Heilir og sælir ágætu hlustendur og verið velkomin í sjöunda þátt málfarslögreglunnar.
Hér er fyrst leiðrétting:
Í síðasta þætti var lesið úr fræðigrein um blótsyrði sem birtist í Skírni árið 1927. Höfundur hennar var sagður Ólafur Lárusson. En hið rétta er að höfundur hennar er Guðmundur Finnbogason – og leiðréttist það hér með.
Er málið dautt?
Þá að dauða íslenskunnar og minnkandi lestri.
Undanfarið er búið að vera mikil umræða um hvort íslenskan sé að deyja.
Fatarisinn H&M auglýsti til dæmis Grand openig, see you at smáralind, með flennistóru og ljótu auglýsingaskilti á Lækjartorgi.
Svo hafa birst fréttir af því – og birtast reyndar öðru hvoru – að svo og svo stórt hlutfall íslenskra barna og unglinga geti ekki lesið sér til gagns.
En hvað þýðir það eiginlega að lesa sér til gagns?
Þýðir það bara að geta stautað sig fram úr misáhugaverðum kennslubókum og náð svo einhverskonar prófi úr þeim að lestri loknum? Eða er einhver önnur skilgreining á því?
Ég held einmitt að börn og unglingar geti vel lesið sér til gagns. Þau gera það bara ekki á sama hátt og eldri kynslóðir.
Það er eflaust til einhver fræðileg útskýring á því hvað það þýðir að lesa sér til gagns. En að lesa sér til gagns þarf ekki endilega bara að þýða það að geta lesið þurrar og leiðinlegar kennslubækur og skilið textann sem verið er að lesa.
Að lesa sér til gagns getur vel þýtt að geta lesið leiðbeiningar með rafmagnstækjum. Eða mataruppskriftir eða raflagnateikningar. Það getur allt eins þýtt að geta klórað sig fram úr því hvernig á að nota afþreyingarmiðla á borð við Youtube, Netflix og Spotify. Og er það ekki einmitt að lesa sér til gagns að geta ráðið fram úr skilaboðum á samfélagsmiðlum og í snjallsímum sem eru sett saman úr ólíkum sviptáknum, tilfinningatáknum og skammstöfunum?
Ég held að til þess að til að börn og unglingar geti lesið sér til gagns verði þau líka að geta lesið sér til gamans. Ef hefðbundnar bækur eiga að vera samkeppnishæfar við annað afþreyingarefni þurfa börn og unglingar bækur sem þeim sjálfum finnst áhugaverðar og skemmtilegar.
Það eru kennslubækur yfirleitt ekki.
Harry Potter glæddi til dæmis lestraráhuga einnar kynslóðar. Það vantar eitthvað svipað æði til að komandi kynslóðir fái áhuga á því að lesa lengri texta en bara smáskilaboð eða stöðuuppfærslur á samfélagsmiðlum.
Kannski er einhver með allt aðra skoðun á þessum málum. En þetta segi ég bara sem leikmaður en ekki sérfræðingur í menntamálum.
Áhyggjusemi
En þá að sjaldgæfum orðum – eða öllu heldur, einu sjaldgæfu orði.
Mörgum brá í brún, ráku upp stór augu og stóðu jafnel á öndinni þriðjudaginn 8. ágúst síðastliðinn þegar RÚV birti frétt á vef sínum undir fyrirsögninni Vísindamenn áhyggjusamir í Bandaríkjunum.
Ef það væri athugasemdakerfi á vef RÚV hefði það farið á hliðina. Virkir í athugasemdum hefðu hreinlega sturlast og á endanum farið að vera með skítkast og leiðindi – eins og venjulega.
En sem betur fer er ekki athugasemdakerfi á vef RÚV. En þá beita menn öðrum brögðum, hringja í fréttastofuna og kvarta og tjá sig á öðrum vígstöðvum á Facebook.
Ég játa að ég hnaut um þetta orð um leið og ég sá það. Ég var að því kominn að skrifa upphrópanir á Facebook og hneykslast á þessum svokölluðu „fréttabörnum“ hjá fjölmiðlum sem eru ekki starfi sínu vaxin og kunna ekki að skrifa almennilega íslensku.
En ég sleppti því og ákvað að kynna mér málið nánar, a.m.k. að gúggla orðið áður en ég slóst í för með virkum í athugasemdum.
Og viti menn: Orðið áhyggjusamur er þekkt í íslensku allt frá árinu 1635 og jafnvel fyrr. Það er ekki mjög algengt, en þó þekkist það.
Elsta dæmið um orðið í ritmálsskrá Orðabókar háskólans er í handritinu AM 247 4to, sem inniheldur Bréfabók Gísla biskups Oddssonar. Þar stendur:
so sem þeir ed ecke hallda sig so kostgiæfelega og ähyggiusama i þeirra embætte.
Í blöðum og tímaritum hefur orðið öðru hvoru skotið upp kollinum, en þó aldrei oftar en einu sinni til tvisvar sinnum á áratug samkvæmt vefnum tímarit.is. Undantekning er reyndar sjöundi áratugur síðustu aldar, þar sem orðið birtist fjórum sinnum. En frá og með áttunda áratugnum er eins og menn hafi hætt að vera áhyggjusamir. Yngsta dæmið á tímarit.is er frá 21. nóvember 1975. Upp frá því virðist orðið hafa lagst í dvala – og legið þar í næstum því 42 ár.
