Fokheldur

Skjáskot af ordabokin.is
Skjáskot af vefnum ordabokin.is tekið 25. nóvember 2016
Í tvær og hálfa viku er ég búinn að fikta í uppsetningu á vefnum. Ég keypti þemað Flatbase til að laga útlit vefsins að skissum sem ég teiknaði.

Nú er tilbúin frumútgáfa af aðalvefnum sem virkar nokkurn veginn eins og ég vil hafa hana. Það vantar enn allt innihaldið. Ýmsar fínstillingar og breytingar á smáatriðum eru eftir. Einnig er ekki víst að núverandi litir fái að halda sér. Ef vefurinn væri hús væri hann núna orðinn fokheldur.

Næstu daga ætla ég að gera nokkrar notendaprófanir. Því allir sem eitthvað hafa fjallað um miðlun efnis á vefnum og undirbúning vefverkefna eru sammála um gagnsemi notendaprófana.

Notendaprófun snýst um að fylgjast með einum notanda í einu nota vefinn. Þannig má komast að því hvernig notendur hegða sér á vefnum og mögulega finna villur, sjá hvað má bæta og hverju er ofaukið. Mælt er með því að prófa lítið í einu en oft, ekki þarf að fá marga notendur í hvert skipti og ekki þarf að hafa áhyggjur af því hverjir eru prófaðir.

Nú þegar er ein prófun búin. Ég á eftir að fá tvo til þrjá notendur í viðbót.