Málfarslögreglan – 19. þáttur

Heil og sæl ágætu hlustendur. Hlaðvarp Málfarslögreglunnar gengur nú í einhvers konar endurnýjun lífdaga. Ég lýsti því samt aldrei yfir að það væri dautt, eða að ég væri hættur þessu – ég tók mér bara góða pásu. Nú er henni lokið. En hvort þættir verða gefnir út reglulega upp frá þessu verður bara að koma í ljós.

Í nítjánda þætti verður leitast við að svara bréfum og skilaboðum frá hlustendum og lesendum. Við veltum fyrir okkur nöfnum húsa og manna. Og í lok þáttarins fáum við stútfullan pakka af íþróttum.

Efni þáttarins:

Íslensk nafnahefð

Ég þarf oft að fylla út form á netinu. Við þurfum þess öll einhverntíma ef við notum internetið. Við þurfum að gera það þegar við verslum á netinu. Eða þegar við sækjum um styrki eða atvinnu eða þegar við opnum reikninga á vefsíðum sem krefjast innskráningar. Eða bara hvenær sem við þurfum að gefa einhverjar persónuupplýsingar um okkur.

Það fyrsta sem við erum beðin um í svona eyðublöðum er yfirleitt nafnið okkar. Án þess erum við ekkert.

En það er mismunandi hversu vel fram sett og notendavæn þessi form og eyðublöð eru á íslenskum vefsíðum. Verst eru eyðublöðin þar sem beðið er um fornafn og eftirnafn i mismunandi reiti.

Nei… afsakið. Verst eru eyðublöðin þar sem beðið er um fyrra nafn (eða fornafn) í einn reit, seinna nafn (eða millinafn) í annan reit og eftirnafn í þriðja reitinn.

Það er ekkert til í íslenskri mannanafnahefð sem heitir fornafn eða eftirnafn. Komum nánar að því á eftir.

Á íslenskum vefsíðum er of algengt að svona form og eyðublöð séu afrituð beint úr ensku. Við eigum ekki að þurfa fleiri en einn reit til að gefa upp nafnið okkar, ef við erum á íslenskum vefsíðum. Það er bara þannig.

Íslensk nafnahefð er þannig að við röðum nöfnum í stafrófsröð eftir fyrsta nafni. Sem heitir reyndar ekki fyrsta nafn, heldur eiginnafn eða fyrra eiginnafn. Og aftur: Við eigum ekki að þurfa að gefa upp fornöfn, millinöfn og eftirnöfn hvert í sinn reitinn þegar við fyllum út þessi form. Það er nóg, eða á að vera nóg fyrir okkur, ef við erum á Íslandi, að nota íslenskar vefsíður, að gefa upp fullt nafn í einum og sama reitnum. En það eru bara ekki allir vefstjórar eða vefeigendur sem gera sér grein fyrir því.

Og það er líka þetta með íslensku nafnahefðina og orðfarið í kringum hana. Ég held að það átti sig ekki öll um hvað er verið að tala þegar það er talað um fyrra nafn, seinna nafn, millinafn og eftirnafn. Það eru ekki margir Íslendingar sem bera millinöfn. (Ég get þó ekki vitnað í neina tölfræði sem bendir á það).

Það eru heldur ekki mörg sem bera ættarnöfn á Íslandi. Þau eru eiginlega bönnuð, nema að uppfylltum mjög ströngum skilyrðum. Íslenskir ríkisborgarar mega ekki taka upp ættarnafn maka síns. Það má hins vegar taka ættarnafnið upp sem millinafn. Komum nánar að því á eftir hvernig millinöfn virka.

Tökum tvo þekkta Íslendinga sem dæmi. Þau heita:

  • Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir. Hún er utanríkisráðherra, þegar þetta er tekið upp.
  • Sigurður Ingi Jóhannesson. Hann er formaður Framsóknarflokksins og innviðaráðherra.

Eginnöfn

Eiginnöfn eru nöfn sem skylt er að gefa börnum fyrir sex mánaða aldur. Þau mega vera í mesta lagi þrjú.

Sigurður Ingi og Þórdís Kolbrún bera t.d. bæði tvö eiginnöfn; fyrra og seinna eiginnafn.

