Heilir og sælir ágætu hlustendur og verið velkomin í áttunda þátt málfarslögreglunnar.
Númer í stað nafna
Við byrjum á að líta í dagbók lögreglunnar.
Á vef Vísis mátti lesa eftirfarandi texta laugardagskvöldið 16. september síðastliðinn:
Kona var handtekin vegna gruns um fjársvik í verslunarmiðstöð í hverfi 103 rétt fyrir 17 í dag, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Síðar í sömu frétt mátti lesa:
Þá var töluverður erill hjá lögreglu fram eftir degi í dag en klukkan 11:30 var tilkynnt um nytjastuld á bifreið í hverfi 108 í Reykjavík og um klukkan 13 var tilkynnt um þjófnað úr verslun í sama hverfi.
Tókuð þið eftir þessu:
„Hverfi 103 og hverfi 108.“
Ég veit ekki hvort þetta kemur svona frá lögreglunni sjálfri eða frá fréttamanni Vísis.
Kannski hef ég misst af einhverju, en hvenær hættum við að kalla hverfin sínum réttu nöfnum og fórum að nefna þau eftir póstnúmerum?
Ég er reyndar orðinn vanur því að miðbær Reykjavíkur og nágrenni hans skuli vera nefnd 101. Þar á skáldsaga Hallgríms Helgasonar, 101 Reykjavík, sjálfsagt einhvern hlut að máli. En hvenær var byrjað að kalla Háaleitis- og Bústaðahverfið hverfi 103 og 108?
Verður kannski ekki langt að bíða þess að við munum búa í bæjum 220, 210 og 200 en ekki í Hafnarfirði, Garðabæ og Kópavogi?
Eða förum við kannski einhverntíma til landa 45, 49 eða 34 í staðinn fyrir að fara til Danmerkur, Þýskalands eða Spánar?
Ég veit ekki með ykkur, en mér finnst eitthvað ópersónulegt og stofnanalegt við það að nota þessi númer, sérstaklega þegar hægt er að nota gamalgróin nöfn í staðinn fyrir númerin.
Ég vil helst ekki vera í 101, heldur niðri í miðbæ Reykjavíkur. Ég vil ekki vera í 220, heldur í Hafnarfirði. Og ég vil ekki fara til 310, 800 eða 600, heldur upp í Borgarnes, austur á Selfoss eða til Akureyrar.
Það er nóg að þurfa að búa við kennitölublæti íslenskra stofnana og þjónustufyrirtækja. Við þurfum ekki að láta póstnúmerakerfið yfirtaka nafnahefðina hjá okkur líka. Ég vona að minnsta kosti að við getum áfram notað hefðbundin nöfn á sveitarfélögum, bæjum, bæjarhlutum og öðrum stöðum á landinu í staðinn fyrir þessi númer.
Og þá að föstum liðum eins og venjulega:
Ókeypis ráð til virkra í athugasemdum
Stundum þegar ég slysast til að lesa umræður virkra í athugasemdum rekst ég á að einhver er kallaður forheimskur.
Nokkur dæmi um þetta orð má líka finna á vefnum tímarit.is, það elsta frá 1970, og það má meira að segja finna dæmi um þetta orð í Orðabók háskólans. Dæmið sem notað er þar er úr bókinni Slitur eftir Brodda Jóhannesson, frá árinu 1978.
Leyfið mér hér með að leiðrétta þennan misskilning: Lýsingarorðið forheimskur er ekki til, eða ætti a.m.k. ekki að vera til.
Við könnumst við orðið forljótur. Samkvæmt mínu viti er for- í forljótur það sama og skítur eða drulla og þegar menn eru sagðir forljótir er þeim sem sagt líkt við skít, eða drullu.
En menn geta ekki verið forheimskir.
Aftur á móti er til sagnorðið forheimska, sem þýðir að gera einhvern heimskan og nafnorðið forheimskun er svo athöfnin, þ.e. að gera einhvern heimskan.
Þessi tvö orð eru líklega komin úr dönsku. Þar er forskeytið for- það sama og í dönsku orðunum fordumme, sem hefur sömu merkingu og forheimska, forbedre sem þýðir að bæta eitthvað, eða gera eitthvað betra og fordanske þýðir að snara eitthvað eða þýða eitthvað yfir á dönsku.
En menn geta ekki verið forheimskir
Ég vona að þessi misskilningur sé hér með leiðréttur og látum kommentakerfið og virka í athugasemdum ekki forheimska okkur.
Orð ársins 2017
Þá að kosningum.
Nú er farið að síga á seinni hluta ársins 2017. Og þegar áramót nálgast fara í gang kosningar um hitt og þetta ársins. Við kjósum mann ársins, lag ársins, plötu ársins, kvikmynd ársins, bók ársins og ýmislegt fleira ársins.
Málfarslögreglan ætlar ekki að láta sitt eftir liggja og stendur því fyrir vali á orði ársins. Kosningunni um orð ársins verður skipt í tvær umferðir. Í fyrri umferð má velja úr lista af 56 orðum. Orðin á listanum hafa að vísu ekki öll komið til sögunnar á þessu ári, en þau eiga það sameiginlegt að hafa komist í orðabókina á vefnum ordabokin.is undanfarið ár.
Úr þessum lista má velja fimm orð og gefa þeim stig frá einu og upp í fimm. Tíu stigahæstu orðin komast svo áfram í seinni umferð. Kosningin fer fram á vefnum og má nálgast tengilinn á hana á vefnum ordabokin.is. Hlustendur eru hér með hvattir til að taka þátt í kosningunni og hafa áhrif á framtíð íslenskunnar.
Þá er hugmyndabrunnurinn tæmdur að þessu sinni. Ég minni að lokum á síður Málfarslögreglunnar á Facebook og Twitter og á vefinn ordabokin.is. Þar geta hlustendur skoðað orðskýringar og sent skilaboð ef þeim liggur eitthvað á hjarta.
En þættinum er þá lokið að þessu sinni.
Lifið vel og lengi en ekki í fatahengi.