Málfarslögreglan – 5. þáttur

Heilir og sælir ágætu hlustendur og verið velkomin í fimmta þátt Málfarslögreglunnar.

Nei. Byrjum aftur.

Hello, ladies and gentlemen and welcome to the fifth episode of the Icelandic grammar police.

Hvað hefur nú gerst síðan síðasti þáttur var tilbúinn?

Nú, til dæmis að íslenskt flugfélag vill ekki heita íslensku nafni af því að það þykir ekki nógu markaðsvænt. Tvöþúsundogsjö-ástandið er víst að byrja aftur.

Nýtt og markaðsvænna nafn

Og nú ætlar Málfarslögreglan að taka þátt í partýinu. Hún ætlar að feta í fótspor fyrirtækisins sem hét einu sinni Flugfélag Íslands en heitir nú Air Iceland connect, og ætlar að breyta nafninu í eitthvað markaðsvænna. Því það vita jú allir að þetta íslenska virkar ekki í alþjóðlegu samhengi.

Opinbert heiti Málfarslögreglunnar héðan í frá verður því The amazing Icelandic grammar police connect. En það er mun markaðsvænna nafn, eins og allir hljóta að sjá.

Það hamlar samt dálítið að þættirnir skuli vera talaðir á íslensku, en fljótlega verður auglýst eftir einhverjum sem getur talsett þá á ensku svo vel sé.

Vissulega gætu einhverjir orðið óánægðir með nafnabreytinguna. Ég skil það mjög vel og þykir að mörgu leyti vænt um slík viðbrögð. Því Málfarslögreglan er miðill sem skiptir máli og fólki finnst skipta máli það sem hún er að gera.

En Málfarslögreglan heldur áfram að halda þjóðerni sínu á lofti og aðsetur hennar verður áfram á Íslandi. Það er svo sem ekkert nýtt að fyrirtæki séu með erlend heiti hér á landi. Málfarslögreglan heldur áfram sínu íslenska heiti í þjóðskrá og í fyrirtækjaskrá. Og þessi nafnabreyting hjálpar til við markaðssetningu, því það er einfaldara að koma fram undir einu nafni.

Annars staðar kom svo fram að íslenskir afgreiðslumenn í íslenskum verslunum vilja ekki tala íslensku við íslenska viðskiptavini, að því er virðist – af því bara.

Eigðu góðan dag

En fyrst ég var nú að minnast á afgreiðslumenn:

Stundum þegar ég er að versla úti í búð og stend við kassann og er að setja dótið mitt í poka segir afgreiðslufólkið við mig „eigðu góðan dag“ „eigðu gott kvöld“ og stundum jafnvel „eigðu gott kvöld og góða helgi“ allt eftir því hvaða dagur og hvaða tími dagsins er hverju sinni.

Ég svara yfirleitt í hugsunarleysi „sömuleiðis“. En það sem mig langar að segja er:

EIGÐU GÓÐAN DAG!

Þessi kveðja sem er svo amerísk eitthvað. Þýdd beint upp úr have a nice day.

Ég játa að mér finnst þetta vinaleg kveðja og allt svoleiðis. Og ég efast ekki um að tilgangurinn með henni sé góður. En það er líklega ekki við starfsfólkið að sakast þó hún sé notuð. Hún er hluti af fyrirfram skrifuðu handriti eða starfsreglum.

Þessi kveðja, Eigðu góðan dag, er svo mikið búin til af þjónustustjórum, eða einhverjum sem vinna við að bæta upplifun viðskiptavinarins.

(Og upplifun er eitt orð sem ég verð að taka fyrir seinna).

Þessi kveðja er búin til af stjórnendum fyrirtækja sem hafa verið að lesa fræðirit á ensku um verslun, verslunarupplifun, þjónustu og viðskipti. Ég sé þessa stjórnendur svo mikið fyrir mér halda fyrirlestur með glærusýningu fyrir framan starfsfólkið sitt á starfsmannafundi.

Og í glærusýningunni kemur fram að:

  • Við kveðjum viðskiptavininn með orðunum eigðu góðan dag.
  • Það bætir upplifun viðskiptavinarins.
  • Hann gengur út glaður í bragði.

Og svo er jafnvel vísað í útlenskar þjónustukannanir þar sem kemur fram að ákveðið hlutfall viðskiptavina kemur aftur, gefur búðinni hærri einkunn í þjónustukönnunum og svo framvegis, þegar þeir heyra þessa kveðju.

