Nýtt útlit

Vefur sem tekur ekki breytingum er dauður. Undanfarnar tvær vikur, eða svo, hef ég verið að prófa mig áfram með nýtt útlit á Orðabókinni. Breytingarnar eru ekki stórvægilegar fyrir hinn almenna notanda en þær auðvelda mér uppfærslu og umsjón með Orðabókinni.

Ég ákvað að fjárfesta í þemanu Avada. Eftir að hafa fiktað í því og sett vefinn upp eins og ég vil hafa hann gat ég losað mig við fullt af WordPress-viðbótum. Þetta þema hefur allt sem hugurinn girnist þegar kemur að uppsetngu vefsins. (Nei, ég fæ ekki borgað fyrir að skrifa þetta).

Uppsetningu á nýja þemanu er að mestu lokið, en ennþá á eftir að breyta einhverjum smáatriðum, þýða nokkur ensk orð og fleira smálegt.

Notendur sem verða varir við eitthvað óeðlilegt á Orðabókinni mega gjarnan hafa samband og láta vita af því.

Nú þarf ég vonandi ekki að eyða eins miklum tíma í uppfærslur á viðbótum og áður í hvert skipti sem ég fer inn á vefinn og get einbeitt mér að efnisvinnslunni. Ég hef líka á tilfinningunni að Orðabókin sé strax orðin sýnilegri í Google og að umferð um hana hafi aukist við þessar breytingar. En það er bara tilfinning og þarf að staðfesta hana með mælingum.

Fulla ferð áfram!

Er leitinni lokið?

Ég held ég sé dottinn niður á sæmilega lausn á leitarvirkninni í WordPress með aðstoð nokkurra viðbóta. Hér verður fjallað um viðbæturnar sem ég nota til að fá leitina til að virka eins og ég vil, í þeirri röð sem ég held að best sé að setja þær inn.

Orðabókin

Fyrst er það viðbótin WordPress dictionary. Hún auðveldar smíði orðabóka og orðasafna í WordPress. Upphaflega er hún á ensku, en framenda hennar má auðveldlega þýða yfir á hvaða tungumál sem er. Hún kostar tæpa 30 dali, eða um 3500 íslenskar krónur. Best er að nota hana í WordPress-þema sem styður a.m.k. tvær valmyndir.

Þegar búið er að setja viðbótina upp og virkja hana skýrir það sig nokkurn veginn sjálft hvernig hún virkar. Á Youtube má nálgast nokkur kennslumyndbönd. Á vef viðbótarinnar er einnig fræðsluefni, þannig að hér verður ekki farið út í frekari smáatriði.

Aukasvæði

Beint úr kassanum inniheldur orðabókin þrjú textasvæði:

  • Meginmál færslunnar, eða orðskýringu.
  • Uppruna orðsins (entry origin).
  • Tengd orð (Related entries).

Ég vildi bæta nýju textasvæði sem innihéldi allar beygingarmyndir viðkomandi orðs. Til þess notaði ég Advanced custom fields. Innahald textasvæðisins er fyrst og fremst hugsað sem leitarorð og því ekki nauðsynlegt að þau birtist með færslunum á framenda vefsins. Ég þurfti því ekki að fara út í frekari forritunarvinnu.

Ég bjó til svæðaflokkinn „Orðabókarupplýsingar“. Svæði í þessum flokki eru stillt þannig að þau birtast bara ef færslan er skrifuð með Orðabókarviðbótinni. Þau birtast ekki þegar skrifaðar eru venjulegar bloggfærslur eða síður í WordPress.

Inni í þessum svæðaflokki er eitt svæði: „Orðmyndir“. Þetta er einfalt textasvæði og ekki er skylda að fylla það út. Hægt er að breyta stillingunum á því og jafnvel bæta við fleiri svæðum ef þörf er á.

Nýr leitargluggi

Þá er það leitarglugginn. Með viðbótinni Search-live er hægt að bæta leitarglugga við hvaða WordPress-síðu eða -færslu sem er. Aðeins þarf að setja inn einfaldan kóða sem viðbótin býr til þegar búið er að stilla hvernig leitarglugginn á að virka.

Ég held að þessi viðbót sé ekki nauðsynleg fyrir framhaldið. Hún skilar ekki enn niðurstöðunum sem ég vil. En það er gott að geta haft leitargluggann hvar sem er, en ekki bara á fyrirfram ákveðnum stöðum sem WordPress ákveður. Þannig að þessi viðbót fær að vera með á þessu stigi málsins.

