Leitin

Það var þetta með leitina!

Leitarmöguleikinn þarf að virka vel í svona rafrænum orðabókum. Að hafa hana nægilega góða verður líklega stærsti höfuðverkurinn í þessu öllu saman. Jafnvel meiri heldur en að skrifa fjórar síður um orðabókafræði, sem ég hafði þó ekkert vit á fyrir.

Ég vil að hægt verði að leita að orðum í öllum beygingarmyndum. Leitastrengirnir „Orðabókarinnar“ og „Orðabókanna“ ættu til dæmis að skila sömu færslu undir fyrirsögninni „Orðabók“.

Ég er búinn að skoða nokkrar viðbætur í boði fyrir WordPress. Meðal annars viðbótina Advanced custom fields. Hún býður upp á að bæta svæðum við þau sem fyrir eru í bakendanum á WordPress, þ.e. fyrirsagnasvæðið og meginmálssvæðið. Þannig væri hægt að bæta við textasvæði sem væri sérstaklega ætlað til þess að láta beygingarmyndir viðkomandi orðs fylgja með.

En þá á eftir að finna einhverja viðbót sem gerir leitina nógu góða. Eitthvað sem útilokar ákveðin textasvæði frá leitinni. Því ég vil að leitarvélin leiti bara í þessu viðbótarsvæði með orðmyndunum og engu öðru. En það hefur ekki virkað nógu vel hingað til.

Leitin verður því að halda áfram!