Málfarslögreglan – 3. þáttur

Ég er í verslunarhugleiðingum í þetta sinn. Eða kannski kauphugleiðingum. Því ég var að hugsa um sagnorðið versla.

Að kaupa og versla

Ég get bara ekki að því gert, en það fer óstjórnlega mikið í taugarnar á mér þegar fólk segist hafa verslað tiltekna hluti. Dæmi:

Ég verslaði þessa skó hjá ykkur í gær en þeir eru of stórir. Ég þarf að skila þeim.

Þarna var sagnorðið versla notað vitlaust. Viðskiptavinurinn hefði átt að segja að hann hefði keypt skóna.

Sögnin versla hefur víðtækari merkingu en sögnin kaupa. Hún felur í sér bæði kaup og sölu. Það er hægt að versla með alls konar hluti. Kaupmaður sem verslar með matvæli selur viðskiptavinum sínum mat sem hann hefur líklega keypt af matvælaframleiðanda eða heildsala.

Svo er hægt að versla við einhvern. Viðskiptavinur sem verslar við áðurnefndan kaupmann kaupir mat af honum.

Við förum út í búð að versla. En við verslum ekki einstaka hluti. Við verslum ekki föt, við verslum ekki mjólkurfernur, við verslum ekki jólagjafir og við verslum heldur ekki bækur. Við kaupum þessa hluti.

Hér á eftir kemur málfræðileg ástæða fyrir þessu – og haldið ykkur nú fast.

Sögnin kaupa er áhrifssögn. Eins og allir vita, eða ættu a.m.k. að vita, þá stýra áhrifssagnir falli fallorðsins sem fylgir á eftir þeim.

Fallorðin sem áhrifssagnirnar stýra kallast andlag. Andlagið er alltaf í aukaföllum, þ.e.a.s. þolfalli, þágufalli eða eignarfalli – sögnin kaupa stýrir til dæmis þolfalli. Dæmi:

Ég keypti þennan síma því hann var á svo góðu tilboði.

Þarna var „þessi sími“ í þolfalli.

Sögnin versla er hins vegar ekki áhrifssögn. Hún er áhrifslaus sögn og stýrir þar af leiðandi ekki falli. Hún hefur ekki áhrif á fall fallorðsins sem kemur á eftir henni, en forsetningin sem fylgir á eftir henni, t.d. forsetningarnar „með“ og „við“ stýra hins vegar falli fallorðsins sem á eftir kemur.

Þetta er svo einfalt, krakkar mínir.

Í ritmálssafni Orðabókar Háskólans má þó sjá sögnina versla hegða sér eins og áhrifssögn sem stjórnar þágufalli. Dæmi eru um að menn hafi verslað vörum sínum eða verslað kjöti. Í þessum dæmum hefur sögnin sömu merkingu og sögnin selja. Dæmi:

Hann verzlaði vörum sínum á Eyrarbakka.

Miðað við orðfar margra Íslendinga virðist sögnin versla nú vera orðin að áhrifssögn sem stýrir þolfalli eins og sögnin kaupa og hefur þá svipaða merkingu.

Kannski má líta á þetta sem eðlilega þróun í tungumálinu – ég veit það ekki. En mér finnst hún a.m.k. vera til hins verra og finnst að við ættum að koma í veg fyrir hana.

Opnunartími og afgreiðslutími

Á meðan ég er í þessum kaup- og verslunarhugleiðingum, þá datt mér líka í hug að minnast á opnunartíma staðanna þar sem við kaupum allt sem okkur vantar.

Ég er dálítið ósáttur við þennan opnunartíma. Hann er allavegana ekki alltaf notaður rétt. Mig langar frekar til að tala um afgreiðslutíma.

Ég prófaði að gúgla þessi tvö orð; opnunartíma og afgreiðslutíma.

Afgreiðslutími fær 280.000 atkvæði hjá Google. Ikea, Smáralind, Kringlan Byko og Stöð 2 fá öll prik fyrir að auglýsa afgreiðslutíma á vefjum sínum.

En opnunartími hefur samt vinninginn, með 1.250.000 atkvæði. Krónan, Brimborg, Hagkaup, Bónus. Pósturinn og verslunarmiðstöðin Fjörður fá skömm í hattinn fyrir að auglýsa opnunartíma.

Af hverju? Gæti einhver verið að spyrja.

Af því að opnunartími er tíminn þar sem búðin er opnuð. Lokunartími er aftur á móti tíminn þar sem henni er lokað.

Ef opnunartími er klukkan 9:00 á morgnana og lokunartími klukkan 18:00, þá er afgreiðslutíminn frá klukkan 9:00 til 18:00.

Svo vil ég líka benda á það, svona í framhjáhlaupi, að búðir opna ekki og þær loka ekki heldur, heldur eru þær opnaðar og þeim er lokað.

Getum við breytt þessu, krakkar? Og notað afgreiðslutímann og opnunartímann rétt?

Plís.

Níu nóttum fyrir jól

Þetta mjakast.

Ég er ekki að hugsa um að það séu níu dagar til jóla, heldur að það sé rétt rúmur mánuður í skil á þessu öllu saman.

Á fjórum dögum tókst mér að bæta 12 blaðsíðum við greinargerðina. Það vantar samt ýmislegt í hana ennþá.

Uppkast af henni er a.m.k. komið út í kosmosið og til yfirlestrar hjá leiðbeinanda!

Næst á dagskrá er að setja inn eitthvað efni á vefinn og fínstilla hann.

Sem betur fer lenda jólin á helgi þetta árið!

Jólafrí

Ég er þá kominn í eins mikið jóla„frí“ og hægt er úr þessu.

Það eru komin tvö almennileg orð í orðabókina. Þeim á eftir að fjölga jafnt og þétt á næstu dögum.

Það er að koma einhver mynd á greinargerðina. Hún er orðin 33 blaðsíður að lengd, en er samt langt frá því að vera tilbúin.

Búinn að taka upp þrjá stutta hlaðvarpsþætti sem verður skilað með vefnum. Á eftir að klippa þá saman.

Fínstillingar á vefnum halda áfram.

Næsti mánuðurinn (og rúmlega það) fer í loka- lokafrágang á þessu öllu saman.

Minntist einhver á jólafrí?

Á degi íslenskrar tungu

Dagur íslenskrar tungu er í dag.

Í dag eru líka tveir mánuðir þangað til allt þarf að vera tilbúið, samkvæmt kennslualmanaki hugvísindasviðs.

Það hefði verið snilld að geta opnað orðabókarvefinn í dag, jafnvel við hátíðlega athöfn. En því miður er hann of stutt á veg kominn til að það sé hægt.

Held bara opnunarpartý að ári liðnu.

Í dag verður þessi mynd af Holu íslenskra fræða að duga:

Hola íslenskra fræða. Hótel saga í bakgrunni
Hola íslenskra fræða 16. nóvember 2016.

Kynning

Ég hélt stutta kynningu á stöðu verkefnisins í morgun fyrir samnemendum í hagnýtri menningarmiðlun sem eru í sömu stöðu og ég, þ.e. að vinna að lokaverkefni eða undirbúa það.

Fékk líka margar góðar hugmyndir á meðan sem ef til vill verða að veruleika síðar.

Sé smellt á myndina hér fyrir neðan má sækja glærupakka á pdf-formi sem ég notaði við kynninguna.

Glæar númer 1 í glærukynningu

Leitin

Það var þetta með leitina!

Leitarmöguleikinn þarf að virka vel í svona rafrænum orðabókum. Að hafa hana nægilega góða verður líklega stærsti höfuðverkurinn í þessu öllu saman. Jafnvel meiri heldur en að skrifa fjórar síður um orðabókafræði, sem ég hafði þó ekkert vit á fyrir.

