsku í Fréttablaðinu 28. janúar 2007. En síðan þá hefur lítið spurst til Timbur-Helga.

En háfrónskan lifir, sem betur fer, því netið gleymir engu. Ér er hérna með lista yfir nokkur orð úr háfrónsku. Ég ætla að leyfa hlustendum að giska á hvað þau þýða. Lausnirnar verða svo birtar í næsta þætti. Og orðin eru eftirfarandi:

  • Framhaldsraun
  • Heggfræ
  • Hleifrann
  • Verblaka
  • Mógæti
  • Gjaldspjald
  • Brímavaki
  • Fjaðarglöp
  • Ritljörvi
  • Sætræti
  • Tröllepli
  • Glymspónn
  • Randagandur
  • Stundsjá
  • Hálúður
  • Dreyradraugur
  • Brönugæti
  • Frónnámshöll
  • Eistabrók
  • Nautanýár

Ef þið teljið ykkur vita hvað þessi orð þýða megið þið hafa samband í gegnum Twitter: malfarslogregla, Facebook: Málfarslögreglan eða í gegnum vefinn ordabokin.is.

Það eru því miður engin verðlaun í leiknum nema bara gleðin og ánægjan yfir því að hafa tekið þátt í honum. Og það er að sjálfsögðu stranglega bannað að gúgla.

Og þá er ekki fleira í þættinum í dag.

Veriði sæl.

Málfarslögreglan – 2. þáttur

Persónulegar vangaveltur

Ég ætla að vera á persónulegum nótum í þetta sinn. Ég var nefnilega að hugsa um atviksorðið „persónulega“.

Í blaðagreinum, bloggpistlum og misgáfulegum umræðum virkra í athugasemdum á samfélagsmiðlum og í athugasemdakerfum fréttavefja finnst öðrum hverjum manni eittvað persónulega. Dæmi:

Mér finnst persónulega að Dagur eigi að segja af sér.

Sérstaklega sýnist mér þetta orð vera notað af þeim sem vilja sýnast gáfulegir eða málefnalegir en eru það ekki. En það er nú bara mín persónulega tilfinning og ekki byggð á neinum vísindalegum rannsóknum.

Mér finnst persónulega að orðið „persónulega“ sé ofnotað í íslensku og þá sérstaklega í ritmáli á internetinu.

Það sem mér finnst persónulega er ekkert öðruvísi en það sem mér finnst. Persónuleg reynsla mín er alveg sú sama og reynsla mín og persónulegar skoðanir mínar og persónulegt álit mitt eru alveg þau sömu og skoðanir mínar og álit mitt.

Í staðinn fyrir að segja „mér finnst persónulega“ eða „persónulega finnst mér“ er nóg að segja „mér finnst“.

Því þegar menn segja frá sjálfum sér, hvort sem það eru skoðanir, lífsreynsla eða eitthvað annað, þá felst það í orðunum að þetta eru persónulegar skoðanir, lífsreynsla eða venjur hvers og eins og því er óþarfi að taka það sérstaklega fram.

Þess vegna finnst mér persónulega að þessu orði sé víðast hvar ofaukið. Ég vona persónulega að við getum í sameiningu dregið úr notkun á þessu persónulega orði.

Hlaðvarpið

Fyrsti hlaðvarpsþátturinn er farinn í loftið.

Það eru tilbúnir (eða næstum því tilbúnir) tveir aðrir þættir og stefnan er sú að birta þá næstu tvo mánudaga héðan í frá.

Ég kýs að kalla þættina Málfarslögregluna.

Þegar þeir verða allir orðnir aðgengilegir verður vika í skil á þessu öllu saman.

Hér má hlusta á fyrsta þáttinn.

Málfarslögreglan – 1. þáttur

Verið velkomin í fyrsta þátt Málfarslögreglunnar.

Hér á eftir verður flutt lítil stefnuskrá sem gefur tóninn fyrir það sem fjallað verður um í komandi þáttum.

Málfarslögreglan ætlar að fjalla um málvillur, stafsetningarvillur og klaufalega orðanotkun í íslensku máli. Það er sama hvaðan villurnar koma. Fjölmiðlafólk, bloggarar, virkir í athugasemdum, greinahöfundar, viðmælendur í sjónvarpi og útvarpi – allir sem tjá sig opinberlega í ræðu og riti verða undir sömu smásjánni.

Málfarslögreglan ætlar að gagnrýna allar villur, hversu smávægilegar eða ómerkilegar sem þær kunna að vera.

Málfarslögreglan er sjálf ekki undanþegin gagnrýni. Hlustendur sem verða varir við staðreyndavillur eða ranga málnotkun hjá Málfarslögreglunni eru hvattir til að láta í sér heyra. Best er að nota gamla góða tölvupóstinn til slíkra samskipta, en hægt er að senda póst í gegnum vefinn ordabokin.is.

Málfarslögreglan vill auka veg og vanda íslenskunnar og ætlar því að koma með tillögur til úrbóta hér í þáttunum þegar hún rekst á málvillur, hvers eðlis sem þær eru.

En hér er líka ætlunin að flytja fræðandi pistla um íslenskt mál og málnotkun og segja frá því sem vel er gert.

Málfarslögreglan ætlar að vera fræðandi, en um leið skemmtileg.

Heimili og varnarþing Málfarslögreglunnar verður vefurinn ordabokin.is. Þar má nálgast hlaðvarpsþættina og fleira skemmtilegt og spennandi efni.

Málfarslögreglan vill fá íslenskunörda, málfarsfasista og stafsetningarperverta landsins í lið með sér. Hlustendur sem vilja koma einhverju á framfæri við Málfarslögregluna, s.s. ábendingum um stafsetningarvillur, málvillur eða annað sem tengist íslensku máli mega senda tölvupóst á netfangið malfarslogreglan@ordabokin.is.

Það er líka hægt að hafa samband á Fésbókinni og á Twitter. Tenglar á Fésbókar- og Twittersíður Málfarslögreglunnar eru á vefnum ordabokin.is.

Þá er þessari litlu stefnuskrá lokið. Ég hlakka til samfylgdarinnar í komandi þáttum. Skemmtið ykkur vel þar til í næsta þætti og gerið allt sem ég mundi gera.