Málfarslögreglan – 14. Þáttur

Málfarslögreglan, 14. þáttur

Heil og sæl ágætu hlustendur.

Við byrjum þennan þátt á lítilli afsökunarbeiðni.

Hlustendur sem hafa hlustað á alla þættina tóku kannski eftir því að í síðasta þætti taldi ég upp nokkur ofnotuð orð. Þessi orð voru næstum því þau sömu og lesin voru í áttunda þætti.

Góð vísa er aldrei of oft kveðin, og allt það, en ég biðst afsökunar á að vera farinn að endurtaka mig. Ég lofa að gera það ekki oftar en þörf er á.

Snúum okkur þá að ábendingum til fjölmiðlamanna.

Yfirvofandi afmæli

Á dögunum rakst ég á litla auglýsingu í Fjarðarpóstinum, bæjarblaði Hafnfirðinga. Í henni stóð meðal annars:

Hressing í boði í Garðakirkju og stuttir orgeltónleikar þar sem Guðmundur Sigurðsson, organisti Hafnarfjarðarkirkju, leikur orgelverk úr Hafnarfirði og Garðabæ í tilefni af 10 ára afmæli orgela Hafnarfjarðarkirkju og yfirvofandi 50 ára afmæli orgels Garðakirkju.

Fjarðarpósturinn 21. mars 2019.

Tókuð þið eftir síðustu orðunum?

„Yfirvofandi afmæli“?

Máltilfinning mín segir að viðburðir sem ber að fagna geti ekki verið yfirvofandi. Það er því ekki hægt að segja að afmæli sé yfirvofandi, né heldur brúðkaup, skírnir eða hátíðahöld. Aftur á móti geta leiðinlegir atburðir, s.s. stríð, náttúruhamfarir, verkföll og uppsagnir verið yfirvofandi.

Í íslenskri orðabók er merking orðsins: „sem vofir yfir, búast má við hvenær sem er (einkum um e-ð óþægilegt)“.

Þetta kemur líka heim og saman við svar á Vísindavefnum við spurningunni Felst neikvæð merking í því „að eitthvað sé yfirvofandi?“. Þar stendur meðal annars:

Sagnarsambandið að vofa yfir er notað í merkingunni ‘svífa yfir, vera í vændum, ógna’ og er notað um eitthvað illt. Sama gildir um lýsingarháttinn yfirvofandi. Þess vegna er ekki rétt að nota sagnarsambandið eða lýsingarháttinn um eitthvað sem er jákvætt, eins og fermingu, skírn, fæðingu eða annað hliðstætt.

Vísindavefurinn

Við ættum því að segja að skemmtilegir viðburðir séu komandi, í vændum eða væntanlegir en ekki yfirvofandi. Svo má líka umorða hlutina og segja að eitthvað sé framundan.

Hvað dinglar?

Fyrir nokkrum vikum rakst ég á fyrirsögnina Dinglaði bjöllunni um miðja nótt og sagðist vera sölumaður. Henni var breytt fljótlega eftir að hún fór í loftið.

Að dingla þýðir yfirleitt það sama og að lafa eða hanga og sveiflast. Í Íslenskri orðabók frá 2007 er fjórða merking orðsins reyndar sú að hringja (dyra)bjöllu. Þannig að þetta er ekki alvitlaus notkun. En þess ber að geta að hún er sögð óformleg, einkum notuð í barnamáli.

Þannig að ef við erum að skrifa formlegan texta eða tala opinberlega ættum við að tala um að hringja bjöllunni, frekar en að dingla henni. Nema ef til vill að persónusköpun eða stílbrigði í textanum krefjist þess að bjöllunni sé dinglað.

Eignarrétturinn

Snúum okkur næst að eignarfornöfnum.

Eignarfornöfn í íslensku eru minn, þinn, sinn og vor. Reyndar er ágreiningur um hvort sinn sé alvöru eignarfornafn, þar sem það vísar aftur til þriðju persónu. En það er ekki til umræðu hér. Eins og nafnið gefur til kynna eru eignarfornöfn notuð til að tákna og gefa til kynna eignir á hlutum og fyrirbærum.

