Málfarslögreglan – 16. þáttur

Málfarslögreglan, 16. þáttur

Heil og sæl, kæru hlustendur.

Í þessum þætti ætla ég að varpa tveimur áramótasprengjum og stinga upp á viðamiklum breytingum á tungumálinu. Virkir í athugasemdum og frétta- og fjölmiðlamenn fá ókeypis íslenskukennslu. Og að lokum verður orð ársins 2019 afhjúpað. En við byrjum á afmæli.

Af-mæli

Afmæli eru yfirleitt gleðiefni. Afmæli er tiltekinn dagur mánaðar sem maður fæddist á. Það getur líka verið dagur sem einhver viðburður varð eða eitthvað fyrirtæki, stofnun eða félagasamtök tóku til starfa. Afmælisdagurinn er gott tilefni til að gera vel við sig í hópi vina og kunningja.

En orðið afmæli er ekki jafn skemmtilegt. Eftir því sem ég hugsa meira um þetta orð finnst mér það sífellt þunglyndislegra og meira niðurdrepandi.

Í orðinu felst að tiltekinn tími mælist af ævinni. Það minnir okkur á að ævin líður, við verðum ekkert yngri, þetta fer nú bráðum að verða búið hjá okkur.

Eða eins og Halldór Halldórsson orðar það árið 1958:

Ég hygg, að frummerking orðsins afmæli sé „afmældur tími“, en sé síðar haft um daginn þegar afmörkun tímans fer fram. Orðið er myndað af orðasambandinu mæla af eða sögninni afmæla, sem kunn er frá fyrri hluta 18. aldar.

Halldór Halldórsson. Örlög orðanna – Þættir um íslenzk orð og orðtök. 1958.

Orðið fæðingardagur hefur aftur á móti yfir sér léttara yfirbragð, eftir því sem ég hugsa meira um það.

Fæðingardagur er líka mun eldri í málinu en afmæli. Elsta dæmið um fæðingardag í Ritmálssafni orðabókar Háskólans er frá miðri eða seinni hluta 16. aldar. Elsta dæmi um afmæli í sama riti er hins vegar frá 17. – 18. öld.

Ég sé fyrir mér fund hjá siðanefnd kirkjunnar á Íslandi einhverntíma á 17. öld, þar sem ákveðið er að leggja niður orðið fæðingardag en taka upp afmæli í staðinn. Því það má ekki vera gaman á Íslandi. Menn mega ekki skemmta sér á fæðingardögum sínum. Kirkjan er allsráðandi og allir verða að hugsa um hana. Fundurinn hefur e.t.v. hljómað einhvernveginn svona:

Biskup:
Sælir kæru fundarmenn. Sem biskup ber mér að stjórna þessum fundi og stýra honum. Velkomnir á þennan fund siðanefndar íslensku þjóðkirkjunnar. Borist hefur tillaga um að leggja niður orðið fæðingardagur en taka upp afmæli í staðinn. Því við viljum ekki að fólk skemmti sér, heldur minnist þess að lífið styttist sífellt. Það verður að hugsa um kirkjuna og pínu frelsara vors. Eru allir samþykkir þessari breytingu?

Fundarmenn:
Já.

Afmæli og fæðingardagur merkja ekki alveg það sama. Skoðum aftur hvað Halldór Halldórsson segir:

Ég veit ekki, hvort mönnum er almennt ljóst, að orðin fæðingardagur og afmæli samsvara ekki hvort öðru nákvæmlega að merkingu. Orðið fæðingardagur er bæði haft um „daginn, sem maður fæðist“ og sama dag á ári hverju upp frá því. Orðið afmæli er hins vegar ekki haft um daginn, sem menn fæðast. Orðið afmæli er auk þess notað um minningardaga um atburði, félagastofnanir o.s.frv., t.d. 900 ára afmæli kristnitökunnar, 30 ára afmæli Alþýðusambandsins.

Halldór Halldórsson. Örlög orðanna – Þættir um íslenzk orð og orðtök. 1958.

Í staðinn fyrir að óska fólki til hamingju með afmælið legg ég til að við förum að dæmi helstu nágrannaþjóða okkar og óskum því til hamingju með fæðingardaginn. Sbr. Birthday í ensku, Fødselsdag í norðurlandamálum og Geburtstag í þýsku. En tölum áfram um afmæli þegar rætt er um stofndaga fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka eða þegar við minnumst einhvers atburðar.

Ég vil því óska öllum sem ég þekki til hamingju með fæðingardaginn.

Nýr áratugur… eða ekki

Í þessum orðum sögðum er árið 2020 rétt nýgengið í garð. Við síðustu áramót breyttust tvær tölur í ártalinu. Tugurinn breyttist sem sagt úr einum í tvo. Sumir halda því fram að þar með sé byrjaður nýr áratugur. Aðrir segja að nýr áratugur byrji ekki fyrr en um næstu áramót.

Þetta virðist ætla að verða eilífðar deilumál meðal Íslendinga á tíu ára fresti. Svona eins og skaupið, að breyta klukkunni, banna flugelda, kirkjuheimsóknir barna og listamannalaun eru árleg umræða og vinsælt deiluefni í svartasta skammdeginu.

Við sem komin erum til vits og ára munum öll eftir umræðum um það hvenær aldamót yrðu, s.s. hvort þau yrðu árið 2000 eða 2001. Það varð tilefni langra deilna, blaðagreina og umræðna í sjónvarpi og útvarpi. Menn skiptust í tvær andstæðar fylkingar. Annað hvort voru menn í 2000 eða 2001 hópnum.

Sem betur fer voru samfélagsmiðlar ekki til þarna.

Eins og með orðið afmæli þarf íslenskt orðfar í kringum áratugi og aldur líka að vera leiðinlegt og minna okkur á að við erum ekki að verða neitt yngri, þetta er nú bráðum að vera búið hjá okkur.

Nú er sem sagt hafinn þriðji áratugur tuttugustuogfyrstu aldar. Í fljótu bragði gæti það virst vera 2030-og eitthvað. En nei, það er bara 2020-og eitthvað.

Orðfar um aldurinn okkar er líka þunglyndislegt og niðurdrepandi. Við erum gerð eldri en við erum. Fólk sem er 30-og eitthvað ára er á fertugsaldri, fólk sem er 40-og eitthvað ára er á fimmtugsaldri og svo framvegis.

Þetta með nýjan áratug eða ekki er ákveðið vandamál í íslensku. Því við eigum engin orð eins og the twenties í ensku, tyverne í dönsku eða die Zwanzigjahre í þýsku. Allt eru þetta orð yfir ártöl sem enda á 20 – 29. Að þessu leyti er íslenskan ekki nógu gagnsæ.

Ég vil því koma með tvær tillögur:

Annað hvort að við notum frekar orð eins og tuttuguárin um ár sem enda á 20-29, þrjátíuárin um ár sem enda á 30-39 og svo framvegis.

Eða að kalla áratugina það sama og spil í spilastokkum. Núllið yrði samt fyrsti áratugur aldarinnar. Svo kæmi ásinn, sem eru ár sem enda á 10-19, tvisturinn yrði þá notaður yfir ár sem enda á 20-29 og svo framvegis.

Ég held að báðar þessar tillögur séu gagnsærri en núverandi fyrirkomulag og augljósar þegar við erum farin að venjast þeim. Maður þarf þá ekki lengur að hugsa sig um og reikna út um hvað er verið að tala ef þetta yrði tekið upp.

Tökum dæmi um notkun

Ég veit ekki hvað hún er gömul, en ég gæti giskað á að hún sé á miðjum þrjátíuárunum.

Það þýðir að hún er um það bil 35 ára.

Þessi plata kom út einhverntíma í áttunni.

Þýðir að platan hafi komið út einhverntíma á árunum 1980-1989.

Erum við ekki öll sammála um að þetta sé betra fyrirkomulag?

Ég vil a.m.k. hvetja hlustendur til nota tuttuguárin, eða tvistinn, til að dreifa þessu orðalagi og koma því í almenna notkun fyrir þrjátíuárin.

Ókeypis ráð til virkra í athugasemdum

Hér eru tveir hlutir sem fara í taugarnar á mér.

Í fyrsta lagi: Það er ekki skrifað á eftir orðunum þegar, sem og ef.

Það virðist kannski stundum hljóma þannig í daglegu talmáli. En við skrifum það ekki. Til dæmis eru eftirfarandi setningar rangar:

  1. Mér brá þegar að ég mætti þér.
  2. Sá sem að skrifaði þessa færslu ætti að skammast sín.
  3. Nennirðu að kaupa mjólk ef að þú ferð út í búð?

Þið skiljið hvað ég meina.

Í öðru lagi: Ég hef óþægilega oft séð rangan rithátt á landi frænda vorra Svía. Á íslensku heitir landið þeirra Svíþjóð.

Sumir hafa einhverja tilhneigingu til að skjóta auka ð-i í nafnið á landinu og skrifa Svíðþjóð. Það er rangt.

Við leit á vefnum tímarit.is finnast dæmi um þennan rithátt allt frá árinu 1909. Þannig að þetta er ekki alveg nýtt.

Landið heitir Svíþjóð. S-V-Í-Þ-J-Ó-Ð. Ekki með neinu ð-i inni í orðinu.

Orð ársins

Fyrri umferð kosninganna um orð ársins 2019 hófst í byrjun nóvember. Þar fengu þátttakendur að velja fimm orð af sjötíu og gefa þeim stig frá einum upp í fimm.

Tíu stigahæstu orðin úr þessari atkvæðagreiðslu komust áfram í seinni umferðina. Sum þeirra voru áberandi í fréttum og þjóðmálaumræðu á árinu 2019. En önnur hafa verið til lengur.

Og orðin sem komust áfram eru eftirfarandi, lesin í stafrófsröð:

Stigahæsta orðið af þessum tíu verður valið orð ársins 2019. Og orðið sem hlaut flest atkvæði, eða 90 af 406 atkvæðum er Loftslagskvíði.

Skilgreining á orðinu á vefnum ordabokin.is er:

Tilfinning sem felur í sér kvíða, áhyggjur eða óvissu vegna loftslagsbreytinga. T.d. að jörðin og heimurinn séu alveg að líða undir lok vegna mengunar og loftslagsbreytinga.

Orðið er ekki alveg nýtt – ég hef fundið dæmi um það allt frá 2011. En það rímar vel við umræðuna á síðasta ári, þar sem loftslagsmál voru áberandi. Sumir eiga sjálfsagt eftir að finna þessu orði allt til foráttu, svona eins og orðinu hrútskýring, og sætta sig ekki við að orðið sé til yfir höfuð.

En með því að horfast í augu loftslagsvandann og gera eitthvað í málunum má vel vera að orðið verði óþarft eftir nokkur ár. En kannski verður það óþarft hvort sem er, þegar við verðum búin að eyðileggja jörðina. Hvað veit maður?

Ég vil a.m.k. hvetja hlustendur til að leggja sitt af mörkunum við að vernda umhverfið – og þannig losnum við kannski við loftslagskvíðann.

Að lokum

Þá er þessi þáttur senn á enda runninn. Eins og venjulega minni ég á vefinn ordabokin.is. Ég minni líka á samfélagsmiðla málfarslögreglunnar á Facebook og á Twitter. Þar getið þið komið hrósi, kvörtunum eða öðrum ábendingum á framfæri. Nú, eða stungið upp á nýjum orðum til að bæta við í Orðabókina.

Látið loftslagskvíðann ekki ná tökum á ykkur, þó það sé erfitt.

Verið sæl.