Millinöfn

Almenn millinöfn

Millinafn er næstum því eins og ættarnafn. Það er þó aðeins meira frelsi í þeim. Þau eru þannig að fólk getur borið þau óháð kyni. Og hver sem er má bera millinafn, öfugt við ættarnöfn. Og það er ekki skylda að gefa börnum millinöfn.

Ef fólk ber millinafn mega eiginnöfn þess vera í mesta lagi tvö.

Millinöfn skulu dregin af íslenskum orðstofnum eða hafa unnið sér sess í íslensku, en þó ekki hafa nefnifallsendingu.

Dæmi um millinöfn eru: Austfjörð, Bjarndal, Reykfell (og fleiri nöfn sem enda á -fjörð, -fell og -dal), Seljan og Hlíðkvist. Listi yfir fleiri íslensk millinöfn er á Wikipediu.

Þórdís Kolbrún ber til dæmis millinafnið Reykfjörð. En Sigurður Ingi ber ekkert millinafn.

Sérstök millinöfn

En svo flækist þetta aðeins, því það eru til almenn millinöfn og sérstök millinöfn. Þau sem ég talaði um hér áðan eru almenn millinöfn.

Sérstök millinöfn eru þannig að það má bera þau, þó þau séu ekki íslensk að uppruna, ef nákominn ættingi, t.d. systkini, foreldri, afi eða amma, ber nafnið eða hefur borið það áður.

Þau sem bera ættarnafn mega breyta því í millinafn.

Þau sem bera ekki ættarnafn, en eiga rétt á því mega taka ættarnafnið upp sem millinafn. Líka þau sem eiga nákomna ættingja eða maka með ættarnafnið.

Og eiginnafn foreldris í eignarfalli er líka hægt að nota sem millinafn. Börn Jóns og Guðrúnar gætu til dæmis heitið Sigurður Guðrúnar Jónsson, Sigurður Jóns Guðrúnarson eða Anna Jóns Guðrúnardóttir eða Anna Guðrúnar Jónsdóttir. Í þessum dæmum eru nöfnin Jóns og Guðrúnar millinöfn.

Kenninöfn

Áður en við snúum okkur að kenninöfnum er vert að minnast á það aftur að það er ekkert til í íslenskri mannanafnahefð sem heitir eftirnafn. Þetta heitir kenninafn en ekki eftirnafn.

Á Íslandi er algengast að kennnöfn séu nöfn foreldra okkar í eignarfalli, ásamt endingunni -son eða -dóttir. Oftast eru það nöfn feðra okkar en það geta líka verið nöfn mæðra okkar. Og það er líka leyfilegt að nota bæði nöfn föður og móður.

Börn Jóns og Guðrúnar sem ég minntist á áðan gætu til dæmis heitið Anna Jónsdóttir Guðrúnardóttir, Anna Guðrúnardóttir Jónsdóttir, Sigurður Guðrúnarson Jónsson eða Sigurður Jónsson Guðrúnarson.

Þau sem bera ættarnöfn geta borið þau í stað kenninafns, sem og afkomendur þeirra. En það má ekki taka upp ný ættarnöfn á Íslandi. Ættarnafnberar mega líka kenna sig við föður og/eða móður ásamt því að nota ættarnafnið.

Hvað með útlendingana?

Útlendingar sem fá íslenskt ríkisfang mega halda nafni sínu óbreyttu. Þau mega líka taka upp eiginnöfn, millinafn eða kenninafn sem samræmist íslenskum reglum. Þau sem hafa fengið íslenskan ríkisborgararétt gegn því að breyta nafni sínu og taka upp íslenskt nafn geta sótt um að fá nafni sínu breytt til baka, að hluta eða öllu leyti.

Ef annað foreldri barns er eða hefur verið erlendur ríkisborgari má gefa barninu eiginnafn og/eða millinafn sem er gjaldgengt í heimalandi foreldrisins, þó að það sé ekki í samræmi við íslenskar nafnareglur. Barnið verður þó að fá a.m.k. eitt íslenskt nafn.

Erlendur ríkisborgari sem giftist Íslendingi má halda kenninafni eða ættarnafni sínu eða taka upp kenninafn maka síns.

Nánari upplýsingar:

Vonandi eru hlustendur einhverju nær um íslenska nafnahefð og orðfar í kringum hana. Þau sem vilja kynna sér hana betur geta nálgast tengla á síðu nítjánda þáttar Málfarslögreglunnar á vefnum Orðabókin.is.