Málfarslögreglan – 6. þáttur

Heilir og sælir ágætu hlustendur og verið velkomin í sjötta þátt Málfarslögreglunnar.

Þessi þáttur verður á trúarlegum nótum, því að hér koma bæði himnaríki og helvíti við sögu.

Skírn og nafngjafir

Byrjum á stuttri tilvitnun í biblíuna. Ritningarlestur dagsins er úr Matteusarguðspjalli, 28. kafla, versi 18-20.

Jesús sagði:

Allt vald er mér gefið á himni og á jörðu. Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður. Sjá ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.

Þannig hljóðar hið heilaga orð.

Og þarna kemur fyrir sögnin skíra.

Það pirrar mig ekki beinlínis, en ég verð alltaf pínu hugsi þegar fólk segist hafa skírt alla skapaða hluti og fyrirbæri og á þá við að það hafi gefið hinum og þessum hlutum nafn.

Margir hafa líklega heyrt um einhvern sem hefur skírt köttinn sinn eða hundinn sinn einhverju nafni. Og við höfum flest heyrt um Hafnfirðinginn sem skírði sebrahestinn sinn Depil.

Skírn og nafngjöf eru vissulega nátengd fyrirbæri samkvæmt gamalli hefð á Íslandi. Nöfn barna eru yfirleitt opinberuð um leið og þau eru skírð. En þetta er samt ekki það sama. Skírn er ekki það sama og nafngjöf. Og Nafngjöf er ekki það sama og skírn.

Á vef íslensku þjóðkirkjunnar stendur:

Í heilagri skírn er skírnþegi tekinn inn í kirkju Krists. Í hinni evangelisk – lúthersku kirkju, sem Þjóðkirkjan er hluti af, er algengast að barn sé skírt meðan það enn er ómálga. Samkvæmt fyrirmælum Jesú Krists er barn skírt til nafns föður og sonar og heilags anda. Það er helgað Guði með Orði hans og bæn og ausið vatni.

Skírn er með öðrum orðum trúarleg athöfn. Í henni felst ekki að gefa mönnum nafn, heldur eingöngu að taka menn inn í kirkjuna.

En það er ekkert trúarlegt í sjálfu sér við nafnagjafir. Í staðinn fyrir að skíra alla skapaða hluti og fyrirbæri, eins og bíla, hús, flugvélar, skip eða dýr, ættum við frekar að kalla þau eitthvað eða nefna þau. Að minnsta kosti svo lengi sem engin trúarathöfn fer fram með nafnagjöfinni.

Sebrahesturinn var ekki skírður Depill, heldur var hann nefndur Depill. Og verslunarmiðstöðin var ekki skírð Smáralind, heldur var henni gefið nafnið eða nefnd Smáralind.

Við skírnarathafnir hafa prestar tekið upp á því að spyrja „Hvað heitir barnið“ eða „Hvert er nafn barnsins“ í stað þess að spyrja „Hvað á barnið að heita. Þannig er ítrekað að skírnin er ekki nafnagjöf þó að nafnið sé fyrst gert opinbert við skírnarathöfnina.

Það má lesa meira um þessi mál á Vísindavefnum. Það er tengill undir sjötta þætti Málfarslögreglunnar á vefnum orðabókin.is.

Víst eða fyrst?

Þá er komið að ráði til virkra í athugasemdum. Það eru reyndar fleiri sem mega taka þetta til sín núna, því málvillan sem nú verður fjallað um er orðin allt of algeng.

Það er þetta með afleiðingar gjörða okkar:

Ég fór í bæinn að kaupa mat fyrir helgina. Og af því að ég var niðri í bæ, þá kom ég við í ríkinu.

Með öðrum orðum: „Fyrst ég var í bænum kom ég við í ríkinu.“

Það eru allt of margir sem segja víst en ekki fyrst í svona setningum. Setningin hljómar þá svona: „Víst ég var í bænum kom ég við í ríkinu“.

Þetta er kolröng notkun og hún fer alveg óstjórnlega í taugarnar á mér. Mig langar til að öskra í hvert sinn sem ég heyri þetta.

Viljiði vinsamlega gera það fyrir mig að nota fyrst en ekki víst í þessu samhengi.

Helvítis fokking fokk!

