Málfarslögreglan – 4. þáttur

Í þetta sinn ætla ég að fjalla aðeins um málsótthreinsun.

Hvað er nú það?

Eins og við vitum öll er málhreinsun það þegar erlendum orðum og tökuorðum er skipt út fyrir íslensk orð. Vel heppnuð orð eru t.d. tölva í staðinn fyrir computer og þyrla í staðinn fyrir helicopter.

Svo eru til misheppnuð orð eins og alnetið, sem var reynt að nota í staðinn fyrir internetið og þúsöld sem þýðir þúsund ár.

En málsótthreinsun gengur lengra. Þeir sem eru fylgjandi henni vilja útrýma öllum erlendum áhrifum úr tilteknu tungumáli, meira að segja orðum af erlendum uppruna sem hafa unnið sér þegnrétt í viðkomandi tungumáli.

Eitt af afsprengjum málsótthreinsunar er tilbúna tungumálið háfrónska. Það er í grunninn íslenska, eða hrein norræn tunga, sem er laus við öll erlend áhrif.

Þetta minnir mig dálítið á öfgakennda þjóðernisstefnu eða nasisma. En höfundar háfrónskunnar sverja samt af sér öll tengsl við tilteknar stjórnmálastefnur, hvað sem þær heita.

Einu sinni var til vefur sem hét háfrónska.org. Hann er því miður ekki til lengur en það er hægt að endurvekja hann með hjálp nútímatækni.

Á forsíðu vefsins birtist stefnuskrá háfrónskunnar og þegar ég les þennan texta núna kemst ég ekki hjá því að lesa hann með áróðursrödd frá fyrri hluta 20. aldar hljómandi í hausnum á mér. Hann mundi þá hljóma einhvern veginn svona:

Þegar fram í sækir getur vel farið svo að fleiri en Íslendingar tali ofuríslensku. Allir geta lært háfrónsku, hvort sem þeir kunna norræn tungumál fyrir eða hafa áhuga á fornri menningu Norðurlanda. Vegna útbreiðslu fjölmiðla nú á tímum eru hindranir vegna fjarlægðar úr sögunni. Tungumálið mun vekja athygli þótt óvíst sé að það nái sömu útbreiðslu og nýnorska.

Ýmsir íslenskir fræðimenn hafa dregið í efa að háfrónska muni ná fótfestu, en óhætt er að fullyrða að lítill hópur manna muni hafa lært tungumálið áður en þessi áratugur rennur sitt skeið. Kunnur forritari hefur sagt að 99 af hundraði allra Íslendinga séu áhugalaus um þetta efni. Þetta er uppörvandi tilhugsun ef orðin eru tekin bókstaflega, því að þá munu um 3.000 Íslendingar vilja leggja það á sig að læra ofuríslensku.

Enn sem komið höfum við aðeins á að skipa nokkrum áhugasömum Íslendingum sem vinna hörðum höndum að smíði þessa nýja tungumáls. Við beinum því til allra sem unna landinu og hafa áhuga að veita okkur lið. Flettið orðabókum og beinið spjótunum að hverju því óíslensku orði sem á vegi ykkar verður. Vonbrigðin geta orðið mikil þegar gott innlent orð finnst ekki. Látið það samt ekki draga úr ykkur kjarkinn. Notið veraldarvefinn til að fræðast um hugtakið sem þarf að þýða. Hér á vefsetrinu er að finna margar áhugaverðar stiklur sem áhugasamir geta notað til að flýta fyrir sér. Hikið ekki við að leita til okkar með nýjar hugmyndir og áhugaverðan fróðleik. Öll nýyrði verða skráð hér ásamt nafni höfundar, ef þess er óskað. Að lokum viljum við þakka öllum þeim sem hafa létt undir með okkur.

Nýyrðaskáldin

Og svo framvegis.

En sagan af því hvernig ég kynntist málsótthreinsun og háfrónsku er skemmtileg – og hér kemur hún.

