Heil og sæl ágætu hlustendur.
Málfarslögreglan heilsar úr sóttkví og samkomubanni, að loknu löngu og góðu Covid-fríi. Frá því að síðasti þáttur fór í loftið, einhverntíma í janúar, hefur ýmislegt gert. Það er óþarfi að rifja það allt upp í smáatriðum.
Það verður bara ávísun upp á þunglyndi og leiðindi að rifja upp allt þetta Covid-ástand.
Ný orð
En rifjum samt upp öll þessi orð sem hafa orðið til síðan síðasti þáttur fór í loftið! Við erum dugleg að búa til ný orð þegar á reynir. Lítum á nokkur orð úr Orðabókinni sem hafa orðið til eða gengið í endurnýjun lífdaga í þessum faraldri:
Faðmflótti: Ástand sem skapast á tímum samkomubanns, þegar viðhalda þarf ákveðinni samskiptafjarlægð. Felst í því að fólk getur ekki faðmast eins og venjulega.
Farsóttarþreyta: Þreyta á langvarandi farsóttum og afleiðingum þeirra. Tilfinning sem fólk þær þegar takmarkanir vegna farsótta, s.s. sóttkví og samkomubönn eru orðin þreytandi og yfirþyrmandi.
Fjartý: Partý eða gleðskapur sem haldinn er með aðstoð fjarfundarbúnaðar. Þátttakendur hittast þá hver fyrir framan sinn tölvuskjá, í stað þess að hittast öll á sama stað.
Fordæmalaus: Einhver (eða eitthvað) sem á sér ekki hliðstæðu, er áður óþekkt eða hefur aldrei gerst áður.
Heimkomusmitgát: Aðgát sem íslenskir ríkisborgarar verða að sýna í fjóra til fimm daga eftir að hafa komið heim frá útlöndum og hafa farið í sýnatöku á landamærum við heimkomu.
Kínakveisa: Íslensk þýðing á sjúkdómi sem veiran Covid-19 veldur. Sjúkdómurinn varð að heimsfaraldri í mars 2020.
Koviðmágur: Einstaklingur sem smitar mann af Covid-19 veirunni, sem smitar svo annan. Sá fyrsti og síðasti í röðinni eru þá orðnir koviðmágar.
Kófhiti: Veikindatilfinning sem fólk fær þegar sjúkdómar eru mikið í daglegri umræðu. Þá telja menn sig finna fyrir sjúkdómseinkennum, þó þeir séu ekki veikir í alvörunni.
Kófið: Tímabilið frá byrjun mars fram í miðjan maí 2020, og tímabilið frá miðjum september 2020, þar til við vitum ekki hveænr, þ.e. tímabilið þar sem Covid-19-faraldurinn (kórónaveirufaraldurinn) stóð sem hæst á Íslandi.
Kórónotatilfinning: Ónotatilfinning vegna Covid-19-veirunnar (kóróna-veirunnar) og ástands sem skapast vegna hennar.
Kóviskubit: Óþarfa samviskubit eða áhyggjur yfir því að lifa ekki nógu samfélagsmiðlavænu lífi á meðan samkomubann stendur yfir.
Til dæmis yfir því að verja ekki nógu miklum tíma með börnum og fjölskyldu, eða yfir því að standa ekki í nógu miklum stórræðum eða framkvæmdum á heimilinu.
Kóviti: 1. Sá eða sú sem hamstrar vörur að nauðsynjalausu, s.s. klósettpappír eða matarbirgðir til lengri tíma en viku.
2. Sá eða sú sem virðir ekki fyrirmæli stjórnvalda til að fyrirbyggja útbreiðslu Covid-19-veirunnar, s.s. um sóttkví eða samkomubann.
3. Sá eða sú sem telur sig vita allt um veiru- og/eða faraldsfræði án þess að vera menntaður/menntuð í faginu. Skrifar á samfélagsmiðla og í athugasemdakerfi fréttavefja og reynir að segja stjórnvöldum og heilbrigðisyfirvöldum hvernig þau eiga að vinna vinnuna sína.
Samgöngubann: Bann við samgöngum á milli staða. Oft beitt til að hefta útbreiðslu á smitsjúkdómum.
Mikið notað í daglegri umræðu um Covid-19-veiruna vorið 2020. Og þá oft í mismælum, þegar átt er við samkomubann.
Samkomubann: Bann við hvers kyns skipulögðum fjöldasamkomum fólks. Oft er settur hámarksfjöldi fyrir fólk sem má hittast. Til dæmis 20-100 manns.
Samskiptafjarlægð: Fjarlægð sem mælst er til þess að sé á milli fólks þegar það talar saman eða hefur samskipti sín á milli meðan reynt er að hefta útbreiðslu covid-19 veirunnar.
