Málfarslögreglan – 12. þáttur

Málfarslögreglan – 12. þáttur

Heil og sæl ágætu hlustendur og verið velkomin í tólfta þátt Málfarslögreglunnar.

Loksins, gætu sumir verið að hugsa, því að þættirnir snúa nú aftur að loknu góðu og löngu fríi. Fríið þýðir þó ekki að málfarslögreglan hafi setið auðum höndum. Ó, nei, því er nú öðru nær.

Úr því að það er komið nýtt og sprellfjörugt ár er ekki úr vegi að gefa eitt áramótaheit:

Ég lofa því að hlaðvarpsþættir þessa árs verða fleiri en á síðasta ári.

Það ætti nú ekki að vera erfitt að halda þetta heit, því að þættir síðasta árs voru bara tveir.

Þetta er ekki eina loforð þáttarins. Við komum að hinu rétt bráðum.

Það hefur margt gerst í þessu langa fríi. Orðabókin hefur til dæmis haldið áfram að vaxa síðan síðasti þáttur fór í loftið. Og núna í haust bættist hundraðasta orðið í Orðabókina.

Aldrei má maður gera neitt. Maður má einu sinni ekki hlaupa og leika sér án þess að vera skammaður og lokaður inni.

Emil í Kattholti.

Eins og Emil í Kattholti orðaði það með norðlenska hreimnum, þegar hundraðasti spýtukarlinn bættist í safnið.

Ég hélt nú ekkert sérstaklega upp á þennan áfanga. En af tilefni af hundraðasta orðinu er því hér með lýst yfir að þegar 400 orða múrinn verður rofinn verður farið að huga að prentútgáfu Orðabókarinnar. Hlustendur sem vilja sjá það gerast eru þess vegna hvattir til að vera duglegir að senda inn hugmyndir að nýjum orðum. Það má til dæmis gera á vefnum ordabokin.is eða með skilaboðum á Facebook eða Twitter.

Og svo er það orð ársins. Við komum að því síðar í þessum þætti. En fyrst að tilefni. Eða af tilefni? Hvort er það?

Af eða að?

Hlustandi kom að máli við mig á dögunum og spurði hvort það ætti að segja eða af gefnu tilefni. Þetta var góð spurning. Ég játa að ég er aldrei almennilega klár á þessu sjálfur, þannig að ég lagðist í rannsóknir og rakst á umfjöllun um orðið tilefni í Málfarsbanka Árnastofnunar. Þar segir:

Annaðhvort er sagt í tilefni einhvers eða í tilefni af einhverjuVið komum í tilefni afmælisins. Við komum í tilefni af afmælinu.
Einnig: af einhverju tilefniAf hvaða tilefni eru allir hérna? Efnt var til fagnaðar af alls engu tilefni. Athuga þó að sagt er að gefnu tilefni.

Málfarsbanki Árnastofnunar

Þá vitum við það. Það er sem sagt af tilefni, með F-i. Nema þegar tilefnið er gefið, þá er það , með Ð-i.

Lítum kannski á það þannig að eð sé ókeypis en eff þurfi að borga fullu verði:

F er fullu verði greitt
en ð-ið kostar ekki neitt

Svona til að búa til einhverja þumalputtareglu.

Hlustendur geta kynnt sér málið nánar á vef Árnastofnunar. Tengil má nálgast á síðu tólfta þáttar á vefnum ordabokin.is

Tölum um tölur

Þá að raðtölum.

Raðtölur eru tölustafir sem eru skrifaðir með punkti fyrir aftan. Þeir tákna staðsetningu í runu eða lýsa röð viðburða. 1. 2. 3. er lesið: fyrsti, annar, þriðji.

Iðulegar rekst ég á ranga notkun á raðtölum, sérstaklega í rituðum texta á internetinu. Þessi ranga notkun felst í því að punktur er settur aftan við tölur þegar það á ekki að vera punktur á eftir þeim. Oft má sjá dæmi um þetta hjá foreldrum á samfélagsmiðlum að segja frá afmælum barna sinna.

Til dæmis:

„Þessi dama er þriggja ára í dag.“
er skrifað:
„Þessi dama er 3. ára í dag.“

Þá ætti að lesa þetta:
„Þessi dama er þriðja ára í dag.“

Þessi ranga notkun fer meira en lítið í taugarnar á mér. Punkt á ekki að skrifa á eftir tölum nema þær séu raðtölur, eða þegar þær eru hafðar í lok setninga. (Eða þegar þær eru hluti af vefslóðum eða IP-tölum, en það er nú önnur saga).