Fyrst ég er nú búinn að vitna í biblíuna og þjóðkirkjuna og presta á ég það inni að tala um hina hliðina á trúarbrögðunum, s.s. sjálfan djöfulinn.

Íslensk blótsyrði og saga þeirra hafa lítið verið rannsökuð, mér vitanlega. Helsta ástæðan er líklega sú að blótsyrði hafa sjaldan komist á prent og því þyrfti að fara út í rannsóknir á talmáli.

Ég veit þó um eina BA-ritgerð sem var skrifuð um íslensk blótsyrði og aðra sem var skrifuð um orðið Fokk.

Í fræðigreinum sem eru til um íslensk blótsyrði kemur fram að Íslendingar blóti meira en aðrar þjóðir. Þar er líka talað um að blótsyrði séu eitt af því fyrsta sem útlendingar læra í íslensku. Ég veit ekki hvort þetta hefur verið staðfest með rannsóknum eða hvort þetta eru bara tilfinningar þeirra sem skrifuðu greinarnar.

Núna þegar blótsyrðin sjitt og fokk tröllríða orðaforðanum er ekki úr vegi að minnast á öll íslensku blótsyrðin sem við eigum.

Hvers vegna nota menn eiginlega sjitt og fokk? Ég veit ekki almennilega hvernig það er með sjitt, en orðið fokk mun hafa verið komið í íslenskuna sem blótsyrði í upphafi níunda áratugar síðustu aldar. Líklega vegna breyttrar menningar og aukinna áhrifa frá amerísku afþreyingarefni, þar sem þessi orð koma ósjaldan fyrir.

Kannski finnst mönnum gömlu góðu íslensku blótsyrðin vera orðin merkingarlaus. Íslendingar eru ekkert trúaðir, svona upp til hópa, og myrkrahöfðingin hefur ekki lengur sama mátt í huga manna og hann gerði fyrr á öldum. Kannski finnst mönnum sjitt og fokk vera sterkari og fá meiri útrás fyrir reiðina heldur en við að taka sér gömlu góðu íslensku blótsyrðin sér í munn.

Í gömlu áramótaskaupi var til dæmis stungið upp á því að þýða orðið sjitt og nota hægðir í staðinn. Þessi tillaga hefur ekki ennþá náð fótfestu. En þeir sem vilja blóta á íslensku hafa úr mörgu að velja þó að við sleppum því að beinþýða erlend skammaryrði.

Góð og gild íslensk blótsyrði (ef það er þá hægt að tala um góð blótsyrði), sem hafa lifað hvað lengst með þjóðinni eru orðin andskoti, fjandinn, djöfullinn og ýmsar afbakanir og samsuður af þessum orðum. Og svo bústaður þess gamla, þ.e. helvíti.

Andskoti merkir andskjótanda, þ.e. einhvern sem skýtur á móti manni.

Djöfull er komið af gríska orðinu diabolos og merkir rógbera.

Fjandi merkir óvinur. Það er komið úr sögninni fjá, sem þýðir að hata. Merking fjandans er s.s. einhver sem hatar mann.

Helvíti er samsett úr orðunum Hel, sem er dvalarstaður ásatrúarmanna eftir dauðann og víti, sem merkir refsing.

Helstu blótsyrði í íslensku koma sem sagt öll úr kristinni trú og eru meira og minna vísun í biblíuna og djöfulinn sem kemur þar við sögu.

Til að milda þessi aðalblótsyrði hafa menn fundið upp ýmsar afbakanir og samsuður af þessum orðum. Þar eru til dæmis orðin ansvíti, assgoti hevvíti, déskoti, fjárinn, ansans, bévaður, bévítans. Og svo ýmiskonar skrautorð yfir myrkrahöfðingjann, t.d. paurinn, árinn, fjárinn, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Helvíti, dvalarstaður Satans hefur stundum verið kallað Niðurkot og hann kallaður Gamli í Niðurkoti. Stundum hefur það líka verið kallað Hólakot. En hvorugt þessara orða hefur þó verið notað sem blótsyrði.

Þessi skrautorð eru komin til vegna gamallar trúar á mátt nafnsins. Menn trúðu því sem sagt að eins og dýr (og reyndar líka menn) koma þegar nafnið þeirra er kallað, þá kæmi djöfullinn ef hans rétta nafn væri nefnt berum orðum.