Ég sá einu sinni um vef Mímis, sem er nemendafélag íslenskunema í Háskóla Íslands. Einu sinni fengu íslenskunemar póst frá belgískum – ég vil segja furðufugli – sem heitir Josef Braekman en kallaði sig Timbur-Helga Hermannsson.

Hann var einn af fylgismönnum málsótthreinsunarstefnu og líka einn af höfundum háfrónskunnar. Hann vildi losa íslensku við öll erlend áhrif en hann skrifaði samt á ensku.

Og ég tók mig til og þýddi þessi skilaboð frá honum lauslega og birti þau á vef Mímis. Svo setti ég líka tengil á síðuna hans, háfrónska.org. En þegar hann sá tengilinn og pistilinn hélt hann að ég væri að gera grín að sér. Hann sendi mér póst oftar en einu sinni og oftar en tvisvar sinnum þar sem hann reifst og skammaðist í mér og skipaði mér að taka tengilinn út.

Meðal þess sem hann skrifaði var: „This is all meant bloody seriously“. En ég man ekki hvernig skilaboðin hljómuðu nákvæmlega, en ef ég mundi lesa þau orðrétt upp væru þau líklega bönnuð innan 18 ára.

Og ég þorði ekki annað en að gera eins og hann sagði mér. En þegar hann sá að ég hafði tekið tengilinn og pistilinn út af vefnum sendi hann mér aftur póst þar sem hann reifst og skammaðist í mér fyrir að hafa tekið tengilinn í burtu.

Hann endaði þessi skilaboð á því að segja að það væru til tvær tegundir af Íslendingum. Annars vegar góðir Íslendingar, sem tala hreina íslensku með engum slettum. Hins vegar vondir Íslendingar, sem nota slettur, fara á rúntinn og drekka landa.

Það þarf varla að taka það fram að hann stimplaði mig sem vondan Íslending.

Þannig voru nú mín fyrstu kynni af málsótthreinsun og háfrónsku. Ég held, svona í sannleika sagt, að ég hafi aldrei áunnið mér jafnmikinn óvin í netheiminum og þennan Timbur-Helga.

Svo nokkrum árum síðar fór hann aftur að herja á íslenska netnotendur. Það var árið 2005, þegar bloggið var vinsælasti tjáningarmátinn, s.s. fyrir daga Facebook og samfélagsmiðla. Þá skrifaði hann óumbeðnar athugasemdir á nokkrar íslenskar bloggsíður. Þær voru í svipuðum dúr og pósturinn sem ég fékk frá honum nokkrum árum fyrr.

Svo birtist stutt umfjöllun um háfrónsku í Fréttablaðinu 28. janúar 2007. En síðan þá hefur lítið spurst til Timbur-Helga.

En háfrónskan lifir, sem betur fer, því netið gleymir engu. Ér er hérna með lista yfir nokkur orð úr háfrónsku. Ég ætla að leyfa hlustendum að giska á hvað þau þýða. Lausnirnar verða svo birtar í næsta þætti. Og orðin eru eftirfarandi:

  • Framhaldsraun
  • Heggfræ
  • Hleifrann
  • Verblaka
  • Mógæti
  • Gjaldspjald
  • Brímavaki
  • Fjaðarglöp
  • Ritljörvi
  • Sætræti
  • Tröllepli
  • Glymspónn
  • Randagandur
  • Stundsjá
  • Hálúður
  • Dreyradraugur
  • Brönugæti
  • Frónnámshöll
  • Eistabrók
  • Nautanýár

Ef þið teljið ykkur vita hvað þessi orð þýða megið þið hafa samband í gegnum Twitter: malfarslogregla, Facebook: Málfarslögreglan eða í gegnum vefinn ordabokin.is.

Það eru því miður engin verðlaun í leiknum nema bara gleðin og ánægjan yfir því að hafa tekið þátt í honum. Og það er að sjálfsögðu stranglega bannað að gúgla.

Og þá er ekki fleira í þættinum í dag.

Veriði sæl.