Falið efni

Viðbótin Search exclude útilokar færslur og síður frá því að birtast í leitarniðurstöðum. Þegar búið er að virkja viðbótina birtist lítið textasvæði sem hægt er að haka við ef óskað er eftir því að leitin fari framhjá viðkomandi færslu eða síðu. Þetta hefur bara áhrif á leitina í WordPress en ekki á Google.

Leitarvirknin

Ég vil að hægt verði að leita að orðum í öllum beygingarmyndum. Leitarorðin „Orðabókarinnar“ og „Orðabókanna“ ættu til dæmis að skila sömu færslu undir fyrirsögninni „Orðabók“.

Hér kemur Relevanssi til sögunnar. Grunnútgáfa hennar er ókeypis en hægt er að borga fyrir „advanced“ og „premium“ útgáfur, sem gefa fleiri möguleika. Ókeypis útgáfan virðist virka nógu vel hjá mér. Hægt er að láta hana leita í ákveðnum svæðum (til dæmis í textasvæðinu sem inniheldur beygingarmyndirnar) en útiloka önnur.

Hún leitar samt enn í meginmálssvæði orðabókarfærslunnar, þ.e. orðskýringunni. Og það vil ég ekki. Af hverju ekki?

Segjum að skýringin á orðinu „Orðabók“ sé:

„Rit sem inniheldur lista af orðum ákveðins tungumáls, yfirleitt í stafrófsröð. Yfirleitt fylgja orðskýringar með, stundum á sama tungumáli, en stundum á öðru tungumáli.“

Ef ég leita að orðinu „stundum“ gæti orðið „Orðabók“ komið upp í leitarniðurstöðunum, því að skýringin á orðinu inniheldur „stundum“. En þessi orð eru ekkert sérstaklega nátengd og því óþarfi að „Orðabók“ verði ein af niðurstöðum leitarinnar.

Þetta má leysa með því að hafa allar orðskýringar innan kóðans [noindex][/noindex]. Vandamálið við það er þó að þá gætu orðskýringarnar orðið ósýnilegar fyrir Google.

Engu að síður er þetta besta lausnin hingað til.

Ritstýrð leit

Þegar Relevanssi er komin upp er hægt að sækja viðbótina Autocomplete for Relevanssi. Eins og nafnið gefur til kynna býður hún upp á ritstýrða leit, þ.e. stingur upp á leitarorðum um leið og orðið er slegið inn í leitargluggann. Þannig má koma í veg fyrir að notendur slái inn rangt stafsett orð.

Hægt er að prófa leitarvirknina og samspil þessarra viðbóta í WordPress-sandkassanum. Sem stendur eru fjögur orð í orðabókinni: Api, banani, áttaviti og tæki. Hægt á að vera að leita að öllum orðmyndum þessarra orða.

Mér finnst þetta a.m.k. vera ásættanleg lausn, þangað til eitthvað annað kemur í ljós. Nú get ég farið að snúa mér að einhverju öðru í bili.

Leitin

Það var þetta með leitina!

Leitarmöguleikinn þarf að virka vel í svona rafrænum orðabókum. Að hafa hana nægilega góða verður líklega stærsti höfuðverkurinn í þessu öllu saman. Jafnvel meiri heldur en að skrifa fjórar síður um orðabókafræði, sem ég hafði þó ekkert vit á fyrir.

Ég vil að hægt verði að leita að orðum í öllum beygingarmyndum. Leitastrengirnir „Orðabókarinnar“ og „Orðabókanna“ ættu til dæmis að skila sömu færslu undir fyrirsögninni „Orðabók“.

Ég er búinn að skoða nokkrar viðbætur í boði fyrir WordPress. Meðal annars viðbótina Advanced custom fields. Hún býður upp á að bæta svæðum við þau sem fyrir eru í bakendanum á WordPress, þ.e. fyrirsagnasvæðið og meginmálssvæðið. Þannig væri hægt að bæta við textasvæði sem væri sérstaklega ætlað til þess að láta beygingarmyndir viðkomandi orðs fylgja með.

En þá á eftir að finna einhverja viðbót sem gerir leitina nógu góða. Eitthvað sem útilokar ákveðin textasvæði frá leitinni. Því ég vil að leitarvélin leiti bara í þessu viðbótarsvæði með orðmyndunum og engu öðru. En það hefur ekki virkað nógu vel hingað til.

Leitin verður því að halda áfram!