Nú á dögunum var Hús íslenskunnar vígt og við sama tækifæri fékk það nafnið Edda, að undangenginni nafnasamkeppni.
Þegar samkeppnin var auglýst og þegar nýbúið var að opinbera nafnið fóru virkir í athugasemdum á flug, hvort sem það var á Facebook eða Twitter. Mörg veltu því fyrir sér hvort öll hús þyrftu að heita eitthvað. En vissulega var mismikil kaldhæðni á bakvið þessar pælingar. Svo ekki sé nú minnst á öll grínnöfnin sem fólk stakk upp á. Ég ætla ekki að tala um þau öll hér.
Hér má líka minnast á að Edda er ekki eina húsið sem heitir eitthvað. Hús hafa fengið nöfn áður. Eiginlega alveg frá því að mannfólkið byrjaði að byggja sér hús hafa þau fengið nöfn. Og Edda er heldur ekki eina húsið á Háskólasvæðinu sem fær nafn að lokinni nafnasamkeppni. Þannig var það líka með bygginguna Veröld – Hús Vigdísar.
En: Nei. Það þurfa ekki öll hús að heita eitthvað. Það er bara skemmtilegra. Það gerir þau líka að kennileitum. Svo er líka auðveldara að finna þau eða rata eftir þeim ef þau heita eitthvað. Jafnvel þó þau heiti það sama og fyrirtækið eða starfsemin sem er í þeim.
Götunöfn eru ágæt, svo langt sem þau ná. En ég veit ekkert alltaf við hvaða götu ég er staddur, og þaðan af síður við hvaða húsnúmer.
Vitum við til dæmis við hvaða götu Perlan er, án þess að fletta því upp á Google maps eða Já.is?
Hún er við Varmahlíð 1, bara svo því sé haldið til haga. Samkvæmt já.is
Og ef ég segi einhverjum að ég sé staddur við Arngrímsgötu 3, Kauptún 4, Hamraborg 2, Laugaveg 20b, Austurveg 3 eða Álfabakka 8 eru líklega ekki mörg sem mundu vita strax hvar ég væri. Nema þau væru með Google maps eða já.is við hendina. Og ég vissi ekki einu sinni þessi götunöfn og númer fyrr en eftir að ég fletti þeim upp á já.is.
En ég held að fleiri kveiki á perunni ef ég nefni Þjóðarbókhlöðuna, IKEA, Kópavogskirkju, Kalda bar, Krónuna á Selfossi eða bíóið þarna í Breiðholtinu.
Við getum öll haft skoðun á húsanöfnum. Sumum finnst nafn Eddu klisjukennt eða fyrirsjáanlegt. Það verður þá bara að hafa það. En ég held að þetta nafn eigi eftir að venjast vel.
En húsanöfn eru skemmtileg, þau lífga upp á tilveruna og ég vona að við eigum eftir að sjá nóg af þeim í framtíðinni.