En hvenær á að nota eignarfornöfn og hvenær á ekki að nota þau? Og hvar eigum við þá að nota þau?

Dæmi:

Turninn minn stendur uppi í hlíðinni.

Þarna er augljóst að ég á turninn. Turninn minn gefur til kynna að ég eigi hann. En breytum nú setningunni og segjum:

Minn turn stendur uppi í hlíðinni.

Ég mundi setja ákveðið spurningarmerki við þessa setningu. Hún er á mörkum þess að geta staðið ein og sér án samhengis. Því það er ekki eðlilegt í íslensku að eignarfornafnið standi á undan nafnorðinu sem verið er að lýsa yfir eigninni á. Undantekning er þó ef verið er að leggja sérstaka áherslu á eignina. Dæmi:

Turninn hans Tóbíasar er niðri á torgi en minn turn stendur uppi í hlíðinni.

Við könnumst við aðgangsstýrðar vefsíður hjá stofnunum og fyrirtækjum þar sem netnotendur geta sinnt einkamálum sínum, skoðað reikningsyfirlit, viðskiptasögu og fleira. Þessar síður heita yfirleitt Mínar síður. Þetta heiti er undir sterkum áhrifum frá ensku, sbr. My pages. Í ensku (og fleiri tungumálum) er þetta eðlileg orðaröð. En á íslensku væri eðlilegra að kalla þær Síðurnar mínar. Meðal annarra óeðlilegra dæma má nefna:

  • Þinn réttur
  • Þitt form
  • Þín verslun
  • Mín framtíð

Þarna væri eðlilegra að segja rétturinn þinn (eða réttur þinn). Formið þitt. Verslunin þín. Framtíðin þín. Ég held að við getum flest verið sammála um að þetta sé hin „rétta“ staða eignarfornafna í setningum.

Svo eru það eignarfornöfn og líkamshlutar. Það er flókin og ekki alltaf heppileg blanda í daglegu tali í íslensku. Ég get a.m.k. ekki vanist því alveg að heyra eða sjá líkamshluta notaða sem eignir. Dæmi eru setningar á borð við:

  • Mér er kalt á fingrunum mínum.
  • Mér er illt í maganum mínum.
  • Ég rak höfuðið mitt í vegginn.

Í flestum tilfellum er augljóst að það eru okkar eigin líkamshlutar sem við tölum um, en ekki einhverra annarra, þannig að það er óþarfi að bæta eignarfornöfnum við líkamshlutana.

Einhverjir segja að þetta séu erlend áhrif. Og það er rétt. Í ensku er til dæmis eðlilegt að segja my fingers, my hair og svo framvegis. Þetta er líka eðlileg orðaröð í norðurlandamálum og í þýsku. En þetta eru ekki bara erlend áhrif.

Við könnumst við setningar eins og:

  • Ef hjarta mitt er valtast alls hins valta.
  • Taktu hár úr hala mínum.
  • Augun mín og augun þín.

Þetta eru allt saman fullgildar setningar í íslensku. Þær eru allar úr ljóðum eða skálduðum textum. Þannig að kannski eru þetta líka ákveðin stílbrigði. Við megum eigna okkur okkar eigin líkamshluta ef við viljum vera skáldleg. Þá er eðlilegra, en samt ekki algilt, að líkamshlutarnir séu án greinis.

Aðrir hafa bent á að þetta er barnamál. Það er líka rétt. Af einhverjum ástæðum er samþykkt að lítil börn noti eignarfornöfn þegar þau tala um líkamshluta. Og það er líka eitthvað pínu krúttlegt að heyra það. Hér má líka minnast á Karíus og Baktus sem hafa til alið kynslóðir Íslendinga upp við setninguna: „Æ, ég finn svo til í tönnunum mínum“.