Þó að mér finnist þessi kveðja vinaleg og falleg, þá þoli ég hana samt ekki. Ég dey alltaf pínulítið innra með mér þegar ég heyri hana. Mér líður alltaf jafn illa þegar ég er búinn að segja „sömuleiðiðis“ við starfsfólkið eftir að það hefur sagt mér að eiga góðan dag.

Af hverju ekki frekar að segja bara: „Njóttu dagsins“, „Njóttu kvöldsins“ eða bara „takk fyrir viðskiptin og velkominn aftur“?

Við verslunarstjórnendur vil ég segja: Þið getið tekið þennan góða dag ykkar, átt hann sjálf og troðið honum í…

Eitthvað og einhver

Þá er komið að nýjum dagskrárlið hér í Málfarslögreglunni, sem ég kýs að kalla Ókeypis ráðlegging til virkra í athugasemdum.

Ég ætla ekki einu sinni að byrja að tala um vitleysuna og þvæluna og sorann sem vellur upp úr virkum í athugasemdum. En stafsetningar- og málfarskunnátta þjóðfélagshópsins er annað.

Ég hef til dæmis tekið eftir því að margir af virkum í athugasemdum segjast hafa gengið í skóla lífsins. En í honum virðist ekki hafa verið lögð mikil áhersla á íslensku- eða stafsetningarkennslu. Þessum nýja dagskrárlið er meðal annars ætlað að bæta úr því.

Að þessu sinni verður fjallað um orðin einhver og eitthvað.

Í fyrsta lagi er ekkert til sem heitir einhvað eða eitthver. Rétt er að skrifa eitthvað og einhver.

Svo er það skammstöfunin á þessum orðum. Það á ekki að skrifa eh. og þaðan af síður e-h.

Rétt skammstöfun er e – (bandstrik) og stafurinn sem orðið endar á:

  • e-ð = eitthvað
  • e-r = einhver
  • e-i = einhverri
  • e-m = einhverjum

Og svo framvegis

Háfrónskt orðaval

Í síðasta þætti voru lesin upp nokkur orð úr háfrónsku og fengu hlustendur tækifæri til að giska á merkingu þeirra.

Hér koma lausnirnar í þessari litlu getraun.

  • Framhaldsraun = stúdentspróf
  • Heggfræ = mandla
  • Hleifrann = bakarí
  • Verblaka = Leðurblökumaðurinn (Batman)
  • Mógæti = Súkkulaði (Hér er komið tækifæri fyrir sælgætisframleiðendur til að markaðssetja súkkulaði undir nafninu Mógæti. Ég mundi a.m.k. kaupa það).
  • Gjaldspjald = Greiðslukort
  • Brímavaki = Estrógen
  • Fjaðarglöp = Ritvilla
  • Ritljörvi = Leiserprentari
  • Sætræti = Lakkrís (Hér er komið annað tækifæri fyrir sælgætisframleiðendur)
  • Tröllepli = Melóna
  • Glymspónn = Gítar
  • Randagandur = Tígrisdýr
  • Stundsjá = Úr/klukka
  • Hálúður = Trompet
  • Dreyradraugur = Vampíra
  • Brönugæti = Vanilla (Hér er komið enn eitt tækifærir fyrir sælgætisframleiðendur).
  • Frónnámshöll = Háskóli Íslands
  • Eistabrók = Karlmannsnærbuxur
  • Nautanýár = 1. apríl

Hlustendur sem vilja kynna sér háfrónskan orðaforða nánar geta smellt á tengil undir ítarefni 5. þáttar á vefnum orðabókin.is. Þar geta hlustendur líka sent skilaboð ef þeim liggur eitthvað á hjarta.

Ég minni líka á Fésbókar– og Twitter-síður málfarslögreglunnar, en tenglar á þær eru neðst á síðum orðabókarinnar, ordabokin.is.

Ég minni að lokum á að það er hægt að gerast áskrifandi að hlaðvarpsþáttunum í gegnum iTunes.

Þættinum er þá lokið að þessu sinni. Ég þakka þeim sem hlýddu. Góðar stundir.

Málfarslögreglan – 4. þáttur

Í þetta sinn ætla ég að fjalla aðeins um málsótthreinsun.

Hvað er nú það?

