Málfarslögreglan – 5. þáttur

Heilir og sælir ágætu hlustendur og verið velkomin í fimmta þátt Málfarslögreglunnar.

Nei. Byrjum aftur.

Hello, ladies and gentlemen and welcome to the fifth episode of the Icelandic grammar police.

Hvað hefur nú gerst síðan síðasti þáttur var tilbúinn?

Nú, til dæmis að íslenskt flugfélag vill ekki heita íslensku nafni af því að það þykir ekki nógu markaðsvænt. Tvöþúsundogsjö-ástandið er víst að byrja aftur.

Nýtt og markaðsvænna nafn

Og nú ætlar Málfarslögreglan að taka þátt í partýinu. Hún ætlar að feta í fótspor fyrirtækisins sem hét einu sinni Flugfélag Íslands en heitir nú Air Iceland connect, og ætlar að breyta nafninu í eitthvað markaðsvænna. Því það vita jú allir að þetta íslenska virkar ekki í alþjóðlegu samhengi.

Opinbert heiti Málfarslögreglunnar héðan í frá verður því The amazing Icelandic grammar police connect. En það er mun markaðsvænna nafn, eins og allir hljóta að sjá.

Það hamlar samt dálítið að þættirnir skuli vera talaðir á íslensku, en fljótlega verður auglýst eftir einhverjum sem getur talsett þá á ensku svo vel sé.

Vissulega gætu einhverjir orðið óánægðir með nafnabreytinguna. Ég skil það mjög vel og þykir að mörgu leyti vænt um slík viðbrögð. Því Málfarslögreglan er miðill sem skiptir máli og fólki finnst skipta máli það sem hún er að gera.

En Málfarslögreglan heldur áfram að halda þjóðerni sínu á lofti og aðsetur hennar verður áfram á Íslandi. Það er svo sem ekkert nýtt að fyrirtæki séu með erlend heiti hér á landi. Málfarslögreglan heldur áfram sínu íslenska heiti í þjóðskrá og í fyrirtækjaskrá. Og þessi nafnabreyting hjálpar til við markaðssetningu, því það er einfaldara að koma fram undir einu nafni.

Annars staðar kom svo fram að íslenskir afgreiðslumenn í íslenskum verslunum vilja ekki tala íslensku við íslenska viðskiptavini, að því er virðist – af því bara.

Eigðu góðan dag

En fyrst ég var nú að minnast á afgreiðslumenn:

Stundum þegar ég er að versla úti í búð og stend við kassann og er að setja dótið mitt í poka segir afgreiðslufólkið við mig „eigðu góðan dag“ „eigðu gott kvöld“ og stundum jafnvel „eigðu gott kvöld og góða helgi“ allt eftir því hvaða dagur og hvaða tími dagsins er hverju sinni.

Ég svara yfirleitt í hugsunarleysi „sömuleiðis“. En það sem mig langar að segja er:

EIGÐU GÓÐAN DAG!

Þessi kveðja sem er svo amerísk eitthvað. Þýdd beint upp úr have a nice day.

Ég játa að mér finnst þetta vinaleg kveðja og allt svoleiðis. Og ég efast ekki um að tilgangurinn með henni sé góður. En það er líklega ekki við starfsfólkið að sakast þó hún sé notuð. Hún er hluti af fyrirfram skrifuðu handriti eða starfsreglum.

Þessi kveðja, Eigðu góðan dag, er svo mikið búin til af þjónustustjórum, eða einhverjum sem vinna við að bæta upplifun viðskiptavinarins.

(Og upplifun er eitt orð sem ég verð að taka fyrir seinna).

Þessi kveðja er búin til af stjórnendum fyrirtækja sem hafa verið að lesa fræðirit á ensku um verslun, verslunarupplifun, þjónustu og viðskipti. Ég sé þessa stjórnendur svo mikið fyrir mér halda fyrirlestur með glærusýningu fyrir framan starfsfólkið sitt á starfsmannafundi.

Og í glærusýningunni kemur fram að:

  • Við kveðjum viðskiptavininn með orðunum eigðu góðan dag.
  • Það bætir upplifun viðskiptavinarins.
  • Hann gengur út glaður í bragði.