En hvað þýðir að vera áhyggjusamur?
Út frá umræðum á Facebook og því sem stendur í gömlum dagblöðum og tímaritum getur orðið haft að minnsta kosti þrenns konar merkingu eftir því hvernig það er notað.
Í fyrsta lagi getur það merkt það sama og áhyggjufullur.
Svo getur það verið lýsing á einhverjum sem er með stöðugar áhyggjur. Það er hægt að vera áhyggjufullur öðru hvoru. En sá sem er stöðugt áhyggjufullur er svo áhyggjufullur að hann er – áhyggjusamur.
Og svo getur áhyggjusamur verið notað um fleira en fólk, þegar áhyggjufullur á ekki alveg við. Menn geta til dæmis verið í áhyggjusömum störfum, þ.e. í störfum sem gera menn áhyggjufulla. Menn geta líka átt áhyggjusama daga.
Í tveimur samhljóða stjörnuspám í Tímanum árið 1974, annarri fyrir ljónið 14. júní og hinni fyrir jómfrúna 3. nóvember stendur:
Þetta er áhyggjusamur dagur hjá þér, því að þú hefur áhyggjur af einhverjum, sem er þér nákominn, að líkindum vegna heilsufars viðkomandi. Þú gerir bezt í því að heimsækja viðkomandi, ef þú getur komið því við.
Við getum því hætt að hafa áhyggjur af áhyggjusemi. Ef til vill er kominn tími til að endurlífga þetta orð.
Og svona í framhjáhlaupi vona ég að einhver taki að sér að rannsaka stjörnuspár í dagblöðum í gegnum árin og athugi hversu mikið stjörnuspár eru endurnýttar eins og þessi sem var lesin hér áðan.
Ókeypis ráð til virkra í athugasemdum
Þá er komið að ókeypis ráðleggingu til virkra í athugasemdum. Í þetta sinn er það munurinn á ekki ennþá og ekki lengur.
Við notum ekki ennþá þegar við vísum í framtíðina og nútíðina. Það merkir að eitthvað hefur ekki enn gerst en á eftir að gerast (eða á hugsanlega, líklega eða kannski eftir að gerast). Dæmi:
Ég hef ekki ennþá komið til Kína.
Það merkir að ég hef aldrei komið til Kína en fer kannski þangað einhverntíma seinna.
Hann reykir ekki ennþá.
Það merkir að hann hafi aldrei reykt en eigi hugsanlega eftir að byrja á því.
Hún er ekki ennþá lögð af stað.
Hún er sem sagt ekki lögð af stað en er alveg að fara að koma sér.
En ef eitthvað er ekki lengur merkir það að eitthvað hafi einu sinni verið veruleiki en sé núna liðið. Það vísar í fortíðina. Dæmi:
Ég bý ekki lengur fyrir norðan.
Það merkir að ég hafi einhverntíma búið þar en sé nú fluttur þaðan.
Hann reykir ekki lengur.
Það merkir að hann hafi reykt en sé nú hættur því.
Hún vinnur ekki lengur hjá Skýrslumálastofnun.
Þýðir að hún hafi unnið þar einhverntíma en sé nú hætt störfum.
Höfum þetta á hreinu, kæru hlustendur. Vonandi ruglist þið ekki lengur á þessum orðasamböndum.
Blikur á lofti
Hugum að lokum að veðrinu.
Hlustandi kom að máli við þáttastjórnanda á dögunum og minntist á orðasambandið blikur á lofti. Eins og við vitum öll, eða ættum að minnsta kosti að vita, er sagt að það séu blikur á lofti þegar það er fyrirsjáanlegt að ástandið muni versna.
Umræddur hlustandi hefur kunnáttu í veður- og haffræði og segir að samkvæmt veðurfræðilegri skilgreiningu sé rangt að segja að það séu blikur á lofti.
Á vef Veðurstofunnar er að finna eftirfarandi fróðleik um bliku:
Blika er hvít, þunn og oftast samfelld háskýjabreiða sem oft dregur upp á himininn þar til hún þekur allt loftið. Boðar hún oft komu regnsvæðis og kemur þá gráblika og regnþykkni með úrkomu í kjölfar hennar. Sól sést gegnum blikuslæðuna. Rosabaugur myndast stundum kringum sól er geislar hennar brotna í ískristöllunum.
Samkvæmt þessari útskýringu geta ekki verið margar blikur á lofti, heldur bara ein. Við ættum því miklu frekar að segja að það sé blika á lofti þegar talað er um að verra ástand sé framundan. Hér má líka minnast á orðtakið að lítast ekki á blikuna.
Með þessu veðurtali er hugmyndabrunnurinn tæmdur að sinni.
Hlustendur eru hvattir til að senda skilaboð ef þeir vilja láta í sér heyra – hvort sem það er hrós, gagnrýni eða ósk um að eitthvað verði tekið til umfjöllunar í þættinum.
Eins og venjulega má senda skilaboð til Málfarslögreglunnar með Facebook og Twitter eða í gegnum vefinn ordabokin.is. Þar má finna tengingu á samfélagsmiðlana.
Þá er ekki fleira í þessum þætti.
Lifið í lukku en ekki í krukku.