Ég er í verslunarhugleiðingum í þetta sinn. Eða kannski kauphugleiðingum. Því ég var að hugsa um sagnorðið versla.
Að kaupa og versla
Ég get bara ekki að því gert, en það fer óstjórnlega mikið í taugarnar á mér þegar fólk segist hafa verslað tiltekna hluti. Dæmi:
Ég verslaði þessa skó hjá ykkur í gær en þeir eru of stórir. Ég þarf að skila þeim.
Þarna var sagnorðið versla notað vitlaust. Viðskiptavinurinn hefði átt að segja að hann hefði keypt skóna.
Sögnin versla hefur víðtækari merkingu en sögnin kaupa. Hún felur í sér bæði kaup og sölu. Það er hægt að versla með alls konar hluti. Kaupmaður sem verslar með matvæli selur viðskiptavinum sínum mat sem hann hefur líklega keypt af matvælaframleiðanda eða heildsala.
Svo er hægt að versla við einhvern. Viðskiptavinur sem verslar við áðurnefndan kaupmann kaupir mat af honum.
Við förum út í búð að versla. En við verslum ekki einstaka hluti. Við verslum ekki föt, við verslum ekki mjólkurfernur, við verslum ekki jólagjafir og við verslum heldur ekki bækur. Við kaupum þessa hluti.
Hér á eftir kemur málfræðileg ástæða fyrir þessu – og haldið ykkur nú fast.
Sögnin kaupa er áhrifssögn. Eins og allir vita, eða ættu a.m.k. að vita, þá stýra áhrifssagnir falli fallorðsins sem fylgir á eftir þeim.
Fallorðin sem áhrifssagnirnar stýra kallast andlag. Andlagið er alltaf í aukaföllum, þ.e.a.s. þolfalli, þágufalli eða eignarfalli – sögnin kaupa stýrir til dæmis þolfalli. Dæmi:
Ég keypti þennan síma því hann var á svo góðu tilboði.
Þarna var „þessi sími“ í þolfalli.
Sögnin versla er hins vegar ekki áhrifssögn. Hún er áhrifslaus sögn og stýrir þar af leiðandi ekki falli. Hún hefur ekki áhrif á fall fallorðsins sem kemur á eftir henni, en forsetningin sem fylgir á eftir henni, t.d. forsetningarnar „með“ og „við“ stýra hins vegar falli fallorðsins sem á eftir kemur.
Þetta er svo einfalt, krakkar mínir.
Í ritmálssafni Orðabókar Háskólans má þó sjá sögnina versla hegða sér eins og áhrifssögn sem stjórnar þágufalli. Dæmi eru um að menn hafi verslað vörum sínum eða verslað kjöti. Í þessum dæmum hefur sögnin sömu merkingu og sögnin selja. Dæmi:
Hann verzlaði vörum sínum á Eyrarbakka.
Miðað við orðfar margra Íslendinga virðist sögnin versla nú vera orðin að áhrifssögn sem stýrir þolfalli eins og sögnin kaupa og hefur þá svipaða merkingu.
Kannski má líta á þetta sem eðlilega þróun í tungumálinu – ég veit það ekki. En mér finnst hún a.m.k. vera til hins verra og finnst að við ættum að koma í veg fyrir hana.
Opnunartími og afgreiðslutími
Á meðan ég er í þessum kaup- og verslunarhugleiðingum, þá datt mér líka í hug að minnast á opnunartíma staðanna þar sem við kaupum allt sem okkur vantar.
Ég er dálítið ósáttur við þennan opnunartíma. Hann er allavegana ekki alltaf notaður rétt. Mig langar frekar til að tala um afgreiðslutíma.
Ég prófaði að gúgla þessi tvö orð; opnunartíma og afgreiðslutíma.
Afgreiðslutími fær 280.000 atkvæði hjá Google. Ikea, Smáralind, Kringlan Byko og Stöð 2 fá öll prik fyrir að auglýsa afgreiðslutíma á vefjum sínum.
En opnunartími hefur samt vinninginn, með 1.250.000 atkvæði. Krónan, Brimborg, Hagkaup, Bónus. Pósturinn og verslunarmiðstöðin Fjörður fá skömm í hattinn fyrir að auglýsa opnunartíma.
Af hverju? Gæti einhver verið að spyrja.
Af því að opnunartími er tíminn þar sem búðin er opnuð. Lokunartími er aftur á móti tíminn þar sem henni er lokað.
Ef opnunartími er klukkan 9:00 á morgnana og lokunartími klukkan 18:00, þá er afgreiðslutíminn frá klukkan 9:00 til 18:00.
Svo vil ég líka benda á það, svona í framhjáhlaupi, að búðir opna ekki og þær loka ekki heldur, heldur eru þær opnaðar og þeim er lokað.
Getum við breytt þessu, krakkar? Og notað afgreiðslutímann og opnunartímann rétt?
Plís.