Málfarslögreglan – 2. þáttur

Persónulegar vangaveltur

Ég ætla að vera á persónulegum nótum í þetta sinn. Ég var nefnilega að hugsa um atviksorðið „persónulega“.

Í blaðagreinum, bloggpistlum og misgáfulegum umræðum virkra í athugasemdum á samfélagsmiðlum og í athugasemdakerfum fréttavefja finnst öðrum hverjum manni eittvað persónulega. Dæmi:

Mér finnst persónulega að Dagur eigi að segja af sér.

Sérstaklega sýnist mér þetta orð vera notað af þeim sem vilja sýnast gáfulegir eða málefnalegir en eru það ekki. En það er nú bara mín persónulega tilfinning og ekki byggð á neinum vísindalegum rannsóknum.

Mér finnst persónulega að orðið „persónulega“ sé ofnotað í íslensku og þá sérstaklega í ritmáli á internetinu.

Það sem mér finnst persónulega er ekkert öðruvísi en það sem mér finnst. Persónuleg reynsla mín er alveg sú sama og reynsla mín og persónulegar skoðanir mínar og persónulegt álit mitt eru alveg þau sömu og skoðanir mínar og álit mitt.

Í staðinn fyrir að segja „mér finnst persónulega“ eða „persónulega finnst mér“ er nóg að segja „mér finnst“.

Því þegar menn segja frá sjálfum sér, hvort sem það eru skoðanir, lífsreynsla eða eitthvað annað, þá felst það í orðunum að þetta eru persónulegar skoðanir, lífsreynsla eða venjur hvers og eins og því er óþarfi að taka það sérstaklega fram.

Þess vegna finnst mér persónulega að þessu orði sé víðast hvar ofaukið. Ég vona persónulega að við getum í sameiningu dregið úr notkun á þessu persónulega orði.

Hlaðvarpið

Fyrsti hlaðvarpsþátturinn er farinn í loftið.

Það eru tilbúnir (eða næstum því tilbúnir) tveir aðrir þættir og stefnan er sú að birta þá næstu tvo mánudaga héðan í frá.

Ég kýs að kalla þættina Málfarslögregluna.

Þegar þeir verða allir orðnir aðgengilegir verður vika í skil á þessu öllu saman.

Hér má hlusta á fyrsta þáttinn.

Málfarslögreglan – 1. þáttur

Verið velkomin í fyrsta þátt Málfarslögreglunnar.

Hér á eftir verður flutt lítil stefnuskrá sem gefur tóninn fyrir það sem fjallað verður um í komandi þáttum.

Málfarslögreglan ætlar að fjalla um málvillur, stafsetningarvillur og klaufalega orðanotkun í íslensku máli. Það er sama hvaðan villurnar koma. Fjölmiðlafólk, bloggarar, virkir í athugasemdum, greinahöfundar, viðmælendur í sjónvarpi og útvarpi – allir sem tjá sig opinberlega í ræðu og riti verða undir sömu smásjánni.

Málfarslögreglan ætlar að gagnrýna allar villur, hversu smávægilegar eða ómerkilegar sem þær kunna að vera.

Málfarslögreglan er sjálf ekki undanþegin gagnrýni. Hlustendur sem verða varir við staðreyndavillur eða ranga málnotkun hjá Málfarslögreglunni eru hvattir til að láta í sér heyra. Best er að nota gamla góða tölvupóstinn til slíkra samskipta, en hægt er að senda póst í gegnum vefinn ordabokin.is.

Málfarslögreglan vill auka veg og vanda íslenskunnar og ætlar því að koma með tillögur til úrbóta hér í þáttunum þegar hún rekst á málvillur, hvers eðlis sem þær eru.

En hér er líka ætlunin að flytja fræðandi pistla um íslenskt mál og málnotkun og segja frá því sem vel er gert.

Málfarslögreglan ætlar að vera fræðandi, en um leið skemmtileg.

Heimili og varnarþing Málfarslögreglunnar verður vefurinn ordabokin.is. Þar má nálgast hlaðvarpsþættina og fleira skemmtilegt og spennandi efni.

Málfarslögreglan vill fá íslenskunörda, málfarsfasista og stafsetningarperverta landsins í lið með sér. Hlustendur sem vilja koma einhverju á framfæri við Málfarslögregluna, s.s. ábendingum um stafsetningarvillur, málvillur eða annað sem tengist íslensku máli mega senda tölvupóst á netfangið malfarslogreglan@ordabokin.is.

Það er líka hægt að hafa samband á Fésbókinni og á Twitter. Tenglar á Fésbókar- og Twittersíður Málfarslögreglunnar eru á vefnum ordabokin.is.

