Verið velkomin í fyrsta þátt Málfarslögreglunnar.
Hér á eftir verður flutt lítil stefnuskrá sem gefur tóninn fyrir það sem fjallað verður um í komandi þáttum.
Málfarslögreglan ætlar að fjalla um málvillur, stafsetningarvillur og klaufalega orðanotkun í íslensku máli. Það er sama hvaðan villurnar koma. Fjölmiðlafólk, bloggarar, virkir í athugasemdum, greinahöfundar, viðmælendur í sjónvarpi og útvarpi – allir sem tjá sig opinberlega í ræðu og riti verða undir sömu smásjánni.
Málfarslögreglan ætlar að gagnrýna allar villur, hversu smávægilegar eða ómerkilegar sem þær kunna að vera.
Málfarslögreglan er sjálf ekki undanþegin gagnrýni. Hlustendur sem verða varir við staðreyndavillur eða ranga málnotkun hjá Málfarslögreglunni eru hvattir til að láta í sér heyra. Best er að nota gamla góða tölvupóstinn til slíkra samskipta, en hægt er að senda póst í gegnum vefinn ordabokin.is.
Málfarslögreglan vill auka veg og vanda íslenskunnar og ætlar því að koma með tillögur til úrbóta hér í þáttunum þegar hún rekst á málvillur, hvers eðlis sem þær eru.
En hér er líka ætlunin að flytja fræðandi pistla um íslenskt mál og málnotkun og segja frá því sem vel er gert.
Málfarslögreglan ætlar að vera fræðandi, en um leið skemmtileg.
Heimili og varnarþing Málfarslögreglunnar verður vefurinn ordabokin.is. Þar má nálgast hlaðvarpsþættina og fleira skemmtilegt og spennandi efni.
Málfarslögreglan vill fá íslenskunörda, málfarsfasista og stafsetningarperverta landsins í lið með sér. Hlustendur sem vilja koma einhverju á framfæri við Málfarslögregluna, s.s. ábendingum um stafsetningarvillur, málvillur eða annað sem tengist íslensku máli mega senda tölvupóst á netfangið malfarslogreglan@ordabokin.is.
Það er líka hægt að hafa samband á Fésbókinni og á Twitter. Tenglar á Fésbókar- og Twittersíður Málfarslögreglunnar eru á vefnum ordabokin.is.
Þá er þessari litlu stefnuskrá lokið. Ég hlakka til samfylgdarinnar í komandi þáttum. Skemmtið ykkur vel þar til í næsta þætti og gerið allt sem ég mundi gera.