Málfarslögreglan – 9. þáttur

Heilir og sælir ágætu hlustendur og verið velkomin í níunda þátt Málfarslögreglunnar.

Í þessum þætti verður fjallað um jólatengt málfar og kosningar. En við byrjum á stórum og litlum stöfum.

Hástafir Og Lágstafir

Ég kaupi stundum geisladiska.

Já, þið heyrðuð rétt: Geisladiska á plastformi.

En ég hlusta samt aldrei á þá, því það fyrsta sem ég geri þegar ég tek þá úr plastinu er að stinga þeim í tölvuna og færa þá yfir á mp3-form. Til þess að koma þeim yfir á tölvutækt form nota ég margmiðlunarspilarann iTunes.

Stundum birtast sjálfkrafa upplýsingar um lög og flytjendur á diskinum sem einhver hefur sent í gagnagrunn sem iTunes tengist. Þá þarf maður ekki að hafa fyrir því sjálfur að slá inn þessar upplýsingar. Samvinna á netinu er góð – svona oftast nær, að minnsta kosti.

En sumir notendur iTunes hafa samt einn leiðindaávana. Hann er sá að skrifa stóran staf í upphafi hvers einasta orðs í heitum diska og laga.

Í ensku er þessi ritháttur af einhverjum ástæðum samþykktur, það „má“ nota stóran staf í upphafi hvers orðs í heitum laga, kvikmynda, bóka, listaverka og svo framvegis. Ég veit samt ekki alveg hverjar þessar reglur eru, en þegar ég byrjaði að læra ensku, einhverntíma á níunda áratug síðustu aldar tíðkaðist þessi ritregla ekki, svo ég muni. Ég lærði að það ætti almennt ekki að nota stóra stafi nema í upphafi setninga og í sérnöfnum, sem sagt um það bil eins og í íslensku.

Ég á aldrei eftir að venjast þessum rithætti fullkomlega. Eins og ég á aldrei eftir að venjast því að horfa á flugfreyjur fara yfir öryggisleiðbeiningar í flugvélum.

Svo hefur verið reynt að heimfæra þennan rithátt upp á íslensku. En ég get ekki samþykkt að lagaheiti, kvikmyndatitlar, bókatitlar eða hvers konar listaverka- eða hugverkanöfn á íslensku séu skrifuð með stórum upphafsstöfum í hverju orði. Nema ef þau innihalda sérnöfn.

Stórir stafir í upphafi hvers orðs slíta heildina einhvernveginn í sundur. Þegar hvert og eitt orð er skrifað með stórum staf finnst mér að það sé áhersla á hverju einasta orði.

Tökum sem dæmi lagið Komdu og skoðaðu í kistuna mína. Ef hvert orð í því væri með stórum upphafsstaf fyndist mér að lagið héti Komdu – Og – Skoðaðu – Í – Kistuna – Mína.

Eða Einu sinni á ágústkvöldi. Með þessum enska rithætti væri það Einu – Sinni – Á – Ágústkvöldi.

Þið skiljið vonandi hvað ég er að meina.

Ég hvet hlustendur til að halda í íslenskar ritreglur en ekki apa allt upp eftir útlenskum ritvenjum. Almenna ritreglan í íslensku er sú að nota ekki stóran upphafsstaf nema í upphafi setningar og í sérnöfnum.

Í Auglýsingu um setningu íslenskra ritreglna er hægt að fræðast nánar um það hvenær skal nota stóra stafi og hvenær skal nota litla stafi.

Í færslu með þessum þætti á ordabokin.is er tengill í þessar reglur og geta áhugasamir hlustendur kynnt sér þær nánar.

Ókeypis ráð til virkra í athugasemdum

En þá að föstum lið eins og venjulega.

Ráðlegging til virkra í athugasemdum beinist einkum til jólatrjáasala að þessu sinni.

Ég trúi því ekki að enn þá séu auglýstar jólatréssölur. Enn verra er samt þegar auglýstar eru jólatrésölur. En þeim fer sem betur fer fækkandi, sýnist mér.

Jólatréssala er samt gott og gilt orð ef það er bara eitt jólatré til sölu. En í flestum af þessum jólatréssölum eru fleiri en eitt jólatré á boðstólum. Réttara væri því að auglýsa jólatrjáasölu.

Hafið þetta í huga fyrir næstu jól, björgunarsveitamenn, skógræktarfólk og aðrir sem verslið með jólatré.

Orð ársins 2017

En þá að kosningum.

Nú er hafin seinni umferðin í kosningunni um orð ársins á ordabokin.is. Í seinni umferðinni er kosið á milli tíu stigahæstu orðanna úr fyrri umferðinni. Þessi orð eru, í stafrófsröð:

  • Brómantík
  • Djammviskubit
  • Epalhommi
  • Fössari
  • Hrútskýring
  • Kjánaprik
  • Lúxusvandamál
  • Snappari
  • Veipa
  • Þyrilsnælda

Orðið sem fær flest atkvæði fær titilinn orð ársins 2017.

Á vefnum ordabokin.is má finna tengil í atkvæðaseðilinn. Þar má einnig finna útskýringar á þessum orðum.

Úrslit kosninganna verða kunngjörð í fyrsta þætti ársins 2018. Hlustendur eru hér með hvattir til að kjósa.

Tungubrjótur

Hér er að lokum einn tungubrjótur sem hlustendur geta japlað á með jólasteikinni, smákökunum og konfektinu:

Frá Nirði niðri í Norðfirði nyrðri.

Ég minni loks á vefinn ordabokin.is, sem og á Facebook– og Twittersíður Málfarslögreglunnar. Þar geta hlustendur sent skilaboð ef þeim liggur eitthvað á hjarta. En þessum þætti er öllum lokið. Ég vil þakka þeim sem hlýddu og vona að þið eigið hugheil og gleðileg jól.