Eins og við vitum öll er málhreinsun það þegar erlendum orðum og tökuorðum er skipt út fyrir íslensk orð. Vel heppnuð orð eru t.d. tölva í staðinn fyrir computer og þyrla í staðinn fyrir helicopter.

Svo eru til misheppnuð orð eins og alnetið, sem var reynt að nota í staðinn fyrir internetið og þúsöld sem þýðir þúsund ár.

En málsótthreinsun gengur lengra. Þeir sem eru fylgjandi henni vilja útrýma öllum erlendum áhrifum úr tilteknu tungumáli, meira að segja orðum af erlendum uppruna sem hafa unnið sér þegnrétt í viðkomandi tungumáli.

Eitt af afsprengjum málsótthreinsunar er tilbúna tungumálið háfrónska. Það er í grunninn íslenska, eða hrein norræn tunga, sem er laus við öll erlend áhrif.

Þetta minnir mig dálítið á öfgakennda þjóðernisstefnu eða nasisma. En höfundar háfrónskunnar sverja samt af sér öll tengsl við tilteknar stjórnmálastefnur, hvað sem þær heita.

Einu sinni var til vefur sem hét háfrónska.org. Hann er því miður ekki til lengur en það er hægt að endurvekja hann með hjálp nútímatækni.

Á forsíðu vefsins birtist stefnuskrá háfrónskunnar og þegar ég les þennan texta núna kemst ég ekki hjá því að lesa hann með áróðursrödd frá fyrri hluta 20. aldar hljómandi í hausnum á mér. Hann mundi þá hljóma einhvern veginn svona:

Þegar fram í sækir getur vel farið svo að fleiri en Íslendingar tali ofuríslensku. Allir geta lært háfrónsku, hvort sem þeir kunna norræn tungumál fyrir eða hafa áhuga á fornri menningu Norðurlanda. Vegna útbreiðslu fjölmiðla nú á tímum eru hindranir vegna fjarlægðar úr sögunni. Tungumálið mun vekja athygli þótt óvíst sé að það nái sömu útbreiðslu og nýnorska.

Ýmsir íslenskir fræðimenn hafa dregið í efa að háfrónska muni ná fótfestu, en óhætt er að fullyrða að lítill hópur manna muni hafa lært tungumálið áður en þessi áratugur rennur sitt skeið. Kunnur forritari hefur sagt að 99 af hundraði allra Íslendinga séu áhugalaus um þetta efni. Þetta er uppörvandi tilhugsun ef orðin eru tekin bókstaflega, því að þá munu um 3.000 Íslendingar vilja leggja það á sig að læra ofuríslensku.

Enn sem komið höfum við aðeins á að skipa nokkrum áhugasömum Íslendingum sem vinna hörðum höndum að smíði þessa nýja tungumáls. Við beinum því til allra sem unna landinu og hafa áhuga að veita okkur lið. Flettið orðabókum og beinið spjótunum að hverju því óíslensku orði sem á vegi ykkar verður. Vonbrigðin geta orðið mikil þegar gott innlent orð finnst ekki. Látið það samt ekki draga úr ykkur kjarkinn. Notið veraldarvefinn til að fræðast um hugtakið sem þarf að þýða. Hér á vefsetrinu er að finna margar áhugaverðar stiklur sem áhugasamir geta notað til að flýta fyrir sér. Hikið ekki við að leita til okkar með nýjar hugmyndir og áhugaverðan fróðleik. Öll nýyrði verða skráð hér ásamt nafni höfundar, ef þess er óskað. Að lokum viljum við þakka öllum þeim sem hafa létt undir með okkur.

Nýyrðaskáldin

Og svo framvegis.

En sagan af því hvernig ég kynntist málsótthreinsun og háfrónsku er skemmtileg – og hér kemur hún.

Ég sá einu sinni um vef Mímis, sem er nemendafélag íslenskunema í Háskóla Íslands. Einu sinni fengu íslenskunemar póst frá belgískum – ég vil segja furðufugli – sem heitir Josef Braekman en kallaði sig Timbur-Helga Hermannsson.

Hann var einn af fylgismönnum málsótthreinsunarstefnu og líka einn af höfundum háfrónskunnar. Hann vildi losa íslensku við öll erlend áhrif en hann skrifaði samt á ensku.

Og ég tók mig til og þýddi þessi skilaboð frá honum lauslega og birti þau á vef Mímis. Svo setti ég líka tengil á síðuna hans, háfrónska.org. En þegar hann sá tengilinn og pistilinn hélt hann að ég væri að gera grín að sér. Hann sendi mér póst oftar en einu sinni og oftar en tvisvar sinnum þar sem hann reifst og skammaðist í mér og skipaði mér að taka tengilinn út.

Meðal þess sem hann skrifaði var: „This is all meant bloody seriously“. En ég man ekki hvernig skilaboðin hljómuðu nákvæmlega, en ef ég mundi lesa þau orðrétt upp væru þau líklega bönnuð innan 18 ára.

Og ég þorði ekki annað en að gera eins og hann sagði mér. En þegar hann sá að ég hafði tekið tengilinn og pistilinn út af vefnum sendi hann mér aftur póst þar sem hann reifst og skammaðist í mér fyrir að hafa tekið tengilinn í burtu.

Hann endaði þessi skilaboð á því að segja að það væru til tvær tegundir af Íslendingum. Annars vegar góðir Íslendingar, sem tala hreina íslensku með engum slettum. Hins vegar vondir Íslendingar, sem nota slettur, fara á rúntinn og drekka landa.

Það þarf varla að taka það fram að hann stimplaði mig sem vondan Íslending.

Þannig voru nú mín fyrstu kynni af málsótthreinsun og háfrónsku. Ég held, svona í sannleika sagt, að ég hafi aldrei áunnið mér jafnmikinn óvin í netheiminum og þennan Timbur-Helga.

Svo nokkrum árum síðar fór hann aftur að herja á íslenska netnotendur. Það var árið 2005, þegar bloggið var vinsælasti tjáningarmátinn, s.s. fyrir daga Facebook og samfélagsmiðla. Þá skrifaði hann óumbeðnar athugasemdir á nokkrar íslenskar bloggsíður. Þær voru í svipuðum dúr og pósturinn sem ég fékk frá honum nokkrum árum fyrr.

Svo birtist stutt umfjöllun um háfrónsku í Fréttablaðinu 28. janúar 2007. En síðan þá hefur lítið spurst til Timbur-Helga.

En háfrónskan lifir, sem betur fer, því netið gleymir engu. Ér er hérna með lista yfir nokkur orð úr háfrónsku. Ég ætla að leyfa hlustendum að giska á hvað þau þýða. Lausnirnar verða svo birtar í næsta þætti. Og orðin eru eftirfarandi:

  • Framhaldsraun
  • Heggfræ
  • Hleifrann
  • Verblaka
  • Mógæti
  • Gjaldspjald
  • Brímavaki
  • Fjaðarglöp
  • Ritljörvi
  • Sætræti
  • Tröllepli
  • Glymspónn
  • Randagandur
  • Stundsjá
  • Hálúður
  • Dreyradraugur
  • Brönugæti
  • Frónnámshöll
  • Eistabrók
  • Nautanýár

Ef þið teljið ykkur vita hvað þessi orð þýða megið þið hafa samband í gegnum Twitter: malfarslogregla, Facebook: Málfarslögreglan eða í gegnum vefinn ordabokin.is.

Það eru því miður engin verðlaun í leiknum nema bara gleðin og ánægjan yfir því að hafa tekið þátt í honum. Og það er að sjálfsögðu stranglega bannað að gúgla.

Og þá er ekki fleira í þættinum í dag.

Veriði sæl.

Þegar öllu þessu er lokið

Þá er þessu öllu lokið og útskrift afstaðin.

Orðabókin öðlast framhaldslíf þó að verkefninu sé lokið – til þess var það ætlað í upphafi.

Á þessum vef verður áfram hægt að fá fréttir af orðabókinni eftir því sem verkefninu vindur fram.

Einnig má fylgjast með á Facebook-síðu undir heitinu Málfarslögreglan.
Og á Twitter undir heitinu malfarslogregla.

Þetta er bara rétt að byrja!

Útskriftarskírteini
Útskriftarskírteinin

Orðin skipta máli

Orðabókin.is verður til.

Forsíða greinargerðar
Greinargerðin brakandi fersk úr prentvélunum.

Greinargerð þessi er fyrri hluti lokaverkefnis í hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands. Seinni hluti verkefnisins er vefurinn ordabokin.is, auk þriggja stuttra hlaðvarpsþátta sem aðgengilegir eru á sama vef.

