Þegar öllu þessu er lokið

Þá er þessu öllu lokið og útskrift afstaðin.

Orðabókin öðlast framhaldslíf þó að verkefninu sé lokið – til þess var það ætlað í upphafi.

Á þessum vef verður áfram hægt að fá fréttir af orðabókinni eftir því sem verkefninu vindur fram.

Einnig má fylgjast með á Facebook-síðu undir heitinu Málfarslögreglan.
Og á Twitter undir heitinu malfarslogregla.

Þetta er bara rétt að byrja!

Útskriftarskírteini
Útskriftarskírteinin

Orðin skipta máli

Orðabókin.is verður til.

Forsíða greinargerðar
Greinargerðin brakandi fersk úr prentvélunum.

Greinargerð þessi er fyrri hluti lokaverkefnis í hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands. Seinni hluti verkefnisins er vefurinn ordabokin.is, auk þriggja stuttra hlaðvarpsþátta sem aðgengilegir eru á sama vef.

Hér verður sagt frá tilurð vefsins og fjallað um miðlunarleiðirnar sem notaðar eru, þ.e. vefinn og hlaðvarpið. Gefin verður innsýn í orðabókafræði og viðfangsefni hennar. Leitað verður svara við því hvernig hægt er að miðla orðabókum á vefnum og hvaða miðlunarleiðir henta til að koma efni þeirra á framfæri. Nokkrar íslenskar veforðabækur verða skoðaðar; athugað verður hvað vel er gert í þeim og hvað mætti betur fara. Þá verður sagt frá undirbúningi verkefnisins og framkvæmd þess. Að lokum birtast hugleiðingar um framtíð vefsins.

Markmiðið með vefnum er að gera tungumálið aðgengilegt og sýna fram á að það er lifandi og í stöðugri þróun. Hver sem er getur tekið þátt í að skapa tungumálið; það er ekki bara búið til og skilgreint af sérfræðingum á skrifstofum. Á vefnum verður mest áhersla lögð á slangurorð, nýyrði og gömul orð sem hafa fengið nýja merkingu á undanförnum árum.

Þótt þessu verkefni sé nú formlega lokið verður vefurinn Orðabókin.is áfram virkur og lifandi. Líf hans er bara rétt að byrja og mun hann vaxa og dafna í framtíðinni með aðstoð notenda. Þessi bloggvefur fær einnig að lifa áfram. Hér verða sagðar fréttir af starfsemi og gangi orðabókarinnar.

Lokametrarnir

Í dag er vika í stóra skiladaginn.

Það er komin mynd á vefinn og greinargerðina. Enn vantar einhver almennileg og ekki allt of klisjukennd lokaorð í hana.

Það eru komin fjörutíuogtvö orð í safnið.

Tveir af þremur hlaðvarpsþáttum eru orðnir opinberir. Sá þriðji verður gerður aðgengilegur í dag eða á morgun. Þá má nálgast á Orðabókarvefnum og í gegnum iTunes.

Stofnaður hefur verið Twitter-aðgangur undir nafninu Málfarslögreglan.

Síða undir sama nafni er aðgengileg á Facebook.

Þetta er allt að smella saman!

Hlaðvarpið

Fyrsti hlaðvarpsþátturinn er farinn í loftið.

Það eru tilbúnir (eða næstum því tilbúnir) tveir aðrir þættir og stefnan er sú að birta þá næstu tvo mánudaga héðan í frá.

Ég kýs að kalla þættina Málfarslögregluna.

Þegar þeir verða allir orðnir aðgengilegir verður vika í skil á þessu öllu saman.

Hér má hlusta á fyrsta þáttinn.

Tuttugu orða múrinn rofinn

Tuttugu orð komin í orðabókina!

Þeim á enn eftir að fjölga jafnt og þétt næstu daga. Stefnan er að bæta við tveimur til þremur orðum á dag uns yfir lýkur, þ.e. fram til 16. janúar.

En fyrst koma jólin.

Níu nóttum fyrir jól

Þetta mjakast.

Ég er ekki að hugsa um að það séu níu dagar til jóla, heldur að það sé rétt rúmur mánuður í skil á þessu öllu saman.

Á fjórum dögum tókst mér að bæta 12 blaðsíðum við greinargerðina. Það vantar samt ýmislegt í hana ennþá.

Uppkast af henni er a.m.k. komið út í kosmosið og til yfirlestrar hjá leiðbeinanda!

Næst á dagskrá er að setja inn eitthvað efni á vefinn og fínstilla hann.

Sem betur fer lenda jólin á helgi þetta árið!

Jólafrí

Ég er þá kominn í eins mikið jóla„frí“ og hægt er úr þessu.

Það eru komin tvö almennileg orð í orðabókina. Þeim á eftir að fjölga jafnt og þétt á næstu dögum.

Það er að koma einhver mynd á greinargerðina. Hún er orðin 33 blaðsíður að lengd, en er samt langt frá því að vera tilbúin.

Búinn að taka upp þrjá stutta hlaðvarpsþætti sem verður skilað með vefnum. Á eftir að klippa þá saman.

Fínstillingar á vefnum halda áfram.

Næsti mánuðurinn (og rúmlega það) fer í loka- lokafrágang á þessu öllu saman.

Minntist einhver á jólafrí?

Fokheldur

Skjáskot af ordabokin.is
Skjáskot af vefnum ordabokin.is tekið 25. nóvember 2016
Í tvær og hálfa viku er ég búinn að fikta í uppsetningu á vefnum. Ég keypti þemað Flatbase til að laga útlit vefsins að skissum sem ég teiknaði.

Nú er tilbúin frumútgáfa af aðalvefnum sem virkar nokkurn veginn eins og ég vil hafa hana. Það vantar enn allt innihaldið. Ýmsar fínstillingar og breytingar á smáatriðum eru eftir. Einnig er ekki víst að núverandi litir fái að halda sér. Ef vefurinn væri hús væri hann núna orðinn fokheldur.

Næstu daga ætla ég að gera nokkrar notendaprófanir. Því allir sem eitthvað hafa fjallað um miðlun efnis á vefnum og undirbúning vefverkefna eru sammála um gagnsemi notendaprófana.

Notendaprófun snýst um að fylgjast með einum notanda í einu nota vefinn. Þannig má komast að því hvernig notendur hegða sér á vefnum og mögulega finna villur, sjá hvað má bæta og hverju er ofaukið. Mælt er með því að prófa lítið í einu en oft, ekki þarf að fá marga notendur í hvert skipti og ekki þarf að hafa áhyggjur af því hverjir eru prófaðir.

Nú þegar er ein prófun búin. Ég á eftir að fá tvo til þrjá notendur í viðbót.