Mér barst til eyrna hugtakið hreint lak. Ég hef ekki heyrt þetta hugtak áður í yfirfærðu merkingunni sem ég ætla að fjalla um hér. Enda er það notað í íþróttamáli – og ég fylgist ekki mikið með íþróttum.
Það er talað um að markvörður, aðallega í fótbolta, samkvæmt leitarniðurstöðum á Google, sé með hreint lak þegar honum tekst að halda markinu hreinu, þ.e.a.s. að verja öll skot sem koma að markinu.
En hvað er þetta hreina lak?
Þetta er bein þýðing úr ensku, eins og margt annað. Allt í lagi með það. En þetta er bara ekki rétt þýðing. Þetta er einn stór misskilningur.
Enska hugtakið er clean sheet, líka notað í fótboltamáli. (Og hér má minnast á að knattspyrna er óþarfa orð. Tölum heldur um fótbolta. En förum ekki nánar út í það hér).
Clean sheet þýðir vissulega hreint lak.
En sheet getur líka þýtt blað eða pappírsörk, auk nokkurra annarra orða. Og það er rétta þýðingin í þessu tilfelli.
Því enska hugtakið er frá þeim tímum þar sem tölvutæknin var ekki til (eða ekki eins langt komin og í dag) og það þurfti að nota blað og blýant eða penna til að skrifa niður markafjöldann og aðra tölfræði úr leiknum.
Og ef liðin voru búin að verja öll mörk í leiknum voru blöðin með markatölunum alveg hrein, laus við krot og merki.
Og þetta, krakkar mínir, er sagan af hreina lakinu.