Hér verður sagt frá tilurð vefsins og fjallað um miðlunarleiðirnar sem notaðar eru, þ.e. vefinn og hlaðvarpið. Gefin verður innsýn í orðabókafræði og viðfangsefni hennar. Leitað verður svara við því hvernig hægt er að miðla orðabókum á vefnum og hvaða miðlunarleiðir henta til að koma efni þeirra á framfæri. Nokkrar íslenskar veforðabækur verða skoðaðar; athugað verður hvað vel er gert í þeim og hvað mætti betur fara. Þá verður sagt frá undirbúningi verkefnisins og framkvæmd þess. Að lokum birtast hugleiðingar um framtíð vefsins.

Markmiðið með vefnum er að gera tungumálið aðgengilegt og sýna fram á að það er lifandi og í stöðugri þróun. Hver sem er getur tekið þátt í að skapa tungumálið; það er ekki bara búið til og skilgreint af sérfræðingum á skrifstofum. Á vefnum verður mest áhersla lögð á slangurorð, nýyrði og gömul orð sem hafa fengið nýja merkingu á undanförnum árum.

Þótt þessu verkefni sé nú formlega lokið verður vefurinn Orðabókin.is áfram virkur og lifandi. Líf hans er bara rétt að byrja og mun hann vaxa og dafna í framtíðinni með aðstoð notenda. Þessi bloggvefur fær einnig að lifa áfram. Hér verða sagðar fréttir af starfsemi og gangi orðabókarinnar.

Lokametrarnir

Í dag er vika í stóra skiladaginn.

Það er komin mynd á vefinn og greinargerðina. Enn vantar einhver almennileg og ekki allt of klisjukennd lokaorð í hana.

Það eru komin fjörutíuogtvö orð í safnið.

Tveir af þremur hlaðvarpsþáttum eru orðnir opinberir. Sá þriðji verður gerður aðgengilegur í dag eða á morgun. Þá má nálgast á Orðabókarvefnum og í gegnum iTunes.

Stofnaður hefur verið Twitter-aðgangur undir nafninu Málfarslögreglan.

Síða undir sama nafni er aðgengileg á Facebook.

Þetta er allt að smella saman!

Málfarslögreglan – 3. þáttur

Ég er í verslunarhugleiðingum í þetta sinn. Eða kannski kauphugleiðingum. Því ég var að hugsa um sagnorðið versla.

Að kaupa og versla

Ég get bara ekki að því gert, en það fer óstjórnlega mikið í taugarnar á mér þegar fólk segist hafa verslað tiltekna hluti. Dæmi:

Ég verslaði þessa skó hjá ykkur í gær en þeir eru of stórir. Ég þarf að skila þeim.

Þarna var sagnorðið versla notað vitlaust. Viðskiptavinurinn hefði átt að segja að hann hefði keypt skóna.

Sögnin versla hefur víðtækari merkingu en sögnin kaupa. Hún felur í sér bæði kaup og sölu. Það er hægt að versla með alls konar hluti. Kaupmaður sem verslar með matvæli selur viðskiptavinum sínum mat sem hann hefur líklega keypt af matvælaframleiðanda eða heildsala.

Svo er hægt að versla við einhvern. Viðskiptavinur sem verslar við áðurnefndan kaupmann kaupir mat af honum.

Við förum út í búð að versla. En við verslum ekki einstaka hluti. Við verslum ekki föt, við verslum ekki mjólkurfernur, við verslum ekki jólagjafir og við verslum heldur ekki bækur. Við kaupum þessa hluti.

Hér á eftir kemur málfræðileg ástæða fyrir þessu – og haldið ykkur nú fast.

Sögnin kaupa er áhrifssögn. Eins og allir vita, eða ættu a.m.k. að vita, þá stýra áhrifssagnir falli fallorðsins sem fylgir á eftir þeim.

Fallorðin sem áhrifssagnirnar stýra kallast andlag. Andlagið er alltaf í aukaföllum, þ.e.a.s. þolfalli, þágufalli eða eignarfalli – sögnin kaupa stýrir til dæmis þolfalli. Dæmi:

Ég keypti þennan síma því hann var á svo góðu tilboði.

Þarna var „þessi sími“ í þolfalli.

Sögnin versla er hins vegar ekki áhrifssögn. Hún er áhrifslaus sögn og stýrir þar af leiðandi ekki falli. Hún hefur ekki áhrif á fall fallorðsins sem kemur á eftir henni, en forsetningin sem fylgir á eftir henni, t.d. forsetningarnar „með“ og „við“ stýra hins vegar falli fallorðsins sem á eftir kemur.