Meira að segja sögnin að blóta er komin úr trúarbrögðum. Ásatrúarmenn notuðu hana um að tigna goðin sín. En þegar kristnin kom til Íslands urðu heiðnir guðir tákn um hið illa og orðið blóta fékk smám saman á sig verri merkingu, það er að bölva eða formæla einhverjum. Goðin voru líka kölluð rögn og af því er dregin sögnin að ragna. Allt sem var úr öðrum trúarbrögðum en kristni varð sem sagt að samnefnara fyrir djöfulinn.

Þessi hefð mun líka vera til á norðurlöndum og helstu blótsyrðin þar munu líka vera komin úr kristinni trú. En þegar sunnar dregur í Evrópu munu blótsyrði líka vera tengd kynlífi og ýmsum saurlifnaði. Þannig er þetta líka í ensku, sbr. orðin sjitt og fokk.

Við Íslendingar eigum eiginlega engin svoleiðist blótsyrði, þ.e. einhver sem geta staðið ein og sér, sem upphrópanir til að veita útrás fyrir reiði.

En nú eru Íslendingar ekkert trúaðir, svona upp til hópa. Hvaða blótsyrði getum við þá notað ef við viljum sleppa því að vísa í kristnina? Það hefur verið stungið upp á orðinu horngrýtis. Það er vissulega vannýtt auðlind sem mætti nýta betur. Merking þess er dálítið á huldu en ein skýring á því er eggjagrjót. Bölbænin er þá sú að viðkomandi lendi í ófærum eða verði urðaður utangarðs.

Það má líka nota orðið rækallinn. Það er komið af orðinu rægikarl, sem þýðir rógberi.

Svo er það skrambans, sem í norðurlandamálum þýðir magur maður eða hestur.

Og svo orðin óhræsis, ólukkans og ótætis.

Og svo má taka Kolbein kaftein úr Tinnabókunum sér til fyrirmyndar. Frá honum koma fjölmörg skemmtileg blótsyrði. Þau tengjast öll sjómennsku og geta þannig verið vísun í einn helsta atvinnuveg Íslendinga. Nokkur dæmi um blótsyrði frá Kolbeini kafteini eru:

  • Hundrað milljón hreinlífar hámerar frá Hvammstanga
  • Holdvotar hámerar
  • Fimm milljón fúlar flyðrur
  • Tuttugu trilljónir af tútnum túnfiskum
  • Níu milljón nautheimsk náhveli

Í grein frá 1927 stingur Ólafur Lárusson svo upp á því að menn telji upp að tuttugu á meðan þeim rennur reiðin og þörfin til að blóta líður hjá. Hann segir:

Talnaröðin er óendanleg. Hve reiður sem maður er, þá brestur hann aldrei nýtt og nýtt orð, þó að hann héldi áfram að telja meðan hann gæti dregið andann. Þeir, sem helzt svala sér á blótsyrðum, eru oft menn, sem lítið eru upp á bókarament, og þessi andlega áreynsla að telja einn, tveir, þrír, fjórir, fimm . . . . . mundi því brátt dasa þá og þeim renna reiðin. Þá verður ekki heldur sagt, að neitt ljótt sé í tölunum, engin þeirra hefir vonda merkingu, nema þá ef vera skyldi 13, og engin þeirra er lengur svo heilög, að það sé nein goðgá að nefna hana. Eg held því, að þetta ráð væri tilvalið.

Þar með lýkur þessari stuttu umfjöllun um íslensk blótsyrði. Það væri hægt að fjalla miklu nánar um þau og rannsaka þau miklu betur, jafnvel skrifa doktorsritgerð um þau. Ég vona svo sannarlega að einhver taki sig til og vindi sér í verkið.

Hlustendur sem vilja fræðast meira um blótsyrði geta smellt á tengla sem fylgja sjötta þætti af málfarslögreglunni á vefnum orðabókin.is.

Þar geta hlustendur líka haft samband ef þeir vilja bæta einhverju við um blótsyrði eða trúarathafnir. Og ég minni líka á málfarslögregluna á Facebook og Twitter.

En þættinum er lokið að þessu sinni.

Í guðs friði.

Tenglar og ítarefni

Skírnir og nafngjafir:

Blótsyrði: