Árnastofnun

Laugavegur 13
Laugavegur 13

Þetta er Laugavegur 13 í Reykjavík á fallegum haustdegi.

Þar er orðfræðisvið Árnastofnunar til húsa.

Ég fór í heimsókn þangað í síðustu viku, rétt fyrir veikindi, og fékk smá leiðsögn um grundvallarrit í orðabókarfræði.

Því að í greinargerðinni sem á að skila með vefnum vil ég hafa einhverja umfjöllun um fræðigreinina, verkefni hennar og viðfangsefni og segja frá því hvaða ákvarðanir þarf að taka við samsetningu orðabóka.

Þakkir fyrir móttökur og leiðsögn fá Eva María og Halldóra hjá Árnastofnun.

Orðabókafræði

Orðabókafræði (Lexicography) er fræðigrein innan málfræði sem fæst við orðabækur og samsetningu þeirra.

Höfundar orðabóka þurfa að taka margvíslegar ákvarðanir. Til dæmis:

  • Á orðabókin að vera einmála eða tvímála?
  • Hverjum er hún ætluð? Fræðimönnum á einhverju sviði? Eða almenningi?
  • Og kannski mikilvægasta spurningin: Hvaða flettiorð eiga að vera í henni? Og hvaða flettiorð eiga ekki að vera í henni?

Guðrún Kvaran, um orðaforða í Íslenskri orðabók:

„í orðabók ætlaðri almenningi á að láta daglegan orðaforða ríkja yfir sjaldgæfari samsetningum eða samsetningum sem eru vel skiljanlegar án skýringa.
[…]
Einnig þarf að fara yfir allan sérmerkta orðaforðann og fella þar margt út, sérstaklega fágætar plöntur og sjaldséð dýr, sem heima eiga í handbókum um slíkt efni.

Mannanöfn eiga lítið erindi í bók af þessu tagi. Þau voru valin af handahófi í ÍO 1983 og fjölmörg vantar sem töldust þó mjög algeng á þeim tíma sem bókin kom út.“
(Guðrún Kvaran: Uppruni orðaforðans í „Íslenskri orðabók“. Orð og tunga 4 (1998)).

Laufey Leifsdóttir, um sama efni:

„Sjaldgæf orð eiga trúlega ekki að vera í miklum mæli í Íslenskri orðabók en erfitt getur verið að meta vægi þeirra, t.d. er ógrynnin öll að finna af sjaldgæfum orðum í verkum Halldórs Laxness sem má svo sannarlega færa rök fyrir að eigi að vera hægt að fletta upp í Íslenskri orðabók.
[…]
langt því frá öll íðorð eiga heima í almennri orðabók á borð við Íslenska orðabók en þumalfingursregla okkar var sú að orð, sem menn geta rekist á skýringarlaust í fjölmiðlum eða kennslubókum á framhaldsskólastigi, eigi heima í orðabókinni.“
(Laufey Leifsdóttir: Íslensk orðabók í hálfa öld – Nokkur atriði um endurskoðun og endurnýjun Íslenskrar orðabókar. Orð og tunga 10 (2008)).

Að lokum: Ef orð hafa fleiri en eina merkingu, hvaða skýringu á þá að nefna fyrst?

„Annað vandamál, sem snýr að skýringartextum nafnorða, er í hvaða röð á að raða skýringum þeirra. Þessu má lýsa sem tveimur aðferðum, annars vegar sögulegri og hins vegar samtímalegri röðun. Með sögulegri aðferð er átt við að fyrsta skýring nafnorðs sé e.k. ,grunnmerking’, t.d. að borð merki ,fjöl, plægður viður, borðviður, smíðaefni’ og aðrar merkingar orðsins fylgi þar á eftir. Þar með má fá nokkurs konar merkingarlegt samhengi í skýringar flettunnar. Samtímaaðferðin er þá sú að algengasta skýring orðs sé höfð fremst. Ef sú leið er farin getur uppröðunin hæglega orðið sú að ,grunnmerkingin’ sé forn skýring orðs og komi fyrir í sjötta lið, en á hinn bóginn sér notandinn strax skýringu sem hann kannast við. Við orðið borð er til dæmis fyrsta skýring nú ,plata á fótum til að vinna, snæða, sitja við’ en grunnmerking ,fjöl, plægður viður, borðviður, smíðaefni’ er í öðrum lið. Í flettunni borg er svo fyrsta merking ,kastali, virki’ en ekki sú sem er algengust, ,staður, bær’. Í Íslenskri orðabók voru frá upphafi notaðar báðar þessar leiðir og engri sérstakri línu fylgt í þessum frágangi. Ótal spurningar vakna. Hver er algengasta merking orðs? Rofnar samhengi við merkingarlegan uppruna um of ef skýringum er raðað upp eftir því hversu almennar þær eru? Hverjar eru þarfir notandans? Leitar hann algengustu merkingar eða kemur honum ,rökleg röð’ betur?“
(Laufey Leifsdóttir: Íslensk orðabók í hálfa öld – Nokkur atriði um endurskoðun og endurnýjun Íslenskrar orðabókar. Orð og tunga 10 (2008)).