Næstu vikur verða helgaðar undirbúningi verkefnisins.
Undirbúningur fyrir verkefni af þessu tagi er gríðarlega mikilvægur. Íslenska leiðin er sú að vaða beint í verkið en sleppa undirbúningnum. Íslendingar eru meiri gerendur en hugsuðir. Það verður helst allt að gerast ekki seinna en í gær!
Það er freistandi að fara íslensku leiðina: Framkvæma fyrst, en skipuleggja eftir á. Ég játa að ég hef verið að því kominn núna í fyrstu skrefunum að setja upp vef, dæla einhverju efni inn á hann, en skipuleggja það svo seinna. Það er kannski mest spennandi, því þá sjást strax einhver ummerki af vinnunni, en það er ekki rétta leiðin.
Eins og þegar við málum heima hjá okkur. Þá þurfum við fyrst að gera allt þetta „leiðinlega“ áður en við sjáum einhvern árangur af vinnunni. Við þurfum að þrífa óhreinindi af veggjum, taka nagla og skrúfur niður, sparsla í göt og sprungur, líma málningarlímband á viðeigandi staði og setja undirlag á gólfið áður en við getum sett málningu á vegginn.
Það þarf líka að vinna alla þessa „leiðinlegu“ vinnu, áður en nýr vefur er settur upp, þ.e. ef eitthvað á að vera í hann spunnið. Til dæmis þarf að skilgreina markhópa, ákveða hvernig leiðakerfið og veftréð eiga að líta út og huga að efni og skipulagi þess. Einnig er gott að heyra í notendum, til dæmis með viðtölum eða könnunum.
Næstu skref hjá mér verða þessi:
- Setja upp framkvæmdaáætlun eða tímalínu verkefna.
- Setja saman grunn að efninu sem verður á vefnum í upphafi.
- Ákveða uppsetningu og uppbyggingu efnis.
- Setja upp veftré.
- Setja upp netkönnun og fá helstu markhópa (eða fulltrúa úr þeim) til að taka þátt í henni.
Það verður því ekki verkefnaskortur hér á bæ á næstunni!