Heilir og sælir ágætu hlustendur og verið velkomin í ellefta þátt Málfarslögreglunnar.
Bréf frá hlustendum
Þættinum hefur borist bréf. Það innihélt svohljóðandi fyrirspurn:
Af hverju er forsetinn með litlum staf?
Mér er ljúft og skylt að svara þessari spurningu.
Í Auglýsingu um setningu íslenskra ritreglna, sem dyggir hlustendur ættu að vera farnir að kannast við, segir í grein númer 1.2.2.5:
Nöfn stofnana/embætta sem bera heiti sem jafnframt er starfsheiti æðsta yfirmanns, til dæmis sýslumaðurinn í Reykjavík, umboðsmaður Alþingis, ríkislögreglustjóri, má ætíð rita með litlum upphafsstaf, en einnig er heimilt að rita stóran staf ef augljóslega er vísað til stofnunarinnar en ekki starfsmannsins sem veitir henni forstöðu (sjá um lítinn staf í starfsheitum í 1.3.2 a).
Samkvæmt mínum skilningi á þessari reglu er hann Guðni okkar forseti – með litlu f-i. En hann vinnur hins vegar hjá embætti Forseta Íslands, sem má hvort tveggja skrifa með stóru og litlu f-i. Það mælir því ekkert á móti því að forseti sé skrifað með stóru f-i ef átt er við stofnunina eða embættið Forseta Íslands, en ekki æðsta starfsmann stofnunarinnar.
Ég vona að þetta svari spurningunni. Ég bendi einnig á ágætis svar á Vísindavefnum við spurningunni Eiga starfsheiti sem hljóma eins og heiti stofnunar að vera með litlum eða stórum staf? Tengil í spurninguna má nálgast í gegnum ellefta þátt á vefnum ordabokin.is.
Stafrænn tungumáladauði
Frá því síðasti þáttur fór í loftið hefur verið rætt um stafrænan tungumáladauða. En hver er hann þessi stafræni tungumáladauði?
Stafrænn tungumáladauði er það þegar tungumál láta í minni pokann fyrir stafrænum samskiptum og tækni, þ.e. þegar þeim er lítið sem ekkert sinnt eða komið til móts við þau til að hægt sé að nota þau í hinum stafræna heimi.
Nú á tímum samfélagsmiðla, snjalltækja, sjálfvirkra aðstoðarmanna og efnisveitna á borð við Netflix og Youtube er íslenskan í ákveðinni hættu. Við erum einfaldlega ekki nógu mörg til að tækja- og efnisframleiðendur nenni að púkka upp á þetta tungumál okkar. Það sama á reyndar við um mikinn meirihluti tungumála í Evrópu og jafnvel í heiminum.
Ungverski vísindamaðurinn András Kornai segir að til að tungumál teljist lífvænleg í hinum stafræna heimi þurfi að miða við fjóra þætti.
Í fyrsta lagi stærð samfélagsins sem notar tungumálið í stafrænum samskiptum.
Í öðru lagi virðing fyrir tungumálinu, þ.e. hvort málnotendum, sérstaklega af yngri kynslóðum, finnst viðeigandi að nota það í stafrænum samskiptum sín á milli.
Í þriðja lagi virkni tungumálsins, þ.e. hvar og hvernig það er notað. Er það til dæmis bara notað af fræðimönnum og þeim sem eiga það ekki að móðurmáli? Eða eru fleiri sem nota það, og þá í daglegum samskiptum?
Og í fjórða lagi Wikipedia. Því meira efni sem til er af greinum á tilteknu tungumáli á Wikipediu, því minni líkur eru á stafrænum tungumáladauða.
Við fyrstu sýn getum við kannski verið bjartsýn fyrir hönd íslenskunnar þegar þessir þættir eru skoðaðir, en Kornai segir engu að síður að 95% allra tungumála sem til eru hafi nú þegar orðið undir í baráttunni við stafræna tækni og þeirra bíði stafrænn tungumáladauði.
Önnur rannsókn segir að 21 af 30 evrópskum tungumálum, þar á meðal íslenska, séu í útrýmingarhættu á stafrænni öld.
Þetta þýðir kannski ekki að íslenskan muni hverfa, a.m.k. ekki alveg í fyrirsjáanlegri framtíð. Við munum halda áfram að tala hana og eiga samskipti á íslensku í raunheiminum, en ef ekkert verður að gert mun hún verða undir í stafrænum samskiptum.
Stafræn samskipti eru stór hluti af daglegu lífi okkar flestra, þannig að það er eðlilegt að menn spyrji sig til hvers við séum eiginlega að læra íslensku fyrst við getum svo ekki notað hana í stafræna heiminum.
En hvað er hægt að gera til að koma í veg fyrir stafrænan tungumáladauða íslenskunnar, eða a.m.k. að hægja á honum?
Lykilatriðið er að foreldrar verji meiri tíma með börnum sínum, tali meira við þau og lesi fyrir þau. Því að börn læra ekki tungmál með því einu að horfa á myndbönd eða sjónvarp, jafnvel þó það sé á íslensku.
Og svo þarf að auka fjárstuðning við máltækni til að hægt verði, til dæmis, að búa til tæki sem menn geta raddstýrt á sínu eigin tungumáli, þ.e. ef það er annað en enska. Því að fæst tungumál eru nógu langt á veg komin í þessari tækni til að það sé hægt.
Nokkrum dögum áður en þessi þáttur var tekinn upp heyrði ég á tal nokkurra unglinga sem voru að velta fyrir sér íslensku orði yfir orðið gúgla, þ.e. að leita að einhverju á netinu með google leitarvélinni.