Þetta er svo einfalt, krakkar mínir.

Í ritmálssafni Orðabókar Háskólans má þó sjá sögnina versla hegða sér eins og áhrifssögn sem stjórnar þágufalli. Dæmi eru um að menn hafi verslað vörum sínum eða verslað kjöti. Í þessum dæmum hefur sögnin sömu merkingu og sögnin selja. Dæmi:

Hann verzlaði vörum sínum á Eyrarbakka.

Miðað við orðfar margra Íslendinga virðist sögnin versla nú vera orðin að áhrifssögn sem stýrir þolfalli eins og sögnin kaupa og hefur þá svipaða merkingu.

Kannski má líta á þetta sem eðlilega þróun í tungumálinu – ég veit það ekki. En mér finnst hún a.m.k. vera til hins verra og finnst að við ættum að koma í veg fyrir hana.

Opnunartími og afgreiðslutími

Á meðan ég er í þessum kaup- og verslunarhugleiðingum, þá datt mér líka í hug að minnast á opnunartíma staðanna þar sem við kaupum allt sem okkur vantar.

Ég er dálítið ósáttur við þennan opnunartíma. Hann er allavegana ekki alltaf notaður rétt. Mig langar frekar til að tala um afgreiðslutíma.

Ég prófaði að gúgla þessi tvö orð; opnunartíma og afgreiðslutíma.

Afgreiðslutími fær 280.000 atkvæði hjá Google. Ikea, Smáralind, Kringlan Byko og Stöð 2 fá öll prik fyrir að auglýsa afgreiðslutíma á vefjum sínum.

En opnunartími hefur samt vinninginn, með 1.250.000 atkvæði. Krónan, Brimborg, Hagkaup, Bónus. Pósturinn og verslunarmiðstöðin Fjörður fá skömm í hattinn fyrir að auglýsa opnunartíma.

Af hverju? Gæti einhver verið að spyrja.

Af því að opnunartími er tíminn þar sem búðin er opnuð. Lokunartími er aftur á móti tíminn þar sem henni er lokað.

Ef opnunartími er klukkan 9:00 á morgnana og lokunartími klukkan 18:00, þá er afgreiðslutíminn frá klukkan 9:00 til 18:00.

Svo vil ég líka benda á það, svona í framhjáhlaupi, að búðir opna ekki og þær loka ekki heldur, heldur eru þær opnaðar og þeim er lokað.

Getum við breytt þessu, krakkar? Og notað afgreiðslutímann og opnunartímann rétt?

Plís.

Málfarslögreglan – 2. þáttur

Persónulegar vangaveltur

Ég ætla að vera á persónulegum nótum í þetta sinn. Ég var nefnilega að hugsa um atviksorðið „persónulega“.

Í blaðagreinum, bloggpistlum og misgáfulegum umræðum virkra í athugasemdum á samfélagsmiðlum og í athugasemdakerfum fréttavefja finnst öðrum hverjum manni eittvað persónulega. Dæmi:

Mér finnst persónulega að Dagur eigi að segja af sér.

Sérstaklega sýnist mér þetta orð vera notað af þeim sem vilja sýnast gáfulegir eða málefnalegir en eru það ekki. En það er nú bara mín persónulega tilfinning og ekki byggð á neinum vísindalegum rannsóknum.

Mér finnst persónulega að orðið „persónulega“ sé ofnotað í íslensku og þá sérstaklega í ritmáli á internetinu.

Það sem mér finnst persónulega er ekkert öðruvísi en það sem mér finnst. Persónuleg reynsla mín er alveg sú sama og reynsla mín og persónulegar skoðanir mínar og persónulegt álit mitt eru alveg þau sömu og skoðanir mínar og álit mitt.

Í staðinn fyrir að segja „mér finnst persónulega“ eða „persónulega finnst mér“ er nóg að segja „mér finnst“.

Því þegar menn segja frá sjálfum sér, hvort sem það eru skoðanir, lífsreynsla eða eitthvað annað, þá felst það í orðunum að þetta eru persónulegar skoðanir, lífsreynsla eða venjur hvers og eins og því er óþarfi að taka það sérstaklega fram.

Þess vegna finnst mér persónulega að þessu orði sé víðast hvar ofaukið. Ég vona persónulega að við getum í sameiningu dregið úr notkun á þessu persónulega orði.