Þá er þessari litlu stefnuskrá lokið. Ég hlakka til samfylgdarinnar í komandi þáttum. Skemmtið ykkur vel þar til í næsta þætti og gerið allt sem ég mundi gera.

Tuttugu orða múrinn rofinn

Tuttugu orð komin í orðabókina!

Þeim á enn eftir að fjölga jafnt og þétt næstu daga. Stefnan er að bæta við tveimur til þremur orðum á dag uns yfir lýkur, þ.e. fram til 16. janúar.

En fyrst koma jólin.

Níu nóttum fyrir jól

Þetta mjakast.

Ég er ekki að hugsa um að það séu níu dagar til jóla, heldur að það sé rétt rúmur mánuður í skil á þessu öllu saman.

Á fjórum dögum tókst mér að bæta 12 blaðsíðum við greinargerðina. Það vantar samt ýmislegt í hana ennþá.

Uppkast af henni er a.m.k. komið út í kosmosið og til yfirlestrar hjá leiðbeinanda!

Næst á dagskrá er að setja inn eitthvað efni á vefinn og fínstilla hann.

Sem betur fer lenda jólin á helgi þetta árið!

Jólafrí

Ég er þá kominn í eins mikið jóla„frí“ og hægt er úr þessu.

Það eru komin tvö almennileg orð í orðabókina. Þeim á eftir að fjölga jafnt og þétt á næstu dögum.

Það er að koma einhver mynd á greinargerðina. Hún er orðin 33 blaðsíður að lengd, en er samt langt frá því að vera tilbúin.

Búinn að taka upp þrjá stutta hlaðvarpsþætti sem verður skilað með vefnum. Á eftir að klippa þá saman.

Fínstillingar á vefnum halda áfram.

Næsti mánuðurinn (og rúmlega það) fer í loka- lokafrágang á þessu öllu saman.

Minntist einhver á jólafrí?

Fokheldur

Skjáskot af ordabokin.is
Skjáskot af vefnum ordabokin.is tekið 25. nóvember 2016
Í tvær og hálfa viku er ég búinn að fikta í uppsetningu á vefnum. Ég keypti þemað Flatbase til að laga útlit vefsins að skissum sem ég teiknaði.

Nú er tilbúin frumútgáfa af aðalvefnum sem virkar nokkurn veginn eins og ég vil hafa hana. Það vantar enn allt innihaldið. Ýmsar fínstillingar og breytingar á smáatriðum eru eftir. Einnig er ekki víst að núverandi litir fái að halda sér. Ef vefurinn væri hús væri hann núna orðinn fokheldur.

Næstu daga ætla ég að gera nokkrar notendaprófanir. Því allir sem eitthvað hafa fjallað um miðlun efnis á vefnum og undirbúning vefverkefna eru sammála um gagnsemi notendaprófana.

Notendaprófun snýst um að fylgjast með einum notanda í einu nota vefinn. Þannig má komast að því hvernig notendur hegða sér á vefnum og mögulega finna villur, sjá hvað má bæta og hverju er ofaukið. Mælt er með því að prófa lítið í einu en oft, ekki þarf að fá marga notendur í hvert skipti og ekki þarf að hafa áhyggjur af því hverjir eru prófaðir.

Nú þegar er ein prófun búin. Ég á eftir að fá tvo til þrjá notendur í viðbót.

Á degi íslenskrar tungu

Dagur íslenskrar tungu er í dag.

Í dag eru líka tveir mánuðir þangað til allt þarf að vera tilbúið, samkvæmt kennslualmanaki hugvísindasviðs.

Það hefði verið snilld að geta opnað orðabókarvefinn í dag, jafnvel við hátíðlega athöfn. En því miður er hann of stutt á veg kominn til að það sé hægt.

Held bara opnunarpartý að ári liðnu.

Í dag verður þessi mynd af Holu íslenskra fræða að duga:

Hola íslenskra fræða. Hótel saga í bakgrunni
Hola íslenskra fræða 16. nóvember 2016.

Kynning

Ég hélt stutta kynningu á stöðu verkefnisins í morgun fyrir samnemendum í hagnýtri menningarmiðlun sem eru í sömu stöðu og ég, þ.e. að vinna að lokaverkefni eða undirbúa það.

Fékk líka margar góðar hugmyndir á meðan sem ef til vill verða að veruleika síðar.

Sé smellt á myndina hér fyrir neðan má sækja glærupakka á pdf-formi sem ég notaði við kynninguna.

Glæar númer 1 í glærukynningu