Eru ekki öll til í kosningar?
Samt ekki alþingiskosningar, heldur kosningu um orð ársins. Atkvæðagreiðslan um það er nú hafin hjá Orðabókinni.
Tuttugu-og-sex orð berjast um titilinn að þessu sinni. Þau hafa ekki öll komið til sögunnar á þessu ári en þau eiga það sameiginlegt að hafa birst í Orðabókinni undanfarið ár.
Eins og venjulega verður kosningunum skipt niður í tvær umferðir. Í fyrri umferðinni má velja fimm orð og gefa þeim stig. Orðinu sem þú vilt setja í fyrsta sæti gefurðu 5 stig, orðinu í öðru sæti gefurðu 4 stig og svo framvegis.
Tíu stigahæstu orðin komast áfram í seinni umferðina, sem hefst í byrjun desember.
Smelltu hér til að taka þátt í valinu eða hér á vef Orðabókarinnar.
Orðin sem berjast um titilinn þetta árið eru eftirfarandi:
- Brandari
- Djúpfölsun
- Ermi
- Forsetagæi
- Hlaðgerði
- Húsdreki
- Jóðflóð
- Kindapíka
- Kælifrí
- Leikbreytir
- Lumma
- Miðaldra
- Móthygð
- Nýslendingur
- Rauðvínspóstur
- Rörahnokki
- Rúmstokksritskoðun
- Samlokukynslóðin
- Sjálfusýki
- Skírlífsbeddi
- Sníkjumenning
- Snúbúi
- Sopaglaður
- Stuðsnáði
- Topptussa
- Vakavörun
Ég vek líka athygli á að nú eru orðin í safninu orðin 318. Ég stend enn við loforðið um að þegar 400 orða múrinn verður rofinn verður farið að huga að prentútgáfu Orðabókarinnar. Þau sem vilja sjá það gerast eru hvött til að senda tillögur að nýjum orðum í safnið.
Og tvennt í viðbót:
Það er ekkert við því að gera að þessi orð séu í Orðabókinni. Þannig er það nú bara. Ef þú ert viðkvæm/-ur fyrir því að einhver orð séu til eða finnst þau óþolandi eða pirrandi er bara eitt að gera; og það er að nota þau ekki.
Það þarf ekki bara að vera til eitt orð yfir hvern hlut eða fyrirbæri. Það er einmitt snilldin við tungumálið að það er hægt að búa til ný orð þó að það séu til önnur sem merkja það sama. Það er líka í lagi að gömul orð fái nýja merkingu. Fyrirfram þakkir fyrir að kvarta ekki yfir því.