Smitskömm: Skömm eða skömmustutilfinning yfir því að vera smitaður/smituð af covid-19-veirunni.
Sófasérfræðingur: Sá eða sú sem telur sig hafa vit á öllum hlutum og málefnum sem eru í þjóðfélagsumræðunni hverju sinni. Telur sig jafnvel vita betur um hlutina en allir aðrir. Segir frá skoðunum sínum og hugmyndum á samfélagsmiðlum og í athugasemdakerfum fréttamiðla á meðan hann/hún situr heima hjá sér uppi í sófa.
Sófasérfræðingum fjölgaði mikið í mars 2020, eftir að Covid-19-faraldurinn braust út.
Sótthvíld: Hvíld frá umræðum um smitsjúkdóma og Covid-19-veiruna og frá ástandi sem skapast vegna þessara hluta.
Sóttkví: Úrræði sem beitt er til að hefta útbreiðslu smitsjúkdóms. Felst í því að menn eða dýr þurfa að vera lokuð af í tiltekinn tíma, þegar hætta er á því að þau hafi smitast af sjúkdómi en hafa ekki einkenni hans.
Sóttkvíði: Ótti eða kvíði yfir því að smitast af sjúkdómi, s.s. Covid-veirunni.
Kvíði yfir ástandi sem skapast vegna Covid-19-veirunnar.
Sviðsmynd: Áætlun eða spá um hluti og atburði sem gætu gerst, miðað við einhver ákveðin skilyrði.
Úrvinnslusóttkví: Sóttkví sem komið er á meðan unnið er að smitrakningu fyrir sjúkdóma. Í úrvinnslusóttkví gildir hálfgert útgöngubann. Aðeins einn íbúi má yfirgefa hvert heimili í einu til að útvega nauðsynjavörur
Viðtalsbil: Bil eða fjarlægð milli fólks meðan það talar saman. Annað orð yfir samskiptafjarlægð
Ég minni á að nánari umfjallanir og útskýringar á þessum orðum má nálgast á vefnum orðabókin.is. Eitt af þessum orðum á möguleika á því að verða valið orð ársins 2020. En nánar um það í næsta þætti.
Ókeypis ráð til virkra í athugasemdum
Misvitrir virkir í athugasemdum hafa farið mikinn í þessum Covid-faraldri. Allt í einu eru allir orðnir sérfræðingar í smitsjúkdómum og sóttvörnum og halda að allir hafi áhuga á að sjá hvaða skoðun þau hafa. Ég ætla ekki að stökkva á vagninn með þeim, enda er ég hvorki menntaður í læknisfræði né veirufræði.
En hér eru nokkrar málfarsábendingar til sófasérfræðinga sem telja sig hafa lausnina við Covid-kreppunni og svör við öllum lífsins gátum:
Sóttkví
Sóttkví er skrifað með K. Sótt-k-v-í. Ekki með H.
Ef hví er skrifað með H er það spurnarfornafnið hví, sem þýðir það sama og hvers vegna eða af hverju.
Kví með K merkir m.a. innilokað svæði, gjá eða þröngur gangur.
Samkomur eða samgöngur?
Það er samkomubann. Ekki samgöngubann. Þessar tvær aðferðir hafa löngum verið notaðar til að hefta útbreiðslu smitsjúkdóma. Ástandið er sem betur fer ekki orðið svo alvarlegt að það hafi þurft að koma á samgöngubanni.
Samgöngubann er það þegar það er bannað að ferðast á milli staða.
Samkomubann er það þegar bannað er að koma saman í fjölmennum hópum.
En það er nú kannski hægt að fyrirgefa það að mennn ruglist á þessum orðum, því þau hljóma næstum því eins.
Faraldur
Og ef við ætlum að fara eftir beygingarreglum í íslensku, þá ættum við strangt til tekið að tala um faraldursfræði. En ekki faraldsfræði.
Faraldsfræði er að vísu til í íðorðabankanum á vefnum málið.is og í íslenskri orðabók. En orðið faraldur beygist þannig:
- Nf. Faraldur
- Þf. Faraldur
- Þgf. Faraldri
- Ef. Faraldurs
Það beygist ekki eins og mannsnafnið Haraldur. Þannig að réttara væri að tala um faraldursfræði.
En snúum okkur þá að einhverju sem tengist ekki sjúkdómum eða faröldrum.
Bréf frá hlustendum
Þættinum hafa borist bréf. Það fyrra hljóðar svo:
Osló eða Óslóar?
Góðan dag.
Jón Böðvarsson kenndi mér seint á öldinni sem leið að höfuðborg Noregs héti Ósló á íslensku, í ef. Óslóar. Í þáttum á RÚV nefnist borgin Osló, til Osló.