Ég vil að hægt verði að leita að orðum í öllum beygingarmyndum. Leitastrengirnir „Orðabókarinnar“ og „Orðabókanna“ ættu til dæmis að skila sömu færslu undir fyrirsögninni „Orðabók“.

Ég er búinn að skoða nokkrar viðbætur í boði fyrir WordPress. Meðal annars viðbótina Advanced custom fields. Hún býður upp á að bæta svæðum við þau sem fyrir eru í bakendanum á WordPress, þ.e. fyrirsagnasvæðið og meginmálssvæðið. Þannig væri hægt að bæta við textasvæði sem væri sérstaklega ætlað til þess að láta beygingarmyndir viðkomandi orðs fylgja með.

En þá á eftir að finna einhverja viðbót sem gerir leitina nógu góða. Eitthvað sem útilokar ákveðin textasvæði frá leitinni. Því ég vil að leitarvélin leiti bara í þessu viðbótarsvæði með orðmyndunum og engu öðru. En það hefur ekki virkað nógu vel hingað til.

Leitin verður því að halda áfram!

Orðabókafræði

Orðabókafræði (Lexicography) er fræðigrein innan málfræði sem fæst við orðabækur og samsetningu þeirra.

Höfundar orðabóka þurfa að taka margvíslegar ákvarðanir. Til dæmis:

  • Á orðabókin að vera einmála eða tvímála?
  • Hverjum er hún ætluð? Fræðimönnum á einhverju sviði? Eða almenningi?
  • Og kannski mikilvægasta spurningin: Hvaða flettiorð eiga að vera í henni? Og hvaða flettiorð eiga ekki að vera í henni?

Guðrún Kvaran, um orðaforða í Íslenskri orðabók:

„í orðabók ætlaðri almenningi á að láta daglegan orðaforða ríkja yfir sjaldgæfari samsetningum eða samsetningum sem eru vel skiljanlegar án skýringa.
[…]
Einnig þarf að fara yfir allan sérmerkta orðaforðann og fella þar margt út, sérstaklega fágætar plöntur og sjaldséð dýr, sem heima eiga í handbókum um slíkt efni.

Mannanöfn eiga lítið erindi í bók af þessu tagi. Þau voru valin af handahófi í ÍO 1983 og fjölmörg vantar sem töldust þó mjög algeng á þeim tíma sem bókin kom út.“
(Guðrún Kvaran: Uppruni orðaforðans í „Íslenskri orðabók“. Orð og tunga 4 (1998)).

Laufey Leifsdóttir, um sama efni:

„Sjaldgæf orð eiga trúlega ekki að vera í miklum mæli í Íslenskri orðabók en erfitt getur verið að meta vægi þeirra, t.d. er ógrynnin öll að finna af sjaldgæfum orðum í verkum Halldórs Laxness sem má svo sannarlega færa rök fyrir að eigi að vera hægt að fletta upp í Íslenskri orðabók.
[…]
langt því frá öll íðorð eiga heima í almennri orðabók á borð við Íslenska orðabók en þumalfingursregla okkar var sú að orð, sem menn geta rekist á skýringarlaust í fjölmiðlum eða kennslubókum á framhaldsskólastigi, eigi heima í orðabókinni.“
(Laufey Leifsdóttir: Íslensk orðabók í hálfa öld – Nokkur atriði um endurskoðun og endurnýjun Íslenskrar orðabókar. Orð og tunga 10 (2008)).

Að lokum: Ef orð hafa fleiri en eina merkingu, hvaða skýringu á þá að nefna fyrst?