En ef við erum eldri en – segjum tíu til tólf ára – og erum ekki að semja ljóð eða skáldverk, tala við börn eða reyna að vera krúttleg, ættum við frekar að sleppa eignarfornöfnum þegar við tölum um líkamshluta á okkur, eða öðrum.

Prófa eða prufa?

Snúum okkur að lokum að svörum til hlustenda. Þættinum hefur borist bréf. Það hljóðar svo:

Mér finnst svo margir farnir að tala um að prufa eitthvað, mér finnst það hljóma svo illa. Á ekki alltaf að nota prófa? Er prufa ekki bara þegar maður fer í „audition“?

Góð spurning. Ég tók saman tvö svör við henni. Annað svarið er nei, ekki samkvæmt nútímaskilningi á þessum orðum.

Í Íslenskri orðabók er merking sagnorðsins prufa: „reyna, prófa, gera tilraun með“. Prófa hefur hins vegar þrjár merkingar. Sú fyrsta er: „Kanna, reyna (prófa e-ð)“.

Í íslenskri nútímamálsorðabók, sem aðgengileg er á vefnum malid.is, er sögnin prufa sögð vera óformleg. Það stendur aftur á móti ekki við sögnina prófa.

Mín tilfinning (eða tilfinningin mín) er sú að hvort tveggja sé jafn rétt, þ.e.a.s. ef átt er við það sama og að reyna eitthvað. Ég er samt vanari því að prófa hluti heldur en að prufa þá. Ég hef samt ekkert á móti því að við prufum hlutina líka.

Ég mundi til dæmis segja: „Ég ætla að prófa að hringja í Jens“ en síður: „Ég ætla að prufa að hringja í Jens“.

Hitt svarið við spurningunni er jú, samkvæmt sögunni. Þá ættum við að prófa en ekki prufa.

Ef við lítum yfir söguna mælir allt með því að við prófum frekar en að prufa. Því sagnorðið prófa er eldra í íslensku heldur en sagnorðið prufa. Í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans er elsta dæmið um sögnina prufa frá árinu 1945. Elsta dæmið um sögnina prófa í sama ritmálssafni er hins vegar frá árinu 1540.

Sama niðurstaða fæst á vefnum timarit.is. Þar er elsta dæmið um sögnina prófa frá árinu 1780. Prufa, í merkingunni reyna, er öllu yngri, eða frá árinu 1950.

Menn virðast samt hafa verið byrjaðir að prufa nokkuð fyrr á tuttugustu öldinni, því það er amast við orðinu í lesendabréfum og málfarsráðleggingum dagblaða og tímarita. Til dæmis í tímaritinu Hlín árið 1942. Þar er stungið upp á orðunum sýnishorn, prófa og reyna í stað orðsins prufa.

Ég vona að sendandi, sem og aðrir hlustendur, séu einhvers vísari eftir þetta svar. Endum það á stöku úr Vísi frá 12. júlí 1927:

Um orðin „sýnishorn“ og „prufa“:

Orðið prufa engin er

íslenska, það vitið,

sýnishorn því sífellt þér

segið bæði og ritið.

Orðið „prufa“ er ekki annað en dönskusletta, afbökun úr danska orðinu „Pröve“, og ætti því að hverfa úr málinu sem fyrst, en hið fagra orð sýnishorn ávalt að vera notað í þess stað.

H.B., Vísir, 12. júlí 1927.

Þá hef ég ekki fleiri hugmyndir að sinni.

Ég minni á að hægt er að senda athugasemdir, hrós, kvartanir eða hvað annað sem hlustendum dettur í hug í gegnum samfélagsmiðla Málfarslögreglunnar á Twitter og Facebook. Eða í gegnum vefinn ordabokin.is.

Þar má líka hlusta á eldri hlaðvarpsþætti, auk þess sem tenglar í heimildir og ítarefni fylgja flestum þáttum. En þættirnir eru líka aðgengilegir á iTunes, Spotify, Stitcher, Soundcloud og í öllum betri hlaðvarpsöppum.

Þessum þætti er þá öllum lokið.

Takk fyrir að hlusta.

Lifð heil.