Nú tíðkast ekki lengur að tala um rétt eða vitlaust mál. Eru báðar orðmyndirnar réttar?
Með von um gott svar.
Góð spurning.
Ég er ekki viss um hvort ég mundi nota sjálfur. En líklega mundi ég segjast vera að fara til Osló, eins og ég segist vera að fara til London eða til München. (Og þetta kallar fram minningar um það þegar við gátum ferðast á milli landa. Það voru góðir tímar).
Í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls er eignarfall borgarinnar Óslóar.
Í Málfarsbanka Árnastofnunar segir:
Frekar er mælt með rithættinum Ósló en Osló eða „Oslo“.
Ef. Óslóar.
Þannig að samkvæmt þessu ættum við að nota eignarfallið Óslóar.
Samkvæmt mínu viti og tilfinningu er samt ekki rangt að segjast vera að fara til Osló. Mér fyndist það sjálfum allt í lagi.
Það væri líka áhugavert að skoða hvor beygingin er meira notuð í ritmáli á vefnum; Ósló eða Óslóar.
Við leit á Google er eignarfallsmyndin Ósló/Osló algengari. Ef leitað er að „Til Ósló“ koma fram rúmlega 15,5 milljón niðurstöður. En þar spila líka inn í niðurstöður á öðrum tungumálum en íslensku
Eignarfallsmyndin Óslóar/Oslóar skilar tæplega 23.000 niðurstöðum, þegar leitað er að „til Óslóar“
Munurinn á timarit.is er ekki jafn mikill. Þar hefur orðasambandið „til Osló/Ósló“ samt vinninginn, kemur fyrir 7528 sinnum. „Til Óslóar/Oslóar“ kemur fyrir 6144 sinnum.
Þetta leiðir líka hugann að því hvort og þá hvernig við beygjum erlend borga- og staðaheiti í íslensku, þ.e.a.s. nöfn sem eru ekki til í íslenskum útgáfum, eins og Kaupmannahöfn, Stokkhólmur, Kænugarður eða Langbarðaland.
Í grunninn má skipta erlendum staðaheitum í fjóra flokka eftir því hvernig beyging þeirra er:
- Eins í öllum föllum
- -ar í eignarfalli (T.d. Vín, París, Ósló)
- -s í eignarfalli (T.d. Istanbúl, Kaíró, Alsír)
- -u í aukaföllum (þf., þgf. og ef.) (T.d. Aþena og Moskva)
Þau sem vilja kynna sér þetta mál nánar geta lesið B.A.-ritgerðina Til Kaíró, Kaírós eða Kaíróar eftir Silju Hlín Guðbjörnsdóttur, sem aðgengileg er á Skemmunni. Tengill í ritgerðina er undir 17. þætti á vefnum orðabókin.is.
Látum ekki deigan drúpa?
Seinni fyrirspurn til þáttarins er svohljóðandi:
Að láta ekki deigan drúpa?
Ég viðurkenni að ég hef aldrei heyrt þetta orðtak áður. Það finnast heldur ekki dæmi um það við leit á vefnum, hvorki með Google né á tímarit.is. Að láta ekki deigan síga er aftur á móti vel þekkt og þýðir að gefast ekki upp.
Þar hefur deigur merkinguna ragur, tregur, eða kjarklaus. Á Vísindavefnum er gefin sú skýring á orðtakinu að það vanti eitthvað inn í það, t.d. orðið hugur; það hafi upphaflega verið láta ekki deigan hug á síga. Hugsunin á bak við það sé þá að láta ekki deigan hug, þ.e. hugleysi, ná yfirhöndinni.
Sagnorðin drúpa og síga hafa vissulega svipaða merkingu. Þegar við drúpum höfði látum við það síga niður eins og við getum.
„Að láta ekki deigan drúpa“ hljómar dálítið eins og eitthvað frá stjórnmálamanni sem vill slá um sig með orðtökum en kann ekki að fara rétt með þau. (Hér á ég við Vigdísi Hauksdóttur).
Annar möguleiki er að þetta sé ruglingur með orðasambandið „deigur dropi“. Þegar það er ekki deigur dropi eftir, þá er allt búið.
Þar hefur deigur merkinguna blautur.
„Það var ekki deigur dropi eftir af bjórnum þegar partýið var búið“ þýðir að það hafi ekki verið neitt eftir af bjórnum þegar partýið var búið.
Að lokum
Þá er ekki deigur dropi eftir í hugmyndabrunninum að þessu sinni. Ég minni á vefinn Orðabókin.is. Einnig á samfélagsmiðla Málfarslögreglunnar á Facebook og Twitter.
Látið ekki deigan síga í baráttunni við helvítis veiruna. Látið farsóttarþreytuna ekki buga ykkur. Ekki vera kóvitar.
Veriði sæl.