Hér eru tvö dæmi um rétta notkun:

Dæmi 1:
Ragnheiður hafnaði í 2. sæti í 200 metra bringusundi.

Þarna á að vera punktur á eftir 2, í 2. sæti, en ekki á efti 200 í 200 metra bringusundinu.

Dæmi 2:
Í dag, 12. desember, fagnar þessi drengur 10 ára afmæli sínu.

Þarna á að vera punktur á eftir tólf, þ.e. 12. desember en ekki á eftir 10 (í tíu ára.

Höfum það á hreinu.

Annað sem ég hef aldrei þolað við rithátt á tölum er þegar tölustöfum og bókstöfum er blandað saman í staðinn fyrir að skrifa töluorð beint út, með bókstöfum. Það er einhver hefð fyrir því í ensku að nota bæði bókstafi og tölustafi, (sbr. þegar first er skrifað 1st, second er skrifað 2nd, third er skrifað 3rd og svo framvegis. En þessi ritháttur virkar ekki almennilega á íslensku.

Ég venst því til dæmis aldrei að sjá eignarfall töluorðanna eins til fjögurra skrifað með bókstöfum í bland við tölustafi, þ.e. 1ns, 2ja, 3ja og 4ra. Upphaflega hefur þetta verið gert til að spara stafafjölda. En þess ætti ekki að þurfa lengur.

Það eru því vinsamleg tilmæli frá Málfarslögreglunni að menn skrifi þessi orð frekar bara með bókstöfum! Eins, tveggja, þriggja og fjögurra.

Það er ekki svo erfitt.

Þá er þessari tölu um tölur lokið, en snúum okkur næst að kosningum.

Orð ársins 2018

Í byrjun nóvemer síðastliðins fór fyrri umferð kosninganna um orð ársins af stað. Orðin sem kosið var um komu ekki öll fram á sjónarsviðið á árinu 2018 og mörg þeirra höfðu verið til ansi lengi. En þau áttu það öll sameiginlegt að hafa birst í orðabókinni frá 1. nóvember 2017 til 31. október 2018.

Í fyrri umferð mátti velja fimm af fimmtíu og einu orði og gefa þeim stig frá einum upp í fimm. Tíu stigahæstu orðin komust áfram í seinni umferð. Orðin sem komust áfram í seinni umferð voru, í stafrófsröð:

Nú er seinni umferð kosninganna lokið og því er kominn tími til að uppljóstra um það hvert af þessum tíu orðum hlýtur titilinn Orð ársins 2018 á vefnum ordabokin.is.

1160 atkvæði voru greidd í seinni umferðinni. Og orðið sem flestir völdu var áhrifavaldur, með 215 atkvæði. Fast á hæla þess fylgdu Prófljóta, með 191 atkvæði og Sjomli, með 157 atkvæði.

Áhrifavaldur er, samkvæmt skýringu í Orðabókinni notandi samfélagsmiðla (t.d. Snapchat eða Instagram) sem hefur fjölda fylgjenda, oftast nokkur þúsund eða fleiri.

Áhrifavaldar kynna oft vöru og þjónustu á samfélagsmiðlum, yfirleitt gegn greiðslu frá seljendum eða framleiðendum.

Árið 2018 var svo sannarlega ár áhrifavaldanna. Í byrjun október bannaði Neytendastofa til dæmis áhrifavöldum að nota duldar auglýsingar í bloggfærslum. Síðasta sumar voru áhrifavaldar taldir sem sérstakur tekjuhópur í tekjublaði DV og íslenskir áhrifavaldar eru reglulegir gestir á hverjir-voru-hvar- og slúðursíðum dagblaða og fréttavefja.

Nú í upphafi ársins 2019 er það orðin full vinna hjá mörgum að vera áhrifavaldur og ríkisskattstjóri er m.a.s. að kanna starfsvettvang þeirra og kortleggja hvernig greiðslum til þeirra er háttað. Því þetta verður jú allt að vera löglegt.

En sem sagt, til hamingju með orð ársins, áhrifavaldar og aðrir hlustendur.

Þættinum er þá lokið í þetta sinn. Hvers kyns ábendingar, hrós, kvartanir, tillögur og annað sem hlustendum kann að detta í hug má senda í gegnum vefinn ordabokin.is. Einnig má nota samfélagsmiðlana Facebook og Twitter til verksins.

Lifið vel og lengi.
Passið ykkur á duldum auglýsingum áhrifavalda.
Góðar stundir.