Af-mæli

Afmæli eru yfirleitt gleðiefni. Afmæli er tiltekinn dagur mánaðar sem maður fæddist á. Það getur líka verið dagur sem einhver viðburður varð eða eitthvað fyrirtæki, stofnun eða félagasamtök tóku til starfa. Afmælisdagurinn er gott tilefni til að gera vel við sig í hópi vina og kunningja.

En orðið afmæli er ekki jafn skemmtilegt. Eftir því sem ég hugsa meira um þetta orð finnst mér það sífellt þunglyndislegra og meira niðurdrepandi.

Í orðinu felst að tiltekinn tími mælist af ævinni. Það minnir okkur á að ævin líður, við verðum ekkert yngri, þetta fer nú bráðum að verða búið hjá okkur.

Eða eins og Halldór Halldórsson orðar það árið 1958:

Ég hygg, að frummerking orðsins afmæli sé „afmældur tími“, en sé síðar haft um daginn þegar afmörkun tímans fer fram. Orðið er myndað af orðasambandinu mæla af eða sögninni afmæla, sem kunn er frá fyrri hluta 18. aldar.

Halldór Halldórsson. Örlög orðanna – Þættir um íslenzk orð og orðtök. 1958.

Orðið fæðingardagur hefur aftur á móti yfir sér léttara yfirbragð, eftir því sem ég hugsa meira um það.

Fæðingardagur er líka mun eldri í málinu en afmæli. Elsta dæmið um fæðingardag í Ritmálssafni orðabókar Háskólans er frá miðri eða seinni hluta 16. aldar. Elsta dæmi um afmæli í sama riti er hins vegar frá 17. – 18. öld.

Ég sé fyrir mér fund hjá siðanefnd kirkjunnar á Íslandi einhverntíma á 17. öld, þar sem ákveðið er að leggja niður orðið fæðingardag en taka upp afmæli í staðinn. Því það má ekki vera gaman á Íslandi. Menn mega ekki skemmta sér á fæðingardögum sínum. Kirkjan er allsráðandi og allir verða að hugsa um hana. Fundurinn hefur e.t.v. hljómað einhvernveginn svona:

Biskup: Velkomnir á þennan fund siðanefndar íslensku þjóðkirkjunnar. Borist hefur tillaga um að leggja niður orðið fæðingardagur en taka upp orðið afmæli í staðinn. Því við viljum ekki að fólk skemmti sér, heldur minnist þess að lífið styttist sífellt. Það verður að hugsa um kirkjuna og pínu frelsara vors. Eru allir samþykkir þessari breytingu?
Fundarmenn: Já.

Afmæli og fæðingardagur merkja ekki alveg það sama. Skoðum aftur hvað Halldór segir:

Ég veit ekki, hvort mönnum er almennt ljóst, að orðin fæðingardagur og afmæli samsvara ekki hvort öðru nákvæmlega að merkingu. Orðið fæðingardagur er bæði haft um „daginn, sem maður fæðist“ og sama dag á ári hverju upp frá því. Orðið afmæli er hins vegar ekki haft um daginn, sem menn fæðast. Orðið afmæli er auk þess notað um minningardaga um atburði, félagastofnanir o.s.frv., t.d. 900 ára afmæli kristnitökunnar, 30 ára afmæli Alþýðusambandsins.

Halldór Halldórsson. Örlög orðanna – Þættir um íslenzk orð og orðtök. 1958.

Í stað þess að óska fólki til hamingju með afmælið legg ég til að við förum að dæmi helstu nágrannaþjóða okkar og óskum því til hamingju með fæðingardaginn. Sbr. Birthday í ensku, Fødselsdag í norðurlandamálum og Geburtstag í þýsku. En tölum áfram um afmæli þegar rætt er um stofndaga fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka eða þegar við minnumst einhvers atburðar.

Ég vil því óska öllum sem ég þekki til hamingju með fæðingardaginn.

Sjá einnig:

Vísindavefurinn: Hver er uppruni orðsins afmæli? Af hverju er ekki notað svipað orð og til dæmis í ensku og dönsku?