„Annað vandamál, sem snýr að skýringartextum nafnorða, er í hvaða röð á að raða skýringum þeirra. Þessu má lýsa sem tveimur aðferðum, annars vegar sögulegri og hins vegar samtímalegri röðun. Með sögulegri aðferð er átt við að fyrsta skýring nafnorðs sé e.k. ,grunnmerking’, t.d. að borð merki ,fjöl, plægður viður, borðviður, smíðaefni’ og aðrar merkingar orðsins fylgi þar á eftir. Þar með má fá nokkurs konar merkingarlegt samhengi í skýringar flettunnar. Samtímaaðferðin er þá sú að algengasta skýring orðs sé höfð fremst. Ef sú leið er farin getur uppröðunin hæglega orðið sú að ,grunnmerkingin’ sé forn skýring orðs og komi fyrir í sjötta lið, en á hinn bóginn sér notandinn strax skýringu sem hann kannast við. Við orðið borð er til dæmis fyrsta skýring nú ,plata á fótum til að vinna, snæða, sitja við’ en grunnmerking ,fjöl, plægður viður, borðviður, smíðaefni’ er í öðrum lið. Í flettunni borg er svo fyrsta merking ,kastali, virki’ en ekki sú sem er algengust, ,staður, bær’. Í Íslenskri orðabók voru frá upphafi notaðar báðar þessar leiðir og engri sérstakri línu fylgt í þessum frágangi. Ótal spurningar vakna. Hver er algengasta merking orðs? Rofnar samhengi við merkingarlegan uppruna um of ef skýringum er raðað upp eftir því hversu almennar þær eru? Hverjar eru þarfir notandans? Leitar hann algengustu merkingar eða kemur honum ,rökleg röð’ betur?“
(Laufey Leifsdóttir: Íslensk orðabók í hálfa öld – Nokkur atriði um endurskoðun og endurnýjun Íslenskrar orðabókar. Orð og tunga 10 (2008)).

Fyrstu skrefin

Næstu vikur verða helgaðar undirbúningi verkefnisins.

Hugsuðurinn og gerandinn
Hugsuðurinn og gerandinn

Undirbúningur fyrir verkefni af þessu tagi er gríðarlega mikilvægur. Íslenska leiðin er sú að vaða beint í verkið en sleppa undirbúningnum. Íslendingar eru meiri gerendur en hugsuðir. Það verður helst allt að gerast ekki seinna en í gær!

Það er freistandi að fara íslensku leiðina: Framkvæma fyrst, en skipuleggja eftir á. Ég játa að ég hef verið að því kominn núna í fyrstu skrefunum að setja upp vef, dæla einhverju efni inn á hann, en skipuleggja það svo seinna. Það er kannski mest spennandi, því þá sjást strax einhver ummerki af vinnunni, en það er ekki rétta leiðin.

Eins og þegar við málum heima hjá okkur. Þá þurfum við fyrst að gera allt þetta „leiðinlega“ áður en við sjáum einhvern árangur af vinnunni. Við þurfum að þrífa óhreinindi af veggjum, taka nagla og skrúfur niður, sparsla í göt og sprungur, líma málningarlímband á viðeigandi staði og setja undirlag á gólfið áður en við getum sett málningu á vegginn.

Það þarf líka að vinna alla þessa „leiðinlegu“ vinnu, áður en nýr vefur er settur upp, þ.e. ef eitthvað á að vera í hann spunnið. Til dæmis þarf að skilgreina markhópa, ákveða hvernig leiðakerfið og veftréð eiga að líta út og huga að efni og skipulagi þess. Einnig er gott að heyra í notendum, til dæmis með viðtölum eða könnunum.

Næstu skref hjá mér verða þessi:

  • Setja upp framkvæmdaáætlun eða tímalínu verkefna.
  • Setja saman grunn að efninu sem verður á vefnum í upphafi.
  • Ákveða uppsetningu og uppbyggingu efnis.
  • Setja upp veftré.
  • Setja upp netkönnun og fá helstu markhópa (eða fulltrúa úr þeim) til að taka þátt í henni.

Það verður því ekki verkefnaskortur hér á bæ á næstunni!