Málfarslögreglan – 10. þáttur

Heilir og sælir ágætu hlustendur og verið velkomin í tíunda þátt málfarslögreglunnar.

Með þessum þætti hefst líka önnur þáttaröð, það er að segja ef miðað er við að hver þáttaröð nái yfir eitt ár.

Í þessum þætti verður fjallað um orð ársins. Virkir í athugasemdum fá sína hefðbundnu kennslustund, en við byrjum á nýjum íslenskum orðtökum, eða einu nýju íslensku orðtaki.

Að kasta handklæðinu

Íslensk orðtök eru skemmtileg. Þau auka blæbrigði málsins og gera það litríkara. En til að geta notað þau er gott að vita hvað stendur á bakvið þau.

Mörg vel þekkt íslensk orðtök eru upprunnin í atvinnuháttum sem tíðkuðust á Íslandi allt fram undir þarsíðustu aldamót. Menn láta til dæmis vaða á súðum, sitja við sinn keip, láta reka á reiðanum, fara ekki í grafgötur með eitthvað, fara á fjörurnar við einhvern og hafa bæði tögl og hagldir.

Þessi orðtök sem ég nefndi eru ættuð úr sjósókn og landbúnaði. Eftir því sem færri Íslendingar stunda þessar atvinnugreinar og gamlir atvinnuhættir hverfa missa þessi orðtök smám saman merkingu sína og menn ruglast jafnvel á þeim. Við búum ekki lengur í landbúnaðar- og sjávarútvegssamfélagi og því er eðlilegt að merkingin týnist.

Við megum samt ekki leggja árar í bát, heldur verðum við að róa öllum árum að því að fræða almenning og komandi kynslóðir um merkingu gamalla orðtaka og uppruna þeirra, svo merking þeirra fari ekki forgörðum. Því það er alltaf gott að geta brugðið fyrir sig góðum orðtökum til að krydda málið.

Og svo má líka búa til ný orðtök.

Á dögunum rakst ég til dæmis á orðtakið Kasta, eða henda inn handklæðinu. Það er frekar nýlega tilkomið inn í íslensku. Elsta dæmið sem ég fann var með aðstoð vefsins Tímarit.is. Þar eru elstu dæmin um orðtakið frá því í nóvember 2002.

En notkun þess fór á flug árin 2016 og 2017, eftir því sem Google frændi segir. Einkum hefur það verið notað í íþróttafréttum, en það hefur rutt sér til rúms á öðrum vettvangi, til dæmis í fréttum um stjórnarmyndanir og um breytingar á lífsviðurværi áhrifavalda á samfélagsmiðlum.

En semsagt.

Að kasta inn handklæðinu er bein þýðing úr enska orðtakinu throw in the towel og þýðir að gefast upp þegar maður er kominn í vonlausa stöðu og ekkert bíður manns nema ósigur.

Orðtakið er komið úr hnefaleikaíþróttinni, og hefur verið þekkt í ensku frá upphafi síðustu aldar, eða a.m.k. frá árinu 1913.

Orðtakið er vísun í það þegar boxari er að tapa í bardaga og þjálfari hans eða aðstoðarmaður kastar handklæði að andstæðingnum til merkis um að bardaganum sé lokið.

Ég fagna þessu nýja orðtaki, þó að það sé ættað beint úr ensku. Þetta er góð viðbót við orðtakaflóruna sem þegar er til í íslensku. Við megum ekki kasta inn handklæðinu og hætta að nota orðtök þó að menn gleymi ef til vill merkingu þeirra eftir því sem atvinnuhættir breytast. Þetta sýnir að íslenskan er ekki bara búin til og framleidd af sérfræðingum á skrifstofum, heldur tökum við öll þátt í að móta hana og skapa.

Næst á dagskrá er svo að búa til íslensk orðtök frá grunni en ekki bara þýða upp úr ensku. Ég hvet hlustendur hér með til að búa til og taka upp ný orðtök eftir þörfum, til að bragðbæta tungumálið og gera það líflegra.

Ókeypis ráð til virkra í athugasemdum

Áður fyrr í íslensku var gerður greinarmunur á framburði á i og y. Þessi munur er nú meira og minna horfinn úr framburðinum en er ennþá notaður í stafsetningu. Þeir sem vilja tjá sig í ritmáli þurfa að kynna sér vel reglur um notkun i og y. Því þær virðast ekki vera kenndar í þessum Skóla lífsins, sem margir virkir í athugasemdum hafa gengið í.

Hér eru nokkur orð sem eru skrifuð með einföldu i:

  • Beita
  • Leita
  • Fleiri
  • Finnst, t.d. í Mér finnst.

Nokkur orð sem eru skrifuð með y:

  • Áfrýja
  • Fyrir (Fyrra i-hljóðið er y og það seinna er einfalt i)
  • Mynd er alltaf með y. Í orðinu Ímynda er í-hljóðið skrifað með einföldu í en, y-hljóðið er skrifað með y.

Hlustendur geta kynnt sér nánari reglur um notkun i og y í Auglýsingu um íslenskar ritreglur frá árinu 2016.

Tengill í ritreglurnar fylgir með tíunda þætti á vefnum orðabókin.is.

Orð ársins 2017

Kosningin um orð ársins 2017 hófst 6. nóvember síðastliðinn. Í fyrri umferð mátti velja fimm orð af 56 og gefa þeim stig frá einum upp í fimm. 523 atkvæði bárust í fyrri umferðinni.

Tíu stigahæstu orðin komust komust áfram í aðra umferð. Þau eru, í öfugri stigaröð:

  • Kjánaprik
  • Hrútskýring
  • Snappari
  • Lúxusvandamál
  • Veipa
  • Þyrilsnælda
  • Epalhommi
  • Brómantík
  • Djammviskubit
  • Fössari

Í seinni umferðinni máttu þátttakendur kjósa eitt af þessum tíu orðum. Þar bárust 1266 atkvæði.

Og orðið sem fékk flest atkvæði í seinni umferð, eða 224, er djammviskubit. Það skoðast því réttkjörið orð ársins 2017 hjá Málfarslögreglunni.

Samkvæmt útskýringu á vefnum orðabókin.is er Djammviskubit það sama og samviskubit sem margir fá daginn eftir of mikla áfengisneyslu. Orðið er sett saman úr orðunum Djamm og Samviskubit.

Orðið er samt ekki alveg nýtt af nálinni. Elsta dæmi um orðið sem ég hef fundið er úr DV frá 7. júní 2005. Í blaðinu er dálkur sem heitir Heitasta slangrið. Þar er djammviskubit sagt vera samviskubit eftir djammið. Í sama dálki eru til dæmis nefnd orðin eiba, pepsívængir, blekaður og að taka Bó á þetta.

En það er nú önnur saga.

Hlustendur sem vilja kynna sér niðurstöður atkvæðagreiðslunnar nánar geta skoðað töflureiknisskjal sem fylgir með þessum þætti á vefnum orðabókin.is. Af sama vef geta hlustendur sent skilaboð ef þeim liggur eitthvað á hjarta.

Ef einhver þekkir eldri dæmi um orðið djammviskubit má viðkomandi gjarnan láta vita, til dæmis með því að hafa samband með aðstoð Facebook eða Twitter.

Ég þakka öllum fyrir þátttökuna í atkvæðagreiðslunni. Án ykkar hefði þetta aldrei orðið mögulegt.

Og hlustendum þakka ég fyrir áheyrnina, því nú er hugmyndabrunnurinn tæmdur í bili.

Verið sæl.