Málfarslögreglan – 2. þáttur

Persónulegar vangaveltur

Ég ætla að vera á persónulegum nótum í þetta sinn. Ég var nefnilega að hugsa um atviksorðið „persónulega“.

Í blaðagreinum, bloggpistlum og misgáfulegum umræðum virkra í athugasemdum á samfélagsmiðlum og í athugasemdakerfum fréttavefja finnst öðrum hverjum manni eittvað persónulega. Dæmi:

Mér finnst persónulega að Dagur eigi að segja af sér.

Sérstaklega sýnist mér þetta orð vera notað af þeim sem vilja sýnast gáfulegir eða málefnalegir en eru það ekki. En það er nú bara mín persónulega tilfinning og ekki byggð á neinum vísindalegum rannsóknum.

Mér finnst persónulega að orðið „persónulega“ sé ofnotað í íslensku og þá sérstaklega í ritmáli á internetinu.

Það sem mér finnst persónulega er ekkert öðruvísi en það sem mér finnst. Persónuleg reynsla mín er alveg sú sama og reynsla mín og persónulegar skoðanir mínar og persónulegt álit mitt eru alveg þau sömu og skoðanir mínar og álit mitt.

Í staðinn fyrir að segja „mér finnst persónulega“ eða „persónulega finnst mér“ er nóg að segja „mér finnst“.

Því þegar menn segja frá sjálfum sér, hvort sem það eru skoðanir, lífsreynsla eða eitthvað annað, þá felst það í orðunum að þetta eru persónulegar skoðanir, lífsreynsla eða venjur hvers og eins og því er óþarfi að taka það sérstaklega fram.

Þess vegna finnst mér persónulega að þessu orði sé víðast hvar ofaukið. Ég vona persónulega að við getum í sameiningu dregið úr notkun á þessu persónulega orði.