Heil og sæl ágætu hlustendur.
Málfarslögreglan heilsar í fyrsta sinn á árinu 2021.
Í upphafi síðasta árs kastaði ég áramótasprengju og stakk upp á því að við breyttum nöfnum eða númerum á áratugum. Nú langar mig til að kasta inn annarri sprengju og ræða aðeins um daganöfn.
Við þekkjum öll nöfn á vikudögunum. Sunnudagur, mánudagur, þriðjudagur, o.s.frv.
Daganöfnin eins og við þekkjum þau hafa verið við lýði á Íslandi frá því á 12. öld.
En áður en þau voru tekin upp hétu dagarnir:
- Sunnudagur
- Mánadagur
- Týsdagur
- Óðinsdagur
- Þórsdagur
- Frjádagur
- Þvottadagur/laugardagur.
Eftir kristnitökuna tók kirkjan á Íslandi upp á því að breyta þessum nöfnum.
- Sunnudagur skyldi heita drottinsdagur.
- Mánadagur yrði annar dagur
- Týsdagur þriðji dagur
- Óðinsdagur yrði miðvikudagur
- Þórsdagur fimmti dagur
- Frjádagur skyldi heita föstudagur
- En laugardagur fengi að halda nafninu sínu.
Þetta eru ófrumleg nöfn og leiðinleg. En allt fyrir Guð og kristnina.
Það var fyrst og fremst fyrir tilstilli Jóns Ögmundssonar, biskups á Hólum, sem þessi nafnabreyting gekk í gegn. Hún var þó ekki samþykkt að öllu leyti, því eins og við vitum fengu sunnudagur og mánudagur að halda nöfnum sínum. En það mátti ekkert minna á heiðinn sið á Íslandi. Kirkjan var allsráðandi og menn urðu að hugsa um guð og kirkjuna og ekki neitt annað!
En nú á dögum eru Íslendingar eru ekkert sérstaklega kristin þjóð lengur. Mig langar því að leggja til að við tökum aftur upp gömlu daganöfnin. Tölum um týsdag, óðinsdag, þórsdag og frjádag í staðinn fyrir þriðjudag, miðvikudag, fimmtudag og föstudag.
Þannig eru þessi nöfn ennþá hjá nágrannaþjóðum okkar, til dæmis í norðurlandamálunum og eins í ensku og þýsku. Þar heita dagarnir ennþá eftir fornum guðum.
Og svona til að friða þau sem kynnu að mótmæla þessari tillögu, þá þurfum við ekki að breyta þessu strax í dag eða á morgun, heldur getum við sett okkur einhvern aðlögunartíma. Þess vegna nokkur ár, þannig að kynslóðir sem nú eru að hefja lífið venjist nöfnunum, en leyfum gömlu nöfnunum smám saman að deyja út eftir því sem núlifandi kynslóðir hverfa af sjónarsviðinu.
Hugsum að minnsta kosti um þetta.
Heyrum því næst hvað hlustendur hafa að segja.
Bréf frá hlustendum
Þættinum hafa borist bréf. Það fyrra er svohljóðandi:
Orðtakið „að setja rass á laggir“ í merkingunni að gefast upp, hætta einhverju, þekkið þið það?
Ég hef ekki heyrt þetta orðtak.
En ég kannast aftur á móti vel við að setja eitthvað á laggirnar, sem þýðir að stofna eitthvað eða koma á fót nýrri starfsemi.
Í orðtakinu sem hlustandi spyr um er líklega verið að blanda þessu orðtaki saman við eitthvað annað orðtak; kannski það að renna á rassinn með eitthvað, sem þýðir að mistakast eða guggna á einhverju. Eða jafnvel að „beila“ á einhverju.
Ég fór líka að hugsa um þetta að setja eitthvað á laggirnar. Hverjar eru þessar laggir sem allt er sett á?
Í Íslenskri orðabók þýðir lögg m.a. „gróp í tunnustöfum sem tunnubotninn er felldur í“. Eða „endar tunnustafa sem ganga út fyrir botn og lok“.
Þegar botninn og lokið eru komin í tunnuna er hún tilbúin. Það er búið að setja þau á laggirnar á tunnustöfunum.
Þetta finnst mér a.m.k. líkleg skýring á orðtakinu setja eitthvað á laggirnar.