Þetta samtal kveikti í mér smá vonarneista fyrir hönd íslenskunnar í stafrænum heimi. Það er greinilega ekki öllum sama um málið.
Hlustendur sem vilja lesa greinarnar sem ég vitnaði í geta fundið tengla í þær undir ellefta þætti á vefnum ordabokin.is. Þar eru einnig tenglar í annað efni um stafrænan tungumáladauða.
Einkaréttur og einkaleyfi
Eftir að síðasti þáttur fór í loftið var sagt frá því í fréttum að upphrópunin Húh! væri skráð vörumerki og hefði verið það frá sumrinu 2016. Eigandi vörumerkisins hefur einkarétt á því að láta prenta það á föt og drykkjarumbúðir. Það er búið að úthúða honum nógu mikið í athugasemdakerfum fjölmiðla og verður því þess vegna sleppt hér.
En þetta með einkaleyfið fékk mig til að hugsa (eins og sjálfsasgt fleiri Íslendinga) um það hvort það væri hægt að eignast einkarétt eða einkaleyfi á orðum. Og það er hægt, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, sem hlustendur geta kynnt sér á vef Einkaleyfastofu. Það er tengill á vef Einkaleyfastofu undir ellefta þætti á vefnum ordabokin.is.
Vörumerkið má til dæmis ekki vera algengt tákn eða orð sem algengt er í viðskiptum eða notað í daglegu máli. En það væri vel þess virði að láta reyna á þessar reglur. Það er örugglega hægt að túlka þær mjög frjálslega.
Ég sæi til dæmis fyrir mér að sækja um einkarétt á því að prenta orðin og, en, í eða maður, til dæmis á föt eða matarumbúðir.
Svo væri hægt að færa út kvíarnar og fá einkarétt á því að prenta orðin bjór og öl utan á drykkjarumbúðir.
Ég segi nú bara: Hvílík gullnáma ef af þessu yrði!
Ókeypis ráð til virkra í athugasemdum
Þá er komið að föstum liðum eins og venjulega.
Stundum þegar menn vilja vera gáfulegir, málefnalegir eða formlegir bæta menn alls konar óþarfa við orð sín, sem mætti vel sleppa. Líklega er það oftast gert í hugsunarleysi. Hér koma nokkur dæmi um orð sem mætti nota minna í daglegu tali og tillögur að styttri orðum.
Í staðinn fyrir óvissustig er oft nóg að tala um óvissu.
Stundum er sagt að eitthvað gerist á ákveðnum tímapunkti. Þessi tímapunktur er ofnotaður og honum má skipta út fyrir ýmislegt annað. Til dæmis má segja að eithvað gerist núna, á þeim tíma eða þessari stundu.
Í staðinn fyrir að hljóta meiðsli má vel tala um að meiðast eða slasast.
Í stað þess að segja að eitthvað hafi gerst fyrir nokkrum árum síðan, nokkrum vikum síðan eða nokkrum dögum síðan er nóg að segja að það hafi gerst fyrir nokkrum árum, fyrir nokkrum vikum eða fyrir nokkrum dögum. Þetta síðan aftan við orðin er óþarfi í þessu samhengi.
Og eitt ofnotað orð er aðferðafræði. Oft er sagt að hin eða þessi aðferðafræði hafi verið notuð til að leysa tiltekið verkefni eða vandamál. Það er nóg að tala einfaldlega um aðferð.
Þetta voru bara örfá dæmi. Verum vakandi og forðumst óþarfa málalengingar. Hlustendur eru hér með hvattir til að senda fleiri dæmi um svona óþarfa og tillögur að því hvernig má stytta málið.
Ábending til fjölmiðlamanna
Að lokum ein vinsamleg ábending til fjölmiðlamanna:
Á dögunum heyrði ég sagt í fréttum stöðvar tvö:
Erlendir ferðamenn sem slasast hafa í umferðinni hér á landi hafa nær þrefaldast frá árinu 2003.
Það eru ekki ferðamennirnir sem hafa þrefaldast, heldur fjöldi þeirra. Réttara hefði því verið að segja:
Fjöldi erlendra ferðamanna sem slasast hafa í umferðinni hér á landi hefur nær þrefaldast frá árinu 2003.
Þá er ekki fleira á dagskrá í þessum þætti.
Sem fyrr eru hlustendur hvattir til að senda athugasemdir, ábendingar, spurningar, hrós eða kvartanir. Það er til dæmis hægt að gera með því að senda skilaboð í gegnum vefinn. Eða með aðstoð Facebook eða Twitter, en tenglar í samfélagsmiðlana eru aðgengilegir frá vefnum ordabokin.is.
Þessum þætti er þá öllum lokið.
Veriði sæl.
Tenglar og ítarefni
- András Kornai: Digital Language Death
- Auglýsing um setningu íslenskra ritreglna
- Einkaleyfastofa: Helstu skilyrði verndar
- The Guardian: Icelandic language battles threat of ‘digital extinction’
- Hugrás.is: Verður íslenska gjaldgeng í stafrænum heimi?
- Jóhanna Sif Finnsdóttir: Hefur enskt barnaefni í snjalltækjum áhrif á enskukunnáttu íslenskra barna?
- Meta-net: Að minnsta kosti 21 Evrópumál á stafrænan dauða á hættu
- Meta-net: Íslensk tunga á stafrænni öld
- Vísir.is: Hætta á „stafrænum tungumáladauða“ íslenskunnar
- Vísindavefurinn: Eiga starfsheiti sem hljóma eins og heiti stofnunar að vera með litlum eða stórum staf?