Og svo er jafnvel vísað í útlenskar þjónustukannanir þar sem kemur fram að ákveðið hlutfall viðskiptavina kemur aftur, gefur búðinni hærri einkunn í þjónustukönnunum og svo framvegis, þegar þeir heyra þessa kveðju.

Þó að mér finnist þessi kveðja vinaleg og falleg, þá þoli ég hana samt ekki. Ég dey alltaf pínulítið innra með mér þegar ég heyri hana. Mér líður alltaf jafn illa þegar ég er búinn að segja „sömuleiðiðis“ við starfsfólkið eftir að það hefur sagt mér að eiga góðan dag.

Af hverju ekki frekar að segja bara: „Njóttu dagsins“, „Njóttu kvöldsins“ eða bara „takk fyrir viðskiptin og velkominn aftur“?

Við verslunarstjórnendur vil ég segja: Þið getið tekið þennan góða dag ykkar, átt hann sjálf og troðið honum í…

Eitthvað og einhver

Þá er komið að nýjum dagskrárlið hér í Málfarslögreglunni, sem ég kýs að kalla Ókeypis ráðlegging til virkra í athugasemdum.

Ég ætla ekki einu sinni að byrja að tala um vitleysuna og þvæluna og sorann sem vellur upp úr virkum í athugasemdum. En stafsetningar- og málfarskunnátta þjóðfélagshópsins er annað.

Ég hef til dæmis tekið eftir því að margir af virkum í athugasemdum segjast hafa gengið í skóla lífsins. En í honum virðist ekki hafa verið lögð mikil áhersla á íslensku- eða stafsetningarkennslu. Þessum nýja dagskrárlið er meðal annars ætlað að bæta úr því.

Að þessu sinni verður fjallað um orðin einhver og eitthvað.

Í fyrsta lagi er ekkert til sem heitir einhvað eða eitthver. Rétt er að skrifa eitthvað og einhver.

Svo er það skammstöfunin á þessum orðum. Það á ekki að skrifa eh. og þaðan af síður e-h.

Rétt skammstöfun er e – (bandstrik) og stafurinn sem orðið endar á:

  • e-ð = eitthvað
  • e-r = einhver
  • e-i = einhverri
  • e-m = einhverjum

Og svo framvegis

Háfrónskt orðaval

Í síðasta þætti voru lesin upp nokkur orð úr háfrónsku og fengu hlustendur tækifæri til að giska á merkingu þeirra.

Hér koma lausnirnar í þessari litlu getraun.

  • Framhaldsraun = stúdentspróf
  • Heggfræ = mandla
  • Hleifrann = bakarí
  • Verblaka = Leðurblökumaðurinn (Batman)
  • Mógæti = Súkkulaði (Hér er komið tækifæri fyrir sælgætisframleiðendur til að markaðssetja súkkulaði undir nafninu Mógæti. Ég mundi a.m.k. kaupa það).
  • Gjaldspjald = Greiðslukort
  • Brímavaki = Estrógen
  • Fjaðarglöp = Ritvilla
  • Ritljörvi = Leiserprentari
  • Sætræti = Lakkrís (Hér er komið annað tækifæri fyrir sælgætisframleiðendur)
  • Tröllepli = Melóna
  • Glymspónn = Gítar
  • Randagandur = Tígrisdýr
  • Stundsjá = Úr/klukka
  • Hálúður = Trompet
  • Dreyradraugur = Vampíra
  • Brönugæti = Vanilla (Hér er komið enn eitt tækifærir fyrir sælgætisframleiðendur).
  • Frónnámshöll = Háskóli Íslands
  • Eistabrók = Karlmannsnærbuxur
  • Nautanýár = 1. apríl

Hlustendur sem vilja kynna sér háfrónskan orðaforða nánar geta smellt á tengil undir ítarefni 5. þáttar á vefnum orðabókin.is. Þar geta hlustendur líka sent skilaboð ef þeim liggur eitthvað á hjarta.

Ég minni líka á Fésbókar– og Twitter-síður málfarslögreglunnar, en tenglar á þær eru neðst á síðum orðabókarinnar, ordabokin.is.

Ég minni að lokum á að það er hægt að gerast áskrifandi að hlaðvarpsþáttunum í gegnum iTunes.

Þættinum er þá lokið að þessu sinni. Ég þakka þeim sem hlýddu. Góðar stundir.