Seinna bréfið hljóðar svo:
Komið þið sæl…. ég er að leita að heiti yfir annan dag jóla.
Er búin að vera að leita en hef ekki fundið svar við því… Athuga hvort þið hafið svarið.
26. desember. Annar dagur jóla. Annar í jólum. Ég hef ekki heyrt neitt annað heiti á þessum degi.
Í Hátíðadagatali Íslensku Þjóðkirkjunnar nefnist 26. desember Stefánsdagur til minningar um fyrsta píslarvottinn, Stefán frumvott, en hann var grýttur til bana þennan dag á 1. öld.
Stundum er líka talað um jólarest eða rest frá og með þessum degi. Þ.e.a.s. restina eða afganginn af jólunum. Og menn byrja að óska hver öðrum gleðilegrar restar.
Annar í jólum, Stefánsdagur eða rest (eða jólarest) eru a.m.k. einu heitin sem ég hef heyrt á þessum degi.
Ef einhver veit betur um heiti þessa dags eða kannast við orðtakið setja rass á laggir, má viðkomandi gjarnan hafa samband, til dæmis í gegnum vefinn ordabokin.is eða í gegnum samfélagsmiðla Málfarslögreglunnar á Facebook eða Twitter.
En nú að því sem öll hafa beðið eftir: Úrslit úr kosningunni um orð ársins 2020.
Orð ársins 2020
Í byrjun nóvember síðastliðins tóku 40 orð þátt í fyrri umferð kosninganna um orð ársins 2020. Þau áttu það sameiginlegt að hafa bæst við orðabókina, orðabókin.is undanfarið ár, eða frá 1. nóvember 2019 – 31. október 2020. Af listanum mátti sjá að covid-19 faraldurinn var áberandi í orðanotkun á árinu, en orðin voru þessi, í stafrófsröð:
- Áhrifaskvaldur
- Drægnikvíði
- Faðmflótti
- Farsóttarþreyta
- Félagsfælnikast
- Fjartý
- Fordæmalaus
- Heilalím
- Heimkomusmitgát
- Jólajeppi
- Jólasóði
- Karen
- Kínakveisa
- Kófdrykkja
- Kófhiti
- Kófið
- Kórónotatilfinning
- Koviðmágur
- Kóviskubit
- Kóviti
- Lyngvist
- Mæðiskast
- Plöntublinda
- Rafskúta
- Rithreinsari
- Samgöngubann
- Samkomubann
- Samskiptafjarlægð
- Sjálfugleði
- Skrifstofufárviðri
- Smitskömm
- Sófasérfræðingur
- Sótthvíld
- Sóttkví
- Sóttkvíði
- Sviðsmynd
- Undansemi
- Úrvinnslusóttkví
- Viðtalsbil
- Þjóðarlókhlaðan
Mörg ansi skemmtileg og hnyttin orð. Tíu þeirra komust áfram í seinni umferðina. Hér verða þau lesin upp í röð eftir atkvæðafjölda í seinni umferðinni. Byrjum á 10. sæti og færum okkur upp listann.
- 10. Karen
- 9. Fjartý
- 8. Smitskömm
- 7. Samkomubann
- 6.Heimkomusmitgát
- 4-.5.Farsóttarþreyta
- 4-5.Sófasérfræðingur
- 3. Sóttkví
- 2. Kóviti
- 1. Fordæmalaus
En fordæmalaus merkir einhver eða eitthvað sem á sér ekki hliðstæðu, er áður óþekkt eða hefur aldrei gerst áður.
Orðið er ekki alveg nýtt af nálinni. Á vefnum Tímarit.is finnst dæmi um orðið allt frá árinu 1930. Elsta dæmið þar er frá 8. febrúar sama ár.
En eins og við munum var þetta orð mikið notað og varð að tískuorði vorið 2020 þegar Covid-19-faraldurinn var að hefja innreið sína. Það var mikið talað um að við lifðum á fordæmalausum tímum eða að þetta væru fordæmalausar aðstæður.
Þá eru hugmyndirnar ekki fleiri í bili.
Ég minni á vefinn ordabokin.is og samfélagsmiðla Málfarslögreglunnar á Facebook og á Twitter. Allt þetta er hægt að nota til að hafa samband.
Ég hvet ykkur til að fara varlega þarna úti á þessum fordæmalausu tímum.
Þakka áheyrnina.
Veriði sæl.